Júró-nördar!

Júró-nördarnir eru alveg eins og við; hafa svo ótrúlega gaman að keppninni og eiga sannarlega sín uppáhöld.

—–

Síðasti júró-nörd dagsins á sjálfan úrslitadaginn í Eurovision 2010 er engin önnur en drottningi2981718469_a8f21f41e1n Sigríður Beinteinsdóttir, sem keppt hefur þrisvar fyrir Íslands hönd árin 1990, 1992 og 1994. Það er okkur mikill heiður að fá hana sem Júró-nörd :)

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Erfitt að velja besta Eurovision-lagið, en það vinsælasta er örugglega Waterloo með Abba.
2. Hvert er uppáhaldslagið þitt í keppninni í ár? Hef því miður ekki heyrt þau öll, en mér finnst norska og danska lagið vera mjög flott.
3. Hver er uppáhalds Júróvísjon-flytjandinn þinn? Get ekki svarað því, það hafa verið svo margir flottir í gegnum tíðina.
4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon-hefðir? Ja… ef ég er ekki sjálf í Eurovision þá er ég að sjálfsögðu með Eurovision-partý.
5. Hvenær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Ég hef horft á þessa keppni með mikilli aðdáun frá því ég var svona 6 – 7 ára og óskaði þess alltaf að ég myndi fara í keppnina sjálf sem ég að lokum svo gerði, og ekki bara einu sinni heldur þrisvar sem aðalsöngvari!
6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Besti tími ársins !
____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Hlíf Árnadóttir. Á myndinni er hún augljóslega í gervi Silvíu Nætur :)

1. Hvert er besta Júróvísjonlag allra tíma? Eins og mörg fyrri Júró-nördanna held ég að Waterloo sé besta Júróvisjónlag allra tíma. Hefur allt sem Júróvisjónlag á að hafa. Hins vegar er ekki þar með sagt að þetta sé besta lag sem hefur hljómað í keppninni, mér finnst mörg önnur lög betri, þó að þau séu ekki endilega góð Júróvisjónlög:)

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Það er enn sem komið er franska lagið :) Gæti samt vel skipt um skoðun.

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn?
Hér eru nokkrir sem koma til greina, en ég verð að segja Stefan Raab. Hann flutti og samdi Wadde hadde dudde da í keppninni 2000 og samdi lagið Can’t wait until to night sem Max flutti í keppninni 2004. Bæði lögin eru ein af mínum uppáhalds Júróvisjónlögum, en auk þess samdi hann líka Guildo hat euch Lieb. Í öðru sæti er án efa Sakis Rouvas :)

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon-hefðir? Bara að hafa snakk! Annars vildi ég að það væri hefð að hafa frábært Júróvisjónpartý, með veðmáli og þemaklæðnaði.

5. Hvenær horfðirðu í fyrsta skipti á Júróvísjon? Ég man ekki eftir að hafa horft á Júróvisjón fyrr en Ísland tók fyrst þátt, 1986, en þá var ég fimm ára.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Júróvisjón er best.

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Hreindís Ylfa Garðarsdóttir, söngkona sem keppti í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2009 og söng fallega lagið Vornótt.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Úff, svo mörg sem koma til greina. En til að nefna einhver þá er Waterloo (Svíþjóð 1974) alltaf snilld. Ég held líka upp á All Kinds of Everything (Írland 1970), Neka Mi Ne Svane (Króatía 1998), Fångad av en stormvind (Svíþjóð 1991) og Non Ho L’Etá (Ítalía 1964). Og svo mörg önnur líka, t.d. All Out of Luck (Ísland 1999) – íslensku lögin auðvitað kapítuli útaf fyrir sig… nú er ég hætt, alltof erfið spurning! NÆSTA!

2. Hvert er uppáhaldslagið þitt í keppninni í ár? Mín skoðun á þessum lögum á eftir að breytast svona þrisvar á dag fram að keppninni sjálfri, sérstaklega núna þegar maður fer að heyra flyrjendurnar live á æfingunum…en akkúrat núna finnst mér Danmörk og Ísrael flott, Þýskaland og Noregur að gera frekar góða hluti líka. En lög sem eru klárlega ekki á topplistanum mínum: Holland og Makedónía…ekkert að frétta þar!

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon-flytjandinn þinn? Það verða að vera þrjár drottningar sem deila þessum heiðri – Selma, Regína og Carola hin sænska!

