20 atriði sem voru áhugaverð í úrslitunum!

Frábærri Júróvisjón-keppni lokið með glæstum sigri Nettu Barzilai frá Ísrael. Almáttugur, við vissum ekki hvað við áttum að gera við okkur þegar sigurinn var ljós! Þó að Cesar okkar blessaður sé kominn í guða tölu hjá okkur og hafi átt fyllilega skilið að haldast á toppnum þegar símaatkvæðin voru reiknuð, þá deilum við ekki við dómarann!

Endanleg úrslit voru þessi:

32416505_10155564395041305_2796033223048560640_n

via Eurovision fans Mexico á FB.

 1. Ísrael: 529 stig
 2. Kýpur: 436 stig
 3. Austurríki: 342 stig
 4. Þýskaland: 340 stig
 5. Ítalía: 308 stig
 6. Tékkland: 281 stig
 7. Svíþjóð: 274 stig
 8. Eistland: 245 stig
 9. Danmörk: 226 stig
 10. Moldóva: 209 stig
 11. Albanía: 184 stig
 12. Litháen: 181 stig
 13. Frakkland: 173 stig
 14. Búlgaría: 166 stig
 15. Noregur: 144 stig
 16. Írland: 136 stig
 17. Úkraína: 130 stig
 18. Holland: 121 stig
 19. Serbía: 113 stig
 20. Ástralia: 99 stig
 21. Ungverjaland: 93 stig
 22. Slóvenía: 64 stig
 23. Spánn: 61 stig
 24. Bretland: 48 stig
 25. Finnland: 46 stig
 26. Portúgal: 39 stig

Hér eru 20 atriði sem okkur fannst áhugaverð á úrslitakvöldinu; fyrir þá staðreynd að 20 ár eru liðin frá síðasta sigri Ísraels í Júróvisjón-keppninni:

 1. Netta tryggði Ísrael fjórða sigur landsins í sögu keppninnar (1978, 1979, 1998 og svo 2018)
 2. Netta leiddi veðbankaspár í nærri tvo mánuði fyrir keppnina en um leið og æfingar hófust færðist hún neðar á lista veðbanka. Hún náði þó að skjóta þeim ref fyrir rass í Júróvikunni og bar sigur úr býtum!
 3. Engin Kákasuslönd tóku þátt í úrslitunum í fyrsta sinn frá árinu 2005. Til þeirra landa teljast Armenía, Aserbaídsjan, Rússland og Georgía.
 4. Í þriðja skiptið frá árinu 2015 er gestgjafaþjóðin í neðsta sæti í úrslitunum; aumingja Portúgalar!
 5. Kýpur og Tékkland hafa aldrei náð eins góðri niðurstöðu á úrslitakvöldi; 2. sætið fyrir Kýpur og 6. sætið fyrir Tékkland! Vel af sér vikið!
 6. Ísrael fékk 7 tólfur frá dómnefndum – athygli okkar var þó aðallega á því að allar aðrar tólfur dreifðust á 15 aðrar þjóðir!
 7. Við vorum ánægðar með að Cesar valdi stutterma leðurbol fyrir úrslitakvöldið, honum var greinilega orðið heitt í hamsi!
 8. Jessica frá Ástralíu var mun sterkari raddlega en í undankeppninni sinni, en hún dansaði samt ennþá eins og hún væri ein inni í eldhúsi!
 9. Amaia og Alfred frá Spáni náðu að vera algjörlega í eigin heimi –  og rönkuðu svo við sér í 23. sæti. Við vorum eiginlega á því að þau hefðu átt að vera ofar.
 10. SuRie varð hetja kvöldsins þegar hún náði að halda kúlinu og klára lagið sitt eftir að óprúttinn náungi stökk á sviðið, reif af henni míkrafóninn og gargaði fúkyrði í garð Breta! Ef eitthvað var, varð hún enn einbeittari og flottari eftir atvikið!
 11. Í partíinu okkar voru djúpar pælingar um sviðsetninguna hennar Sööru Aalto. Ein var sú að hún væri Gyðingur sem nasistarnir væru að elta – og næðu að skjóta hana í lokin…
 12. Í raun ættu allir flytjendur að gera eins og Moldóvarnir og klæðast fánalitunum!
 13. Við veltum fyrir okkur hvort Kýpur hafi ekki örugglega fengið afganginn af eldvörpunum sem Malta átti eftir þegar þau duttu út í undankeppninni; nú þegar þær tvær eru þær þjóðir sem langar hvað mest í sigur í Júróvisjón (Malta hefur keppt síðan 1971 án sigurs og Kýpur frá árinu 1981).
 14. Ástralía var kynnt í keppnina árið 2014 þar sem Jessica Mauboy flutti atriði í hléinu. Það var líka í síðasta skipti sem Ísland komst áfram í úrslitin.
 15. Salvador Sobral flutti sigurlag sitt frá 2017 ásamt Brasilíumanninum Caetano Veloso. Hann leit ótrúlega vel út, enda búinn að fá nýtt hjarta – að því er virtist úr píanóleikaranum sem var með þeim á sviðinu!!
 16. Snillingurinn sem kynnti dómnefndarstigin frá Litháen að vera með vindvél/hafgolu, hversu gott var það!
 17. Ótrúlegt að sjá dómnefndirnar setja Ítalíu meðal þeirra neðstu þegar símaatkvæðin skiluðu þeim Ermal og Fabrizio 3. sætinu. Greinilegt að fólk náði boðskapnum!
 18. Sama má segja um Danina sem komust ekki ofarlega á blað hjá dómnefndum en skutust í topp 10 með símaatkvæðunum.
 19. Rybak, kokhrausti sigurvegarinn frá 2009, var að vísu sigurvegari seinni undankeppninnar en mátti sætta sig við 15. sætið í úrslitunum sem verður að teljast óvenjulegt fyrir þá efstu úr undankeppnunum.
 20. Orð Nettu í þakkarræðunni „Að ári í Jerúsalem“ hafa verið túlkuð þannig að ákveðið hafi verið að keppnin yrði haldin þar. Það er enn óljóst en þangað til er gott að minnast þess að þessi frasi er hluti af bænahaldi Gyðinga, passover.

