Þemu ársins 2018 – öll súpan!

Í ár höfum við reyndar verið í standandi vandræðum því að sjaldan í sögu keppninnar hefur ægt saman fleiri tónlistarstílum, ólíkum samsetningum laga og flytjenda. Þetta getur verið hrikalega gott fyrir þennan uppáhaldsvettvang okkar fyrir tónlistarstrauma, en þetta getur einnig snúist upp í andhverfu sína – þú getur í raun fundið allt mögulegt í ár sem þýðir að það er ómögulegt að finna neina afgerandi línu; hvað þá þemu ársins!!

Við förum nákvæmlega yfir hvaða lög falla í neðangreind þemu í lagaumfjölluninni okkar sem við erum að taka saman og birtum innan tíðar, fyrsta hluta um helgina!

2017-02-22-PCChickenSoup-13Við gerum þó hér með heiðarlega tilraun að greina alla lagasúpuna; settum á okkur svuntur og skelltum okkur í gúmmíhanskana og hrærðum vel upp í risastóra 43 laga pottinum. Sumt var farið að brenna aðeins við í botninum og annað flaut ofan á, eins og gengur. Vissulega blandast innihaldsefnin misvel saman og sumt bragðast hreint ljómandi vel saman á meðan við rekumst auðvitað á einstaka sardínu eða þistilhjarta sem ætti að öllu jöfnu alls ekki heima í þess konar súpupotti…

… ertu ekki örugglega að kveikja á að við erum ennþá að tala um Júróframlögin í ár???

En þá að þemum 2018:

1. Þjóðtungur

Það hefði þurft heyrnarlausan hellisbúa til að hafa ekki hugsun á því að eitt trendið í ár hlyti að verða að syngja á þjóðtungu – eftir frækilegan sigur portúgölskunnar í fyrra – obrigado! Auðvitað eru alltaf einhverjir sem velja að syngja á portúgölsku, nei við meinum þjóðtungunni, en það er afskaplega áberandi í ár. Sem dæmi veðja öll stóru fimm löndin, að Þýskalandi undanskildu, á þjóðtungurnar. Miðjarðarhafslöndin mörg eru á því að þjóðtungan sé málið á meðan ekkert hinna skandinavísku landa sendir framlag á þjóðtungu.

2. Etnísk áhrif

Þetta er vissulega trend sem er ár frá ári misáberandi, en í ár finnst okkur margir veðja frekar á lókal etnísk trend af sínu menningarsvæði frekar en alþjóðlega tískustrauma í tónlist (þó að vissulega sé alveg nóg af slíku, nefnum engin sænsk nöfn!) Hér heyrum við t.d. armensk, grísk og moldóvísk áhrif, balkanballöðublætið fær góða útrás og ítölsk óperuhefð fær liðsinni úr óvæntri átt. Annars mætti stundum halda að etník sé eitt box sem þarf að tikka í fyrir Júróvisjón – margir freista þess en fáum tekst fullkomnlega upp.

3. Valdefling

Uppáhalds trendið okkar í ár, hvort sem það er #metoo-byltingunni að þakka eða öðrum byltingum – og auðvitað er Netta hin feminíska og ísraelska þar fremst í flokki með baráttusöng sinn fyrir innri styrk kvenna! Fleiri framlög eru enn fremur í þeim sama dúr, hvort sem þau fjalla um að takast á við erfiðleika/fárviðri í lífinu eða bara í sálinni. Það geta verið utanaðkomandi öfl sem hafa áhrif, söknuður eftir ástvinum eða bara að vinna bug á því sem dregur mann niður, innri djöflum. Öll fjalla þessi framlög um að treysta á sjálfa/n sig og láta engan segja sér hvað sé rétt og rangt. Áfram alls konar!!

4. Skelfing eða Snilld®

Þetta er sannarlega orðið eitt af okkar helstu einkennismerkjum, aðrir gætu skilgreint fyrirbærið sem Makedóníuheilkennið. Við kjósum að grípa inn í á afar þýðingarmiklum punkti og spyrja okkur sjálfar: Hvoru megin við geðveikina fellur þetta framlag? Er þetta gott í sjálfu sér og verður þá sturlað gott með viðeigandi sviðsetningu? Eða er þetta drasl og sviðssetningin afhjúpar það á afdrifaríkan hátt? Í þennan hóp framlaga geta fallið t.d. lög sem ekki hafa gert upp við sig hvaða tónlistarstíl þau vilja fylgja (eigum við að segja Makedónía í ár?), lög sem ekki er á hreinu hvort eru grín eða ekki (einkahúmor kannski) og fleiri. Og í ár er alveg af nógu að taka, skulum við segja ykkur!

