Spá AUJ – úrslit

AUJ_cover

Stóra stundin er að renna upp! Úrslitin í Júróvisjon ráðast í kvöld og við sjaldan verið eins spenntar því að keppnin er eins og galopin bók sem enginn veit hvernig endar! Eins og áður spáum við hverjir verði í topp 10 í engri sérstakri röð. Og það verða:

BÚLGARÍA
FRAKKLAND
KÝPUR
ÍSRAEL
FINNLAND
AUSTURRÍKI
DANMÖRK
ÚKRAÍNA
EISTLAND
MOLDÓVA

spáAUJ-12.5aspáAUJ-12.5b

Af þessum tíu teljum við Búlgaríu, Frakkland og Kýpur sigurstranglegust.

img_3635.jpg

Flosi okkar, sem oft hefur deilt sínum skoðunum á Öllu um Júróvisjon, er sammála okkur að hluta til og telur að toppbaráttan verði sannarlega á milli Frakklands, Kýpur, Búlgaríu , Ísrael, Austurríkis og Eistlands. Hann telur einnig að Ástralía, Svíþjóð, Ungverjaland og Noregur verði með í gleðinni á toppnum.

 

Auglýsingar

Skellur í seinni undankeppninni!

Allt er á suðupunkti í Júróheiminum nú eftir að seinni niðurskurðurinn fór fram í gærkvöldi. Ótrúlegt en satt náðu Norðurlöndin öll að koma sér í úrslitin (fyrir utan okkur) en síðast gerðist það árið 2014, sælla minninga. Við gátum reyndar lítið horft á Rybak – það er stundum eins og með Clovn; kona getur ekki hætt að horfa en er með krónískan hroll á meðan!

nor

Á heildina litið var kvöldið fremur slæmt raddlega séð, áberandi stress í röddinni hjá mörgum flytjendum.

Tveir áskrifendur duttu út, Rússland og Rúmenía, og spurning hvort nú sé áhuginn á tónlist loksins að yfirgnæfa pólitísk áhrif sem oft hafa loðið við (hvort sem það er Salvador Sobral að þakka/kenna) – en lögin voru skelfileg bæði tvö svo að við erum sáttar 😉

Tvær eftirhermur kepptu í keppninni um hvor væri líkari Jared Leto: Jonas víkingur frá Danmörku og Lukas hatta-hipster frá Póllandi:

Þýðingarmikil augnaráð voru áberandi í gærkvöldi og þar eru Serbarnir efst á blaði. Það var mikill samsærissvipur á þeim og greinilegt að börn Jarðar skiptu þá gífurlegu máli – spurning hvort allir aðrir áhorfendur hafi náð pointinu. Angistarsvipur einkenndi líka  Jessicu frá San Marínó og Christabelle frá Möltu; þær vissu kannski hvað beið…

Dansinn var nú kannski ekki upp á marga fiska (nema fiskadansinn hjá Pólverjunum, djók!) og sporin voru mörg frekar sérstök; krampa-reiðidans hjá Hollendingum, slow motion-pallaleikfimi hjá Serbunum, vélmennadans hjá San Marínó, dónalegur dans á bak við hurð hjá Moldóvunum (ji minn!) og dans sem stoppaði af ásettu ráði hjá Slóvenunum. Góðu spor kvöldsins áttu þó slóvensku stelpurnar og dansaranir frá Rússlandi.

Margir tengdu Belgíu við Bondstemmingu en við fengum sama væb frá lettnesku píunni – sem hafði svo aðeins verið að horfa á Eleni frá Kýpur á þriðjudaginn og bætti við höfuðhreyfingu og hár“kasti“ frá henni. Bond-lögin tvö duttu algjörlega niður dauð og ómerk því að þau komust hvorugt áfram.

Heildarstílisering á lagi var klárlega flottust hjá Úkraínu – þvílíkt sem þessi líkkistuframsetning var töff!

ukr

 

 

 

 

 

Sögustund AUJ: Sovéski draumurinn um Nínu… eða Júróvisjón…

Nú, þegar Júróvisjón-keppnin er haldin í Úkraínu og við höfum ekki farið varhluta af hinu kalda andrúmslofti sem ríkir milli heimamanna og gömlu herraþjóðarinnar Rússa (sjá hér), finnst okkur á Allt um Júróvisjón tilvalið að grafa aðeins í sögubókunum og rifja upp tímann þegar járntjaldið var enn uppi. Þá reyndu Sovétmenn að endurskapa Júróvisjón sín megin af þeirri ástæðu að Sovétríkin voru ekki meðlimur í sjónvarpssambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU). Kommúnistaáróðursmaskínan notaði því tækifærið og sagði þegnunum að allt sem vestrið gerði, gæti kommúnisminn gert betur. Útkoman varð Intervision Song Contest.

