Sögustund AUJ: Sovéski draumurinn um Nínu… eða Júróvisjón…

Nú, þegar Júróvisjón-keppnin er haldin í Úkraínu og við höfum ekki farið varhluta af hinu kalda andrúmslofti sem ríkir milli heimamanna og gömlu herraþjóðarinnar Rússa (sjá hér), finnst okkur á Allt um Júróvisjón tilvalið að grafa aðeins í sögubókunum og rifja upp tímann þegar járntjaldið var enn uppi. Þá reyndu Sovétmenn að endurskapa Júróvisjón sín megin af þeirri ástæðu að Sovétríkin voru ekki meðlimur í sjónvarpssambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU). Kommúnistaáróðursmaskínan notaði því tækifærið og sagði þegnunum að allt sem vestrið gerði, gæti kommúnisminn gert betur. Útkoman varð Intervision Song Contest.

Aldrei heyrt um hana? Ekki skrýtið, því að hún var einungis haldin fjórum sinnum. Fimm sinnum ef við teljum endurlífgunina með árið 2008. Nú eru langflestar þjóðir, sem áður voru hinum megin við járntjaldið, þátttakendur í Júróvisjón og hafa jafnvel náð góðum árangri þar.

Forsagan

forestopera1

Skógaróperan í Sopot (Forest Opera)

Intervision-söngvakeppnin var haldin á árunum 1977 til 1980 af sjónvarpssambandi austurblokkarinnar Intervision. Hún var haldin í strandbænum Sopot í Póllandi í Skógaróperunni, sem tekur 4.400 manns í sæti. Þar hafði frá árinu 1961 verið haldin falleg lagakeppni (Sopot International Song Festival) sem miðaðist við að fá alþjóðlega flytjendur hvaðanæva úr heiminum til að koma til Póllands og flytja falleg pólsk sönglög. Í Sopot-keppnina komu m.a. flytjendur frá Kúbu, Dóminíkanska lýðveldinu, Mongólíu, Nýja-Sjálandi, Nígeríu, Perú og Suður-Afríku.

Stofnandi Sopot-keppninnar var hinn þekkti píanóleikari Władysław Szpilman (sem Polanski gerði myndina The Pianist um árið 2002). Ólíkt Júróvisjón, var oft skipt um vinningsformúlu í Sopot-keppninni og t.d. var tvískipt keppni árið 1980 þegar fjórða Intervision-keppnin var haldin; annars vegar meðal sjónvarpsstöðva og hins vegar plötufyrirtækja.Intervision_logo.svg

Keppendur og sigurvegarar í Intervision 1977-1980

Alls tóku 28 þjóðir þátt í þeim fjórum Intervision-keppnum sem haldnar voru í lok áttunda áratugarins og blábyrjun þess níunda. Af þeim eru 18 Evrópuþjóðir sem í dag taka þátt í Júróvisjón – en auk þeirra þjóðir eins og Kanada, Kúba, Marokkó og Tajikistan, Kasakstan o.fl. fyrrum Sovétþjóðir, sem ekki eru hluti af EBU.

Lögin sem flutt voru í keppnunum voru (eins og myndböndin hér fyrir neðan bera með sér) undir sterkum austantjaldsáhrifum, en áttu í raun að líkjast vestrænni popptónlist – það var nálgunin hjá hinum háu herrum kommúnismans. Segja mætti að það hafi verið popptónlist sem var alltaf í moll – því að sovéski bragurinn hélst út í gegn.

Árið 1977 var fyrsta keppnin haldin 24.-27. ágúst undir merkjum Intervision og keppendur voru fjórtán talsins. Tékkneska söngkonan Helena Vondráčková bar þá sigur úr býtum en hún flutti tvö lög í keppninni. Lagið „Litla málaða krukkan“ tryggði henni sigur:

Árið 1978 sigruðu Sovétríkin með fulltrúa sínum, Öllu Pugachevu, sem söng lagið Vsyo Mogut Koroli, „Konungar geta gert hvað sem er“:

Árið 1979 sigraði hinn pólski Czeslaw Niemen með lagið Nim Przyjdzie Wiosna eða „Vorið kemur“:

Síðast en ekki síst ber að nefna keppanda Finnlands sem bar sigur úr býtum í Intervision-keppninni árið 1980, Marion Rung. Finnar eiga, eins og við vitum, fremur dapurlega sögu í Júróvisjón (þar til Lordi kom til sögunnar) og því var þessi sigur þeirra í „hinni“ söngvakeppninni mjög dýrmætur og Marion var mikið fagnað í heimalandinu. Á þessum tíma var Finnland einnig eina þjóðin sem tók þátt í báðum keppnum og hafði því afar sérstaka stöðu, sem kommúnískir ráðamenn voru ekki að öllu leyti sáttir við. Marion flutti lagið „Hvar er ástin“ – sem hefði vel átt heima í Júróvisjón þess tíma 🙂

Hvað varð svo um Intervision?