1_102c971af2C_kjwEEXUAIxFip

 

 

Auglýsingar

Sigurvegarar Júróvisjón – náum við alltaf að spotta þá?

alltum2

Við stöllurnar höfum verið að spá og spögulera í Júróvisjón hér á síðunni í rúm sjö ár og það er nú alltaf gaman að rifja upp það sem okkur hefur fundist standa upp úr á hverju ári.

Nú þegar við bíðum eftir stóru stundinni, er upplagt að skoða það sem við höfum sagt um sigurvegara fyrri ára í spánum okkar þar sem við tökum hvert lag fyrir. Þetta gerum við venjulega löngu fyrir keppni og oft höfum við aðeins lag í stúdíóútgáfu, jafnvel einhvern lifandi flutning, til að styðjast við – en ekki lokasviðsetninguna. Það er áhugavert að sjá hvernig maður spottar sigurvegarana á hverju ári. Okkur hefur ekki alltaf tekist það með glæsibrag… en við erum oft fjandi nálægt því!

Svo erum við sannarlega ekki alltaf sammála – og það er alltaf svo gaman! 🙂

Jamala – 1944 (2016)

Í fyrra vorum við meira á því að Rússinn hefði það á lokametrunum en vonuðumst eftir spennandi keppni – sem hún svo varð! Þetta höfðum við að segja um Jamölu:

Eyrún segir: Gæsahúð alla leið! Það er svo ótrúlega flott og marglaga, framlag Úkraínumanna í ár. Í fyrsta lagi er þetta stórgóður flutningur hjá hæfileikaríkri söngkonu sem er með svo fallegan Austur-Evróputón í röddinni. Lagið er mjög ethnískt en um leið heyrast poppaðir teknótaktar. Í öðru lagi tekst henni í laginu að segja sögu af þeim hræðilegu atburðum sem hentu hennar nánustu fjölskyldu þegar Tatarar voru fluttir frá Krímskaganum, fjölskyldum var sundrað og fólk drepið. Að ná að tjá allt slíkt í 3 mínútur á sviði í popptónlistarkeppni er afrek. Í þriðja lagi nær hún að dansa undurvel á barmi þess að vera pólitísk í garð yfirvalda í Rússlandi vegna núverandi ástands í Úkraínu. Eftir að Úkraína tók sér hlé í fyrra vegna ástandsins er sérstaklega sterkt að snúa aftur með framlag eins og þetta. Jamala náði mér við fyrstu hlustun og ég er sannfærð um að hún kemst áfram í úrslitin og vonandi kemst hún þar hátt á blað!

Hildur segir: Eyrún hefur sannarlega rétt fyrir sér að hér er á ferðinni marglaga lag þar sem að mikilli snilld er búið að setja mjög margt saman og koma mörgu á framfæri á 3 mínútum. En snilldin fellst í mínum huga bara í því. Lagið strípað finnst mér afskaplega leiðinlegt og þar að leiðandi er erfitt að hlusta og meðtaka allt það sem Jamala er að segja okkur og við þurfum svo sannarlega að heyra. En það er samt alveg á hreinu að hún flýgur í úrslitin og verður á topp 10 sem hún má sannarlega vera.

Måns Zelmerlöv – Heroes (2015)

Þegar Månsinn mætti vorum við heitar fyrir honum en ekki alveg sannfærðar því að Hildur hafði meiri trú á Belganum og Ísraelanum en Eyrún á þeirri rússnesku og Ítölunum. Þetta sögðum við um Måns:

Álit Eyrúnar: Ég féll sko alveg í stafi þegar ég heyrði þetta lag fyrst – fannst þetta lag hafa sama „wow-factor“ og Euphoria t.d. Síðan hef ég hlustað gegndarlaust á það (þið þekkið þetta!) og það hefur sýnt sig að mínu mati að þetta er ekki alveg eins skotheld tónsmíð og sigurlag Eurovision 2012, og ég er orðin pínu leið á Måns greyinu. Þetta er samt mjög fínt popplag og svona „anthem“-lag. Með grafíkinni sem þjónar svo afskaplega vel sjónræna hluta keppninnar kemur þetta til með að slá algjörlega í gegn!

Álit Hildar: Akúrat öfugt við Eyrúnu sá ég engan vá-faktor í Heros þegar ég sá og heyrði það fyrst. Reyndar gerði það ekki heldur þegar ég sá og heyrði Euphoriu fyrst en það er önnur saga! Lagið vinnur aðeins á (svona þegar maður kemst í gegnum þennan undarlega kántrí kafla í byrjun – hver ákvað þetta eiginlega?!) en eftir að myndband við lagið án grafíkurinnar á sviðinu var gert sést svo vel hvað lagið er slakt í stúdíóúgáfu. Þess vegna er nú alveg frábært fyrir Måns að júróvision er keppni í sjónvarpi þar sem sviðssetning vegur að minnsta kosti jafn mikið og lagið!