Aldrei heyrt um hana? Ekki skrýtið, því að hún var einungis haldin fjórum sinnum. Fimm sinnum ef við teljum endurlífgunina með árið 2008. Nú eru langflestar þjóðir, sem áður voru hinum megin við járntjaldið, þátttakendur í Júróvisjón og hafa jafnvel náð góðum árangri þar.

Forsagan

forestopera1

Skógaróperan í Sopot (Forest Opera)

Intervision-söngvakeppnin var haldin á árunum 1977 til 1980 af sjónvarpssambandi austurblokkarinnar Intervision. Hún var haldin í strandbænum Sopot í Póllandi í Skógaróperunni, sem tekur 4.400 manns í sæti. Þar hafði frá árinu 1961 verið haldin falleg lagakeppni (Sopot International Song Festival) sem miðaðist við að fá alþjóðlega flytjendur hvaðanæva úr heiminum til að koma til Póllands og flytja falleg pólsk sönglög. Í Sopot-keppnina komu m.a. flytjendur frá Kúbu, Dóminíkanska lýðveldinu, Mongólíu, Nýja-Sjálandi, Nígeríu, Perú og Suður-Afríku.

Stofnandi Sopot-keppninnar var hinn þekkti píanóleikari Władysław Szpilman (sem Polanski gerði myndina The Pianist um árið 2002). Ólíkt Júróvisjón, var oft skipt um vinningsformúlu í Sopot-keppninni og t.d. var tvískipt keppni árið 1980 þegar fjórða Intervision-keppnin var haldin; annars vegar meðal sjónvarpsstöðva og hins vegar plötufyrirtækja.Intervision_logo.svg

Keppendur og sigurvegarar í Intervision 1977-1980

Alls tóku 28 þjóðir þátt í þeim fjórum Intervision-keppnum sem haldnar voru í lok áttunda áratugarins og blábyrjun þess níunda. Af þeim eru 18 Evrópuþjóðir sem í dag taka þátt í Júróvisjón – en auk þeirra þjóðir eins og Kanada, Kúba, Marokkó og Tajikistan, Kasakstan o.fl. fyrrum Sovétþjóðir, sem ekki eru hluti af EBU.

Lögin sem flutt voru í keppnunum voru (eins og myndböndin hér fyrir neðan bera með sér) undir sterkum austantjaldsáhrifum, en áttu í raun að líkjast vestrænni popptónlist – það var nálgunin hjá hinum háu herrum kommúnismans. Segja mætti að það hafi verið popptónlist sem var alltaf í moll – því að sovéski bragurinn hélst út í gegn.

Árið 1977 var fyrsta keppnin haldin 24.-27. ágúst undir merkjum Intervision og keppendur voru fjórtán talsins. Tékkneska söngkonan Helena Vondráčková bar þá sigur úr býtum en hún flutti tvö lög í keppninni. Lagið „Litla málaða krukkan“ tryggði henni sigur:

Árið 1978 sigruðu Sovétríkin með fulltrúa sínum, Öllu Pugachevu, sem söng lagið Vsyo Mogut Koroli, „Konungar geta gert hvað sem er“:

Árið 1979 sigraði hinn pólski Czeslaw Niemen með lagið Nim Przyjdzie Wiosna eða „Vorið kemur“:

Síðast en ekki síst ber að nefna keppanda Finnlands sem bar sigur úr býtum í Intervision-keppninni árið 1980, Marion Rung. Finnar eiga, eins og við vitum, fremur dapurlega sögu í Júróvisjón (þar til Lordi kom til sögunnar) og því var þessi sigur þeirra í „hinni“ söngvakeppninni mjög dýrmætur og Marion var mikið fagnað í heimalandinu. Á þessum tíma var Finnland einnig eina þjóðin sem tók þátt í báðum keppnum og hafði því afar sérstaka stöðu, sem kommúnískir ráðamenn voru ekki að öllu leyti sáttir við. Marion flutti lagið „Hvar er ástin“ – sem hefði vel átt heima í Júróvisjón þess tíma 🙂

Hvað varð svo um Intervision?

