Söngvakeppnin í 30 ár – 4. hluti: Dr. Eurovision

Sögu Söngvakeppninnar má skipta upp í nokkur tímabil. Þar ber þó helst að nefna árin sem lög voru handvalin af RÚV til að fara fyrir okkar hönd á móti þeim tímabilum þegar RÚV hélt keppni þar sem lag var valið með kosningu.

789653Einn þeirra lagahöfunda sem siglt hefur í gegnum hvort tveggja (val og keppni) er Sveinn Rúnar Sigurðsson, sem kallaður hefur verið Dr. Eurovision þar sem hann hefur komið metfjölda laga í Söngvakeppnina; alls 14 lög í sjö keppnum, eitt valið (Heaven) og annað kosið (Valentine Lost)! Hann státar af því að eiga þrjú lög í þremur Söngvakeppnum; árin 2006, 2012 og 2013; og tvö lög í keppninni 2007.

 

Hér er afrekaskráin sem er ekkert smá:

Ár Lagaheiti Flytjendur
2003 Með þér Dísella og Guðrún Árný
2004 Heaven Jónsi
2006 100% hamingja Heiða Ólafs
2006 Mynd af þér Birgitta Haukdal
2006 Útópía Dísella
2007 Valentine Lost (Ég les í lófa þínum) Eiki Hauks
2007 Draumur Hreimur Örn
2012 Hugarró Magni
2012 Leyndarmál Íris Hólm
2012 Stund með þér Rósa Birgitta
2013 Ekki líta undan Magni
2013 Til þín Jógvan og Stefanía
2013 Augnablik Erna Hrönn
2015 Augnablik Stefanía Svavarsdóttir

Eins og sést keppti Sveinn Rúnar fyrst í Söngvakeppninni árið 2003 með laginu Með þér sem Dísella og Guðrún Árný sungu. Ári seinna átti hann lagið Heaven með Jónsa sem valið var til að keppa í Eurovision. Þrjú lög hans rötuðu í keppnina 2006 og tvö ári síðar þegar lag hans Ég les í lófa þínum/Valentine Lost með Eika keppti í Helsinki. Sveinn Rúnar átti þrjú lög í hvorri keppni 2012 og 2013 og að lokum eitt lag í síðustu Söngvakeppni.

Ef einhver hefur reynsluna af því að keyra mörgum og mismunandi lögum í gegnum Söngvakeppni Sjónvarpins þá er það Sveinn Rúnar. Hann hefur líka skýrar skoðanir á því hvað þarf til að komast í gegnum niðurskurðinn hjá hinni alræmdu valnefnd RÚV:

Það eru til leiðir til að komast í gegnum niðurskurðinn: Ein þeirra er sú að vinna lagið vel. Ég get ekki treyst því að fagleg dómnefnd leggi tvo og tvo saman og fái út sömu niðurstöðu og ég vildi ef ég kem ekki hugsuninni minni frá mér og þau geta ekki treyst því að viðkomandi lagahöfundur hafi getu til að klára lagið, ef hann sendir það inn óklárað. Þau gefa þessum lögum ekki séns lengur, held ég. Hugmyndin þarf að vera skýr. Þetta var ekki þannig og þegar ég kom mínu fyrsta lagi að 2003 þá var það bara demó, enginn texti til og það var pan-flauta sem átti að vera söngurinn. Lagið var ekki í tempói, ódýrt hljómborð og kassettutæki á borðinu. Núna þarftu að fullvinna hugmyndina.

Annað sem Sveinn Rúnar nefnir er aðgengileiki lagsins. Það verður að vera mjög aðgengilegt en ekki um of: Ef „húkkurinn“ er of sterkur, geti það orðið leiðigjarnt á þeim stutta líftíma sem lögin fá.

Sveinn Rúnar er í þeirri einstöku stöðu að hafa alltaf komist í gegn með lögin sín, líka þegar hann sendi inn fleiri en eitt. Hann leggur líka á það áherslu að fara ekki endilega í sömu áttina með tónsmíðarnar og segist hafa prófað ýmsa stíla; þjóðlagapopp, popp og þungt rokk. Sú staða að hafa mörg lög í Söngvakeppninni er að hans mati ekkert endilega ákjósanlegust:

Það er ekkert grín að vera með þrjú lög í fanginu. Þetta er mikil fjárhagsleg umsýsla, mikill mannauður og heilmikið fyrirtæki að reka tvö lög; hvað þá þrjú! RÚV breytti fyrirkomulaginu 2015 og núna má senda inn tvö lög og ég held að það sé bara best fyrir alla að vera bara með eitt lag og sinna því. Ég naut þess a.m.k. mjög að vera bara með eitt lag í fyrra.

Okkur lék hins vegar forvitni á að vita hver munurinn væri á því að senda lag í keppni þar sem kosið væri um það eða að vera valinn af RÚV með lag sem færi út fyrir okkar hönd:

Mér fannst allt ferlið við valið 2004 (Heaven) frekar óþægilegt og ég lofaði sjálfum mér því að gera það ekki aftur. Tónlistarmennirnir voru mjög ósáttir við að þessi vettvangur sem skaffar þeim tekjur og kynningu hafi verið lagður niður það árið og einhver einn fenginn í þetta. Ég lenti í dálítið ómálefnalegri gagnrýni í blöðunum frá kollegum út af því. Það var ekki síst eftir að keppninni lauk og við höfðum ekki náð þeim árangri sem við stefndum að; við lentum þó í 19.sæti og lagið hefur lifað meðal aðdáenda. Ég lofaði sjálfum mér því að ég þyrfti að vinna lýðræðislega næst svo að ég næði að vinna mig út úr þessu, svo að mér liði ekki eins og ég hefði fengið forgjöf.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins fyrst?

Ég spyr mig einnar spurningar þegar ég er búinn að skapa eitthvað. Ef mér finnst verkið vera gott þá hlýtur að vera eitt æðsta markmið listamannsins að sköpun hans fái að fara í dóm sem flestra. Og Söngvakeppni Sjónvarpsins er bara langstærsti vettvangurinn til þess, sérstaklega á árinu 2016 þegar markaðurinn hefur tekið stakkaskiptum, og nánast ógjörningur fyrir nýja listamenn að ná áheyrn einhverra. Þetta er langsterkasti vettvangurinn til að kynna nýja tónlist.

Sveinn Rúnar telur jú að með samfélagsmiðlum sé vissulega auðveldara að koma lögum út til fólksins en það geti reynst erfitt að ná eyrum þeirra því að framboðið sé svo mikið. Einnig sé útgáfa unnins lags ákaflega dýr og óvissa ríki um endurheimt kostnaðarins. Með Söngvakeppnisfyrirkomulaginu sé hægt að leggja lágmarks fjárfestingu fram en þurfa samt ekki að borga með sér.

En er þá einhver gullin Júróvisjón-formúla sem hann hefur fullkomnað? Hver eru skilaboð Sveins Rúnars til lagahöfundanna sem hafa hug á að senda lög í næstu Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2017?

Margir gera þau mistök að ákveða að semja Júróvisjónlag. Þeir gera mistök þau að fara í fortíðina og elta uppi einhverja júróvisjónlummu. Var Euphoria Júrólegt lag? Nei. Varð Euphoria vinsælt í Evrópu? Alveg rosalega. Mistökin eru þau að fara eftir einhverri formúlu því að formúlan eldist alveg svakalega illa. Ekkert minna laga (nema eitt) var samið fyrir Júróvisjón. Semdu bara tónlist sem virkar. Gerðu eitthvað sem virkar utan keppninnar. Það kemst í gegn.

 

Færðu inn athugasemd