Þemu ársins 2018 – öll súpan!

Í ár höfum við reyndar verið í standandi vandræðum því að sjaldan í sögu keppninnar hefur ægt saman fleiri tónlistarstílum, ólíkum samsetningum laga og flytjenda. Þetta getur verið hrikalega gott fyrir þennan uppáhaldsvettvang okkar fyrir tónlistarstrauma, en þetta getur einnig snúist upp í andhverfu sína – þú getur í raun fundið allt mögulegt í ár sem þýðir að það er ómögulegt að finna neina afgerandi línu; hvað þá þemu ársins!!

Við förum nákvæmlega yfir hvaða lög falla í neðangreind þemu í lagaumfjölluninni okkar sem við erum að taka saman og birtum innan tíðar, fyrsta hluta um helgina!

2017-02-22-PCChickenSoup-13Við gerum þó hér með heiðarlega tilraun að greina alla lagasúpuna; settum á okkur svuntur og skelltum okkur í gúmmíhanskana og hrærðum vel upp í risastóra 43 laga pottinum. Sumt var farið að brenna aðeins við í botninum og annað flaut ofan á, eins og gengur. Vissulega blandast innihaldsefnin misvel saman og sumt bragðast hreint ljómandi vel saman á meðan við rekumst auðvitað á einstaka sardínu eða þistilhjarta sem ætti að öllu jöfnu alls ekki heima í þess konar súpupotti…

… ertu ekki örugglega að kveikja á að við erum ennþá að tala um Júróframlögin í ár???

En þá að þemum 2018:

1. Þjóðtungur

Það hefði þurft heyrnarlausan hellisbúa til að hafa ekki hugsun á því að eitt trendið í ár hlyti að verða að syngja á þjóðtungu – eftir frækilegan sigur portúgölskunnar í fyrra – obrigado! Auðvitað eru alltaf einhverjir sem velja að syngja á portúgölsku, nei við meinum þjóðtungunni, en það er afskaplega áberandi í ár. Sem dæmi veðja öll stóru fimm löndin, að Þýskalandi undanskildu, á þjóðtungurnar. Miðjarðarhafslöndin mörg eru á því að þjóðtungan sé málið á meðan ekkert hinna skandinavísku landa sendir framlag á þjóðtungu.

2. Etnísk áhrif

Þetta er vissulega trend sem er ár frá ári misáberandi, en í ár finnst okkur margir veðja frekar á lókal etnísk trend af sínu menningarsvæði frekar en alþjóðlega tískustrauma í tónlist (þó að vissulega sé alveg nóg af slíku, nefnum engin sænsk nöfn!) Hér heyrum við t.d. armensk, grísk og moldóvísk áhrif, balkanballöðublætið fær góða útrás og ítölsk óperuhefð fær liðsinni úr óvæntri átt. Annars mætti stundum halda að etník sé eitt box sem þarf að tikka í fyrir Júróvisjón – margir freista þess en fáum tekst fullkomnlega upp.

3. Valdefling

Uppáhalds trendið okkar í ár, hvort sem það er #metoo-byltingunni að þakka eða öðrum byltingum – og auðvitað er Netta hin feminíska og ísraelska þar fremst í flokki með baráttusöng sinn fyrir innri styrk kvenna! Fleiri framlög eru enn fremur í þeim sama dúr, hvort sem þau fjalla um að takast á við erfiðleika/fárviðri í lífinu eða bara í sálinni. Það geta verið utanaðkomandi öfl sem hafa áhrif, söknuður eftir ástvinum eða bara að vinna bug á því sem dregur mann niður, innri djöflum. Öll fjalla þessi framlög um að treysta á sjálfa/n sig og láta engan segja sér hvað sé rétt og rangt. Áfram alls konar!!

4. Skelfing eða Snilld®

Þetta er sannarlega orðið eitt af okkar helstu einkennismerkjum, aðrir gætu skilgreint fyrirbærið sem Makedóníuheilkennið. Við kjósum að grípa inn í á afar þýðingarmiklum punkti og spyrja okkur sjálfar: Hvoru megin við geðveikina fellur þetta framlag? Er þetta gott í sjálfu sér og verður þá sturlað gott með viðeigandi sviðsetningu? Eða er þetta drasl og sviðssetningin afhjúpar það á afdrifaríkan hátt? Í þennan hóp framlaga geta fallið t.d. lög sem ekki hafa gert upp við sig hvaða tónlistarstíl þau vilja fylgja (eigum við að segja Makedónía í ár?), lög sem ekki er á hreinu hvort eru grín eða ekki (einkahúmor kannski) og fleiri. Og í ár er alveg af nógu að taka, skulum við segja ykkur!

1_102c971af2C_kjwEEXUAIxFip

 

 

Færðu inn athugasemd