Conchita Wurst – Rise like a Phoenix (2014)

Árið sem Pollapönkararnir fóru vorum við helst á því að Rúmenía, Austurríki og Svíþjóð myndu eiga í toppslagnum, en þetta höfðum við að segja um Conchitu:

Eyrún segir: Alveg frá því að Conchita rétt missti af sigrinum 2012 í austurrísku söngvakeppninni hef ég dáðst að henni sem karakter og því sem hún stendur fyrir: Frelsi einstaklingsins til að vera nákvæmlega eins og hann/hún kýs án þess að þurfa að passa í ákveðin hólf samfélagsins! Lagið 2012 var ekki næstum eins gott og það sem hún komst svo alla leið með í ár (kannski sem betur fer) því að nú er hún mætt til að taka þetta með trompi. Ég vonavonavona að Evrópubúar geti horft fram hjá fordómum sínum (ef þeir eru til staðar) og valið út frá besta laginu, því að lagið hennar Conchitu og flutningurinn á sannarlega að skila henni áfram í úrslitin og í toppslaginn!

Hildur segir: Conchita Conchita, hún er bara svo ótrúlega frábær! Ekki nóg með að vera stórgóð söngkona, þá hefur hún frábæra útgeislun á sviðinu, er þrælskemmtileg í viðtölum og á blaðamannafundum og nýtur sín algjörlega í sviðsljósinu. Conchita býður okkur upp á stóra ballöðu í söngleikjastíl og ef hennar söngleikjalag er borið saman við belgíska framlagið sem líka hefur vott af söngleikjastíl verður ekki annað sagt en að Conchita vinni þann belgíska í öllu, rödd, framkomu, lagi og tilfinningum! Vona jafn mikið að Conchita komist áfram og ég vona að Pólverjar komist ekki áfram!

Emmelie de Forest – Only Teardrops (2013)

Árið 2013 vorum við báðar á keppninni og vorum framan af mjög vissar um að hin litla og smámælta Emmelie frá Danmörk myndi hreinlega rústa keppninni en eftir að við komum til Malmö dró úr þessari vissu okkar (eða við komnar með hið margfræga Makedóníuheilkenni). Svona spáðum við í Emmelie:

Hildur segir: Þetta var  fyrsta lagið sem ég heyrði í keppninni í ár fyrir utan það íslenska. Ég heillaðist gersamlega af því strax við fyrstu hlustun og þrátt fyrir að hafa ekki heyrt neitt annað lag í keppninni var ég handviss um að það myndi vinna. Núna þegar ég hef heyrt öll lögin mörgum sinnum er ég enn viss um að það muni vinna. Lagið er eiginlega einskonar blanda af Euphoriu og Wild Dances, sigurlaginu hennar Ruslönu frá 2004, en samt sem áður með sinn eigin hljóm, sem gerir það að verkjum að lagið gengur algjörlega upp. Emmelie hin konungborna (eða svo segir hún að minnsta kosti!) flytur lagið líka ljómandi vel og sviðsetning í undankeppninni í Danmörku var góð svo ég stend við það sem ég segi, þetta er mjög líklegur sigurvegari í ár.

Eyrún segir: Ég er örugglega ein fárra sem er ekki haldin dönsku bakteríunni í ár. Þrátt fyrir það er þetta frambærilegasta lag en stúlkan er heldur mikið að stæla sænsku Loreen frá því í fyrra, berfætt í síðri slá með slegið hár – notar reyndar engan snjó… Ég get alveg séð winner í þessu lagi eins og margir hafa spáð (þ.á m. allir veðbankar) en þetta er ekki besta lag keppninnar að mínu mati. Mér finnst þetta svoldið eins og Danir hafi farið yfir Öresundsbrúnna, náð sér í IKEA-hillu eða Volvo og ákveðið að merkja með danska fánanum í staðinn – eða lógói Illum!

Loreen – Euphoria (2012)

Þegar Júróvisjón var í Baku vorum við sannfærðar um að það yrði undankeppnisþjóð sem ynni keppnina og spáðum í því heilmikið. Þetta höfðum við að segja um Loreen:

Eyrún segir: Loreen kemur á eftir fimm fremur pasturslitlum söngkonum og býður upp á allt annað og meira – vekur fólkið sennilega af einhverjum doða. Lagið er mjög flott dans-teknó og sviðsetningin ógleymanleg, hreyfingarnar náttúrulegar og dálítið líkar jógastöðum stundum! Laginu er spáð sigri og það er nánast fullvíst að það verður efst upp úr undanriðlinum inn í aðalkeppnina. Ég þori ekki að fullyrða að það vinni því að mér eru örlög Eistlands og Ungverjalands frá því í fyrra í fersku minni (Ungverjalandi var t.d. spáð sigri í mörgum veðbönkum en hafnaði í 22. sæti í aðalkeppninni í fyrra!) en ofarlega verður hún Loreen og á það alveg skilið því að hún er hörkusöngkona! Hvort sem lagið vinnur eða ekki, er það komið til að vera í hugum og hjörtum Eurovision-aðdáenda sem eiga eftir að raula „Euphoooooooriiiaaaa“ langt fram á næsta vetur!