Strax árið 1981 var Intervision í Sopot frestað vegna hræringa í verkalýðsmálum í Póllandi. Upptök þessarar nýju baráttu voru steinsnar frá Sopot og mótmælin voru tímasett þannig að hin alþjóðlega umfjöllun sem Intervision-keppnin átti von á myndi enn fremur varpa ljósi á stöðu verkalýðisins um leið. Einn hinna pólsku söngvara sem átti að troða upp á Intervision 1981 hafði að sögn í huga að flytja lagið „Húsið okkar brennur“ – það segir ýmislegt um ástand mála! Stuttu seinna voru sett herlög í landinu og smám saman fór að molna undan sovétkommúnismanum með falli Berlínarmúrsins um 8 árum seinna. Sopot-söngvakeppnin sneri þó aftur seinna undir upprunalegum formerkjum og nýtur enn í dag nokkurra vinsælda.

Var Intervision vinsæl?

Þýðing þessarar skammlífu söngvakeppni var ekki síst sú fyrir þjóðir austan járntjaldsins að fá örlitla innsýn í tónlist úr hinum vestræna heimi. Ástæðan var ekki sú að lögin sem kepptu hafi verið vestræn nema að litlu leyti, heldur ekki síst að skemmtiatriðin í hléum voru oftar en ekki í höndum heimsþekktra listamanna sem fólk vissi af en heyrði aldrei neitt af í útvarpi eða sjónvarpi kommúnismans. Dæmi um þetta eru Boney-M, Gloria Gaynor og Petula Clark sem tróðu upp í Intervision. Þetta er e.t.v. skýring á gríðarlegum vinsældum Boney-M í austur-Evrópu á árum áður.

Intervision 2.0 til höfuðs „úrkynjaðri Evrópu“

Eftir sigur Mariju Serifovic árið 2007 með Verku Serduchku í öðru sæti í Júróvisjón töldu yfirvöld í Rússlandi að nú yrði að bregðast við því sem hlaut að vera „afbrigðileg þróun í tónlistarsköpun“ í þessari tónlistarkeppni sem þjóðir fyrrum austantjaldslanda voru flestar farnar að taka þátt í (og ganga ágætlega). Því var lagt til að endurreisa Intervision á nýjan leik. Nýtt skipulag var tekið í gagnið og keppnin var haldin í rússnesku borginni Sochi, þar sem vetrarólympíuleikarnir voru haldnir árið 2014. Samband sjónvarpsstöðva í fyrrum Sovétríkjunum og Kína tóku þátt og alls voru þátttökuþjóðir 11 talsins. Keppnin var á fjórum kvöldum; á hinu fyrsta var keppt með frumfluttum lögum, á öðru kvöldi með smellum frá 20. öldinni, á því þriðja með alþjóðlegu lagi fluttu á þjóðtungu (sem best hentaði ímynd hvers keppanda og á því fjórða áttu flytjendur að flytja eigin smelli í Grand Final og þá voru verðlaun veitt fyrir heildarkeppni hinna fjögurra kvölda.

Sigurvegarinn árið 2008 var Tahmina Niyazova sem flutti í Grand Final Mariuh Carey-slagarann Hero á nokkuð hræðilegri ensku en frumflutti einnig þetta hér:

Það varð þó úr að aðeins þessi eina keppni var haldin með breyttu sniði því að, obbosí, Rússar tóku sig til og unnu Júróvisjón 2008 og héldu keppnina 2009 í Moskvu eins og frægt er orðið.

Ekki var því þörf fyrir Intervision að sinni. Sú þörf kom ekki aftur fyrr en 2014 þegar Conchitan okkar vann í Kaupmannahöfn og Júróvisjón, sem Rússar höfðu haldið með miklum bravúr og ærnum tilkostnaði fimm árum áður, varð aftur „ímynd hinnar úrkynjuðu vestrænu Evrópu“. Til stóð að endur-endurvekja Intervision í október 2014 en því var frestað um óákveðinn tíma og enn er ekkert útlit fyrir að Intervision, sem átti sannarlega að kollvarpa Júróvisjón, sé líkleg til að gera neinar gloríur á ný.

 

Heimildir:

http://www.bbc.com/news/magazine-18006446 
Wikipediu-greinar
http://de.euronews.com/2015/03/26/intervision-der-andere-liederwettbewerb 

 

Auglýsingar

Söngvakeppnin í 30 ár: 25. hluti: „Það þarf meiri Lars í málið“

 

Hallgrimur Oskarsson

Hallgrímur Óskarsson

Eins og fram hefur komið í yfirferð okkar á sögu Söngvakeppninnar hefur fyrirkomulag hennar verið með ýmsum hætti. Framsetning og reglur hafa þróast og breyst milli ára og niðurstöður keppninnar og árangur í Júróvisjón verið misjafn í kjölfarið. Skoðanir á keppninni hafa verið ólíkar í gegnum tíðina og margir haft álit á því hvernig hún ætti að vera.

Hallgrímur Óskarsson lagahöfundur er einn af þeim sem hefur ákveðnar skoðanir á fyrirkomulagi keppninar. Allt um Júróvisjón settist niður með honum og ræddi um Söngvakeppnina frá mörgum hliðum.Fyrir þá sem ekki þekkja Hallgrím er hann m.a. höfundur framlags okkar frá árinu 2003, Open your heart, sem Brigitta Haukdal flutti. Hann hefur átt níu önnur lög í Söngvakeppninni og oft náð hátt; til að mynda árin 2009 og 2011 þegar lögin hans Undir regnbogann og Ég trúi á betra líf lentu í 2. sæti.