Strax árið 1981 var Intervision í Sopot frestað vegna hræringa í verkalýðsmálum í Póllandi. Upptök þessarar nýju baráttu voru steinsnar frá Sopot og mótmælin voru tímasett þannig að hin alþjóðlega umfjöllun sem Intervision-keppnin átti von á myndi enn fremur varpa ljósi á stöðu verkalýðisins um leið. Einn hinna pólsku söngvara sem átti að troða upp á Intervision 1981 hafði að sögn í huga að flytja lagið „Húsið okkar brennur“ – það segir ýmislegt um ástand mála! Stuttu seinna voru sett herlög í landinu og smám saman fór að molna undan sovétkommúnismanum með falli Berlínarmúrsins um 8 árum seinna. Sopot-söngvakeppnin sneri þó aftur seinna undir upprunalegum formerkjum og nýtur enn í dag nokkurra vinsælda.

Var Intervision vinsæl?

Þýðing þessarar skammlífu söngvakeppni var ekki síst sú fyrir þjóðir austan járntjaldsins að fá örlitla innsýn í tónlist úr hinum vestræna heimi. Ástæðan var ekki sú að lögin sem kepptu hafi verið vestræn nema að litlu leyti, heldur ekki síst að skemmtiatriðin í hléum voru oftar en ekki í höndum heimsþekktra listamanna sem fólk vissi af en heyrði aldrei neitt af í útvarpi eða sjónvarpi kommúnismans. Dæmi um þetta eru Boney-M, Gloria Gaynor og Petula Clark sem tróðu upp í Intervision. Þetta er e.t.v. skýring á gríðarlegum vinsældum Boney-M í austur-Evrópu á árum áður.

Intervision 2.0 til höfuðs „úrkynjaðri Evrópu“

Eftir sigur Mariju Serifovic árið 2007 með Verku Serduchku í öðru sæti í Júróvisjón töldu yfirvöld í Rússlandi að nú yrði að bregðast við því sem hlaut að vera „afbrigðileg þróun í tónlistarsköpun“ í þessari tónlistarkeppni sem þjóðir fyrrum austantjaldslanda voru flestar farnar að taka þátt í (og ganga ágætlega). Því var lagt til að endurreisa Intervision á nýjan leik. Nýtt skipulag var tekið í gagnið og keppnin var haldin í rússnesku borginni Sochi, þar sem vetrarólympíuleikarnir voru haldnir árið 2014. Samband sjónvarpsstöðva í fyrrum Sovétríkjunum og Kína tóku þátt og alls voru þátttökuþjóðir 11 talsins. Keppnin var á fjórum kvöldum; á hinu fyrsta var keppt með frumfluttum lögum, á öðru kvöldi með smellum frá 20. öldinni, á því þriðja með alþjóðlegu lagi fluttu á þjóðtungu (sem best hentaði ímynd hvers keppanda og á því fjórða áttu flytjendur að flytja eigin smelli í Grand Final og þá voru verðlaun veitt fyrir heildarkeppni hinna fjögurra kvölda.

Sigurvegarinn árið 2008 var Tahmina Niyazova sem flutti í Grand Final Mariuh Carey-slagarann Hero á nokkuð hræðilegri ensku en frumflutti einnig þetta hér:

Það varð þó úr að aðeins þessi eina keppni var haldin með breyttu sniði því að, obbosí, Rússar tóku sig til og unnu Júróvisjón 2008 og héldu keppnina 2009 í Moskvu eins og frægt er orðið.

Ekki var því þörf fyrir Intervision að sinni. Sú þörf kom ekki aftur fyrr en 2014 þegar Conchitan okkar vann í Kaupmannahöfn og Júróvisjón, sem Rússar höfðu haldið með miklum bravúr og ærnum tilkostnaði fimm árum áður, varð aftur „ímynd hinnar úrkynjuðu vestrænu Evrópu“. Til stóð að endur-endurvekja Intervision í október 2014 en því var frestað um óákveðinn tíma og enn er ekkert útlit fyrir að Intervision, sem átti sannarlega að kollvarpa Júróvisjón, sé líkleg til að gera neinar gloríur á ný.

