Spá AUJ – úrslit

AUJ_cover

Stóra stundin er að renna upp! Úrslitin í Júróvisjon ráðast í kvöld og við sjaldan verið eins spenntar því að keppnin er eins og galopin bók sem enginn veit hvernig endar! Eins og áður spáum við hverjir verði í topp 10 í engri sérstakri röð. Og það verða:

BÚLGARÍA
FRAKKLAND
KÝPUR
ÍSRAEL
FINNLAND
AUSTURRÍKI
DANMÖRK
ÚKRAÍNA
EISTLAND
MOLDÓVA

spáAUJ-12.5aspáAUJ-12.5b

Af þessum tíu teljum við Búlgaríu, Frakkland og Kýpur sigurstranglegust.

img_3635.jpg

Flosi okkar, sem oft hefur deilt sínum skoðunum á Öllu um Júróvisjon, er sammála okkur að hluta til og telur að toppbaráttan verði sannarlega á milli Frakklands, Kýpur, Búlgaríu , Ísrael, Austurríkis og Eistlands. Hann telur einnig að Ástralía, Svíþjóð, Ungverjaland og Noregur verði með í gleðinni á toppnum.

 

Gærkvöldið í hnotskurn!

Heilagur Sakis! Júróvisjon-sviðið í Altice Arena var svo yfirfullt af júróbombum að við höfum sjaldan séð annað eins á einu kvöldi! Fyrirfram var ljóst að mjög erfitt væri að spá fyrir um úrslit kvöldins þótt raunin hafi orðið sú að öll umtöluðustu atriðin komust áfram. Stærstu fréttirnar eru að Aserbaídsjan og Grikkland komust ekki áfram en þetta er í fyrsta skipti sem Aserar komast ekki í úrslit og ljóst að Aisel braut blað í Júrósögu Asera. Grikkir hafa tekið þátt í Júróvisjon frá árinu 1974 og Yianna er önnur í sögu þeirra til að skila þeim ekki í úrslit.

En kíkjum aðeins nánar á hvað fyrir augu bar á sviðinu í Lissabon í gær.

Kvöldið hófst á einni júrósprengjunni sem líklega verður lítið minnst á í Júróvisjonsögunni. Ólíkt því í fyrra virðast jógastöður  (Francesco Gabbani, apinn og namaste, þið munið!) ekki vera gera sig í ár. Engar skikkjur voru áberandi í ár en þær virkuðu heldur takmarkað fyrir keppendur í fyrra.

Ari, Eugent og Elina áttu í harðri háu-tóna keppni sem þau tvö síðarnefndu unnu – því miður!

 

eurovision-czech1

Hressleikinn var í fyrrirúmi hjá Mikolas og félögum og ekki að sjá að bakið hrjáði hann mikið. Hvort hressleikinn skapaðist af andrúmsloftinu, verkjalyfjum eða einhverjum öðrum lyfjum er erfitt að segja en við vorum að minnsta kosti fegnar að þriðji dansarinn þurfti ekki að fara í uppptökupróf og gat því verið með.

Dansinn dundi oft yfir kvöldið, fyrst þegar Ísrael steig á stokk og mátti þá halda að konur væru staddar á Euroclub frekar en á showinu sjálfu! Næsta dansbomba kom þegar Saara Alto flutti Monster og þá voru það ekki bara standandi áhorfendur sem dilluðu sér heldur braust út dansstemmning í græna herberginu. Eleni var síðust í röðinni og var þá svo mikil stemming komin í salinn að líklega voru fleiri að dansa en horfa!

bulgaria

Röddunarveisla og gæsahúðarmóment kvöldsins voru í boði Búlgaríu – hamingjan sanna, kannski vinna þau þetta bara!

austria

Við erum loks að spá í að setja Cesar á dýrlingalista Júróvisjon og færa honum nafnbót heilagleikans. Verður hann því þriðji Júróvisjondýrlingur AUJ á eftir Sakis og heilagri Carolu!

 

 

„Guys, I need to sign this form!“ Æfingar dagsins í Altice Arena

Það gekk á ýmsu á öðru æfingarennsli í Altice Arena í dag. Við sátum í gegnum æfingar landanna úr fyrsta undanriðli og erum sammála um að sjaldan hafi jafnmikið verið upp og niður þegar á þennan stað er komið í æfingaferlinu; talað var um öryggisskilmála, tafir vegna umferðar og próftökur svo eitthvað sé nefnt. Alltaf er þó rúm fyrir bætingar og unnið var hart að því í dag!

aser_aefing2_Andres Putting

Mynd: Andres Putting

Aserbaídsjan: Mjög flott opnun á kvöldinu. Aisel er með skemmtilegar jógapósur á sviðinu, t.d. stríðsmanninn en hún hleypur fullmikið um fyrir okkar smekk.