Hallgrímur lýsir sjálfum sér sem hollvini Söngvakeppninnar enda hefur hann oft tekið þátt og er mikill áhugamaður um keppnina. Hann segir að til þess að ná árangri í Júróvisjón-keppninni úti þurfi engu að síður að hafa það skýrt hvort Söngvakeppnin sé í raun leið til að velja framlag Íslands í Júróvisjón eða hvort hún eigi að vera lagakeppni hér heima fyrir:

„Í hugum fólks er Söngvakeppnin fyrst og fremst undankeppni fyrir Júróvisjón og því ætti að undirbúa hana sem slíka. Þetta er keppni og því þurfum við að setja í keppnisgírinn og leita leiða við að velja það framlag sem er vænlegast til árangurs í keppninni úti, bara rétt eins og þegar valið er í landsliðið í fótbolta. Þar eru þeir leikmenn valdir í liðið sem skara fram úr í íþróttinni og mynda saman lið sem er líklegt til árangurs enda spilað til að vinna, ekki til að vera með. Við eigum líka að taka þátt í Júróvisjón til að vinna!“

Tungumálafrelsi mikilvægt
Hallgrímur nefnir nokkur atriði sem hann telur mikilvægt að hafa í huga og breyta ef á að keppa til að vinna. Fyrst tiltekur hann tungumálið og bendir á að texti þurfi að hans mati að hafa jafnmikinn húkk og lagið sjálft, ef vel á að ganga.

„Að skilyrða að lögin séu flutt á íslensku í byrjun er í raun eins og að banna notkun ákveðinna hljófæra sem megi svo breyta síðar. Að banna t.d. selló væri furðulegt og það sama gildir um tungumál. Rödd flytjandans er eitt aðalhljóðfærið í laginu og blæbrigði ólíkra tungumála hafa áhrif á það hljóðfæri. Einnig er tungumálafrelsi mikilvægt út frá kynningarsjónarmiði: Að syngja fyrst á íslensku en ætla sér alltaf að syngja á öðru máli komist lagið alla leið, væri því næstum því eins og að kynna nýtt lag til sögunnar.“

Aukin fagmennska í lagavali
Aðspurður um valnefndina að baki lögunum í Söngvakeppninni segir Hallgrímur:
„Það er verið að passa að ekki sé vitað hver er í henni og það er allt í lagi. Í þessu litla landi er það bara mjög fínt. En útkoman úr henni einkennist oft af stefnuleysi í lagavalinu. Mig grunar að það sé vegna þess að of mikil áhersla sé lögð á að hlusta á lögin eins og þau hljóma núna, en ekki hvert er hægt að taka þau.“

Einnig telur hann að val laganna inn í keppnina sé annað atriði sem þurfi að huga að. Að hans mati sé það afturför að ætla höfundum að senda inn fullbúið lag því að fyrst og fremst eigi valnefndin að hlusta eftir góðri lagasmíð, óháð útsetningu eða söng sem geti komið á síðari stigum. Til að þetta geti átt sér stað verði því að vera fólk í valnefndinni sem hafi þann hæfileika að hlusta á lagasmíð en ekki lög. ,,Það sé ekki á færi allra að gera slíkt og því þarf að vanda valið í nefndina“ segir Hallgrímur. Tillaga Hallgríms er að RÚV fái til sín erlenda pródúsenta sem fengju öll innsend lög með sér eina helgi á afvikinn stað, t.d. í sumarbústað, og settu þannig fram val sitt án nokkurrar aðkomu annarra. Þannig næðist fram fagmennska í vali á laginu þar sem um væri að ræða eingöngu þá sem hafa eyra fyrir góðum lagasmíðum óháð útsetningu. „Þetta snýst um að gera meira af því að fá Lars í málið“, segir Hallgrímur til að leggja áherslu á mál sitt og vísar til Lars Lägerback landsliðsþjálfara í fótbolta.

cassette-tapes-back-from-the-dead1

En það er ekki bara valið á lögunum inn í keppnina sem skiptir máli, heldur líka valið í keppninni sjálfri að mati Hallgríms. Stundum sé ekki endilega vænlegast að láta þjóðina eina velja framlagið.

„Þegar þjóðin velur er oft á tíðum ekki verið að hugsa um þau fáu en mikilvægu atriði sem skipta máli til að ná góðum árangri. Að auki eru sjónvarpsáhorfendur ekki alltaf sammála um það sem gengur í Íslendinga og það sem gengur í Evrópubúa í keppninni. Því ætti endanlegt val á sigurvegara að speglast í þeim sem kjósa í lokakeppninni.“

Nefnir hann í því samhengi aðferð sem tekin var upp í Eystrasaltsríkjunum í kringum aldamótin. Þar var fenginn hópur fólks víða að úr Evrópu sem horfði á lögin og valdi síðar. Árangur Letta og Eista var með ágætum á þessum tíma og telur Hallgrímur fyrirkomulag valsins hafa haft þar mikið að segja. Einnig mætti horfa til þess sem Svíar gera með sína landskeppni þar sem lokakeppninni sé sjónvarpað til nágrannalanda og að þeir fái að taka þátt.