 

Heimildir:

http://www.bbc.com/news/magazine-18006446 
Wikipediu-greinar
http://de.euronews.com/2015/03/26/intervision-der-andere-liederwettbewerb 

 

Gamalt uppáhalds! – Verka Serduchka – Dancing Lasha Tumbai

1EEVEyrún skrifar: 

Þegar kemur að því að velja gamalt uppáhalds frá Úkraínu, er valið ekkert sérstaklega erfitt. Það hlýtur að vera Verka Serduchka sem keppti árið 2007, sem allir júróaðdáendur þekkja út og inn; jafnt dansinn sem bullutextann á ensku/þýsku/úkraínsku/rússnesku, glimmergallana með 69 (vísun í þið vitið hvað) á bakinu á Verku og 18 á bakinu á dönsurunum (vísun í númer lagsins á svið).

Aahh, þarna náði Júróvisjón mögulega að fullkomna sig í einni glimmerkúlu með stjörnu á toppnum 🙂

Því miður tapaði Verka fyrir Molitvu (ok, kannski ekki því miður…) með aðeins 33 stigum. Molitva sigraði með 268 stigum en Verka fylgdi fast á hæla hennar með 235 stig. Það er nú nokkuð sannfærandi annað sæti. En svona er það; sumir vinna keppnina, aðrir verða goðsagnir!

8_4f74912c1c719

Verka er hugarfóstur og alter-ego grínistans og popptónlistarmannsins Andriy Danylko og nú hefur Verka selt yfir 600.000 plötur í heimalandinu. Hún var þó ekki sköpuð fyrir Júróvisjón, heldur hefur verið í þróun frá árinu 1990 og sem Verka tróð Andriy upp á leiksýningum og uppistöndum víðsvegar í heimalandinu. Hún var síðan valin sem fulltrúi Úkraínu í Júróvisjón 2007 þrátt fyrir nokkur mótmæli heima fyrir og margir töldu hana of „gróteska og ógeðfellda“ fyrir sjónvarpið. En hún fór þó með sitt Lasha Tumbai og dansaði. Titillinn lagsins olli talsverðu fjaðrafoki því að hann hljómar dálítið eins og „Russian Goodbye“. Þegar Verka var spurð út í nafnið á laginu fullyrti hún að þetta væri mongólska og þýddi „þeyttur rjómi“. Það var seinna hrakið af Mongólum sem spurðir voru út í það í rússneska sjónvarpinu svo að enn um sinn verður þessi titill að teljast ráðgáta (eða bara algjört bull!).

Nú síðast árið 2015 má segja að Verka sé á barmi heimsfrægðar eftir að hafa komið fram í bandarísku bíómyndinni Spy með Melissu McCarthy í aðalhlutverki, en þar flytur hún einmitt snilldina sína frá 2007:

Fyrsta æfing stóru þjóðanna og Úkraínu

Í gær æfðu stóru þjóðirnar fimm auk gestgjafanna frá Úkraínu og hafa þá allar þátttökuþjóðir æft að minnsta kosti einu sinni á stóra sviðinu. Við kíktum á myndbrotin og veltum okkur aðeins fyrir okkur hvernig æfingar stóru þjóðanna gengu.

Úkraína – Time


Heimamenn og gestgjafar æfðu fyrstir af þeim þjóðum sem eingöngu keppa í úrslitum. Kannski eins og við var að búast var sviðsetningin hefðbundin fyrir hljómsveit þar sem söngvarinn er í forgrunni og hinum raðað fallega fyrir aftan hann og til hliðar. Á myndbandinu virðast þeir örlítið falskir en þetta verður ábyggilega ljómandi gott en hefðbundið hjá þeim félögum í O.Torvald.

Ítalía – Occidentali’s Karma


Líklega er Francesco kóngur þessarar keppni þótt hún sé ekki hafin! Og hann var eins og kóngur á sviðinu á æfingu, lék við hvurn sinn fingur og virtist öruggur og líða vel á sviðinu. Dansinn er sjálfsögðu á sínum stað og auðvitað górillan líka. Í bakgrunn birtast m.a. górillur í mörgum litum sem einnig dansa. Bakraddirnar fjórar styðja Francesco vel en virðast þó aðeins eiga eftir að æfa dansinn góða betur!

Spánn – Do it for you lover


Manel Navarro mætti með brimbrettagengið sitt á sviðið, einn spilar á gítar, einn á bassa og einn á trommur. Allir eru þeir glæddir hawai-skyrtum og í bakgrunn er strandar- og brimbrettaþema. Manel sjálfur slær einnig gítarinn um stund og hefur skyrtuna fráhneppta. Hvort fráhneppta skyrtan á að lokka atkvæði gæti vel verið þar sem söngurinn virtist orkulaus – allavega svona á þessari fyrstu æfingu.