Spá AUJ – úrslit

AUJ_cover

Stóra stundin er að renna upp! Úrslitin í Júróvisjon ráðast í kvöld og við sjaldan verið eins spenntar því að keppnin er eins og galopin bók sem enginn veit hvernig endar! Eins og áður spáum við hverjir verði í topp 10 í engri sérstakri röð. Og það verða:

BÚLGARÍA
FRAKKLAND
KÝPUR
ÍSRAEL
FINNLAND
AUSTURRÍKI
DANMÖRK
ÚKRAÍNA
EISTLAND
MOLDÓVA

spáAUJ-12.5aspáAUJ-12.5b

Af þessum tíu teljum við Búlgaríu, Frakkland og Kýpur sigurstranglegust.

img_3635.jpg

Flosi okkar, sem oft hefur deilt sínum skoðunum á Öllu um Júróvisjon, er sammála okkur að hluta til og telur að toppbaráttan verði sannarlega á milli Frakklands, Kýpur, Búlgaríu , Ísrael, Austurríkis og Eistlands. Hann telur einnig að Ástralía, Svíþjóð, Ungverjaland og Noregur verði með í gleðinni á toppnum.

 

Skellur í seinni undankeppninni!

Allt er á suðupunkti í Júróheiminum nú eftir að seinni niðurskurðurinn fór fram í gærkvöldi. Ótrúlegt en satt náðu Norðurlöndin öll að koma sér í úrslitin (fyrir utan okkur) en síðast gerðist það árið 2014, sælla minninga. Við gátum reyndar lítið horft á Rybak – það er stundum eins og með Clovn; kona getur ekki hætt að horfa en er með krónískan hroll á meðan!

nor

Á heildina litið var kvöldið fremur slæmt raddlega séð, áberandi stress í röddinni hjá mörgum flytjendum.

