12

Sögustund AUJ: Sigur í Júró – lagið eða lookið?

Allt á suðupunkti eftir úrslitin og Jamala sigurvegarinn frá Úkraínu er sannarlega á allra vörum. Margar raddir hafa verið uppi um að aðrir hafi átt sigurinn skilinn/betri lög en við vitum auðvitað að það er bara einn sigurvegari og „the winner takes it all“

Við settumst niður við youtube (sem er allra nörda besti vinur þegar kemur að Júróvisjón!) og fórum að spá í gömlu sigurvegurunum. Hvaða ex-faktor höfðu þeir? Var það þessi gullna melódía sem náði að tryggja sigurinn? Eða var það kannski eitthvað annað? Við vitum jú að í þessari sjónvarpskeppni er ýmislegt annað sem hefur áhrif á áhorfendur og þær tölur sem þeir velja af skjánum. Það þarf þessa auka tengingu við myndavélar, vel útfært atriði og sjarma, alveg böns af sjarma. Er sjarmi þá kannski bara nóg?

Hér fyrir neðan er listi yfir síðustu tuttugu sigurvegara í Júróvisjón-keppninni og þær ástæður sem við teljum vera að baki sigrinum:

Ár Sigurland Flytjandi og lag Ástæða sigurs að mati AUJ
1996 Írland Eimear Quinn „The Voice“ Laglína
1997 Bretland Katarina & the Waves „Love Shine a Light“ Laglína
1998 Ísrael Dana International „Diva“ Laglína og kynþokki
1999 Svíþjóð Charlotte Nilsson „Take me to your heaven“ Kynþokki
2000 Danmörk Olsen-bræður „Fly on the wings of love“ Laglína
2001 Eistland Tanel&Dave „Everybody“ Laglína
2002 Lettland Marie N „I wanna“ Laglína
2003 Tyrkland Sertab Erener „Everyway that I can“ Laglína
2004 Úkraína Ruslana „Wild Dances“ Laglína
2005 Grikkland Helena Paparizou „My Number One“ Kynþokki
2006 Finnland Lordi „Hard Rock Hallelujah“ (Kyn)þokki og laglína (?)
2007 Serbía Marija Serifovic „Molitva“ Laglína
2008 Rússland Dima Bilan „Believe“ Kynþokki
2009 Noregur Alexander Rybak „Fairytale“ Laglína
2010 Þýskaland Lena „Satellite“ Kynþokki
2011 Aserbaídsjan Ell & Nikki „Running Scared“ Laglína eða (?)
2012 Svíþjóð Loreen „Euphoria“ Laglína
2013 Danmörk Emmelie de Forest „Only Teardrops“ Laglína
2014 Austurríki Conchita Wurst „Rise like a Phoenix“ Kynþokki
2015 Svíþjóð Måns Zelmerlöw „Heroes“ Kynþokki

Þegar við lögðum af stað með þetta sáum við þetta svart/hvítt; annaðhvort væri laglínan málið eða sjarminn. En við sjáum strax af þessum lista að vandkvæði eru þar á. Árin 1998 og  2006 sigruðu nefnilega lög sem höfðu talsvert af hvoru tveggja þó að misjafnar skoðanir geti verið um „kyn“þokka Lordi og félaga. Við klórum okkur líka dálítið í hausnum yfir 2011 – hvað höfðu þau Ell og Nikki? Sjarma? – afar takmarkaðan; okkur fannst þau dálítið eins og móðir og sonur og afskaplega lítið kemestrí. Góða laglínu? Tæplega, lagið þeirra er sennilega minnst spilaði sigurvegari ever! Gæti verið að orðrómurinn um að Aserbaídsjan hafi haft óhreint í pokahorninu sé sannur? Kannski erum við samt bara að missa af einhverju.

Alls eru þetta tuttugu lög og af þeim eru 11 lög klárlega með vinningslaglínur – á því leikur enginn vafi! Flóðhestur með hálsbólgu hefði getað sungið Molitvu og unnið, ef hann hefði verið sviðsettur á réttan hátt! Af þessum lista teljum við 6 lög klárlega hafa unnið út á sjarma viðkomandi flytjanda, skemmst að minnast Måns í fyrra. Jújú, lagið var ágætlega grípandi en hann hefði mögulega getað sungið Attikatti nóa og unnið með því! Fyrstu árin hafði enskan í laglínunni sitt að segja en við getum sagt að bomburnar Charlotte Pirelli og Helena Paparizou hafi rokkað kynþokkann á sviðinu og þar með var ekki aftur snúið!