 

island_aefing2_Andres Putting

Mynd: Andres Putting

Ísland: Æfingu íslenska hópsins var frestað vegna umferðaróhapps, svo að Albanía æfði á undan. Þegar Ari mætti á svið gekk rennslið þó mjög vel, fyrir utan tæknivesen á einum stað (það hafði hreinlega einhver hent peysunni sinni ofan á eina kameruna). Notast er við myndavélaskot í byrjun sem minnir hressilega á Johnny Logan sem virkar mjög vel fyrir Júrónördana!

 

albania_aefing2_Andres Putting

Mynd: Andres Putting

Albanía: Eugent gaf allt í botn í öllum sínum þremur rennslum og kom mjög á óvart – þvílíkt vald á röddinni sem hann hefur!

 

tekkland_aefing2_Andres Putting

Mynd: Andres Putting

Tékkland: Mikolas sneri aftur á sviðið en æfingin gekk alls ekki nógu vel. Hann átti í vandræðum með innra eyrað og svo var míkrafónninn ekki á réttum stað. Þá fylgdu tæknileg vandamál hjá tökuliðinu. Hann leit út fyrir að vera dálítið orkulaus og skiljanlega dálítið stífur eftir bakmeiðslin. Reyndar vantaði líka einn dansarann því að hann þurfti að klára að taka próf!

 

Israel_aefing2_Andres Putting

Mynd: Andres Putting

Ísrael: Svo klikkað flott live – mjög sterkur söngur og dansararnir eru klárlega þeir bestu í keppninni í ár! Þar sem Netta má ekki sampla live á sviðinu hefur röddunin í byrjun verið styrkt mjög vel með bakröddum og laginu hefur einnig verið hraðað. Allir blaðamennirnir í höllinni göluðu með henni í viðlaginu!

 

hvitarussland_aefing2_Andres Putting

Mynd: Andres Putting

Hvíta-Rússland: Geggjaðar bakraddir og lyftupallur hjálpa greyið Alekseev lítið því að hann er enn svakalega neðarlega í langa Foreveeeeeeeer-tóninum.

 

bulagria_aefing2_Andres Putting.jpg

Mynd: Andres Putting

Búlgaría: Kom okkur langmest á óvart og var Vá-faktor dagsins. Þetta virkaði allt saman; röddunin, frekar speisaðir búningar og einföld framsetning gerði heildarmyndina mjög flotta.

 

austrurriki_aefing2_Andres Putting

Mynd: Andres Putting

Austurríki: Það gekk eiginlega allt á afturfótunum hjá Cesari en þrátt fyrir náði hann að renna þrisvar í gegn á þeim 20 mínútum sem hann hafði. Hann byrjar hátt uppi á palli og er þess vegna í öryggislínu og -belti. Fyrsta rennslið þurfti að stoppa vegna þess að hann gleymdi að taka öryggislínu af sér þegar hann var kominn niður á sviðið. Þá kallar hann til pródúseranna: „Guys, I need to sign this form“ og fékk svarið: „You know you have it“. Í næstu byrjun festi hann fótinn í öryggisbandinu. Í þriðju tilraun festist pallurinn í efstu stöðu og þurfti lagni við að koma honum niður. Eftir það gekk allt vel fyrir sig og hann átti frábær rennsli.

 

grikkland_aefing2_Andres Putting

Mynd: Andres Putting

Grikkland: Yianna átti erfitt með nokkra tóna undir lok lagsins en átti annars mjög góða æfingu. Bláa höndin er mjög töff en við erum pínu hræddar um hvíta kjólinn, fer ekki litur í hann?

 

finland_aefing2_Thomas Hanses

Mynd: Thomas Hanses

Finnland: Dagskráin hafði riðlast um 40 mínútur þegar Saara steig síðust á svið. Sjónarspilið er mjög flott en við söknuðum pínu vá-faktorsins í atriðinu sjálfu. Það er þó alveg ljóst að Saara er algjör stjarna og dáleiðandi á sviði! Búningar dansaranna virka vel sem látlausir hermannagallar því að gimmikkið með LED-pallinn er alveg nógu mikið. Tvö fyrstu rennslin stoppuðu bæði út af tækniatriðum en í því síðasta gekk allt smurt og Saara negldi alveg flutninginn.