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon-hefðir? Ja… engar sérstakar held ég… ég fer aldrei í Eurovision-partý fyrr en keppnin sjálf er búin, verð að geta hlustað og einbeitt mér að keppninni. Við mamma horfum alltaf saman, ætli það sé ekki bara hefðin…ég verð reyndar í ristastóru partýi núna en við mæðgur höldum til Osló mánudaginn 24. maí til að hvetja Heru í salnum á keppninni sjálfri. Þ.e.a.s. ef Guð, lukka, eldfjall og aska leyfa. Mjög spennandi og gaman, alveg “a dream come true”! Svo er hefð hjá mér að fylgjast með ýmsum forkeppnum, t.d. í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, stundum Finnlandi þegar ég endist yfir finnskunni haha!

5. Hvenær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Ég á Eurovision-óða mömmu þannig að ég hef sennilega alltaf horft… Það er t.d. til alveg yndislegt myndband af mér 1. árs að rokka við Eitt lag enn sem var uppáhalds lagið mitt þegar ég var barn. En fyrsta keppnin sem ég man eftir er 1995, þegar Bjöggi keppti fyrir Ísland.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Eðalskemmtun, tónlistarhrærigrautur og GLAMÚR!
___________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Erla Jónatansdóttir, söngkona og dægurfluga 🙂

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Það eru ótrúlega mörg flott lög sem hafa tekið þátt í gegnum árin og nokkur gömul sem ég held upp á eins og Poupee De Cire, Poupee De Son eftir Serge Gainsbourg sem Frans Gall söng en þar sem ég hef starfað sem plötusnúður síðasta árið þá verð ég að nefna Waterloo sem besta lagið. Um leið og það byrjar að hljóma þá komast allir í dans gírinn, hvort sem þeir fíla ABBA eða ekki og það syngja allir með. Það er einfaldlega frábært lag.

2. Hvert er uppáhaldslagið þitt í keppninni í ár? Ég er ekki búin að kynna mér nógu vel öll lögin í ár en af þeim sem ég hef hlustað á finnst mér Þýska lagið flott og það gæti orðið vinsælt hérna heima í sumar. Það gæti samt verið of nýtískulegt til að geta unnið keppnina en maður veit aldrei. Ég er líka hrifin af Belgíska laginu, það er einfallt og látlaust. Svo er alltaf eitthvað sem nær mér ekki fyrr en á kvöldinu þegar allt er komið saman, flott lag, frábær flytjandi og góð sviðsframkoma.

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon-flytjandinn þinn? Verð að segja Sigga og Grétar. Sigruðu hjörtu allra í Evrópu í aðalkeppninni með Siggu í rauða kjólnum, eins og þau höfðu verið púkaleg hérna heima í gardínunum. Ég held því enn fram að við hefðum unnið ef lagið hefði verið á ensku.

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon-hefðir? Get ekki sagt að ég eigi mér neinar hefðir í kring um Júróvísjón. Hef horft á keppnina með mömmu og bróður mínum síðustu ár, pabbi hefur ekki verið á landinu á þessum tíma þar sem hann hefur verið fararstjóri íslenska júróvísjón hópsins. Það gerir upplifunina enn meira spennandi. Í ár ætlum við bróðir minn að fara til Noregs og sjá þetta með eigin augum.

5. Hvenær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Man ekki hvenar ég horfði á keppnina í fyrsta skipti. Ætli það hafi ekki verið 1986 þegar Ísland tók fyrst þátt. Hef a.m.k. fylgst vel með frá því að ég man eftir mér.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Algjörlega frábær skemmtun.

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Sunna Mímisdóttir.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Hólí mólí… þetta er nú dálítið eins og að gera upp á milli barnanna sinna. Hold me now með Johnny Logan er eitt af þeim bestu að mínu mati. Ef ég dvel lengi við þessa spurningu enda ég sjálfsagt með 20 lög sem mér finn

 

st vera best þannig að það er vissara að ég setji bara punkt hér.

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Ég er mjög hrifin af lagi Azerbaijan og svo finnst mér danska lagið mjög grípandi og skemmtilegt þótt ég hafi heyrt það áður í flutningi Sting og The Police. Ég á erfitt með að gera upp á milli þessara laga.

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Úff… þessi spurning er dálítið eins og sú fyrsta. Fyrsta nafnið sem poppar upp er Sergio Dalma sem keppti fyrir Spán 1991. Svo var ég eldheitur aðdáandi Josteins Hasselgårds sem keppti fyrir Noreg 2003. Hann sjarmeraði ansi marga með frábærum flutningi og ekki spillti fyrir að ég var á keppninni í Riga og hitti hann eftir keppnina. Af íslensku flytjendunum er Eiríkur Hauksson í sérstöku uppáhaldi. Hann var helsta stjarna landsins þegar ég var 6 ára og í mínum huga var hann guð. En ég gæti haldið endalaust áfram að þylja upp uppáhalds flytjendur.