Við sjáum líka að af þessum fyrrum tuttugu sigurvegurum voru aðeins tveir sem sungu á öðru tungumáli en ensku; 1998 þegar Dana International söng á hebresku og 2007 þegar Marija Serifovic söng á serbnesku. Nú hefur Jamala bæst í hópinn með hluta af laginu 1944 á krím-tatarísku.

Nú er spurning hvað hafi orðið til þess að Jamala vann. Vissulega hafði hún heilmikinn sjarma á sviðinu en laglína lagsins er ekki svo sterk að hún lifi endalaust (nema í höfðum okkar júrónördanna sem höfum hlustað á lagið í þrjá mánuði!) Líklega verður að segjast að hér hafi saga lagsins/boðskapurinn orðið hinu yfirsterkara – í fyrsta sinn í hartnær 20 ár! Lagið hennar Conchitu hafði jú boðskap en sviðsframkoman hennar var samt mun áhrifameiri sem slík heldur en umfjöllunarefni textans.

Við fögnum því að alvöruþrungið lag geti líka unnið þessa gleðikeppni þar sem lítið hefur farið fyrir þeim undanfarið og Jamala er vel að sigrinum komin 🙂 Hlustið endilega á plötuna hennar á Spotify, verðið ekki svikin af því!

Úkraínskur sigur í Júróvisjón 2016!

ap68821

Mynd: Andres Putting (EBU)

Jæja, við erum loksins búnar að jafna okkur eftir gærkvöldið – þvílíkt show og þvílík spenna í lokin! Við vorum nærri dottnar fram úr sætinu í stigagjöfinni og tárin spruttu fram þegar ljóst var að Davíð hafði sigrað Golíat og Úkraína bar sigur úr býtum. Við vorum ekkert sérstaklega sannspáar með topp tíu, jah og þó – við höfðum 6 lög þar inni af 10.

Að okkar mati átti Jamala algjörlega fyllilega sannarlega skilið að vinna – flutningurinn var hjartnæmur og fullkominn! Mikið hefur verið rætt um óeftirminnilegt lag og að þetta sé ekki Júróvisjón-lag sem eigi eftir að lifa. Það má alveg deila um það en hitt er alveg ljóst: Jamala samdi og flutti lagið af þvílíkri innlifun að enginn varð ósnortinn á þeirri stundu og þar með lifði það af undanúrslitin og komst á toppinn á úrslitakvöldinu. Er hægt að biðja um meira? Þetta er e.t.v. engin Euphoria en þarf sigurlagið alltaf að vera það?

13173770_993896293979919_1879893785799126068_n

Og já, JT var algjörlega æðislegur… hversu stórkostlegt að fá hann svona inn? Og skemmtiatriðið Love love peace peace er sænskt meistaraverk sem við eigum eftir að hlæja að langt fram á sumar!

Hér er nánari útlistun á úrslitunum gærkvöldsins og stigagjöf á undankvöldunum (via escdaily.com)

LAND SÍMA-KOSNING DÓM-NEFND BLANDAÐ
1 Úkraína 323 211 534
2 Ástralía 191 320 511
3 Rússland 361 130 491
4 Búlgaría 180 127 307
5 Svíþjóð 139 122 261
6 Frakkland 109 148 257
7 Armenía 134 115 249
8 Pólland 222 7 229
9 Litháen 96 104 200
10 Belgía 51 130 181
11 Holland 39 114 153
12 Malta 16 137 153
13 Austurríki 120 31 151
14 Ísrael 11 124 135
15 Lettland 63 69 132
16 Ítalía 34 90 124
17 Aserbaídan 73 44 117
18 Serbía 80 35 115
19 Ungverja-land 56 52 108
20 Georgía 24 80 104
21 Kýpur 53 43 96
22 Spánn 10 67 77
23 Króatía 33 40 73
24 Bretland 8 54 62
25 Tékkland 0 41 41
26 Þýskaland 10 1 11

Niðurstöður kosningar í fyrri semi-final:

LAND SÍMA-KOSNING DÓMNEFND BLANDAÐ
1 Rússland 194 148 342
2 Armenía 116 127 243
3 Malta 54 155 209
4 Ungverjaland 119 78 197
5 Holland 95 102 197
6 Aserbaídsjan 93 92 185
7 Austurríki 133 37 170
8 Kýpur 93 71 164
9 Tékkland 41 120 161
10 Króatía 53 80 133
11 Bosnia & Herzegóvína 78 26 104
12 San Marinó 49 19 68
13 Svartfjallaland 14 46 60
14 Ísland 24 27 51
15 Finnland 16 35 51
16 Grikkland 22 22 44
17 Moldóva 9 24 33
18 Eistland 15 9 24