Tveir áskrifendur duttu út, Rússland og Rúmenía, og spurning hvort nú sé áhuginn á tónlist loksins að yfirgnæfa pólitísk áhrif sem oft hafa loðið við (hvort sem það er Salvador Sobral að þakka/kenna) – en lögin voru skelfileg bæði tvö svo að við erum sáttar 😉

Tvær eftirhermur kepptu í keppninni um hvor væri líkari Jared Leto: Jonas víkingur frá Danmörku og Lukas hatta-hipster frá Póllandi:

Þýðingarmikil augnaráð voru áberandi í gærkvöldi og þar eru Serbarnir efst á blaði. Það var mikill samsærissvipur á þeim og greinilegt að börn Jarðar skiptu þá gífurlegu máli – spurning hvort allir aðrir áhorfendur hafi náð pointinu. Angistarsvipur einkenndi líka  Jessicu frá San Marínó og Christabelle frá Möltu; þær vissu kannski hvað beið…

Dansinn var nú kannski ekki upp á marga fiska (nema fiskadansinn hjá Pólverjunum, djók!) og sporin voru mörg frekar sérstök; krampa-reiðidans hjá Hollendingum, slow motion-pallaleikfimi hjá Serbunum, vélmennadans hjá San Marínó, dónalegur dans á bak við hurð hjá Moldóvunum (ji minn!) og dans sem stoppaði af ásettu ráði hjá Slóvenunum. Góðu spor kvöldsins áttu þó slóvensku stelpurnar og dansaranir frá Rússlandi.

Margir tengdu Belgíu við Bondstemmingu en við fengum sama væb frá lettnesku píunni – sem hafði svo aðeins verið að horfa á Eleni frá Kýpur á þriðjudaginn og bætti við höfuðhreyfingu og hár“kasti“ frá henni. Bond-lögin tvö duttu algjörlega niður dauð og ómerk því að þau komust hvorugt áfram.

Heildarstílisering á lagi var klárlega flottust hjá Úkraínu – þvílíkt sem þessi líkkistuframsetning var töff!

ukr

 

 

 

 

 

Spá AUJ – seinni undankeppni

AUJ_cover

Það er komið að seinni undanriðlinum og ekki seinna vænna en að spá í spilin fyrir kvöldið! Rétt eins og fyrir fyrri undanriðilinn er erfitt að spá fyrir um hverjir komast áfram. Ástæðan er þó önnur er á þriðjudaginn því að þá var erfitt að velja úr mörgum góðum lögum á meðan að núna er erfitt að velja heil tíu lög sem komast áfram!

Afraksturinn af þriðjudeginum var að Hildur hafði rétt fyrir sér með 7 lönd en Eyrún 8 lönd. Við verðum að vera nokkuð sáttar við það því að þetta var sannkallaður dauðariðill!!

Við erum því ekki heldur alveg sammála um hverjir fara áfram en teljum báðar að þessi lönd fari áfram:

NOREGUR
DANMÖRK
MOLDÓVA
SVÍÞJÓÐ
SVARTFJALLALAND
SLÓVENÍA
ÁSTRALÍA
PÓLLAND

Þá telur Eyrún að ÚKRAÍNA og HOLLAND fari áfram.

Hildur telur að UNGVERJALAND og MALTA fari áfram.

Nú skulum við sjá hversu sannspáar við verðum – spennó spennó!

Gærkvöldið í hnotskurn!

Heilagur Sakis! Júróvisjon-sviðið í Altice Arena var svo yfirfullt af júróbombum að við höfum sjaldan séð annað eins á einu kvöldi! Fyrirfram var ljóst að mjög erfitt væri að spá fyrir um úrslit kvöldins þótt raunin hafi orðið sú að öll umtöluðustu atriðin komust áfram. Stærstu fréttirnar eru að Aserbaídsjan og Grikkland komust ekki áfram en þetta er í fyrsta skipti sem Aserar komast ekki í úrslit og ljóst að Aisel braut blað í Júrósögu Asera. Grikkir hafa tekið þátt í Júróvisjon frá árinu 1974 og Yianna er önnur í sögu þeirra til að skila þeim ekki í úrslit.

En kíkjum aðeins nánar á hvað fyrir augu bar á sviðinu í Lissabon í gær.

