Svona spáum við fyrir kvöldið!

Allt um Júróvisjon profil mynd

Upp er runninn Söngvakeppnisdagurinn og ekki laust við að nú hellist yfir okkur spennuskjálftinn sem kemur alltaf á þessum degi. Að vanda spáum við í spilin fyrir kvöldið!

Eyrún spáir:

1EEVMargt hefur verið spekúlerað og rýnt í flutning og framlög, jafnt hér sem og í ýmsum miðlum síðustu daga. Flestallir hafa skoðun á því hvaða lag kemst alla leið og það verður að segjast að þrír flytjendur heyrast langmest; Daði, Dimma og Iva. Sú staðreynd að þessi þrjú framlög eru svo sterk og eiga hvert um sig heilmikið bakland er mjög skemmtileg og hressandi því að það er langt síðan keppnin hefur skipst svona upp. Í fyrra var það eiginlega Hatari frá upphafi og mér finnst oftar en eitt ákveðið lag standa upp úr lengst framan af og allt þar til kemur að keppnisdegi. Þá heltast önnur úr lestinni og fólk verður sannfært jafnvel áður en Söngvakeppnin fer í loftið. Þetta hlýtur því að þýða spennandi keppni!

Ég tel þó næsta víst að Daði Freyr og Dimma detti inn í einvígið og Iva fylgi þeim fast á eftir, mögulega blandi sér í toppbaráttuna á kostnað annars þeirra hafi sviðssetningin tekið dramatískum breytingum. Ég gæti þó trúað að það yrði pínu pattstaða er ef Daði og Dimma lentu saman í einvíginu, þá myndi fólk mögulega kjósa í meira mæli gegn ákveðnum flytjendum. Þetta segir okkur bara að no matter what – VIÐ VERÐUM AÐ KJÓSA!

Hildur spáir:

HTF_6Keppnin í ár er öllu meira spennandi heldur en hún hefur oft verið. Rétt eins og Eyrún kemur inn á hér að ofan þá var nokkuð ljóst strax í upphafi að Hatari myndi sigra í fyrra og slík staða hefur oft komið upp í Söngvakeppninni. Nú er staðan hins vegar önnur og mun fleiri lög sem eiga möguleika á að komast alla leið til Rotterdam í vor. Þrjú af þeim fimm sem keppa hafa þó verið mest í umræðinni, Think about things með Daða og Gagnamagninu, Almyrkvi með Dimmu og Oculis Videre með Ivu. Þetta eru þrjú afar ólík lög og gaman að sjá fjölbreytnina í keppninni. Síðust vikur hefur þó Think about things siglt nokkuð fram úr hinum tveim í umfjöllun og ef spilun laganna á t.d. Youtube og Spotify er skoðuð þá er lag Daða með margfalda spilun á við hin tvö. Iva er þó enn með mun meiri spilun en Dimma þegar þetta er ritað, einkum á Youtube. Þrátt fyrir þetta er þó aldrei að vita hvað gerist og alveg möguleiki á að Ísold og Helga eða Nína blandi sér í toppbaráttuna. Nína er til að mynda með svipaða spilun og Dimma á Spotify en talsvert meiri spilun á Youtube. Ég tel þó að möguleikar þeirra fari fyrst og fremst eftir dagsforminu og í hvaða stuði þjóðin er í kvöld. 

Að þessu sögðu spái ég þó að Daði og Iva fari í einvígið og Daði hafi þar afgerandi sigur þegar upp er staðið. 

Röðun laga og einvígið
Fyrsti hluti kosningar er blönduð símakosning og dómnefndarkosning. Við verðum alltaf að gera ráð fyrir fyrirætlan RÚV að gera gott sjónvarp úr Söngvakeppninni og þess vegna er yfirleitt raðað á ákveðinn hátt upp. Oft er þetta praktískt upp á skiptingar og hreyfingar stórra sviðsmuna á sviðinu á skemmstum tíma, t.d. þegar risastór sviðsmynd Hatara var sett upp síðust á svið, rétt á eftir auglýsingahléi. Stundum má lesa eitthvað um gengi laga eftir því hvenær þau stíga á svið  (eins og við skoðuðum hér í aðalkeppni Júróvisjón) en þetta er nú yfirleitt bara gott sjónvarp 🙂

Það er því dálítið gaman að skoða öll framlögin út frá því hvort þau lentu í einvígi eða ekki. Við tökum það fram að við styðjumst ekki við neitt annað en eigið brjóstvit í þessum efnum – og þessar kenningar eru auðhrekjanlegar!