 

 

 

Þemun í ár: Smástrákar og full-(komn)-orðnir karlmenn

Ungir og álitlegir karlsöngvarar eru áberandi í keppninni í ár, svo áberandi að okkur fannst það jaðra við þema þegar hver þjóðin á fætur annarri sendir ungan sætan (smá) strák sem básúnar lag og texta sem kona tengir alls ekki við hugarheim unglinga.

Á hinn bóginn eru samt alltaf flottir og álitlegir karlmenn á stóra sviðinu í Júró og það eru engar nýjar fréttir. Á hverju ári gera t.d. vinkonur okkar í Noregi (Good evening Europe) sína topplista yfir „heitustu keppendurna“ og við dáumst að hugmyndaauðgi þeirra og kímnigáfu (yes, Astrid and Guri – we are complementing you on your great Hotlists, we always follow them! Keep up the good work!) Þar fá sjarmörarnir að skína og þær leita þá uppi á hinum ýmsu viðburðum og leyfa öllum þeirra helstu mannkostum að njóta sín. Án þess að gera neina tilraun til að herma eftir þeim, viljum við leitast við að veita föngulegum karlpeningnum í ár dálitla athygli.

Boybandið

Yngstu drengirnir í ár gætu stofnað með sér Júró-boybandið New Direction on the Western Block eða eitthvað í þá áttina. Þeir hafa hver sinn eiginleika sem tilheyra alltaf svona boybandsuppröðun; hinn spænski Manel er hressi brimbrettaskyrtugaurinn sem grípur í körfuboltann, Isahiah frá Ástralíu er þessi dökki og dularfulli sem verður að vera í hverju boybandi, Írinn Brendan er gáfulegi, mjúki gaurinn með gleraugun og háu röddina sem hvert boyband verður að hafa og Kristian frá Búlgaríu er krúttið með frekjuskarðið – og kannski skápahomminn? Ef þetta boyband hefði komið fram þegar við vorum 14 ára, hefðum við svo sannarlega kolfallið fyrir þeim. Mögulega er sjarmi þeirra samt bundinn við yngri aldurshópa en kannski ekki. Þegar þetta er skrifað eiga þeir flestir eftir að æfa á sviðinu svo að við eigum eftir að sjá þá þar.

Metró-mennirnir

Þetta eru þessir hreinu og stroknu herramenn sem ilma jafnvel og þeir líta út. Þar er Svíinn Robin Bengtsson sennilega efstur á blaði – en sumir kveða svo fast að orði að kalla hann mennsku útgáfu Kens hennar Barbiear. Sykursætur og fullkominn er hann vissulega, algjörlega í stíl við lagið sitt. Alex Florea frá Rúmeníu er líka mættastur með man-buninn sinn, kýpverski Hovig með mátulega skeggrót og austurríski Nathan klæðir sig óaðfinnanlega. Aðrir sem heilla (mismikið þó) eru Koit Toome frá Eistlandi og Jimmie Wilson fyrir hönd San Marínó en þeir eru kannski dálítið lifaðir og oldskool sem og Omar Naber frá Slóveníu. Þeir hafa þó allir þennan metrósjarma. Töffararnir sem tilheyra metróhópnum eru alveg á indí-jaðrinum. Það eru þeir Artem úr hvítrússneska Naviband sem hristir krullurnar og svölu guttarnir úr Triana Park frá Lettlandi; Edgars, Kristaps og Artūrs. Það væri nú ekki leiðinlegt að hanga með þeim: Svo svalir að nöfnin þeirra eru öll í eignarfalli (djók!)

Dívurnar

Í öllum keppnum Júróvisjón koma einhverjar dívur fram á sjónarsviðið og keppnirnar væru sannarlega fátæklegri án þeirra. Við erum kannski vanari því að dívurnar okkar séu kvenkyns (hæ, Hera Björk!) en karlar geta svo sannarlega verið dívur líka og Svartfellingurinn Slavko og Jacques hinn króatíski eru sko það og meira til! Þeir stela senunni, fjallmyndarlegir og persónuleiki þeirra er nánast stærri en þeir sjálfir – they’re here, they’re queer and you better get used to it! Auðvitað elskum við þá, dýrkum og dáum en stundum getum við ekki meir en bara myndina – hljóðið og hreyfimyndin er um of!