Niðurstöður kosningar úr seinni semi-final:

LAND SÍMA-KOSNING DÓMNEFND BLANDAÐ
1 Ástralía 142 188 330
2 Úkraína 152 135 287
3 Belgía 135 139 274
4 Litháen 118 104 222
5 Búlgaría 122 98 220
6 Pólland 131 20 151
7 Ísrael 20 127 147
8 Lettland 68 64 132
9 Georgía 39 84 123
10 Serbía 50 55 105
11 Makedónía 54 34 88
12 Hvíta-Rússland 52 32 84
13 Noregur 34 29 63
14 Slóvenía 8 49 57
15 Írland 31 15 46
16 Albanía 35 10 45
17 Danmörk 24 10 34
18 Sviss 3 25 28

Þá er bara að snúa sér að PED-inu og byrja að telja niður í gleðina á næsta ári!

Yfirferð laga 2016 – 38/43 Frakkland

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Amir – J’ai cherché
Besti árangur: 1. sæti 1958, 1960, 1962, 1969 og 1977
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Ég leita þín
Uppáhaldið okkar:  Natasha Saint-Pier – Je N’ai Que Mon âme og Sebastíen okkar Tellier – Divine

Hildur segir: Það er ekki vaninn hjá Frökkum að senda hefðbundið popplag í Júróvisjon. Venjulega gera þeir bara það sem þeir vilja og senda allskonar, misskemmtilegt sem þó setur yfirleitt alltaf svip sinn á keppnina. Það er einmitt þessi fjölbreytni oft á tíðum sem gerir keppnina skemmtilega. Sjálf er ég ekki aðdáandi Frakka í keppninni og finnst framlög þeirra mjög oft leiðinlegt. Kannski er það franskan, sem mér hefur alltaf þótt leiðinlegt sem söngmál, kannski eitthvað annað, ég hreinlega veit það ekki. Í ár syngja þeir á blandi af frönsku og ensku, svolítið hefbundið popplag bara sem hinn hrikalega myndarlegi Amir syngur. Með framangreint í huga kom það mér á óvart að í upphafi fannst mér lagið skemmtilegt. Eftir frekar hlustun og eftir því sem tíminn líður þykir mér þó lagið verða leiðigjarnt og velti fyrir mér hvort Amir hafi hreinlega komið aðeins of snemma.

Eyrún segir: ÉG ELSKA FRAKKLAND. ÉG ELSKA AMÍR. Þar hafið þið það! Lagið er vissulega undir áhrifum frá vinsælum popplögum og jafnvel Heroes frá því í fyrra. En það skiptir ekki máli, sjarminn er svo mikill og brosið er svo stórt. Ég voooona að Amír nái að sjarmera (ef það er einhver sem kann að tjá sig í gegnum myndavélina er það hann) restina af Evrópu því að mig langar til Frakklands á næsta ári 🙂

frakkland_amir

 

Yfirferð laga 2016 – 35/43 Georgía

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Nika Kocharov & Young Georgian Lolitaz – Midnight Gold
Besti árangur: 9. sæti 2010 og 2011.
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Britpoppið í miðnæturbjarmanum
Uppáhaldið okkar:  Sofia Nizharadze – Shine

Eyrún segir: Það fer alltaf minna og minna fyrir rokki í Júróvisjón en hérna kemur pínu skemmtilegt brit-popp sem er m.a. eftir Thomas G:son sem Júróaðdáendur þekkja frá Euphoriu og fleiri lögum. Ef mér skjátlast ekki kemur hann nálægt tveimur lögum í keppninni í ár. Ég heyri voða mikið Oasis í þessu lagi og finnst það bara nokkuð gott lag og frekar frambærilegt. Gæti trúað að það komist áfram.