Flytjendur efstir eftir blandaða kosningu Minni líkur eftir einvígið Meiri líkur eftir einvígið
Daði og Dimma Dimma? Daði?
Daði og Iva Iva Daði
Iva og Dimma Iva Dimma
Daði og Ísold&Helga Ísold&Helga Daði
Daði og Nína Nína Daði
Dimma og Ísold&Helga Ísold&Helga Dimma
Dimma og Nína Nína Dimma
Iva og Ísold&Helga Ísold&Helga Iva
Iva og Nína Nína Iva

 

Söngvakeppnin 2020: Möguleikar í úrslitum – Almyrkvi

dimma

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook

Síðastir (en alls ekki sístir!) á svið eru strákarnir í Dimmu með lagið sitt Almyrkva.

Kostir:

 • Hressandi að heyra þungarokkið sungið á íslensku.
 • Söngurinn lofar góðu.
 • Lagið er allt öðruvísi en hin í keppninni og hefur mikla sérstöðu

Gallar:

 • Einhvern veginn eru þeir ekki nógu sannfærandi fyrir okkar smekk.
 • Söknum þess að sjá ekki Stebba tala meira við áhorfendur í gegnum myndavélina.
 • Lagið alls ekki nógu rismikið og grípandi

Möguleikar alls í Söngvakeppninni:  Atriði og lag Dimmu er klárlega eitt af þeim sem hafa vakið athygli og umtal í keppninni í ár. Dimma er hljómsveit sem á marga aðdáendur og hugsanlega aðdáendur sem kjósa alla jafna ekki í Söngvakeppninni en gera það nú til að styðja sína menn og koma þeim því í einvígið. 

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Við teljum lag Dimmu einfaldlega ekki nægilega sterkt og eftirminnilegt til þess að eiga raunverulega möguleika á að komast í úrslit. Það gæti þó gerst en fer algjörlega eftir því hvaða önnur lög verða með okkur í undanúrslitum.

 

Söngvakeppnin 2020: Möguleikar í úrslitum – Oculis Videre

iva

Mynd: youtube.com

Iva stígur fjórða á svið í úrslitunum 29. febrúar með lagið sitt Oculis Videre.

Kostir:

 • Fallegt lag sem nær til margra.
 • Hæg flæðandi skotin í útsendingunni henta laginu sérstaklega vel.
 • Hæfileg mystería og skírskotun í gömul norræn stef eru mjög aðlaðandi – og höfða til breiðs hóps!

Gallar:

 • Sviðsetningin kannski helst til einföld.
 • Við söknum meira powers í söng Ivu.
 • Sjónvarpsútsendingin verður að styðja mjög vel við flytjanda sem fylgir myndavélunum síður eftir. Þarf ekki að vera hamlandi en aðeins meiri líkur á tæknilegum vandkvæðum.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Iva er klárlega ein af þeim sem eiga raunverulega möguleika á að sigra Söngvakeppnina. Við teljum yfirgnæfandi líkur á að hún rati í einvígið því að hugsanlega keppast tveir helstu keppinautar hennar, Daði og Dimma, um eitthvað af sömu atkvæðunum. Við teljum þó líkur á að hún muni tapa einvíginu, einkum ef hún lendir á móti Daða eða Dimmu.  

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Möguleikar Ivu í Eurovision í vor velta einkum á tvennu; annars vegar á því hvort Evrópa verði í stuði fyrir lag af þessu tagi fimmtudagskvöldið 14. maí og hins vegar á því hvort Ivu og bakröddum hennar takist að flytja lagið án þess að falla í tóni (sem er áhætta í þessu lagi) og með nægilega mikið power í söngnum.

Söngvakeppnin 2020: Möguleikar í úrslitum – Echo

nína

Mynd: youtube.com

Nína er þriðja á svið þann 29. febrúar með lagið Echo.

Kostir:

 • Viðlag sem er algjört heilalím!
 • Pottþéttur söngur hjá Nínu.
 • Þokkalega current lag með öllum helstu höfrungahljóðum o.fl. sem höfðar til flestra sem fylgjast með tónlist í dag.

Gallar:

 • Bakraddirnar hljóma ekki nægilega vel með rödd Nínu.
 • Hugsanlega mætti eitthvað meira gerast á sviðinu fyrr í laginu.
 • Við köllum eftir auknum krafti í röddina!

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Þetta er svona lag sem aldrei er að vita hvað gerist með. Það gæti algjörlega lent neðst en líka stokkið í toppbaráttuna þótt líkur séu að lagið verði ekki aðeins í miðjunni í röðinni á svið, heldur líka í lokaniðurstöðum. 

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Með sviðsetningu eins og í undankeppninni er eiginlega næsta víst að þetta yrði lagið þar sem allir fara að poppa eða pissa. Ef skrúfað verður upp í sviðsestningunni er hugsanlegt að lagið detti réttu megin við tíuna og fari í úrslit.