Hildur segir: Þetta er líklegasta hæpaðasta lagið í keppninni í ár og það er ekki að ástæðulausu. Lagið er hörku flott júrópopp, sérlega vel útsett og frábær flutningur. Sviðsetning er líka öðurvísi en maður á að venjast og það í sambland við ógleymanlegt viðlag er nánast fullvíst að þetta fljúgi áfram í úrslit og jafnvel alla leið á toppinn. Eyrún nefnir örlög Ungverjalands í fyrra en það sem ég tel vera megin munur á þessu lagi og framlagi Ungverja í fyrra er að sviðsetning gekk engan vegin upp hjá Ungverjum í fyrra og lagið kom illa út í sjónvarpið þó það sé snilld í stúdíó útsetningu. Um Loreen og Euphoriunnar hennar gildir hins vegar allt annað. Það er hannað fyrir svið og sjónvarp. Þrátt fyrir allt þá verð ég að segja að ég skildi þetta hæp bara alls ekki í fyrstu og fannst lagið hreinlega leiðinlegt við fyrstu hlustun og gat lengi vel ekki horft á Loreen því ég sá aldrei nein svipbrigði í andliti hennar. Það er hins vegar allt liðið hjá og í dag er þetta eitt af mínu uppáhalds júróvísjonlögum. Ef margir upplifa hins vegar það sama og ég  við fyrstu hlustun má Loreen passa sig.

Ell & Nikki – Running Scared (2011)

Árið 2011 vorum við ekki alveg með puttann á púlsinum og sáum alls ekki fyrir að sigurvegarinn kæmi úr austri. Þá töldum við líklegt að Bretland, Eistland eða Svíþjóð myndu berjast um vinningssætið. Þetta höfðum við að segja um Aserbaídsjan:

Eyrún segir: Azerum hefur ávallt gengið vel í keppninni og frá byrjun 2008 hafa þeir alltaf verið í topp 10. Í ár senda þeir dúóið Ell og Nikki eða Eldar og Nigar, sem samkvæmt textanum eru hlaupandi um allt í hræðslukasti. Hvað það kemur laginu við sem er melódramatískt popp veit ekki nokkur maður en viðlagið „I’m running and I’m scared tonight“ er endurtekið ca. 1700 sinnum og ætti að vera vel innprentað í heila þeirra sem heima sitja. Azerar léku sama leikinn með góðum árangri árið 2009 en þá lenti lagið Always í 2. sæti og línan „Always in my mind, always in my heart“ kirfilega fest í minni Evrópu. Ég er viss um að þú fórst að söngla lagið í huganum, lesandi góður! Azerbaídjan fer nokkuð örugglega áfram í úrslitin!

Hildur segir: ,,Af hverju að breyta því sem vel gengur?“ gæti verið mottó Azera í þessari keppni því að núna, í fjórða skipti sem þeir taka þátt, senda þeir lag eftir sömu höfunda í annað sinn og þetta er í þriðja sinn sem höfundar laganna hafa tengingu við Svíþjóð! Lagið er eins og önnur lög sem Azerar hafa sent algjört heilalím og ég hef haft það reglulega á heilanum. Eins og Eyrún bendir á þá er textinn undarlegur og þau hlaupa og hlaupa hrædd um í nóttinni og það er eini hluti textans sem festist í heilanum svo að heilinn á manni hleypur álíka mikið um og er eiginlega líka hræddur um að þetta lag fari aldrei úr hausnum á manni! Lagið er sænskur Volvo, traustur en ekki sigurvegari og Azerar munu því fljúga áfram í úrslitin og enda ofarlega þar en ekki vinna!

Lena – Satellite (2010)

Árið 2010 vorum við líka báðar staddar í Osló og duttum í fyrsta sinn inn í Júróbúbbluna. Þetta var það sem við höfðum að segja um Lenu:

Hildur segir: Fyrst þegar ég heyrði þetta lag gat ég ekki alveg keypt það og fannst það bara frekar leiðinlegt. Ég hef hins vegar algjörlega skipt um skoðun og finnst lagið alveg frábært! Það er bara eitthvað bæði við Lenu og lagið sem gerir það ómótstæðilegt og mikið eurovision á sama tíma og það er alls ekki eurovisionlegt. Lenu er spáð góðu gengi í veðbönkunum, er rétt á hæla hinnar azerbætjinsku Safuru í toppsætið. Ég hlakka mikið til að sjá Lenu á sviðinu og spái henni góðu gengi og jafnvel sigri í ár.