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon-hefðir? Undanfarin ár hef ég farið í Júróvisjon-partý hjá vinkonu minni sem er jafn biluð í Júró-nördismanum og ég. Þangað koma fleiri vinir okkar, við grillum og horfum saman á keppnina. Vinir okkar eru ekki alveg jafnforfallnir aðdáendur og við þannig að eftir að hafa prófað okkur áfram með partý-þemu og leiki höfum við fundið einn leik sem allir geta tekið þátt í, hvort sem þeir vita eitthvað um keppnina eða ekki. Leikurinn felst í því að giska á röð allra laganna í keppninni. Sá sem er með flest rétt hlýtur að launum farandkórónu sem heitir Silvían og var fyrst veitt árið 2006.

Stundum hefur blandast inn einhvert landa-þema ef maður heldur með ákveðnu landi. 2008 fékk ég nafnið Kafteinn Portúgal þar sem ég hélt með þeim. Ég var með portúgalska fánann á eins og skikkju. Í fyrra hélt kærastinn minn með gríska laginu. Hann fann frauðplast heima, skellti því á hausinn á sér og sagðist vera feta ostur. Mér fannst þetta agalega fyndið og ákvað að vera í stíl við hann í partýinu. En ég hélt með Noregi þannig að ég þurfti að gera hugmyndina norska. Ég tók því fram norska ullarpeysu og brúnan pappakassa og sagðist vera norskur geitaostur. Þetta uppátæki okkar vakti mikla kátínu.

Þegar ég var yngri bjó ég mér til þá hefð að fara alltaf í Kolaportið að kaupa lakkrís. Þessi hefð varð til þegar ég og mamma fórum í Kolaportið á Júróvisjon-dag 1990 alveg sannfærðar um að Eitt lag enn myndi sigra. Við röktum svo velgengnina beint til lakkríssins og pössuðum upp á í mörg ár að halda þessa hefð.

5. Hvernær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Fyrsta skiptið sem ég man eftir var 1986. Ég hef ekki misst úr keppni síðan.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Gleði, húmor og skemmtun.

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Íris Hólm, söngkona hljómsveitarinnar Bermuda og dagskrárgerðarmaður Euro-rásarinnar. Íris flutti einnig lagið The One eftir Birgi Jóhann Birgisson í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2010.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Ég á tvö lög sem standa uppúr og ég get hlustað á aftur og aftur.
Það er í fyrsta lagi Maria Magdalena sem keppti fyrir Króatíu 1999, og svo lagið Sense Tu frá Andorru árið 2006.

2. Hvert er uppáhaldslagið þitt í keppninni í ár? Vá. Þau eru nokkur. En mitt uppáhalds UPPÁHALDS er án efa lagið Sweet People með Alyosha frá Úkraínu. Þetta er ekki lag sem er að fara að vinna Eurovision í ár, en þrátt fyrir það þá fíla ég söngkonuna og lagið í ræmur!

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon-flytjandinn þinn? Selma Björns. Bókað mál.
Hún var og er mitt idol. Ég horfði og tók upp keppnina 1999 og átti alla diska með henni og allt.

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon-hefðir? Hingað til hefur alltaf verið Eurovision partý með foreldrum mínum og vinafólki þeirra og við höfum grillað. En núna ætlum við skötuhjúin að bjóða hljómsveitinni okkar, Bermuda, í Eurovision-mat og skemmtilegheit!

5. Hvenær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Mig minnir að það hafi verið 1998. Þá horfði ég með ömmu minni og skrifaði niður mín stig á stigatöflu.  Eftir það var ekki aftur snúið! 🙂

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Ævintrýraleg, skemmtileg og stórskrítin!

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Hreiðar Már Árnason, framkvæmdastjóri  SÍF.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Ég held að hvert einasta Júróvisjón-lag sé jafn afstætt og árið sem það keppir. En nokkur hafa þó hlotið óumdeilanlega hylli mína í gegnum árin og ber þar helst að nefna:

  • Athena – For real Þetta lag sem er skemmtileg blanda af ska/popp músík var framlag Tyrklands til keppninnar árið 2004. Afar líflegur og metnaðarfullur flutningur skilaði þeim í 4 sæti. Þess má til gamans geta að bandið er í dag enn eitt allra stærsta hljómsveitin í Tyrknesku tónlistar senunni og skora ég á alla sem hafa gaman af þessu að kynna sér bandið frekar. http://www.youtube.com/watch?v=FBYlEPwAFyM
  • Alf Poier – Weil der Mensch zählt Þessi furðulegi maður tók þátt fyrir hönd Austurríkis árið 2003 og fátt annað sagt en að hann hafi komið í einum tilgangi, að skemmta og tókst honum svo sannarlega ætlunarverk sitt. Alf mætti með band skipuðu pappaspjöldum ásamt 2 bakraddasöngkonum. Laginu verður líklega best lýst sem einskonar samsuðu margra afar ólíkra tónlistarstefna. Í eðli sínu er Júróvisjón skemmtiefni, og Alf kann vel að skemmta. http://www.youtube.com/watch?v=G-Qj5FVK5Cg
  • Dana International – Diva. Síðast en alls ekki síst langar mig til að telja upp dívuna Dönu. Dana Inernational (fn. Yaron Cohen)  einsog hún/hann kýs að kalla sig var framlag Ísraela til keppninnar árið 1998 og einsog flestir vita, sigurlag þess árs. Í mínum huga er margt í fari Dönu ásamt lagasmíð sem kristallar fyrir mér það sem Júróvisjon stendur fyrir. Lagið er einstaklega einfalt, jafnvel óspennandi útfærsla af klassísku Euro-popp lagi en hún skilaði sínu og vakti verðskuldaða athygli fyrir. En það sem stingur samt kannski vafalítið mest er að þarna er á ferðinni kynskiptingur frá zionista-ríki Ísraelsmanna. Án þess að hafa frekari orð um það, þá vekur það undrun mína en kátínu um leið að vita að guðhræddir Ísraelar geti komið sér saman um að fólk sem mun koma til með að brenna í helvíti megi þó fara í Júróvisjón. http://www.youtube.com/watch?v=85TkeK80koo&feature=related

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Það verður tæplega sagt að það sé úr mörgu að velja. En lag Tyrkja hefur orðið fyrir valinu.

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Alf Poier, stutt og gott !

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon hefðir? Ætli Júróvísjon-hefðir mínar snúist ekki aðallega um afneitun. Alveg þangað til að keppninni kemur, nema í þessu tilfelli, nýt ég þess að tala illa um keppnina og hæðast að keppendum. En þegar á hólminn er komið þá er þetta allt spurning um góðan félagsskap og afurðir Bakkusar.

5. Hvenær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Áður en að ég áttaði mig á hugtakinu, ár eða tími.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Gott/vont, gott.

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Hildur Edda Einarsdóttir.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Ég get ómögulega valið eitt ákveðið lag enda svo mörg sem koma upp í hugann. Lane Moje, framlag Serbíu og Svartfjallalands árið 2004 kemur þó sterkt inn og svo hef ég verið mjög hrifin af flestu því sem hefur komið frá Úkraínu undanfarin ár.

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Serbía er með langskemmtilegasta lagið í ár að mínu mati. Balkanskt, þjóðlagaskotið popplag getur einfaldlega ekki klikkað!

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Páll Óskar er að mínu mati hinn eini sanni júróvisjón flytjandi, enda var framlag hans langt á undan sinni samtíð og ég held að það hafi átt sinn þátt í að breyta keppninni til hins betra. Svo spillir ekki fyrir að hann hefur góða þekkingu á keppninni og fjallar um hana af virðingu.

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon hefðir? Smátt og smátt hefur þróast sú hefð hjá mér að klæðast skrautlegum fötum þegar ég hef farið í júróvisjón partý, þar duga ekki venjuleg djammföt. Svo eru til alls konar drykkjuleikir í tengslum við keppnina, til dæmis að taka alltaf sopa þegar orðin „love“, „ljuba“ eða „ljubi“ heyrast, nú eða þegar maður er óviss um kynferði einhvers sem sést á sviðinu hverju sinni. En þetta er bara fyrir þá allra hörðustu.

5. Hvernær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Það var árið 1986, þegar Ísland tók fyrst þátt. Ég var bara 6 ára þá og síðan þá hef ég horft á hverja einustu keppni. Í ár bæti ég um betur og horfi á hana með eigin augum í Osló.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Stórmerkilegt samevrópskt menningarfyrirbæri.

___________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Íris Davíðsdóttir stjórnmálafræðingur.

1. Hvert er besta Júróvísjonlag allra tíma? Þar sem að tónlistaminni mitt nær voðalega sjaldan langt aftur þá ætla ég að segja Molitva frá Serbíu 2007. Í fyrsta sinn sem ég heyrði lagið fékk ég gæsahúð og það er alltaf góðs viti 🙂 Ég var líka alltaf viss um að þetta myndi vinna en þrátt fyrir einlægan áhuga minn á keppninni spái ég rosalega oft vitlaust!

