Eurovision

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, eða Eurovision eins og við þekkjum hana frekar, hefur verið haldin allt frá árinu 1956. Það er European Broadcasting Union (EBU) sem stendur fyrir keppninni. Aðild að EBU á fjöldinn allur af útvarps- og sjónvarpsstöðum með útsendingu á landsvísu. Flest aðildarfélög eru innan Evrópu en fjöldi aukaaðila er að sambandinu víðsvegar um heiminn.

EBU var stofnað árið 1950 og það var einungis sex árum seinna sem Eurovision fór í loftið í fyrsta skipti. Í ár, 2017, verður því haldin 63. Eurovisionkeppnin. Eurovision-keppnin er byggð á ítölsku söngvakeppninni Festival di Sanremo sem hóf göngu sína í ítölsku sjónvarpi árið 1951 og er enn við lýði.

Fyrsta Eurovision-keppnin var haldin þann 24. maí 1956 í Sviss. Þar kepptu 14 atriði frá sjö löndum, Belgíu, Hollandi, Lúxemborg, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Sviss. Kjörið fór fram í dómnefndum í hverju landi sem hvert land um sig hafði 2 stig til að veita. Eingöngu var tilkynntur sigurvegari og var það Lys Assia frá Sviss með lagið Refrain.

Næstu ár á eftir hélst sú regla að hvert ríki mætti senda tvö lög. Þegar fleiri þjóðir fengu áhuga á keppninni var þessu breytt og hver þjóð mátti aðeins senda eitt lag. Frá þeim tíma hafa reglur keppninar breyst mikið en ein regla hefur staðið frá upphafi og hún er sú að hvert lag má ekki taka meira en 3 mínútur í flutningi og að lögin verða ævinlega að vera frumsamin og mega ekki hafa heyrst opinberlega fyrir 1. október árið áður en keppni er haldin.

Fjöldi þjóða sem keppir er nokkuð breytilegur eftir árum, en hefur mest farið í 43 þátttökuþjóðir. Það eru alltaf einhverjar sjónvarpsstöðvar sem draga sig úr keppni sökum skorts á fjármagni. Keppnin fer fram á tveimur undanúrslitakvöldum þar sem tíu þjóðir af hvoru kvöldi komast áfram á úrslitakvöldið sjálft. Þá keppa á úrslitakvöldinu fimm stóru þjóðirnar eins og þær eru kallaðar; Þýskaland, Frakkland, Bretland, Ítalía og Spánn. Auk þeirra kemst sigurvegari síðasta árs sjálfkrafa áfram á úrslitakvöldið. Kosningunni er skipt á milli símakosningar og dómnefnda. Þetta fyrirkomulag hefur þótt koma vel út í keppninni og meiri sátt hefur ríkt um úrslitin.

Víða á netinu er hægt að lesa um sögur Eurovision-keppninnar og EBU.

www.eurovision.tv er opinber heimasíða keppninnar.

www.esctoday.com er ein allra virkasta áhugamannasíða um Eurovision.

www.ebu.ch er opinber heimasíða EBU.

www.eurovision.is er síða Ríkissjónvarpsins sem fjallar um framlag Íslendinga í hvert skipti.

Ef slegið er inn Eurovision Song Contest á Wikipediu má finna gríðarmikið af upplýsingum um keppnina, fyrr og nú, ásamt reglum og fleiru áhugaverðu efni.