Hildur segir: Hér er á ferðinni einhver undarleg blanda af 90’s brit-poppi og Beck Hansen sem gæti hafa verið B-hlið á semi vinsælli smáskífu. Þetta er lagið sem allir þeir, sem eru of góðir með sig til að viðurkenna að vinsæla lagið sé skemmtilegt, hlusta á. Það er í raun ótrúlegt að lagið sé eftir Thomas G:son, þann margreyndar Júróvisjon höfund því það er eins og höfundarnir hafi allt í einu fattað að mínúturnar þrjár voru liðnar svo það var bara klippt á lagið! Þetta mun ekki gera neinar gloríur nema Evrópa verði í 90’s nostalgíukasti.

gerogia

Yfirferð laga 2016 – 34/43 Noregur

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Agnete – Icebreaker
Besti árangur: 1. sæti 2009, 1995 og 1985
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Sendu mér hjálparbeiðni
Uppáhaldið okkar:  Jostein Hasselgård – I’m not afraid to move on

Eyrún segir: Vá, hvað ég varð fyrir sjúklega miklum vonbrigðum þegar Laikan mín vann ekki í NMGP í ár! Ég var svekkt í marga daga út í Agnete sem mér fannst fölsk og syngja þrjú lög í einu. Ég get nú ekki sagt að ég sé 100% búin að taka hana í sátt, en lagið finnst mér reyndar mikið skárra núna. Það venst. Sem er reyndar ekkert alltof gott þegar um Júróvisjón-framlag er að ræða. Ég er enn sannfærð um að Noregur hefði gert mun betur með Laiku og Hungry Hearts í Stokkhólmi – en Agnete verður þeim nú tæpast til skammar, held ég!

Hildur segir: Vá hvað ég varð fyrir sjúklega miklum vonbrigðum þegar Laila mín vann ekki NMGP í ár! Ég var svekkt í marga daga út í Agnete sem mér fannst fölsk og syngja þrjú lög í einu. Ég get nú ekki sagt að ég sé 100% búin að taka hana í sátt, en lagið finnst mér reyndar mikið skárra núna. … Voruð þið hætt að lesa af því þið hélduð að við hefðum óvart sett sama textann?! Svo var aldeilis ekki en núna erum við bara mjög sammála um vinningslagið, þó við séum ósammála um hver hefði átt að vinna. Þó Agnete muni sjálfsagt standa sig vel á sviðinu í Stokkhólmi þá er lagið ekkert sérstakt, Agnete ekki lifandi í myndavélunum, atriðið leiðinlegt og svo læt ég neglunar á henni fara í taugarnar á mér. Hvernig er hægt að lifa eðlilegu lífi með svona langar neglur?! Ég er rétt eins og Eyrún enn sannfærð um að Norðmenn hefðu gert mun betur með Lailu mína já, nú eða Laikan og Hungry Hearts en þær verða allar að bíða betri tíma meðan ísdrottning nýtur sín.

noregur_agnete

Gestapenni AUJ: Haukur í Stokkhólmi

Undirbúningur Svía fyrir Eurovision – Been there, done that 

Svíar eru skipulagt fólk og undirbúningur fyrir Eurovision sem hefst hér í Stokkhólmi eftir örfáar vikur er að öllum líkindum akkúrat á áætlun – þó svo að Euroclub sé enn ekkert nema gegnsæ stálgrind fyrir framan konungshöllina.

Haukur

Haukur er búsettur í Stokkhólmi.

Við sem vorum í Malmö 2013 vitum líka að Svíar vita hvernig á að gera þetta. Aðdáendur skipa stóran sess og hvert stræti og torg mun líklega anga af Eurovision þegar tíminn kemur.

Þetta vitum við, eða vonum allavega, eftir reynsluna í Malmö. Það er þó eitt sem hefur vakið athygli mína og það er að almenningur í þessu annars Eurovision og schlager-elskandi landi virðist ekki alveg vera með á nótunum. Það fer lítið fyrir fréttum um framkvæmdirnar í Globen, ekkert drama eða last-minute kaos virðist hafa komið upp og satt best að segja er það tilfinning mín að margir viti ekki einu sinni hvort Eurovision muni fara fram í Globen eða einhvers staðar annars staðar, jafnvel í annarri borg.

Globen í Stokkhólmi.

Þetta er mikill munur frá aðdraganda keppninnar í Malmö. Loreen var fagnað sem þjóðhetju og spennan fyrir því að bjóða sjónvarpsaðdáendum að bragða frekar á hinu “sænska tónlistarundri”, eins og þeir kalla það, var mikil. Það var líka reginskandall þegar hnossið fór ekki einu sinni til annarrar heldur ÞRIÐJU stærstu borgarinnar, í stað Stokkhólms sem þá hafði nýopnað stærsta tónleikavettvang Norðurlandanna (Friends Arena). Fréttir voru fluttar af barnakórum sem æfðu sig fyrir stóru stundina og slúðrað var um það hver yrði kynnir.