Samtal við myndavélarnar
Í huga Hallgríms er eitt meginatriði sem skiptir máli til að ná góðum árangri í Júróvisjón; að flytjandi komi vel út, sé „sympatískur“, í myndavélunum. „Þetta er svona blanda af því að vera tilfinningavera og að vera hugrakkur ásamt því að þora að vera alveg opinn og tala frá innstu hjartarótum við linsuna.“ segir Hallgrímur. Hann bætir við að það skipti höfuðmáli að ná til sjónvarpsáhorfenda um alla Evrópu í gegnum myndavélarnar til þess að fá kosningu og vill meina að framkoma í fjölmiðlum og uppákomum víðsvegar í aðdraganda keppninnar skiptir ekki nærri eins miklu máli þó að það sé gaman. Um möguleika Íslands til að vinna segir Hallgrímur:

„Sigurinn dettur inn þegar flytjandi kemur fram sem er sympatískur. Það er næstum því hægt að sigra með hvaða lag sem er, ef það er í meðallagi gott, það er hægt að vera með allskonar lög og allskonar útsetningar en það er ekki hægt að sigra ef flytjandinn kann ekki að tala við kameru.“

Sigur konseptsins
Aðspurður um hvort Jamala, sigurvegari Júróvisjon í ár, hafi náð að tala við myndavélarnar og vera sympatísk sagði Hallgrímur að hún hafi unnið því að hún hafi náð til fólks með skilaboðum um að vera á móti stríði og stríðsóðum valdhöfum sem skeyta engu um mannlega líðan og bætti við:

„Fólk er komið með nóg af slíku. Þannig náði Jamala betur til fólks en mörg önnur lög en ekki í gegnum lagasmíðina sjálfa heldur í gegnum skilaboðin og það hvernig hún lifði sig inn í skilaboðin á sviðinu. Lag hennar var e.t.v. ekki minnisstæðasta lagið sem slíkt en minnisstæðustu skilaboðin og mesta innlifunin á sviðinu. Þessi úrslit eru góð fyrir keppnina því að umbúðir og innihaldsleysi töpuðu fyrir framúrstefnulegu lagi með mikið innihald og flutning söngkonu sem greinilega var innilega að meina það sem hún var að syngja um.“ 

Hallgrími varð í spjalli okkar einnig tíðrætt um konsept laga í Júróvisjon en hann telur það vera mikilvægan hluta til að sigra. Nærtækt væri að skoða áfram sigur Jamölu í ár en Hallgrímur segir hann líka hafa verið sigur konspetins en ekki aðeins sigur lagsins:

„Hljóðhlutinn er þriðjungur, sjónræni hlutinn er þriðjungur en konsept lags, sem oft gleymist að vinna með er alveg jafnstór hluti. Auðskiljanlegt konsept Jamölu sem allir skildu samstundis var jafnmikilvægt í sigri hennar og innlifunin og lagið.“

birgitta haukdal

Birgitta Haukdal flytur lagið Open your heart í Júróvisjon 2003.

Sögustund AUJ: Sigur í Júró – lagið eða lookið?

Allt á suðupunkti eftir úrslitin og Jamala sigurvegarinn frá Úkraínu er sannarlega á allra vörum. Margar raddir hafa verið uppi um að aðrir hafi átt sigurinn skilinn/betri lög en við vitum auðvitað að það er bara einn sigurvegari og „the winner takes it all“

Við settumst niður við youtube (sem er allra nörda besti vinur þegar kemur að Júróvisjón!) og fórum að spá í gömlu sigurvegurunum. Hvaða ex-faktor höfðu þeir? Var það þessi gullna melódía sem náði að tryggja sigurinn? Eða var það kannski eitthvað annað? Við vitum jú að í þessari sjónvarpskeppni er ýmislegt annað sem hefur áhrif á áhorfendur og þær tölur sem þeir velja af skjánum. Það þarf þessa auka tengingu við myndavélar, vel útfært atriði og sjarma, alveg böns af sjarma. Er sjarmi þá kannski bara nóg?

Hér fyrir neðan er listi yfir síðustu tuttugu sigurvegara í Júróvisjón-keppninni og þær ástæður sem við teljum vera að baki sigrinum:

Ár Sigurland Flytjandi og lag Ástæða sigurs að mati AUJ
1996 Írland Eimear Quinn „The Voice“ Laglína
1997 Bretland Katarina & the Waves „Love Shine a Light“ Laglína
1998 Ísrael Dana International „Diva“ Laglína og kynþokki
1999 Svíþjóð Charlotte Nilsson „Take me to your heaven“ Kynþokki
2000 Danmörk Olsen-bræður „Fly on the wings of love“ Laglína
2001 Eistland Tanel&Dave „Everybody“ Laglína
2002 Lettland Marie N „I wanna“ Laglína
2003 Tyrkland Sertab Erener „Everyway that I can“ Laglína
2004 Úkraína Ruslana „Wild Dances“ Laglína
2005 Grikkland Helena Paparizou „My Number One“ Kynþokki
2006 Finnland Lordi „Hard Rock Hallelujah“ (Kyn)þokki og laglína (?)
2007 Serbía Marija Serifovic „Molitva“ Laglína
2008 Rússland Dima Bilan „Believe“ Kynþokki
2009 Noregur Alexander Rybak „Fairytale“ Laglína
2010 Þýskaland Lena „Satellite“ Kynþokki
2011 Aserbaídsjan Ell & Nikki „Running Scared“ Laglína eða (?)
2012 Svíþjóð Loreen „Euphoria“ Laglína
2013 Danmörk Emmelie de Forest „Only Teardrops“ Laglína
2014 Austurríki Conchita Wurst „Rise like a Phoenix“ Kynþokki
2015 Svíþjóð Måns Zelmerlöw „Heroes“ Kynþokki