Eyrún segir: Uppáhaldslagið mitt í keppninni. Ég vissi strax og ég heyrði þýska lagið að nú væri Þýskaland að vakna úr Eurovision-dvala síðustu 28 ára! Frá því að þeir unnu með Ein Bisschen Frieden hafa þeir þó tvisvar lent í öðru sæti og einu sinni í því þriðja en síðari ár hafa verið mjög slök. Í ár héldu þeir undankeppnina Unser Star fur Oslo sem voru sjö undankvöld. Lena Meyer-Landrut sigraði og er alvöru stjarna í Þýskalandi fyrir vikið, aðeins 18 ára gömul. Lagið er mjög grípandi og líflegt og maður getur varla setið kyrr þegar maður hlustar á það! Ef hún stendur sig á sviðinu og flytur þetta almennilega þá munu Þjóðverjar bjóða til veislu að ári! Það er líka kominn tími á stórþjóð – og af þeim stóru fjórum er Þýskaland langlíklegast! Go Lena!

 

Spá AUJ um seinni undankeppnina!

alltum2

Lífið heldur áfram i Júró-landi og við erum búnar að liggja yfir því hvernig seinna undankvöldið er í kvöld.

Niðurstöður spánnar á þriðjudaginn voru 7/10 hjá okkur báðum, við vorum báðar með tvö lönd inni sem hin var ekki með. Hvorug okkar hafði þó trú á pólsku gellunni og tóga-bleyjunni, eins og Gísli Marteinn benti á.

Við erum óvenju sammála um hvernig þetta fer í kvöld en þessi níu lönd teljum við báðar að fari áfram:

BÚLGARÍA
NOREGUR
KRÓATÍA
UNGVERJALAND
RÚMENÍA
EISTLAND
ÍSRAEL
HOLLAND
AUSTURRÍKI

Þá spáir Eyrún HVÍTA-RÚSSLANDI áfram en Hildur spáir MÖLTU sem tíunda landi inn. Báðar teljum við SERBÍU vera á mörkunum að komast auk þess sem HVÍTA-RÚSSLAND er á mörkunum hjá Hildi.

 

"Júróvísurnar"

Dagbók Flosa: Júró-Flosi spáir í seinni undanriðli

Flosi með vín í Vín

Flosi heldur áfram að skemmta sér í Júrólandi og gerir ýmislegt fleira en bara að fylgjast með stóra sviðinu. Hér að neðan er spá hans fyrir kvöldið í kvöld:

Þá er maður búinn að jafna sig eftir þriðjudaginn og eins og Queen sagði „Show must go on“. Ég er ekkert smá stoltur af okkar framlagi og ekkert sem hún gat gert í þessu. Við skulum sleppa neikvæðisröddum og njóta restinnar af keppninni og þess sem hún hefur upp á að bjóða.

Í gær fór ég í stórskemmtilega ferð til Chernobyl með nokkrum Íslendingum. Þessi ferð er ein af þessum augnablikum sem maður gleymir aldrei. Ég læt nokkrar myndir fylgja því að það lýsir betur hversu orðlaus ég var í þessari ferð.

En það er komið að því:

Mín 10 lönd sem fara áfram:

Austurríki: Hann er búinn að sjarma alla upp úr skónum hérna í Kænugarði og atriðið er flott á sviði. Væri alveg til í að eiga kvöldstund undir tunglinu hans með glas af rósavíni og hann syngjandi til mín.

Rúmenía: Þetta hefur bara vaxið í áliti hjá mér eftir að ég kom út. Þetta er það fáránlegt að ég elska þetta svo mikið. Það gæti unnið kvöldið en verður pottþétt í topp 3 í kvöld.

Holland: Þetta er orðið mitt uppáhalds á þessu undankvöldi og er komið í topp 5 hjá mér. Þær eru búnar að negla hvert einasta rennsli og ég fæ gæsahúð í hvert sinn. Svarti hesturinn í kvöld.

Ungverjaland: Þetta er ekki lag sem ég held mikið upp á en hann er held ég að fara áfram því að það er öðruvísi. Ég fýla reyndar sígaunahlutann en svo fer hann alveg með það þegar hann rappar.

Danmörk: Ekki lag sem ég fíla en þetta er eini söngvarinn sem getur stöðvað Svölu frá því að vera besti söngvarinn í ár. Þvílíkt sem hún neglir lagið og hún á eftir að fljúga áfram.

Króatía: Þetta atriði er rosalegt og fer áfram á því hversu furðulegt það er því að hann er líka frábær söngvari.

Noregur: Flott lag og fer áfram. Mjög flott á sviði.

