Eftir seinna undankvöld Söngvakeppninnar 2018

songvakeppnin2

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Nú hafa undanriðlarnir tveir fyrir úrslit Söngvakeppninnar 2018 farið fram og við sitjum eftir með 6 lög (engan Svarta-Pétur í ár) í úrslitunum. Hér ætlum við að rekja ofurlítið hvað fram fór í Háskólabíó á laugardaginn var:

Aron Hannes mætti galvaskur fyrstur á sviðið með tvo unga dansara og þrjár bakraddir sér til fulltingis. Í fyrstu atrennu þurfti hann þó að standa vaktina einn þar sem ekkert heyrðist í bakröddunum. En eftir að öll hin lögin voru flutt fengu þeir félagar að spreyta sig í annað sinn. Með honum í bakröddum voru m.a. Ásgeir Orri úr StopWaitGo og Pétur úr Bláum Ópal og F.U.N.K. og hressleikinn var sannarlega fyrir hendi. Nokkuð öruggt að þeir hafi komist áfram og salurinn tók vel undir.

Rakel Páls var önnur á svið og gaman að sjá örlítinn metnað í sviðssetningu og meira að segja smá gimmikk þegar hvítu tjöldin féllu. Flutningurinn hennar var gallalaus og lagið naut sín vel. Eina sem stakk okkur var hversu illa staðsett byrjunin á klippunni hennar var; byrjaði á löngum blast-tóni sem var alls ekki takt við heildaryfirbragð lagsins.

SLAY-stúlkurnar héldu uppi stuðinu og breyttu sviðinu í alvöru diskópartí. Bakraddasöngkonurnar voru ögn óöruggar en engan bilbug var að finna á Stefaníu sem sýndi og sannaði að hún er virkilega góð söngkona. Ekki spillti neitt fyrir stemmingu og stuði, enda DJ-búr úr diskókúlu og risadiskókúla á sviðinu að ógleymdum glimmersprengjum í lokin.

Þórir og Gyða komu flestum í salnum til að brosa (bambaramm!). Greinilegt var að framsetning á sviðinu átti að vera mjög afslöppuð, sófi, mottur og lampar á sviðinu en þetta varð pínu kaótískt fyrir vikið, enginn heildarstíll. Stress mátti aðeins sjá á flytjendunum og þetta varð pínu stíft en voða ljúft og rann vel.

Dagur Sigurðsson var næstsíðastur á svið með allt powerið í húsinu. Vopnaður veglegum bakröddum, skýja- og eldingagrafík stóð Dagur sig frábærlega og var eiginlega betri en í stúdíó-útgáfunni. Júlí Heiðar sló sneriltrommuna af list og heildarmyndin svakalega flott. Verðugt sæti á úrslitakvöldinu þar!

Áttan lokaði svo keppninni (að Aroni Hannesi undanskildum) og mikil spenna var í loftinu fyrir frammistöðu þeirra. Gaman var að sjá Aron Brink og Ásgeir Orra standa þétt við bakið á Agli í bakröddum. Ekki kom neitt sérlega á óvart að þau Egill og Sonja hafi verið fölsk en lífsgleðin skein af þeim og það virðist hafa skipt meginmáli í flutningnum – stemmingin í húsinu var gríðarleg eftir flutninginn. Með sterkt bakland virðast þeim engin sund lokuð og næst eru það úrslitin!

Færðu inn athugasemd