Indí-yndið

Screen Shot 2017-05-01 at 10.09.05

Hann Salvador okkar Sobral frá Portúgal verðskuldar sinn eigin flokk sem indíhipster. Sjarmerandi og afslappað útlit hans tónar svo vel við lagasmíðina sem hann flytur og þrátt fyrir að skarta man-bun eins og metrómenn er svona notaleg óreiða í kringum hann og skegghýjungur sem er bara akkúrat eins og hann á að vera. Hjarta fyrir Salvadorable!

Mucho Macho 2017

Þá er það flokkurinn sem er stútfullur af testósteróni. Yfir-testósteróninn í ár virðist vera hann Fransesco okkar, hann ber þetta kynþokkafulla yfirbragð Ítalanna sem er laust við að vera hrokafullt (eða kannski bara mátulega hrokafullt) og brosið er milljóna króna virði. Við höfum líka heyrt því fleygt að hann sé útlimalangur í öllum skilningi þess orðs, leggjum ekki meira á ykkur! Norski söngvarinn og partíljónið Aleksander heillar okkur líka á sama hátt og hinn ísraelski Imri og finnski Lasse úr Norma John *dæs*. Aðrir sem rétt er að nefna eru Joci Pápai frá Ungverjalandi sem hefur þetta etníska yfirbragð og úkraínski og flúraði söngvarinn Yevhen að ógleymdum Epic Sax Guy (Sergey; sem við að sjálfsögðu elskum frá því í Osló 2010) og félögum úr Sunstroke Project, þeim Antoni og Sergey.

Auðvitað fögnum við fjölbreytileikanum, fullmeðvitaðar um að útlitið er ekki allt og að þessir myndarlegu menn séu ekki að keppa eingöngu út af því hvernig þeir líta út, en þetta er allt saman hluti af Júró-heildinni. Útlit, framkoma, söngur; þetta skiptir allt máli og talar hvert við annað.

Ef við ættum að lokum að útlista hverjir það væru sem við myndum sérstaklega sækjast eftir selfies með í Kænugarði, með stjörnur í augunum, væru það þessir myndarlegu menn:

Dagbók Flosa: Júró-Flosi spáir í Undankeppni 2

 

Flosi með vín í Vín

Þá er Júró-Flosi kominn aftur og ætlar að fara yfir lögin úr seinni undariðlinum. Hann lætur að vanda allt flakka og spurning hvort þið séuð sammála honum. Svo það sé tekið fram eru þetta skoðanir hans á lögunum áður en æfingar hefjast í Kænugarði og það er næsta víst að eitthvað breytist að þegar þær líta dagsins ljós!

Jæja elsku dúllurnar mínar ég á mjög erfitt með að finna 10 lög til að fylla upp í en það eru nokkur sem eru að vinna á. Eftir að hafa hlustað á öll lögin, tekið þau lög sem gripu þá og síðan tekið þau lög sem unnu á var samt erfitt að velja. Þá fór ég yfir í veðbankana og pólitíkina sem ég geri aldrei en var nauðsyn núna!  Hér eru helstu niðurstöður en ég fjalla nánar um hvert og eitt lag í videoinu.

Serbía: Flott nútíma popplag, vona að nakti strákurinn fylgi með.
Makedónía: Svolítið Robyn-legt lag og ég elska Robyn. Jana hefur hins vegar verið flöt í fyrirpartýjunum.
Rúmenía: Jóðl og rapp saman, þetta er Júróvision!
Holland: Ég elska fallegar raddútsetningar og þær eru geggjaðar live.
Írland: Sætur strákur og þetta var eitt af þeim lögum sem greip við fyrstu hlustun, en hann hefur verið slappur live.
Noregur: Slöpp undankeeppni í ár í Noregi en það skásta vann og þetta lag vinnur á.
Sviss: Ég get ekki hætt að syngja viðlagið þó að þetta sé búið að vera lengi í spilun, en þetta gæti líka endað í neðsta.
Búlgaría: Hér er þvílíkur hæfileiki drengur á ferðinni og lagið vinnur meira og meira á. Ég held að með geggjaðri sviðsframkomu þá gæti hann stolið þeim atkvæðum sem Rússar hefðu annars fengið og skilað honum í topp 5.
Eistland: Þetta er svona mitt guilty pleasure, 80’s popplag sem er með svaka húkk og minnir á danska lagið In a moment like this.
Ísrael: Þvílíkur kroppur og sjarmör, klárlega besta danslagið í ár en ekki eins gott og Golden boy.

Það eru tvö lög sem banka á dyrnar en það eru Austurríki og Grikkland. Þetta eru lög sem ég hlusta á mikið og vinna á, eins hafa þau verið að gera góða hluti í fyrirpartýjum.