Þýskaland – Perfect Life


Eins og svo margir virðist Levina ætla vera með einfalda sviðsetningu. Tónarnir eru gráir og hvítir og Levina mætti á þessa æfingu í hvítum síðerma topp og skósíðu gráu pilsi. Raddlega hljómar lagið vel en það er bara spurning hvort þetta sé nægilega grípandi allt saman svo einhver taki upp símann og kjósi!

Bretland – Never give up on you


Geröfugt við þema keppninnar um hvíta búninga mætti Lucie í gylltum kjól á sína fyrstu æfingu og atriði var sveipað gylltum og svörtum ljóma. Lucie stendur með einhverskonar blævængsbakgrunn og syngur, ljómandi vel, en rétt eins og hjá þýsku stöllu sinni er óljóst hvort lagið sé nægilega sterkt til að fanga áhorfendur eða dómnefndir til að kjósa.

Frakkland – Requiem


Alma frá Frakklandi rak lestina í æfingum stóru þjóðanna. Lagið hennar hefur þótt gott, sérstaklega meðal aðdáenda og er hún t.d. í fjórða sæti í OGAE-kosningunni. Alma virtist hins vegar örlítið vandræðaleg á sinni fyrstu æfingu og hreyfingarnar á sviðinu (sem eru nú ekki miklar í þessu video-broti!) stífar og óeðlilegar. Í bakgrunn má sjá Effelturninn og París sem stundum hreyfast svo hratt að vert væri að gefa út viðvörun fyrir flogaveika.

Gamalt uppáhalds! – Tina Karol – Show me your love

HTF_6Hildur skrifar:
Það er komið að því að velja gamalt uppáhalds! Þar sem keppnin er í Kænugarði í ár ákvað ég að fjalla um eitt af uppáhaldslögunum mínum frá Úkraínu. Það var reyndar svolítið erfitt að velja bara eitt, enda all mörg skemmtileg lög komið frá Úkraínu á þessum 15 árum sem liðin eru síðan þeir hófu keppni í Júróvisjon. Ég var þó nokkuð fljót að komast niður á tvö lög, annars vegar Shady Lady sem Ani Lorak var í 2. sæti með árið 2008 og hins vegar Show me your love með Tinu Karol frá árinu 2006.

Eftir talsverða umhugsun valdi ég síðarnefnda lagið. Hvers vegna í ósköpunum kann einhver að velta fyrir sér, enda Shady Lady þvílík bomba! Í grunninn er Show me your love dálítið langt frá því að vera með bestu Júró-lögunum. Hins vegar er eitthvað magnað við framkomuna.

Í fyrsta lagi er engin bakrödd hvorki live né falin á teipi! Tina söng kröftuga lag því ein og óstudd meðan hún dansaði og lék sér á sviðinu! Í öðru lagi eru það

Stigvel Tinu Karol 2006

Stígvél Tinu Karol 2006

dansaranir. Klæddur í júróvisjonútgáfu af kósaka búning dansa þeir af áfergju og mikilli snilld. Sporin eru bæði þjóðleg en líka númtímalegur dans og allt saman bara heppnast þetta! Í þriðja lagi er það sú staðreynd að það er farið í snúsnú á sviðinu! Held að það hafi ekkert gerst, hvorki fyrr né síðar, á Júróvisjon sviðinu! Í fjórða lagi eru það stígvélin hennar Tinu – no more words needed! Í fimmta lagi eru það milli kaflanir tveir. Þar sýnir Tina hverslags rödd hún er með! Þrátt fyrir að nóturnar séu háar og hún syngi mjög sterkt er Tina samt sem áður alls engin kona sem æpir! Í sjötta lagi það uppbygging lagsins. Það líða ekki nema um 30 sekúntur frá því lagið byrjar og þar til við erum komin á fullt í grípandi viðlagið sem er endurtekið mörgum sinnum, raunar segir hún Show me your love 12 sinnum á þremur mínútum, geri aðrir betur!  Þrátt fyrir það verður lagið aldrei langdregið, hversu mikil snilld er það?! Í áttunda lagi er hún svo einn af höfundum lagsins en það telst til tíðinda að konur séu höfundar eða meðhöfundar júróvisjonlaga en nánar um það síðar!

Í heildina er því lagið, frammistaða Tinu og framsetning í heild svo ómótstæðileg að konu næstum undrar að Tina sigraði ekki bara!