Kvöldið hófst á einni júrósprengjunni sem líklega verður lítið minnst á í Júróvisjonsögunni. Ólíkt því í fyrra virðast jógastöður  (Francesco Gabbani, apinn og namaste, þið munið!) ekki vera gera sig í ár. Engar skikkjur voru áberandi í ár en þær virkuðu heldur takmarkað fyrir keppendur í fyrra.

Ari, Eugent og Elina áttu í harðri háu-tóna keppni sem þau tvö síðarnefndu unnu – því miður!

 

eurovision-czech1

Hressleikinn var í fyrrirúmi hjá Mikolas og félögum og ekki að sjá að bakið hrjáði hann mikið. Hvort hressleikinn skapaðist af andrúmsloftinu, verkjalyfjum eða einhverjum öðrum lyfjum er erfitt að segja en við vorum að minnsta kosti fegnar að þriðji dansarinn þurfti ekki að fara í uppptökupróf og gat því verið með.

Dansinn dundi oft yfir kvöldið, fyrst þegar Ísrael steig á stokk og mátti þá halda að konur væru staddar á Euroclub frekar en á showinu sjálfu! Næsta dansbomba kom þegar Saara Alto flutti Monster og þá voru það ekki bara standandi áhorfendur sem dilluðu sér heldur braust út dansstemmning í græna herberginu. Eleni var síðust í röðinni og var þá svo mikil stemming komin í salinn að líklega voru fleiri að dansa en horfa!

bulgaria

Röddunarveisla og gæsahúðarmóment kvöldsins voru í boði Búlgaríu – hamingjan sanna, kannski vinna þau þetta bara!

austria

Við erum loks að spá í að setja Cesar á dýrlingalista Júróvisjon og færa honum nafnbót heilagleikans. Verður hann því þriðji Júróvisjondýrlingur AUJ á eftir Sakis og heilagri Carolu!

 

 

Spá AUJ – fyrri undankeppni

 

AUJ_cover

Hér í Lissabon er Júróvisjon-gleðin í algleymingi og loksins komið að fyrsta keppniskvöldi! Við erum hæfilega bjartsýnar á að uppáhaldslögin okkar komist áfram en eins og við vitum er Júróvisjon óútreiknanleg keppni og jafnvel enn óútreiknanlegri í ár en oft áður!

Við erum óvenju sammála um hvernig þetta fer í kvöld en þessi 8 lönd teljum við báðar að fari áfram:

ASERBAÍDSJAN
ÍSRAEL
KÝPUR
BÚLGARÍA
AUSTURRÍKI
EISTLAND
GRIKKLAND
FINNLAND

Þá spáir Hildur því að ÍSLAND og TÉKKLAND fari áfram auk þess sem Sviss og Albanía eru á mörkunum að komast.

Eyrún spáir ALBANÍU og ÍRLANDI áfram, en Ísland og Armenía verði á mörkunum.

 

Veðbankatjekk – daginn fyrir fyrri undankeppni!

Veðbanka-spár copy

Sólin skín hér í Lissabon en við erum dálítið meira að missa okkur yfir deginum á morgun og hvernig þetta fer allt saman. Við höfum fylgst með veðbönkunum og þar er öldugangurinn heilmikill. Fjöldi framlaga inni á topp tíu er í raun meiri en sem nemur sætunum því að staðan breytist mörgum sinnum á dag. Þetta stefnir því í tvísýna og spennandi keppni – kíkjum á þetta!

Veðbanki Nr. 1 Nr. 2 Nr. 3 Nr. 4 Nr. 5
Oddschecker.com Ísrael Eistland Noregur Kýpur Frakkland
Paddypower.com Ísrael Noregur Frakkland Eistland Búlgaría
Nicerodds.co.uk Ísrael Noregur Eistland Kýpur Frakkland
William Hill Ísrael Eistland Noregur Kýpur Búlgaría
Eurovisionworld Ísrael Eistland Noregur Kýpur Frakkland

Hér sjáum við að Netta situr enn á toppnum en þó er Eistland heldur betur farið að velgja henni undir uggum – og í gær var það Rybakkinn! Franska parið er enn inni á topp fimm en Eleni hin eldheita festir sig þó í sessi eftir frábærar æfingar og almenn dívuheit. Við söknum þess að Búlgararnir séu ekki ofar en vitum þó að allt getur gerst. Í fyrra á svipuðum tíma var ljóst að Salvador sótti hart að Francesco og apanum en Kristian Kostov var þó inni á topp fimm. Hins vegar sást hvergi í Moldóvana sem skutu sér upp í þriðja sætið!