En nú er bara að taka sig til og gera allt klárt fyrir ferðina. Hlakka mikið að deila með ykkur ferðinni og hvað gerist í heimi Júró-Flosa! Ekki gleyma heldur að fylgjast með á snappinu: eurovisionfreak.

Yfirferð laga 2017: VII. hluti

pizap.com14909564396391Austurríki

Nathan-Trent-Cube-by-Martin-Hauser

Mynd: nathantrent.com

Hvað: Running on Air
Hver: Nathan Trent
Á svið: Seinni undanriðill
Gengi 2016: 13. sæti í úrslitum

Eyrún segir: Mér finnst eitthvað krúttlegt og sjarmerandi við Nathan og mér var ósjálfrátt hugsað til vinar okkar frá 2010, þeir eru kannski svipaðar týpur. Lagið er mjög áreynslulaust og rennur áfram, mjög týpískt útvarpslag. Það verður áhugavert að sjá það útfært á sviðinu en ég er hrædd um að það þurfi eitthvað grípandi gimmikk til að gera það eftirminnilegt.

Hildur segir: Hér er á ferðinni voðalega glaðlegt lag um að berjast fyrir því sem maður vill – eða þann skilning set ég að minnsta kosti í textann! Nathan virðist einlægur og brosmildur þegar hann syngur og lagið er auðmelt í hlustun. Það er hins vegar svolítið óeftirminnilegt og ég held, rétt eins og Eyrún, að það þurfi eitthvað grípandi gimmik á sviðinu til að lagið renni ekki bara hjá í ljúfu 3 mínútna vaggi.

Hvíta-Rússland

15966187_614331398770150_1408370286038480401_n

Mynd: Naviband á Facebook.

Hvað: Story of My Life
Hver: Naviband
Á svið: Seinni undanriðill
Gengi 2016: 12. sæti í öðrum undanriðli

Eyrún segir: Eitt af fyrstu lögunum sem ég heyrði í keppninni í ár og mér fannst það frábært frá fyrstu hlustun. Algjörlega æðisleg indípopp undir OMAM-áhrifum. Örugglega eitt af fáum hvítrússneskum framlögum sem ég fíla af því að þau virka einlæg í sínum flutningi og þarna er ekki verið að fókusera á einhvern stílhreinan og fágaðan flutning sem hefur (oft) klikkað áður. Ég sá þau á sviði og performansinn er jafneinlægur og fínn og ég bjóst við eftir að hafa séð vidjóið. Ég vona innilega að þau nái langt því að þetta er alveg á mínum topp 10 lista í ár 🙂

Hildur segir: Æjæjæjæ ég er komin með svolítið leið á þessu þjóðlagapoppi. Lagið fannst mér arfaleiðinlegt í fyrsta skipti sem ég heyrði það, öllu skárra í næstu skipti en ákúrat núna er það fallið aftur niður í leiðindaflokkinn. Giska þó að þetta gæti orðið mitt Makedóníusyndróm í ár! Það er þó mjög hressandi að sjá heiðarlegt popp frá Hvít-Rússum í stað ofurpródúeraðrar júró-slagara!

Kristian_Kostov_at_Bitva_Talantov_(2)

Mynd: Wikipedia

Búlgaría

Hvað: Beautiful Mess
Hver: Kristian Kostov
Á svið: Seinni undanriðill
Gengi 2016: 4. sæti í úrslitum

Eyrún segir: Ég verð að segja að ég skil ekki alveg hæpið sem virðist vera í kringum búlgarska atriðið í ár. Jú, Poli vinkona okkar stóð sig frábærlega í fyrra og spennustigið í ár er örugglega hátt vegna þess. En ég sé samt bara mjög ungan dreng með fremur flatt lag. Það er þó vissulega líklegt til vinsælda þar sem það hefur þessi element og þennan hljóm sem er í vinsælum lögum í dag – en ég er þó ekki hrifin af laginu. Hef lúmskan grun um að þetta floppi kannski á stóra sviðinu!

Hildur segir:  Ég er alveg ótrúlega skotin í röddinni hans Kristians. Það er í raun alveg ótrúlegt að drengurinn sé ekki nema 17 ára! Röddinn er ekki sérlega stór en alveg ótrúlega falleg. Lagið hans er líka fallegt og þó ég hafi ekki alveg kveikt á því strax. Það hefur vinsældarhljóm dagsins í dag með ögn af ethnískum hljóm sem gengur upp. Það vantar hins vegar húkk í lagið og það held ég að geti orðið því að falli. Lagið er líka til þess fallið að sviðsetningin gæti floppað.