 

Söngvakeppnin 2020: Möguleikar í úrslitum – Think About Things

Sjálfur Daði Freyr og dásemdarhljómsveitin hans, Gagnamagnið, stíga önnur á svið þann 29. febrúar með lagið Think About Things.

Kostir:

 • Húmorinn og hressleikinn í fyrirrúmi í vel útfærðu atriði, eða eins og sagt var á Twitter: „quirky, wholesome and great harmonies„.
 • Grípandi lag sem nær bæði til krakka og fullorðina.
 • Flutningur Daða Freys er pottþéttur.

Gallar:

 • Bakraddirnar ekki nægilega hreinar.
 • Fólk sem tekur keppnina of alvarlega finnst þetta mögulega vera vitleysisgangur og velur að kjósa þetta alls ekki…
 • … okkur dettur bara ekki annað í hug? Hver fílar ekki Daða?

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Möguleikarnir á að Daði sigri í keppninni verða að teljast þó nokkrir og nánast öruggt að hann kemst í einvígið. Hann er vinsæll meðal þjóðarinnar og ekki síst aðdáenda Söngvakeppninnar og virðist heilla flesta upp úr skónum.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Í ljósi þeirrar umfjöllunar og dreifingar sem lagið hefur fengið undanfarna daga verður að teljast nokkuð líklegt að lagið komist að minnsta kosti í úrslit og það er jú okkar helsta ósk! Allt annað er bónus ❤

 

Söngvakeppnin 2020: Möguleikar í úrslitum – Meet Me Halfway

Ísold og helga

Mynd: Facebook – Ísold og Helga

Ísold og Helga stíga fyrstar á svið í úrslitum Söngvakeppninnar þann 29. febrúar með laginu Meet me halfway. Við ætlum að kíkja aðeins á möguleika þeirra í úrslitunum.

Kostir:

 • Skotheldur og aðdáunarverður flutningur – sem var klárlega það sem kom þeim hingað í úrslitin!
 • Röddun í góðum gæðum.
 • Lagið er ákaflega útvarpsvænt og rennur vel, sannkölluð sveitaballaklassík!

Gallar:

 • Vantar alla kemestríu á milli þeirra.
 • Ef ske kynni að flutningurinn klikki, þá er ekki mikið eftir.
 • Nánast of týpískt íslenskt popplag sem fer inn um annað og út um hitt.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Miðað við hverja þær eru að keppa, þá teljum við ekki mikla möguleika á því að þær komist í einvígið á úrslitakvöldinu. Ef það gerist, verður það að skrifast á dagsformið hjá flytjendum almennt.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Því miður sjáum við afar litla möguleika í Eurovision sjálfri. Þrátt fyrir að lagið sé fallegt og vel sungið er það einhvern veginn hvorki né og það er dæmt til að gleymast í svona stórri keppni. Sviðssetning fyrir svona lag þarf að vera ákaflega grand (með gimmikki) til að virka og verða eftirminnileg. Við teljum því líkur á að komast í úrslit nánast engar.

AUJ 10 ára! – Tíminn líður hratt

Hæ, hó,  kæru lesendur, við erum mættar aftur eftir þó nokkuð hlé enda ærið tilefni til – Allt um Júróvisjon er 10 ára!

Það var á köldum janúardegi árið 2010 sem við ákváðum að nú væri tími til að setja í loftið blogg sem fjallaði eingöngu um Júróvisjon. Umfjöllunin átti að vera á okkar ástkæru og ylhýru íslensku og kafa dýpra í alla anga Júróvisjon en fjölmiðlar á Íslandi gerðu á þeim tíma. Rúmum tveimur árum eftir að Geir bað Guð að blessa Ísland (við hefðum samt alltaf beðið heilagan Sakis frekar að blessa Ísland en það er önnur saga) og í miðri kreppu fannst okkur líka tilvalið að beina huganum að gleði og glimmeri!

Í loftið fórum við þann 15. janúar! Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Almenn umfjöllun um Júróvisjon hefur stóraukist, fjöldinn allur er af bloggum og síðum þarna úti sem helga sig umfjöllun um glimmergleðina allan ársins hring (þarna árið 2010 var það eiginlega bara ESCToday sem sinnti okkur júróaðdáendun allt árið), fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi hefur margfaldast og síðast en ekki síst stofnuðum við okkar yndislega FÁSES, sem í dag heldur úti metnaðarfullri gæðaumfjöllun um Júróvisjon.

Og enn erum við hér og erum hvergi nærri hættar! Í tilefni 10 ára afmælisins ætlum við að birta 10 pistla um hápunkta síðustu tíu ára að sjálfsögðu í bland við allskonar aðra umfjöllun um keppnina.

Hlökkum til næstu 10 Júróvisjon-ára!