Nú er öldin önnur. Loreen virðist hafa sprengt á kýli sem hafði angrað þjóðina árum saman en þegar þrýstingnum var sleppt úr þeirri blöðru virðist hafa tekið við sú hugsun að þetta sé nú ekki neitt stórmál. Eins og þjóðin hafi climaxað en vilji nú bara slaka á í stað þess að taka einn snúning í viðbót. Svíar séu nú hvort sem er á leiðinni að stela krúnunni af Írum sem sigursælasta þjóðin í Eurovision og kannski ekki svo smart að vera að gera of mikið mál úr því.

En þrátt fyrir þetta þurfa aðdáendur ekki að örvænta því staðreyndin er eftir allt sú að í Svíþjóð eru schlager og Eurovision alltaf nærverandi. Þeir sem fóru á Eurovision í Rússlandi og Aserbaídsjan kvörtuðu yfir því að hvergi væri hægt að fá að dansa við Eurovision-tónlist. En í Svíþjóð eru alltaf jól fyrir Eurovision-aðdáendur. Heilu skemmtistaðirnir eru helgaðir schlager og Eurovision allan ársins hring og á hommaklúbbunum er alltaf eitt dansgólf þar sem eingöngu Eurovision-tónlist er spiluð. Eurovision-nördar munu líka kannast við forsíðuefni helstu tímarita og sjá tónleikaauglýsingar fyrir andlit sem við öll þekkjum. Fyrri keppendur falla nefnilega aldrei í gleymsku, næstum því eins og forseti sem fær laun til æviloka. Að Önnu Bergendahl frá 2010 undantekinni enda hefur þjóðin aldrei jafnað sig almennilega á sjokkinu þegar hún komst ekki í úrslitin en Anna hefur flúið land og er reyndar óþekkjanleg í dag.

Anna Bergendahl. Eina flopp Svía hin síðari ár.

Þar að auki eru Svíar fagmenn fram í fingurgóma og þeir hafa tekið sér stöðu með aðdáendum. Þetta á að vera hátíð fyrir okkur og þess vegna getum við treyst því að okkar bíður mikið stuð og mikið gaman og að þótt það sjáist ekki núna þá verður borgin alveg örugglega komin í schlager-dívukjólinn akkúrat á þeim degi sem það stendur í dagbókinni þeirra… líklega í viku 17 eins og þeir myndu orða það.

Þetta er Haukur Johnson R. Ólafsson sem talar frá Madr… Stokkhólmi.

Yfirferð laga 2016 – 33/43 Úkraína

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Jamala – 1944
Besti árangur: 1. sæti 2004  með Ruslönu
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Látið okkur vera
Uppáhaldið okkar:  Ruslana, Verka og Tina Karol 

Eyrún segir: Gæsahúð alla leið! Það er svo ótrúlega flott og marglaga, framlag Úkraínumanna í ár. Í fyrsta lagi er þetta stórgóður flutningur hjá hæfileikaríkri söngkonu sem er með svo fallegan Austur-Evróputón í röddinni. Lagið er mjög ethnískt en um leið heyrast poppaðir teknótaktar. Í öðru lagi tekst henni í laginu að segja sögu af þeim hræðilegu atburðum sem hentu hennar nánustu fjölskyldu þegar Tatarar voru fluttir frá Krímskaganum, fjölskyldum var sundrað og fólk drepið. Að ná að tjá allt slíkt í 3 mínútur á sviði í popptónlistarkeppni er afrek. Í þriðja lagi nær hún að dansa undurvel á barmi þess að vera pólitísk í garð yfirvalda í Rússlandi vegna núverandi ástands í Úkraínu. Eftir að Úkraína tók sér hlé í fyrra vegna ástandsins er sérstaklega sterkt að snúa aftur með framlag eins og þetta. Jamala náði mér við fyrstu hlustun og ég er sannfærð um að hún kemst áfram í úrslitin og vonandi kemst hún þar hátt á blað!

Hildur segir: Eyrún hefur sannarlega rétt fyrir sér að hér er á ferðinni marglaga lag þar sem að mikilli snilld er búið að setja mjög margt saman og koma mörgu á framfæri á 3 mínútum. En snilldin fellst í mínum huga bara í því. Lagið strípað finnst mér afskaplega leiðinlegt og þar að leiðandi er erfitt að hlusta og meðtaka allt það sem Jamala er að segja okkur og við þurfum svo sannarlega að heyra. En það er samt alveg á hreinu að hún flýgur í úrslitin og veður á topp 10 sem hún má sannarlega vera.

ukraina_jamala