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Mér finnst þetta lag frá Azerbadjan mjög áhugavert á margan hátt…. Er þetta popp? Er þetta R&B? Er þetta súperman?

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Páll Óskar, því hann átti sinn þátt í að ýta keppninni til framtíðar.

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon-hefðir? Ég reyni alltaf að hafa eurovision-partý eða komast í eitt slíkt. Þá reyni ég líka alltaf að vera búin að búa til atkvæðaseðla til að dreifa í partýinu og er með verðlaun fyrir þá sem eru með flest stig og þann sem giskar rétt á sigurvegarann.

5. Hvernær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Eitthvað rámar mig í Gleðibankaframlagið okkar 1986 en þá hef ég verið fimm ára. Mér skilst nú að öll þjóðin hafi horft og þá hlýt ég að hafa gert  það líka 🙂

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Frábær, fræðandi og furðuleg!

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins í dag er Tinna Kristinsdóttir, viðskiptafræðingur.
1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Úff bara eitt? Þá hugsa ég að ég verði að velja Kaelakee hääl sem var framlag Eistlands ’96, hef ekki tölu á því hversu oft ég hef hlustað á það!

 

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Mér finnst belgíska lagið yndislegt en út frá Eurovision-legum sjónarmiðum segi ég Danmörk…

 

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Jostein Hasselgård… ææææði! Og svo var hann líka leikskólakennari, þvílíkt krútt!
4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon-hefðir? Nei engar sérstakar hefðir, bara að hitta góða vini og horfa á keppnina 🙂 Fyrir 3 árum fórum við í sérstakan Eurovision-drykkjuleik yfir stigagjöfinni. Ég mæli ekki með þeim leik fyrir þá sem verða svo óheppnir að fá eitt af efstu löndunum, hugsa að ég geri þann leik ekki að hefð…

 

5. Hvenær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Man ekki nákvæmlega hvenær það var, þegar ég var yngri var það hefð að nokkrar fjölskyldur hittust alltaf saman og horfðu á keppnina, klárlega einn af hápunktum ársins! Hins vegar man ég eftir að hafa horft á keppnina frá 1990 aftur og aftur og aftur á vídeói hjá frænda mínum, klárlega uppáhalds-keppnin mín enn í dag!

 

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Glimmer, glimmer og gllimmer. Love it!

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Ársæll Hjálmarsson.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Ég er svo mikið Eurovision fan að ég get lítið gert upp á milli laganna… það væri eins og þurfa að velja uppáhaldsbarn úr barnahópnum sínum!!! En hér eru þau lög sem ég kemst ekki af að hlusta á reglulega:

  • Eres tú með Moceadades. Lenti í 2. sæti árið 1973. Hljómsveitn var þá háskólahljómsveit á Spáni sem ákvað að slá til og taka þátt í Eurovision á Spáni, þau unnu þá keppni og tóku þátt í Luxembúrg. Lúxembúrg vann það árið með lagið Tú te reconnetrais sem Anne-Marie David söng.
  • Svo finnst mér Poupé de cire, Poupé de son algjört æði. France Gall braut blað í sögu Eurovision með þessu lagi 1965. En áður hafði tónlistin verið nánast lyftutónlist!! Poupée de cire, poupée de son var mun rokkaðra og fjörugra en fólki fannst við hæfi. Samt sem áður fannst dómnefndinni það skara framúr.
  • Diggy-Loo, Diggy-Ley er bara stuðlag sem ég get ekki sleppt að hlusta á reglulega. Enda elsta minning mín frá Eurovision að sjá þá Herrey’s bræður dansa og syngja í gylltum skóm og rauðum, grænum og bláum silkiskyrtum! Eitt af eftirminnilegustu vinningslögum að mínu mati.
  • Stop með Omar Naber frá Slóveníu er líka eitt allra besta lag sem ég hef heyrt í keppninni. Fallegur söngur, magnþrungið undirspil, gott samspil klassískrar og nútímatónlistar. Fæ alltaf gæsahúð þegar ég heyri þetta lag… fannst skrítið að hann komst ekki einu sinni áfram.
  • Un, deux, trois með söngkonunni Catherine Ferry er líka æðislegt. Lagið keppti 1976 í Hollandi og lenti í 2. sæti.
  • Að lokum finnst mér lagið Dile que la quere með David Civera frá 2001 æðislegt. Civera er geggjaður söngvari og mjög virtur sem slíkur á Spáni.

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Mér finnst keppnin í ár skara framúr hvað leiðinleg lög varðar. Það verða ansi margar og langar pissupásur í ár. Mér finnst hins vegar Þýskaland vera með æðislegt lag og tími kominn á að Þýskaland vinni. Eins finnst mér Grikkland vera með mjög einfalt og grípandi lag. Svo getur þetta allt breyst á keppninni sjálfri þar sem sviðsframkoma getur gert svo mikið fyrir lögin.

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon-flytjandinn þinn? Omar Naber frá Slóveníu!! Lagið hans Stop gaf mér gæsahúð sem mjög fá Eurovision-lög gera. Svo er líka hann David Civera í uppáhaldi ásamt Beth sem söng Dime 2003 fyrir Spán.

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon hefðir? Þar sem keppnin hefur breyst undanfarin ár þá hafa hefðirnar breyst líka. Fyrsta undankeppnin: Maður vaknar og hugsar um lögin í keppninni allan daginn og spyr sig hver eigi möguleika á að komast áfram. Allan daginn er ég raðandi í hausnum á mér hver fer áfram og hver ekki. Svo kíkir maður trilljón sinnum inn á esctoday.com til að sjá hvort að það séu einhverjar nýjar fréttir, einhver skandall eða bara eitthvað djúsí. Borða svo um 5 eða 6 leytið til að vera alveg örugglega búinn að borða… svo er skrjáf í sælgætispokum BANNAÐ á mínu heimili. Ég vil geta heyrt í lögunum!!!! Sama gerist um næstu undankeppni en á lokakvöldinu þá er farið í sturtu og gert sig fínan fyrir keppnina. Svo situr maður með blað þar sem maður gefur hverju lagi fyrir sig stig frá 1-8, 10, 12. Þegar koma auglýsingar fyrir stigagjöfina þá reiknar maður út hvaða þjóðir fengu flest stig frá öllum á staðnum og svo er hringt og kosin 3 efstu lögin!!

5. Hvenær horfðirðu í fyrsta skipti á Júróvísjon? 1984 er fyrsta keppnin sem ég sá, en það var í raun bara endurflutningurinn af sigurlaginu þar sem ég var 7 ára og upptekinn að vera úti að leika mér. 1985 var sama upp á teningnum hjá mér sá eitt og eitt atriði. 1986 horfði ég í fyrsta skiptið á alla keppnina, enda orðið svo mikið hype að Ísland væri að taka þátt í fyrsta skipti. Ég man að DV hafði sett heilopnu í DV með keppendum ársins og ég og systir mín fórum yfir listann og við bentum bæði á Söndru Kim og sögðum að hún myndi vinna… af því hún væri yngsti keppandinn! Viti menn… hún vann og eftir það varð maður húkkt á keppninni og geta spáð fyrir um mögulegan vinningshafa.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Glamúr, hallæri og Johnny Logan!!

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins er Auður Geirsdóttir, viðskiptafræðingur og nemi.

1. Hvert er besta Júróvísjonlag allra tíma? Besta lag allra tíma er klárlega Waterloo – uppskrift af góðu Eurovision lagi er lag frá Abba enda andlit keppninnar. Þó eru nokkur önnur sem seint gleymast og má þar helst nefna lag Olsen bræðra, fly on the wings of love, vinningslagið frá því í fyrra fairytale og Diva með Dana international er alltaf klassi og ekta Eurovision slagari!

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Alveg klárlega sænska lagið – þetta er klassísk popp ballaða sem heillaði mig alveg upp úr skónum! Þó verð ég að viðurkennar að ég er búin að vera með lagið frá Litháen alveg á heilanum og mér finnast alltaf jafn gaman að horfa á myndbandið, það væri ekki Júróvisíon nema fyrir eitt svona lag :)
3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Játzz… þeir eru svo margir en ég verð nú að segja Alexander Rybak þó svo að henni Ruslönu verði seint gleymt eftir að hún dansaði sig inn í hjörtu Evrópubúa með látum.
4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon hefðir? Ég á ekki beint neinar hefðir annað en að vera í góðra vina hópi – það var þó smá breyting á því árið 2007 þegar ég var svo heppinn að vinna miða á Eurovision í Finnlandi, Helskinki, þar sem ég var í fylgdarliði Eiríks Hauks. Þetta var alveg hreint frábær viku ferð þar sem við fengum VIP passa og aðgöngumiða að alla helstu viðburði tengda keppninni. Þannig ég hef sko fengið að upplifa júróvision from first hand og það er sko alls ekki leiðinlegt fyrir aðdáanda eins og mig :)
5. Hvenær horfðirðu í fyrsta skipti á Júróvísjon? Man nú ekki nákvæmlega hvenær ég horfði á hana í fyrsta skiptið en einhverja hluta vegna man ég mjög mikið eftir keppninni árið 1990, ég s.s 5 ára, þar sem Sigga og Grétar tóku snúning og sungu eitt lag enn með þvílíkum tilþrifum.
6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Ekki spurning, hin heilögu þrjú G –  Glimmer, Glans og Gleði

____________________________________________________________________________________________

Júró – nörd dagsins er Viktor Steinarsson.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Mörg góð lög hafa verið í keppninni í gegnum árin en Waterloo er klárlega besta Júróvisionlag allra tíma…

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Azerbadjan finnst mér með mjög flott lag í ár, en rétt á eftir því koma Danmörk og Frakkland………annars finnst mér keppnin frekar slök í ár miðað við oft áður.

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Sandra Kim er mér alltaf ofarlega í huga…. veit ekki af hverju.. kannski af því að hún stal sigrinum af Íslandi 1986 ? 

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon hefðir? Reyni alltaf að halda uppá kvöldið í félagsskap með góðum vinum……

5. Hvenær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Rámar eitthvað í að hafa séð Bobbysocks 1985, en 1986 er árið sem ég man eftir að hafa séð í sjónvarpinu.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Algerlega brilliant concept !!

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins í dag er enginn annar en Reynir Þór, sem er fulltrúi okkar nördanna í Eurovision-spekingaþættinum hans Palla, Alla leið.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Það er portúgalska lagið frá 1969, Desfolhada portuguesa, sungið af dívunni Simone de Oliveira. Það hafnaði því miður bara í 15. sæti með 4 stig. Síðan finnst mér Alle mine tanker (Noregur 1993), Dansevise, danska sigurlagið frá 1963, og Non ho l’eta, ítalska sigurlagið frá 1964 ofsalega falleg líka.

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Það er slagur á milli Ísraels og Írlands, og ég held að Ísrael sé að sigra!

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Mér þykir náttúrlega vænst um Pál Óskar af öllum flytjendunum, enda höfum við verið góðir vinir í næstum 19 ár. Að honum frátöldum er ABBA auðvitað í sérstöku uppáhaldi.

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon hefðir? Nei, bara að hafa það huggulegt í góðra vina hópi og skemmta mér!

5. Hvernær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Mig rámar auðvitað í atriði úr keppnunum frá 1975-9, en ætli fyrsta alvöru minningin sé ekki pilsaþyturinn hjá Bucks Fizz 1981.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum: sjónarspil, eyrnakonfekt, (stundum) smáhallærislegt.

___________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins í dag er Hildur Magnúsdóttir, líffræðingur.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Ég á mjög erfitt með að gera upp á milli þeirra! Ég held að ég verði eiginlega að fá að velja heila keppni sem mitt uppáhald og það er sko Júróvisjon 2000. Þá fannst mér vera svo mörg skemmtileg lög, íslenska lagið það árið var hresst (Tell me með Telmu og Einari Ágústi), sænska  (The spirits are calling my name) með Roger Pontare , danska  (Fly on the wings of love með Olsen bræðrum)  og eistneska lagið (Once in a lifetime með Ines)  voru mjög eftirminnileg.  Sem og franska lagið og og og, æi, þau voru bara öll eitthvað svo frábær!

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Sænska og þýska lagið eru eiginlega að berjast um fyrsta sæti hjá mér þetta árið. Ég dýrka Satellite með hinni þýsku Lenu, finnst þessi breski Kate Nash-fílingur í laginu mjög flottur en ég held að hið sænska This is my life með Önnu Bergendahl eigi vinninginn í ár, hjá mér alla vega! Finnst það eitthvað svo einlægt og skemmtilegt og ég fíla röddina í henni og finnst frábært að sjá hana syngja á sviðinu með kassagítarinn.

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Það eru svo margir flytjendur á hverju ári! Ætli Chiara frá Möltu standi ekki upp úr, hún syngur mjög vel og svo hefur hún tekið það oft þátt að maður man vel eftir henni. Samt er ég nú yfirleitt mest fyrir hressari lögin og grísku lögin höfða mjög oft til mín.

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon hefðir? Ég horfði mikið á Júróvisjón með foreldrum mínum og systkinum á yngri árum. Við gáfum alltaf hverju lagi stig og athuguðum hvaða lag hefði unnið hjá okkur.  Eftir að ég „fullorðnaðist“ hafa þessar hefðir minnkað en ég horfi alltaf á Júróvisjón og þá yfirleitt með dóttur minni sem dýrkar að sjálfsögðu keppnina og stundum með foreldrum mínum líka.