Lítið er að frétta af gengi íslenska framlagsins, eins og sést hér að neðan, og því verður morgundagurinn óskrifað blað. En eins og Churchill sagði: Það er enginn lítill maður í stríði!

Veðbanki Ísland
Oddschecker.com 42. sæti
Paddypower.com 40. sæti
William Hill 36. sæti
Nicerodds.co.uk 39. sæti
Eurovisionworld 0 stig

 

Einfaldleikinn í fyrirrúmi á síðasta degi æfinga

Sviðsæfingum keppenda lauk í dag þegar stóru þjóðirnar fimm og gestgjafarnir æfðu í annað sinn á sviðinu. Eftir aðrar æfingar er fyrsta áfanga æfingaferlisins lokið og eingöngu búningarennsli eftir. Það var rólegt yfirbragð í höllinni á meðan þessar sex þjóðir æfðu og æfingarnar gengu nokkuð vel fyrir sig. Lítum á það helsta! 

spann_aefing2_AP

Mynd: Andres Putting

Spánn – Sviðsetningunni hefur aðeins verið breytt og píanóin tekin út. Það kemur alls ekki að sök þar sem nándin á milli þeirra verður jafnvel enn meiri og þau líða áfram í eigin heimi, upptekin hvort af öðru en ekki myndavélunum.

 

thyskaland_aefing2_AP

Mynd: Andres Putting

Þýskaland –  Michael leit út fyrir að vera nýskriðinn fram úr þegar hann steig á svið. Hann átti þó þrjú þrusurennsli þar sem hvergi var slegin feilnóta þótt augljóslega hafi verið stutt í tárin. Sviðsetning gengur meira út á myndir í bakgrunni en Michael sjálfan sem þó fær hæfilega mikið af nærmynd. Þrátt fyrir djúpar tilfinningar í laginu vantar tenginguna við áhorfendur og við gátum engan veginn fundið til með honum.

 

frakkland_aefing2

Mynd: Andres Putting

Frakkland – Einfaldleikinn verður í fyrirrúmi hjá Frökkum og þau hjónin mæta að vanda svartklædd og í rauðum íþróttaskóm. Atriðið algjörlega laust við gimmik en sviðið og áhorfendur nýtt þeim mun betur, fá t.d. glóandi armbönd sem þjóna góðum tilgangi! Æfingin gekk vel þótt Emilie virðist hafa átt í einhverjum vandræðum með míkrafón eða inneyra á fyrstu tveimur rennslunum. Þrátt fyrir góða æfingu vantar aðeins upp á að vá-faktorinn sé til staðar en við vonum sannarlega að hann komi með fullri höll af áhorfendum!

italia_aefing2_AP

Mynd: Andres Putting

Ítalía –  Einfaldleikinn er líka í fyrirrúmi hjá Ítölum og, rétt eins og Frakkar, nota þeir allt sviðið. Á meðan á laginu stendur varpast texti þess á fjölda tungumála á skjáinn, þar á meðal okkar ylhýra! Það ýtir undir áhrifamátt lagsins sem og uppsetning þar sem þeir byrja saman, skiljast svo að en mætast aftur í lokin.

Party for everybody, dance!

Við elskum Júróvisjón-partí og þau gerast varla betri en partíin sem haldin eru í undirbúningsvikunni fyrir Júróvisjón. Hér tæpum við aðeins á djammi föstudagsins í norræna partíinu og laugardagsins í ísraelska partíinu:

Eftir æfingar föstudagsins skelltum við okkur í norræna partíið sem var haldið á barnum TOPO Rooftop Bar efst í Commercial Center Martim Moniz. Það eitt og sér var sturlað – þvílíkt útsýni yfir hæðirnar á þessari staðsetningu í miðjum miðbæ Lissabon! Þegar við náðum að slíta okkur frá útsýninu beindist athyglin að öllu fallega og flotta fólkinu í partíinu. Íslenski, danski og sænski hópurinn stóðu að partíinu og flytjendurnir Benjamin og Jonas tróðu upp ásamt íslenska hópnum sem lék á alls oddi og náði áhorfendum vel með sér í Júróvisjónsveiflu sem Ari stjórnaði af stakri snilld. Rauðhærði forsöngvarinn Jonas tók Rollo & King með Þórunni – fyrsta erindið á dönsku að beiðni Jonasar! Benjamin hinn sænski tók eftirminnilega Heroes með Ara við mikinn fögnuð.

norr

Mynd: Söngvakeppnin (Facebook)

Dönsku metróvíkingarnir glöddu augað mikið þetta kvöld og þeir eru hin mestu partíljón, en ásóknin í þá – og Jónas forsöngvarann þá helst – var slík að þeir fóru helst alltaf saman á klósettið! Svíarnir Christer Björkman og Thomas G:son voru einnig á staðnum ásamt fleirum úr sænska próduction-teyminu, en G:son er í Lissabon með maltneska hópnum og Christabelle, við sáum hana þó hvergi. Við söknuðum þess líka að hafa ekki alla hópana í partíinu en Rybak og Saara Aalto komu ekki.

Partíið var hresst, skemmtilegt og mjög fjölmennt því að það var algjörlega troðið allan tímann. Íslenski hópurinn átti veg og vanda að því hversu flott þetta var og var t.d. sá eini af þeim þremur til að dreifa kynningarefni til boðsgesta, vel gert!

Laugardagspartíið var að sjálfsögðu ísraelska partíið sem var all the rage! Það var haldið á glæsilegum stað; í leikhúsinu Cineteatro Capitólió í fína hverfinu við Avenida Liberdade. Þegar við mættum hafði þegar myndast löng röð en aðgang fengu allir með accreditation og þeir sem áttu gilt OGAE-félagsskírteini. Þegar húsið átti að opna kl. 10 var þó enn að drífa að sendinefndir frá öllum þeim löndum sem stigu á stokk. Aðdáendur voru hvattir til að mæta snemma og þegar fyrstu flytjendur stigu á svið var enn röð fyrir utan og fólki hleypt inn í hollum! Dyraverðirnir voru svo strangir að sjálfur G:son lenti í vandræðum og sá ekki fram á að komast inn!

iAð venju var boðið upp á léttar austurlenskar veitingar og hummusinn rann sannarlega ljúflega niður eftir nærri klukkutíma bið í röðinni! Snyrtivörur unnar úr vatni Dauðahafsins eru líka alltaf á boðstólum og í ár var engin undantekning þar á.

Mest eftirvænting var þó að sjálfsögðu eftir því að flytjendur stigu á stokk – og auðvitað Netta framar öllum! Kynnir kvöldsins sér um sjónvarpsviðburðinn Rising Star í Ísrael og stjórnaði kvöldinu með styrkri hönd. Moldóvarnir stigu fyrstir á svið og rifu stemminguna í gang með framlagi sínu My Lucky Day, og reyndar öðru lagi strax í kjölfarið sem hljómaði alveg eins og jafnhresst. Pólverjarnir komu strax í kjölfarið og Írinn flutti lagið sitt á lágstemmdan og hugljúfan hátt. Saara Aalto sýndi það og sannaði hvað hún er mikil stjarna, söng Queens og Monsters og vafði áhorfendum um fingur sér. Íslendingarnir komu að sjálfsögðu fram og fluttu Our Choice og Júró-syrpuna sína og þegar Ari söng Il Volo fékk hann svo góðar undirtektir að þakið ætlaði að rifna af húsinu!