Búlgaría: Þetta er eina lagið sem getur stoppað Ítalann frá sigri að ég held og eins og er. Hann er bara 17 ára og er þvílíkt flottur.

Eistland: Mitt „guilty pleasure“ í ár. Þetta lag gæti dottið út en ég vona að það fari áfram.

Ísrael: Þegar maður horfir á hvaða lög komust áfram á þriðjudaginn þá fer þetta áfram þó að hann geti ekki sungið og atriðið ekkert spes. Þetta er hresst og skemmtilegt lag og hann endar „showið“.

 

Sögustund AUJ: Sovéski draumurinn um Nínu… eða Júróvisjón…

Nú, þegar Júróvisjón-keppnin er haldin í Úkraínu og við höfum ekki farið varhluta af hinu kalda andrúmslofti sem ríkir milli heimamanna og gömlu herraþjóðarinnar Rússa (sjá hér), finnst okkur á Allt um Júróvisjón tilvalið að grafa aðeins í sögubókunum og rifja upp tímann þegar járntjaldið var enn uppi. Þá reyndu Sovétmenn að endurskapa Júróvisjón sín megin af þeirri ástæðu að Sovétríkin voru ekki meðlimur í sjónvarpssambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU). Kommúnistaáróðursmaskínan notaði því tækifærið og sagði þegnunum að allt sem vestrið gerði, gæti kommúnisminn gert betur. Útkoman varð Intervision Song Contest.

Aldrei heyrt um hana? Ekki skrýtið, því að hún var einungis haldin fjórum sinnum. Fimm sinnum ef við teljum endurlífgunina með árið 2008. Nú eru langflestar þjóðir, sem áður voru hinum megin við járntjaldið, þátttakendur í Júróvisjón og hafa jafnvel náð góðum árangri þar.

Forsagan

forestopera1

Skógaróperan í Sopot (Forest Opera)

Intervision-söngvakeppnin var haldin á árunum 1977 til 1980 af sjónvarpssambandi austurblokkarinnar Intervision. Hún var haldin í strandbænum Sopot í Póllandi í Skógaróperunni, sem tekur 4.400 manns í sæti. Þar hafði frá árinu 1961 verið haldin falleg lagakeppni (Sopot International Song Festival) sem miðaðist við að fá alþjóðlega flytjendur hvaðanæva úr heiminum til að koma til Póllands og flytja falleg pólsk sönglög. Í Sopot-keppnina komu m.a. flytjendur frá Kúbu, Dóminíkanska lýðveldinu, Mongólíu, Nýja-Sjálandi, Nígeríu, Perú og Suður-Afríku.

Stofnandi Sopot-keppninnar var hinn þekkti píanóleikari Władysław Szpilman (sem Polanski gerði myndina The Pianist um árið 2002). Ólíkt Júróvisjón, var oft skipt um vinningsformúlu í Sopot-keppninni og t.d. var tvískipt keppni árið 1980 þegar fjórða Intervision-keppnin var haldin; annars vegar meðal sjónvarpsstöðva og hins vegar plötufyrirtækja.Intervision_logo.svg

Keppendur og sigurvegarar í Intervision 1977-1980

Alls tóku 28 þjóðir þátt í þeim fjórum Intervision-keppnum sem haldnar voru í lok áttunda áratugarins og blábyrjun þess níunda. Af þeim eru 18 Evrópuþjóðir sem í dag taka þátt í Júróvisjón – en auk þeirra þjóðir eins og Kanada, Kúba, Marokkó og Tajikistan, Kasakstan o.fl. fyrrum Sovétþjóðir, sem ekki eru hluti af EBU.

Lögin sem flutt voru í keppnunum voru (eins og myndböndin hér fyrir neðan bera með sér) undir sterkum austantjaldsáhrifum, en áttu í raun að líkjast vestrænni popptónlist – það var nálgunin hjá hinum háu herrum kommúnismans. Segja mætti að það hafi verið popptónlist sem var alltaf í moll – því að sovéski bragurinn hélst út í gegn.

Árið 1977 var fyrsta keppnin haldin 24.-27. ágúst undir merkjum Intervision og keppendur voru fjórtán talsins. Tékkneska söngkonan Helena Vondráčková bar þá sigur úr býtum en hún flutti tvö lög í keppninni. Lagið „Litla málaða krukkan“ tryggði henni sigur:

Árið 1978 sigruðu Sovétríkin með fulltrúa sínum, Öllu Pugachevu, sem söng lagið Vsyo Mogut Koroli, „Konungar geta gert hvað sem er“:

Árið 1979 sigraði hinn pólski Czeslaw Niemen með lagið Nim Przyjdzie Wiosna eða „Vorið kemur“:

Síðast en ekki síst ber að nefna keppanda Finnlands sem bar sigur úr býtum í Intervision-keppninni árið 1980, Marion Rung. Finnar eiga, eins og við vitum, fremur dapurlega sögu í Júróvisjón (þar til Lordi kom til sögunnar) og því var þessi sigur þeirra í „hinni“ söngvakeppninni mjög dýrmætur og Marion var mikið fagnað í heimalandinu. Á þessum tíma var Finnland einnig eina þjóðin sem tók þátt í báðum keppnum og hafði því afar sérstaka stöðu, sem kommúnískir ráðamenn voru ekki að öllu leyti sáttir við. Marion flutti lagið „Hvar er ástin“ – sem hefði vel átt heima í Júróvisjón þess tíma 🙂

Hvað varð svo um Intervision?

Strax árið 1981 var Intervision í Sopot frestað vegna hræringa í verkalýðsmálum í Póllandi. Upptök þessarar nýju baráttu voru steinsnar frá Sopot og mótmælin voru tímasett þannig að hin alþjóðlega umfjöllun sem Intervision-keppnin átti von á myndi enn fremur varpa ljósi á stöðu verkalýðisins um leið. Einn hinna pólsku söngvara sem átti að troða upp á Intervision 1981 hafði að sögn í huga að flytja lagið „Húsið okkar brennur“ – það segir ýmislegt um ástand mála! Stuttu seinna voru sett herlög í landinu og smám saman fór að molna undan sovétkommúnismanum með falli Berlínarmúrsins um 8 árum seinna. Sopot-söngvakeppnin sneri þó aftur seinna undir upprunalegum formerkjum og nýtur enn í dag nokkurra vinsælda.

Var Intervision vinsæl?

Þýðing þessarar skammlífu söngvakeppni var ekki síst sú fyrir þjóðir austan járntjaldsins að fá örlitla innsýn í tónlist úr hinum vestræna heimi. Ástæðan var ekki sú að lögin sem kepptu hafi verið vestræn nema að litlu leyti, heldur ekki síst að skemmtiatriðin í hléum voru oftar en ekki í höndum heimsþekktra listamanna sem fólk vissi af en heyrði aldrei neitt af í útvarpi eða sjónvarpi kommúnismans. Dæmi um þetta eru Boney-M, Gloria Gaynor og Petula Clark sem tróðu upp í Intervision. Þetta er e.t.v. skýring á gríðarlegum vinsældum Boney-M í austur-Evrópu á árum áður.

Intervision 2.0 til höfuðs „úrkynjaðri Evrópu“

Eftir sigur Mariju Serifovic árið 2007 með Verku Serduchku í öðru sæti í Júróvisjón töldu yfirvöld í Rússlandi að nú yrði að bregðast við því sem hlaut að vera „afbrigðileg þróun í tónlistarsköpun“ í þessari tónlistarkeppni sem þjóðir fyrrum austantjaldslanda voru flestar farnar að taka þátt í (og ganga ágætlega). Því var lagt til að endurreisa Intervision á nýjan leik. Nýtt skipulag var tekið í gagnið og keppnin var haldin í rússnesku borginni Sochi, þar sem vetrarólympíuleikarnir voru haldnir árið 2014. Samband sjónvarpsstöðva í fyrrum Sovétríkjunum og Kína tóku þátt og alls voru þátttökuþjóðir 11 talsins. Keppnin var á fjórum kvöldum; á hinu fyrsta var keppt með frumfluttum lögum, á öðru kvöldi með smellum frá 20. öldinni, á því þriðja með alþjóðlegu lagi fluttu á þjóðtungu (sem best hentaði ímynd hvers keppanda og á því fjórða áttu flytjendur að flytja eigin smelli í Grand Final og þá voru verðlaun veitt fyrir heildarkeppni hinna fjögurra kvölda.

Sigurvegarinn árið 2008 var Tahmina Niyazova sem flutti í Grand Final Mariuh Carey-slagarann Hero á nokkuð hræðilegri ensku en frumflutti einnig þetta hér:

Það varð þó úr að aðeins þessi eina keppni var haldin með breyttu sniði því að, obbosí, Rússar tóku sig til og unnu Júróvisjón 2008 og héldu keppnina 2009 í Moskvu eins og frægt er orðið.

Ekki var því þörf fyrir Intervision að sinni. Sú þörf kom ekki aftur fyrr en 2014 þegar Conchitan okkar vann í Kaupmannahöfn og Júróvisjón, sem Rússar höfðu haldið með miklum bravúr og ærnum tilkostnaði fimm árum áður, varð aftur „ímynd hinnar úrkynjuðu vestrænu Evrópu“. Til stóð að endur-endurvekja Intervision í október 2014 en því var frestað um óákveðinn tíma og enn er ekkert útlit fyrir að Intervision, sem átti sannarlega að kollvarpa Júróvisjón, sé líkleg til að gera neinar gloríur á ný.