5. Hvernær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Man ekki nákvæmlega hvenær það var en geri ráð fyrir því að það hafi verið fylgst með Júróvisjón á mínu heimili frá því að Ísland fékk að vera með. Mig dreymdi oft um að syngja í Júróvisjón og setti mér einhvern tímann það markmið að læra nógu mörg tungumál til að geta skilið öll tungumálin sem sungið var á í keppninni… er ekki enn þá búin að ná því takmarki þrátt fyrir allan þann fjölda sem syngur á ensku þessa dagana…

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Flott, skemmtileg, fjölbreytileg!

____________________________________________________________________________________________

Júró-nörd dagsins í dag er Ellen Ellertsdóttir.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Besta erlenda lagið finnst mér vera lagið Lane Moje sem keppti fyrir Serbíu og Svartfjallaland árið 2004.  Hins vegar finnst mér besta íslenska Eurovision lagið vera Tell me sem fór keppti árið 2000.
2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Eftir að hafa hlusta nokkrum sinnum á lögin sem eru að keppa í ár þá langar mig alltaf að hlusta aftur á lagið frá Serbíu sem heitir víst Ovo Je Balkan.  Finnst lagið skemmtilegt og mann langar til að dilla sér við það.  Einhverra hluta vegna finnst mér það ekkert mjög Eurovision-legt.
3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Ég hef ekkert sérstaklega verið að velta fyrir mér flytjendunum.  Sá sem kom fyrstur upp er Sakis Rouvas, en það er nú líklega af því það er bara gaman að horfa á hann…;)
4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon hefðir? Nei ég á nú engar sérstakar Eurovision hefðir.  Aðal málið er að horfa á keppnina og skemmir ekki fyrir ef það er partý líka.
5. Hvernær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Ég held að það hafi alltaf verið horft á Eurovision á mínu heimili.  En fyrsta keppnin sem ég man eftir er þegar Eitt lag enn lenti í 4 . sæti árið 1990.
6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum. Glamúr, gleði og nett hallærislegt…

___________________________________________________________________________________________

Hér störtum við nýjum lið hér á síðunni okkar sem kallast Júró-nörd dagsins.  Fram að keppnninni sjálfri munum við birta reglulega svör júróvísjon áhugafólks við sex spurningum sem við höfum lagt fyrir þau.

Fyrsti Júró-nördinn er Ýrr Geirsdóttir, tölvunafræðingur.

1. Hvert telur þú vera besta Júróvísjonlag allra tíma? Waterloo – klárlega! Hin fullkomna júró-uppskrift: Abba, diskó og geggjaðir búningar!

2. Hvert er uppáhalds lagið þitt í keppninni í ár? Vanalega er ég hrifnari af „hressu“ lögunum en í ár eru það krútt ballöðurnar sem heilla mig! Einlægu krúttin í sænsku poppballöðunni og belgíska gítarslagaranum ná að heilla mig upp úr skónum!

3. Hver er uppáhalds Júróvísjon flytjandinn þinn? Konan sem hoppaði og skoppaði óð um sviðið í villimanna búningi, blés varla úr nös og söng kröftuglega allan tímann. Það mun vera Ruslana sjálf, sigurvegari 2004. Þvílíkur „performer“!

4. Áttu þér einhverjar Júróvísjon hefðir? Nei, engar sérstakar hefðir skapast á mínu heimili kringum keppnina…aðrar en að ég má alls ekki missa af keppninni! Systir mín vann miða fyrir tvo á keppnina í Finnlandi 2007 en ég komst því miður ekki með vegna barneigna. Ég var að vonast til að það yrði að hefð að hún myndi vinna miða en það gerðist víst ekki… (bömmer!!)

5. Hvernær horfðiru í fyrsta skipti á Júróvísjon? Fyrsta skiptið sem ég man eftir var þegar ég var 10 ára. Ég bjó með foreldrum mínum í Svíþjóð á þessum tíma og við vorum í vorferðalagi Íslendingafélagsins þessa helgi. Það voru allir (fullorðna fólkið) með stórar yfirlýsingar um að nenna ekki að fylgjast með þessari leiðinda söngvakeppni en að sjálfsögðu gat enginn staðið við það. Hver einasti íslendingur á svæðinu fylgdist spenntur (og stoltur) með og við vildum öll vera jafn hamingjusöm og Sigga og Grétar í Stjórninni! Þetta var semsagt árið 1990.

6. Lýstu Júróvísjon í þremur orðum! Fjölbreytni, glimmer og GLEÐI!

_____________________________________________________________________________________

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s