Þegar við lögðum af stað með þetta sáum við þetta svart/hvítt; annaðhvort væri laglínan málið eða sjarminn. En við sjáum strax af þessum lista að vandkvæði eru þar á. Árin 1998 og  2006 sigruðu nefnilega lög sem höfðu talsvert af hvoru tveggja þó að misjafnar skoðanir geti verið um „kyn“þokka Lordi og félaga. Við klórum okkur líka dálítið í hausnum yfir 2011 – hvað höfðu þau Ell og Nikki? Sjarma? – afar takmarkaðan; okkur fannst þau dálítið eins og móðir og sonur og afskaplega lítið kemestrí. Góða laglínu? Tæplega, lagið þeirra er sennilega minnst spilaði sigurvegari ever! Gæti verið að orðrómurinn um að Aserbaídsjan hafi haft óhreint í pokahorninu sé sannur? Kannski erum við samt bara að missa af einhverju.

Alls eru þetta tuttugu lög og af þeim eru 11 lög klárlega með vinningslaglínur – á því leikur enginn vafi! Flóðhestur með hálsbólgu hefði getað sungið Molitvu og unnið, ef hann hefði verið sviðsettur á réttan hátt! Af þessum lista teljum við 6 lög klárlega hafa unnið út á sjarma viðkomandi flytjanda, skemmst að minnast Måns í fyrra. Jújú, lagið var ágætlega grípandi en hann hefði mögulega getað sungið Attikatti nóa og unnið með því! Fyrstu árin hafði enskan í laglínunni sitt að segja en við getum sagt að bomburnar Charlotte Pirelli og Helena Paparizou hafi rokkað kynþokkann á sviðinu og þar með var ekki aftur snúið!

Við sjáum líka að af þessum fyrrum tuttugu sigurvegurum voru aðeins tveir sem sungu á öðru tungumáli en ensku; 1998 þegar Dana International söng á hebresku og 2007 þegar Marija Serifovic söng á serbnesku. Nú hefur Jamala bæst í hópinn með hluta af laginu 1944 á krím-tatarísku.

Nú er spurning hvað hafi orðið til þess að Jamala vann. Vissulega hafði hún heilmikinn sjarma á sviðinu en laglína lagsins er ekki svo sterk að hún lifi endalaust (nema í höfðum okkar júrónördanna sem höfum hlustað á lagið í þrjá mánuði!) Líklega verður að segjast að hér hafi saga lagsins/boðskapurinn orðið hinu yfirsterkara – í fyrsta sinn í hartnær 20 ár! Lagið hennar Conchitu hafði jú boðskap en sviðsframkoman hennar var samt mun áhrifameiri sem slík heldur en umfjöllunarefni textans.

Við fögnum því að alvöruþrungið lag geti líka unnið þessa gleðikeppni þar sem lítið hefur farið fyrir þeim undanfarið og Jamala er vel að sigrinum komin 🙂 Hlustið endilega á plötuna hennar á Spotify, verðið ekki svikin af því!

Sögustund AUJ: Tyrkir, snúið aftur!!

Það verður að segjast að við AUJ-stöllur erum langhamingjusamastar með Júróvisjón þegar öllu ægir saman! Það verður að vera smá balkanballöðustöff fyrir blætið okkar, júrópopp með schlager-fest, indie-gítarsóló, rokkað popp/poppað rokk og aldrei sláum við hendinni á móti skrýtnu og sniðugu gríni sem gefur okkur nýja sýn inn í þjóðarsál viðkomandi flytjenda. Það verður að vera eitthvað af öllu. Líka þessu slæma… Einna verst er kannski ef allt þetta er að finna í sama framlaginu, en við skulum ekki fara út í þá sálma hér! Júróvisjón er eins og sirkús: Hvert atriði einstakt en öll þó undir sama tjaldinu.

Að þessu sögðu verðum við að viðurkenna að einnar þjóðar sem ekki hefur keppt í fjögur ár, söknum við meir en annarra. Og það eru Tyrkir. Tyrknesku framlögin hafa alltaf verið áhugaverð og afgerandi. Tyrkir voru líka með fyrstu „exótísku“ þjóðunum sem tóku þátt í Júróvisjón, en það var árið 1975. Fyrsta framlag þeirra, Seninle Bir Dakika, flutt af Semiha Yani, gekk þó beint inn í hefðbundin framlög þess tíma (sbr. en framandi tungumálið fær þó að njóta sín. Ekki fengu Tyrkir þó beinlínis góðar móttökur því lagið hafnaði í 19. og síðasta sæti.