 

Heimildir:

http://www.bbc.com/news/magazine-18006446 
Wikipediu-greinar
http://de.euronews.com/2015/03/26/intervision-der-andere-liederwettbewerb 

 

Spá AUJ fyrir fyrri undankeppnina!

alltum2

Gleðilegan keppnisdag! Í kvöld hefst keppnin fyrir alvöru þegar fyrri undanriðillinn fer í loftið. Svala okkar keppir í kvöld og eftir búningaæfingu og dómararennsli í gær er hún meira en tilbúin í slaginn. Keppnin í kvöld verður hörð og margir sem eiga möguleika á að komast áfram.

Við erum ekki alveg sammála um hverju við spáum áfram en erum sammála um að eftirfarandi átta þjóðir fari áfram í kvöld:

SVÍÞJÓÐ
ÁSTRALÍA
PORTÚGAL
FINNLAND
ARMENÍA
MOLDÓVA
ÍSLAND
ALBANÍA

Eyrún spáir því að til viðbótar fari GRIKKLAND og ASERBAÍDSJAN áfram og Hildur BELGÍA og KÝPUR fari áfram.

Í svo jöfnum undanriðli var erfitt að spá og teljum við að Svartfjallaland gæti blandað sér í baráttuna um sætið í úrslitunum. Með því erum við samtals með 13 framlög af þeim 18 sem keppa í kvöld á lista yfir þau sem eiga möguleika á að komast áfram. Þá teljum við að ballöðudrottningarnar frá Georgíu, Póllandi og Tékklandi munu lúta í lægra haldi fyrir fyrir frábærum ballöðum Finna og Ástrala. Loks teljum við að þrátt fyrir yfirgnæfandi tölfræði um að lögin sem eru seinust á svið komist áfram teljum við að Slóvenía og Lettland sitji eftir í kvöld – þetta þykja okkur ekki merkileg lög og spennandi að sjá hvort þessi kenning stendur!

"Júróvísurnar"

Eyrún Ellý Valsdóttir & Hildur Tryggvadóttir Flóvenz

 

Gamalt uppáhalds! – Verka Serduchka – Dancing Lasha Tumbai

1EEVEyrún skrifar: 

Þegar kemur að því að velja gamalt uppáhalds frá Úkraínu, er valið ekkert sérstaklega erfitt. Það hlýtur að vera Verka Serduchka sem keppti árið 2007, sem allir júróaðdáendur þekkja út og inn; jafnt dansinn sem bullutextann á ensku/þýsku/úkraínsku/rússnesku, glimmergallana með 69 (vísun í þið vitið hvað) á bakinu á Verku og 18 á bakinu á dönsurunum (vísun í númer lagsins á svið).

Aahh, þarna náði Júróvisjón mögulega að fullkomna sig í einni glimmerkúlu með stjörnu á toppnum 🙂

Því miður tapaði Verka fyrir Molitvu (ok, kannski ekki því miður…) með aðeins 33 stigum. Molitva sigraði með 268 stigum en Verka fylgdi fast á hæla hennar með 235 stig. Það er nú nokkuð sannfærandi annað sæti. En svona er það; sumir vinna keppnina, aðrir verða goðsagnir!

8_4f74912c1c719

Verka er hugarfóstur og alter-ego grínistans og popptónlistarmannsins Andriy Danylko og nú hefur Verka selt yfir 600.000 plötur í heimalandinu. Hún var þó ekki sköpuð fyrir Júróvisjón, heldur hefur verið í þróun frá árinu 1990 og sem Verka tróð Andriy upp á leiksýningum og uppistöndum víðsvegar í heimalandinu. Hún var síðan valin sem fulltrúi Úkraínu í Júróvisjón 2007 þrátt fyrir nokkur mótmæli heima fyrir og margir töldu hana of „gróteska og ógeðfellda“ fyrir sjónvarpið. En hún fór þó með sitt Lasha Tumbai og dansaði. Titillinn lagsins olli talsverðu fjaðrafoki því að hann hljómar dálítið eins og „Russian Goodbye“. Þegar Verka var spurð út í nafnið á laginu fullyrti hún að þetta væri mongólska og þýddi „þeyttur rjómi“. Það var seinna hrakið af Mongólum sem spurðir voru út í það í rússneska sjónvarpinu svo að enn um sinn verður þessi titill að teljast ráðgáta (eða bara algjört bull!).

Nú síðast árið 2015 má segja að Verka sé á barmi heimsfrægðar eftir að hafa komið fram í bandarísku bíómyndinni Spy með Melissu McCarthy í aðalhlutverki, en þar flytur hún einmitt snilldina sína frá 2007: