AUJ 10 ára! – 1. hluti: Samferða Jon Ola Sand

Jon Ola Sand

Mynd: eurovision.tv

Allt um Júróvisjon hélt upp á 10 ára afmælið sitt á hinu stórfurðulega ári 2020. Að því tilefni birtum við nú  umfjöllun um fyrstu árin okkar tíu. Í þessum fyrsta hluta ætlum við að beina sjónum okkar að engum öðrum en Jon Ola Sand, fyrrum framkvæmdastjóra Júróvisjon.

Jon Ola Sand hóf feril sinn í sjónvarpi sem rannsakandi fyrir tónlistarþátt hjá norska ríkissjónvarpinu, NRK en vann sig fljótt upp og hefur framleitt margskonar efni fyrir NRK; þar á meðal undankeppnina Melodi Grand Prix. Á árunum 1998-2005 var hann einnig fararstjóri norska hópsins í Júróvisjon og var því ekki alls ókunnugur keppninni þegar hann fékk það hlutverk að vera yfirframleiðandi Júróvisjón í Noregi árið 2010. Árið 2010 er einmitt upphafsár AUJ þar sem keppnin í Noregi var sú fyrsta sem AUJ var viðstatt og gleymist okkur seint. Það má því segja að AUJ hafi verið samferða Jon Ola Sand í Júróvisjon-ævintýri sínu fyrstu tíu starfsárin.

Í kjölfarið af vel heppnaðri keppni í Osló var Jon Ola ráðinn sem framkvæmdastjóri Júróvisjón úr hópi 36 umsækjenda. Tilkynnt var um ráðningu Jon Ola í nóvember 2010 og tók hann við keflinu 1. janúar 2011. Sem framkvæmdastjóri stýrði Jon Ola alls níu keppnum auk keppninnar sem átti að vera árið 2020. Þessi tíu ár sem Jon Ola fór fyrir keppninni var sko engin lognmolla í kringum hana; pólitík, mannréttindi og (umdeildar) breytingar á kosningakerfi og framsetningu atkvæða er aðeins brot af því sem Jon Ola tókst á við í framkvæmdastjóratíð sinni. Þá stækkaði keppnin undir hans stjórn, bæði á alþjóðavettvangi sem og í fjölda þátttökuþjóða auk þess sem júróvisjonstórþjóðir bæði hættu og komu aftur.

Júróvisjon-stórþjóðir koma og fara
Fyrsta keppnin sem Jon Ola stýrði sem framkvæmdastjóri var haldin í Dusseldorf í Þýskalandi árið 2011 eftir frækinn sigur Lenu og lagsins Satellite í Osló árið áður. Keppnin þótti heppnast vel og var söguleg fyrir þær sakir að Ítalía sneri aftur til keppni eftir langt hlé en síðast höfðu Ítalir verið með árið 1997. Ítalir hafa verið með allar  götur síðan með góðum árangri þótt enn sé bið eftir ítölskum sigri.

Tyrkland kvaddi keppnina árið 2012 en þá keppti Can Bonomon nokkuð eftirminnilega með laginu Love me back og endaði í 7. sæti í úrslitunum. Tyrkir höfðu átt góðu gengi að fagna allt frá sigri sínum árið 2003 en allt fram til ársins 2012 lentu Tyrkir samtals sex sinnum á topp 10.

Þá var árið 2015 fyrstu þjóðinni boðið að taka þátt sem er utan vel skilgreindra Júróvisjon-landamæra Evrópu. Það er auðvitað Ástralía sem hefur fylgst af áhuga með keppninni í fjölda ára. Ástralir hafa keppt allar götur síðan með gríðarlega góðum árangri þótt enn sé sigur ekki í höfn.

Pólitíkin allsráðandi
Júróvisjon-keppnin hefur ávallt státað sig af því að vera ópólitískur vettvangur og í raun er þess getið í reglum keppninar. Jon Ola hefur þó þurft að taka á nokkrum pólitískum málum á ferli sínum. Strax árið 2012 komu upp umdeild mál, þegar keppnin var haldin í Baku í Azerbaijan. Armenía dró sig úr keppni vegna öryggisógna sem tengjast deilu landanna um Nagorno-Karabakh-héraðið. Þá gagnrýndu mannréttindasamtök stjórnvöld í Azerbaijan og sögðu brotið á málfrelsi og lýðræðislegum réttindum borgara í Azerbaijan auk þess sem nauðungaflutningar fólks úr íbúðum sínu á svæðinu þar sem Kristalshöllin, sem hýsti keppnina, var byggð voru harðlega gagnrýndir. Þá kvörtuðu azersk stjórnvöld yfir því að Loreen, sigurvegari keppninnar hefði brotið reglur með því að heimsækja mannréttindasamtök og sagði í fjölmiðlum að mannréttindi væru brotin í Azerbaijan og yfir slíku ætti ekki að þegja. Eins og við munum svo öll þá sigraði Loreen keppnina og lagið hennar Euphoria hefur síðan verið eitt af vinsælustu Júróvisjonlögum allra tíma.

Pólítíkin var þó ekki bara flækt í keppnina 2012. Árið 2015 var í fyrsta skipti notuð svokölluð anti-booing-tækni eftir að púað hafði verið á keppendur Rússlands árið áður og aftur árið 2015. Jon Ola minnti áhorfendur á það árið 2015 að Júróvisjon ætti að vera „friendly battlefield….not a political battleground„. Þá var árið 2016 sett mjög umdeild stefna í fánamálum í keppninni. Upphaflega var stefnan sú að eingöngu mætti flagga fánum þjóða sem viðurkenndar væru af Sameinuðu þjóðunum auk Evrópufánans og regnbogafánans. Í reglunum voru tekin dæmi um bannaða fána og mátti á bannlistanum sjá fána ýmissa þjóðarbrota sem búa innan viðurkenndra Evrópuríkja. Mikil mótmæli urðu við þessum reglum og á endanum gaf EBU aðeins eftir og tók út yfirlit yfir bannaða fána. Það stoppaði þó ekki öryggisvörð sem gerði fána Baska upptæka í öryggisleit og meinaði eiganda fánans aðgang að keppninni. Því var þó kippt snögglega í liðinn þar sem spænski sendaherrann var viðstaddur í höllinni og var bæði Baskafánanum og eigendum hans hleypt inn í höllina að lokum.

Áfram stóð Jon Ola í pólitísku stappi þegar keppnin var haldin í Úkraínu árið 2017. Það ár reyndi hann og Júróvisjonteymið að leita leiða fyrir Rússa að taka þátt í keppninni. Rússar höfðu árið 2014 innlimað Krímskagann í Úrkaínu. Þátttakandi Rússa, Julia Samoylova, hafði árið 2015 ferðast til Krímskagans án heimildar frá Úkraínu og vegna þessa var hún sett í þriggja ára ferðabann til Úkraínu þann 22. mars 2017. Sáttaumleitanir Jon Ola og Júróvisjonteymisins báru ekki árangur og endaði því málið þannig að Rússland dró sig úr keppninni.

Loks ber að nefna síðustu keppni Jon Ola Sand sem haldin var  í Ísrael árið 2019. Það voru engir aðrir en okkar eigin Hatarar sem voru meðal þeirra sem sáu til þess að pólítíkin væri sett rækilega á borðið í Júróvisjon.  Öll munum við þegar þeir flögguðu palestínska fánanum þegar stig úr símakosningu voru tilkynnt. Áður hafði Jon Ola kallað þá á sinn fund vegna ummæla þeirra um hernám Ísrela í Palestínu og gert þeim ljóst að þeir hefðu farið yfir hina ópólitísku Júróvisjonlínu.  Þetta var þó ekki það eina sem Jon Ola stóð í vegna keppninnar í Ísrael. Skemmst er að minnast bréfs Jon Ola til Netanyahu forsætisráðherra Ísraels í tengslum við fjármögnun öryggismála keppninnar auk þess sem Jon Ola er sagður hafa miðlað málum á milli forsætisráðherrans og forstjóra sjónvarpsstöðarinnar KAN sem hélt keppnina í Ísrael.

Aukinn alþjóðlegur áhugi
Í stjórnartíð Jon Ola Sand má með sanni segja alþjóðlegur áhugi á Júróvisjón hafi aukist. Það var ekki bara með innkomu Ástralíu sem keppanda sem keppnin hefur ferðast út fyrir Júróvisjon-landamærin. Í tíð Jon Ola hófust til dæmis beinar útsendingar frá keppninni í Bandaríkjunum auk þess sem bandarísku stórstjörnurnar Justin Timberlake og Madonna tróðu upp með skemmtiatriði annars vegar 2016 og hins vegar 2019. Þetta hefur leitt til þess að American Song Contest verður haldin í fyrsta sinn í ár.

Júróvisjon-ferðalag Jon Ola Sand endar á sögulegu nótunum því að, eins og við öll vitum, var síðustu keppninni í hans umsjá aflýst vegna Covid-19 faraldursins. Það má því með sanni segja að ferill Jon Ola Sand sem framkvæmdastjóra Eurovision-keppninnar hafi verið viðburðaríkur og hans minnst fyrir nokkuð ævintýraríkan og sögulegan feril í starfi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s