Það var svo árið 1980 sem Tyrkir mættu með alla ethníkina sína, trumbur, mjaðmahnykki og allt þetta sem við elskum – og sungu um olíu (Petrol/Pet’r Oil):

Auðvitað prófuðu Tyrkir ýmislegt í framlögum sínum; diskó, popp o.fl. – rétt eins og aðrar keppnisþjóðir. Tríóið MFÖ keppti t.d. í tvígang á níunda áratugnum (1985 og 1988); eitursvalir náungar sem kunnu sannarlega að skella í eyrnaorma í viðlögunum sínum:

Tyrkir náðu samt ekki eyrum Evrópu í alvörunni fyrr en árið 1997 þegar klassíkin Dinle var flutt með flautu, fingrasmellum og hinum seiðandi flutningi Sebnem Paker í stutta pilsinum sínum. 3. sætið var þeirra og allir voru farnir að ná því að tyrkneska tónlistin var komin til að vera í þessari áður íhaldssömu keppni.

Við þekkjum öll sigur Sertab Erener árið 2003 með flottum dansi og góðu lagi, Everyway That I Can þar sem formúlan fyrir ekta tyrknesku framlagi var fullkomnuð. Það má segja að árin eftir aldamótin hafi verið gullár Tyrklands í Júróvisjón. Þeir lentu í 4. sæti 2004, 8. sæti árið 2006, 4. sæti 2007 og 2009, 7. sæti árið 2008, 2. sæti árið 2010 með mAnga, frábæru rokkbandi og árið sem þeir hættu þátttöku, 2012, hafnaði Can Bonomo í 7. sæti með Love Me Back.

Okkur finnst sannarlega tími til kominn að fá Tyrki aftur – en ykkur? Þeir hafa gefið okkur svo mörg skemmtileg framlög og krydda alltaf keppnina þegar þeir eru viðstaddir. Þrátt fyrir öll þessi austurlönd nær sem nú eru farin að taka þátt, þá söknum við enn Tyrklands!

Söngvakeppnin í 30 ár – 24. hluti: Tvöfaldur sigur Gretu 2012 og 2016

Nú er ekki annað hægt en að koma sér niður af bleika skýinu sem við höfum verið á frá því á laugardagskvöldið – þvílík afmælisveisla sem RÚV bauð áhorfendum upp á! Við vorum báðar í salnum og himinlifandi að upplifa lifandi flutning frá Loreen og gráta yfir opnunaratriðinu!

Við tekur nú örstutt greining á því ári Söngvakeppninnar sem minnir ótrúlega um margt á Söngvakeppnina 2012, að því leyti að Greta Salóme Stefánsdóttir spilaði stóra rullu í báðum keppnum og bar tvöfaldan sigur úr býtum!

Í samanburðinum kemur þetta fram:

2012: Tvö lög á fyrsta og þriðja undanúrslitakvöldi (Mundu eftir mér með Jónsa á fyrsta kvöldi, og Aldrei sleppir mér með Heiðu og Guðrúnu Árnýju á því þriðja)
2016: Tvö lög á hvoru undanúrslitakvöldi fyrir sig (Raddirnar/Hear them calling í eigin flutningi á fyrra kvöldinu og Elísabet Ormslev með Á ný á síðara undankvöldinu).

– Sigurlag Gretu flutt á fyrra/fyrsta undankvöldi bæði árið 2012 og 2016.

– Bæði árin ,,veðjar” Greta frekar á lagið sem reynist sigursælla; 2012 dregur hún sig út úr tríóinu Aldrei sleppir þér til að „minnka álagið“ eins og fram kemur í viðtali við Fréttatímann – og í ár, 2016, má leiða líkum að því að sú ákvörðun að velja að flytja annað lagið en ekki hitt á ensku í úrslitunum hafi haft sitt að segja.

– Sigurinn bæði árin er naumur en sannfærandi. Árið 2012 stóðu Greta og Jónsi að lokum efst á móti Bláum Ópal og laginu Stattu upp. Greta og Jónsi hlutu 18.649 atkvæði frá áhorfendum í gegnum símakosningu en Blár Ópal fékk 19.366 atkvæði. Atkvæði dómnefndar réðu því úrslitum en dómnefnd setti þau í fyrsta sæti en Bláan Ópal í það þriðja. Í ár var bilið milli Gretu og Öldu Dísar ögn meira eftir einvígið en óstaðfestar fréttir herma að heildarfjöldi atkvæða á milli þeirra eftir einvígið hafi verið um 40.000 atkvæði á móti 25.000 atkvæðum.

– Árið 2012 sagði Greta í viðtölum að Mundu eftir mér hefði verið samið í Skálholti undir sterkum áhrifum af sögunni um forboðnar ástir Ragnheiðar biskupsdóttur og Daða Halldórssonar. Lag hennar í ár, Raddirnar, ber svipaða dulúð yfir sér en hefur þó óræðari túlkun og Greta segir sjálf að innblástur lagsins sæki hún til Íslands.

– Í kjölfar sigursins 2012 fóru raddir að heyrast sem líktu lagi Gretu við lag Heimis Sindrasonar frá 1998, Álfakónginn og var það flutt af Guðrúnu Gunnarsdóttur og Klöru Ósk Elíasdóttur á plötunni Sól í eldi. Aðspurð neituðu bæði Greta Salóme og Heimir höfundur Álfakóngsins nokkrum líkindum með lögunum. Greta sagðist hafa heyrt Álfakónginn í fyrsta sinn eftir keppnina og Heimir kvaðst bara nokkuð stoltur yfir þessum sögusögnum en ekki heyra nema svipaðan þjóðlegan blæ. Í ár hefur Greta einnig fengið yfir sig ýmsar misuppbyggilegar athugasemdir um stælingu á grafík Måns Selmerlöv frá í fyrra og óhemjulíkindi við lög OMAM.

Það verður að segjast að styrkur Gretu sem flytjanda og lagahöfundar sést í því hversu vel henni hefur vegnað í þau tvö skipti sem hún hefur tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Við óskum henni alls hins besta og vonum að Svíþjóðarævintýrið verði gjöfult!

Söngvakeppnin í 30 ár – 23. hluti: Erna Hrönn

Áfram höldum við með sögu Söngvakeppninnar í 30 ár og hin síðari ár eru einstaka flytjendur sem hafa sérstaklega markað djúp spor. Við höfum nú í fyrri pistlum nefnt fjölmarga flytjendur en Erna Hrönn er ein þeirra sem þarf að taka út fyrir mengið. Ekki vegna þess að hún keppir í Söngvakeppninni í ár heldur vegna gríðarlegrar reynslu hennar sem bakrödd og þeirra sex skipta sem hún hefur tekið þátt í Söngvakeppninni. Erna hefur sérstakan sjarma, er tæknilega mjög fær söngkona og alveg dúndurhress týpa!

Erna Hrönn Ólafsdóttir er fædd á Akureyri árið 1981, gekk í Hrafnagilsskóla og sigraði söngkeppni á vegum Menntaskólans á Akureyri um aldamótin síðustu. Árið 2004 var popphljómsveitin Bermuda stofnuð og Erna Hrönn var aðalsöngkona sveitarinnar í fjögur ár. Hljómsveitin gaf út plötuna „Nýr dagur“ á gamlárskvöld 2007. Á sama tíma og hún var í hljómsveitinni lærði hún táknmálsfræði í Háskóla Íslands. Hún sagði skilið við hljómsveitina 2008 og hefur starfað sem bakraddasöngkona.

Hún hefur sungið bakraddir í Söngvakeppninni í yfir 50 og tók fyrst þátt sem slík árið 2006. Hún hefur farið út í Júróvisjón-keppnina tvisvar sinnum sem bakrödd, fyrst með Jóhönnu Guðrúnu 2009 og ári síðar með Heru Björk í Osló.

Í stuttu spjalli sem við áttum við hana fyrir keppnina 2011 sagði Erna Hrönn að fyrir henni væri Söngvakeppnin „Tónlistarveisla- Fjölbreytni- Gleði- Glamúr- Skemmtilegheit“

Fyrsta skiptið sem Erna kom fram sem aðalsöngkona í Söngvakeppninni var árið 2007 þegar hún flutti lagið Örlagadís eftir Roland Hartwell með texta Kristjáns Hreinssonar:

Næst keppti Erna með lagið Glópagull árið 2009 en lag og texti var eftir Einar Oddsson:

Í þriðja sinn sem Erna keppti söng hún sig inn í úrslitin 2011 með lag Arnars Ástráðssonar, Ástin mín eina:

Árið 2013 söng Erna Hrönn lag Sveins Rúnars Sigurðarsonar Augnablik, við texta Ingibjargar Gunnarsdóttur:

Í fyrra tók Erna þátt í fimmta skipti sem aðalsöngkona með drungalegu ballöðuna Myrkrið hljótt og samdi sjálf textann við lag Arnars Ástráðssonar.

Í ár hefur Erna Hrönn toppað fyrri árangur sinn með því að komast í úrslit Söngvakeppninnar með lagi og texta Þórunnar Ernu Clausen, I promised you then, sem hún syngur með Hirti Traustasyni:

Við getum varla sleppt því í sögulegu samhengi að minnast á svokallað PR-vidjó sem hópurinn á bak við framlagið I promised you then stendur að; að flytja lagið á táknmáli en það hefur ekki verið gert áður í Söngvakeppninni svo við vitum til. Og þar eru hæg heimatökin hjá Ernu Hrönn sem lærði táknmálsfræði:

Samhliða söngverkefnunum vinnur Erna Hrönn við dagskrárgerð á útvarpsstöðunum Bylgjunni og Létt-Bylgjunni og tekur á móti skólahópum til 365 miðla.

 

Söngvakeppnin í 30 ár – 22.hluti: 2003

Þegar litið er yfir Söngvakeppnina síðust 30 ár er ljóst að árið 2003 var haldin keppni sem að vissu leyti stóð upp úr. Blásið var til stórrar keppni á tímum þar sem samdráttur hafði verið allsráðandi og var allsráðandi næstu tvö ár á eftir.

birgitta haukdal

Birgitta Haukdal sigraði með laginu Segðu mér allt

Af hverju stór keppni 2003?
Eins og fram hefur komið í öðrum pistlum á síðunni er það ákvörðun hverju sinni á RÚV hvort blásið er til forkeppni eður ei. Ræðst það mikið til af fjármagni sem dagskrárdeild hefur úr að moða á hverju ári og hvort ráðamönnum á RÚV þyki það forsvaranlegt að eyða oft stórum hluta þess í Söngvakeppnina. Það er því forvitnilegt að velta fyrir sér af hverju blásið var til stórrar keppni þetta árið eftir mikinn samdrátt á árunum á undan og eftir.

Þegar ákveðið var að endurvekja Söngvakeppni Sjónvarpsins 2003 hafði ekki verið haldin keppni undir því nafni í 10 ár. Ýmist hafði verið valinn flytjandi eða keppnir frekar fárra laga haldnar innan í öðrum sjónvarpsþáttum eða við hreinlega ekki tekið þátt í keppninni. Sem dæmi fór valið 1994 fram í þættinum Á tali hjá Hemma Gunn þar sem þrjú lög kepptu, árið 1995, 1997 og 1999 var keppandi valinn og árið 2001 kepptu átta lög í laugardagsþætti Steinunnar Ólínu Þorvarðardóttur Milli himins og jarðar. Gengið árið 2001 var slæmt og því kepptum við ekki árið 2002.

Auglýst var eftir lögum til þátttöku í Júróvisjon um miðjan október 2002. Þegar auglýsingin fór í loftið var ekki endanlega ákveðið hvort halda ætti forkeppni eða velja úr innsendum lögum líkt og árið 1996. Stuttu eftir að auglýsingin fór í loftið var haft eftir Rúnari Gunnarssyni dagskrárstjóra innlendrar dagskrárgerðar að áhugi væri fyrir því að halda forkeppni enda hefði það fyrirkomulag reynst vel og hefði mikla þýðingu fyrir tónlistarbransann. Það varð svo úr að ákveðið var að blása lífi í Söngvakeppnina og það með pompi og prakt í þeirri von að ná betri árangri í Júróvisjon.

gisli og logi 4

Nýjungar og fjölbreytt lög
Af þeim ríflega 200 lögum sem bárust í keppnina voru 15 valin til þátttöku. Keppnin var haldin með nokkuð breyttu sniði en áður hafði tíðkast. Ekki var um nein undankvöld að ræða heldur voru öll lögin tekin upp fyrir sjónvarp og kynnt þrjú í senn í vikunni fyrir úrslitakvöldið. Öll 15 lögin kepptu svo til úrslita en þá voru þau öll flutt lifandi á sviðinu við lifandi hljóðfæraundirleik. RÚV lagði til fjögurra manna hljómsveit og gátu lagahöfundar nýtt sér hana og bætt við eftir þörfum.

Úrslitakvöldið sjálft var haldið í Háskólabíói. Þar var mikið lagt í skemmtilegt show. Í fyrsta skipti í sögu Söngvakeppninnar gafst almenningi kostur á að vera viðstaddur í salnum en selt var inn á úrslitakvöldið. Það var ekki að spyrja að áhuganum enda seldist upp! Gísli Marteinn Baldursson og Logi Bergmann Eiðsson voru fengnir til að kynna keppnina og fóru þeir á kostum. Í nýlegri kosningu FÁSES unnu þeir félagar stórsigur sem bestu kynnar í Söngvakeppninni, hlutu ríflega 50% atkvæða.

Lögin 15 í keppninni voru fjölbreytt, allt frá rokki í europopp. Enginn gleymir innkomu Botnleðju í keppnina enda hlutu þeir 2. sætið fyrir lagið sitt Eurovísa. Ungir upprennandi höfundar úr Kópavoginum ásamt þekktri söngkonu úr framhaldsskólasenunni skutu upp kollinum með eurosmellinum Sá þig sem endaði í 3. sæti. Rúnar Júlíusson tók þátt í keppninni með lag eftir Karl Olgeirsson, Ást á skítugum skóm. Þá söng Ragnheiður Gröndal lag í suðrænum stíl, Ferrari. Eivör Pálsdóttir var lítt þekkt á þessum tíma en heillaði marga með flutningi á hugljúfu lagi eftir Ingva Þór Kormásksson, Í nóttLoks fluttu Regína Ósk og Hjalti Jónsson slagarann Engu þurfum að tapa eftir Einar Örn Jónsson.

Það var svo auðvitað Birgitta Haukdal sem sigraði með lag Hallgríms Óskarssonar Segðu mér allt. 

Ekki endurtekið
Þrátt fyrir gott gengi Birgittu í Júrovisjonkeppninni í Riga um vorið var þetta fyrirkomulag á Söngvakeppninni ekki endurtekið árið eftir. Næstu tvö ár á eftir var innanhúsval á RÚV þar sem Jónsi og Selma voru fengin til að vera fulltrúar okkar í Júróvisjon. Árið 2006 var svo blásið til Söngvakeppninnar á ný en nú með fyrirkomulagi undankeppna þar sem lög keppa sig inn á úrslitakvöld.