Aðrir sem komu fram á undan Nettu voru Danirnir sem völdu að flytja lagið sitt án undirleiks og míkrafóna úti í miðri áhorfendaþvögunni. Þeir báðu alla að hafa þögn en hvöttu áhorfendur svo að hjálpa til með að stappa í viðlaginu og syngja með. Þetta heppnaðist ágætlega hjá þeim, þó að við hefðum kannski ekki mikla trú á því að það heyrðist nógu vel í þeim. Einnig steig Cesar frá Austurríki á stokk og bræddi okkur og alla hina í salnum! Þá var hitastigið í salnum við suðumark. Við elskum Cesar svo mikið!

isr_aus

Eftirvæntingin var gríðarleg þegar kynnirinn kynnti sendiherra Ísraels á svið. Sá sagði væntingarnar miklar um sigur í ár og markmiðið væri skýrt að komast í úrslitin og bauð svo öllum viðstöddum í gleðigönguna í Tel Aviv í júní. Hann bað svo fólk að gefa sér N-E-T-T-A og kynnti hana svo á svið. Dívan steig þá á svið og um leið dáðist hún að því hvað áhorfendur væru fagrar verur með vísun í texta lags síns. Hún var að vanda dressuð óaðfinnanlega í sínum eigin stíl. Netta henti sér beint í flutning á laginu og fékk allan salinn til að kyrja með sér í viðlaginu. Hún var mjög örugg í flutningnum og skemmti sér greinilega konunglega. Eftir flutninginn spurði kynnirinn Nettu hvað það hefði aftur verið sem hann hefði sagt við hana eftir áheyrnarprufurnar í Rising Star í byrjun ársins. Netta svaraði mjög íbyggin: „This is gonna win Eurovision!“ Og auðvitað trylltist allt.

Screen Shot 2018-05-06 at 11.13.46

Mynd: Nettabarzi (Instagram)

Fleiri flytjendur fylgdu í kjölfar Nettu, Búlgararnir stóðu sig gríðarlega vel í töffheitunum sínum en eftir það voru þetta flytjendur úr seinni undankeppninni, þ.e. þeir sem þurfa ekki að safna eins miklu kröftum fyrir þriðjudaginn og þau sem voru fyrr um kvöldið 😉 Síðust á svið steig Christabelle frá Möltu og það var mikil stemming yfir hennar lagi. Eftir flutninginn tók hún sig líka til og dansaði heilmikið við Júróvisjón-tónlist meðal hressra aðdáenda.

Við erum á því að þessi partí hafi bæði tvö lukkast afskaplega vel – sérstaklega fyrir þær sakir að staðirnir voru geggjaðir hvor um sig. Þetta verður seint toppað, allavega ekki fyrr en á næsta ári!!

 

AUJ Hotlist 2018

Í fyrra fannst okkur óvenju margir ungir strákar í keppninni svo að úr varð að við tókum saman þemafærslu um karlpeninginn í keppninni. Þegar við kíktum í karlpeningsskúffuna í ár sáum við fljótt að fjölbreyttur hópur álitlegra karlmanna stígur á sviðið í ár og fannst ekki úr vegi að kippa nokkrum þeirra (já, ef ekki flestum!) inn á Hotlistann okkar!

Unglömbin og vinir þeirra


Þegar við fórum að róta í skúffunni sáum við fljótt að margir drengjanna eru alls ekki margra vetra gamlir og sumir eru einkar strákslegir í útliti. Ari okkar er auðvitað fremstur hér í flokki enda næstyngsti keppandinn þetta árið. Flestir eru þeir þó mun alvarlegri og jafnvel hátíðlegir sem er algjör andstæða við hinn brosmilda og lífsglaða Ara okkar. Það eru einna helst félagarnir Sergiu og Euqeniu frá Moldóvu og Alfred frá Spáni sem deila lífsgleðinni með Ara á meðan Alkseev frá Hvíta-Rússlandi er fremstur í flokki alvarleikans með Melovin dramatíkus á hæla sér.

Stroknu hipsteranir


Þeir eru ekki óalgengir stroknu hipsteranir í Júróvisjon! Ólíkur hópur sem á það þó sameiginlegt að skarta temmilega stroknu útliti í bland við vel skipulagða óreiðu hipstersins; svona skemmtileg blanda hippa og uppa. Hin svartfelski Vanja hallar meira á uppahlið hipstersins meðan Michael Schulte frá Þýskalandi hallar sér til hipstersins.  Okkur þykir þó Svisslendingurinn Stefan vera þarna í broddi fylkingar ásamt hinum slasaða Mikolas og ofur 80’s-hipsternum Benjamin Ingrosso frá Svíþjóð.

Metro-víkingar

Vel greiddu og máluðu dönsku víkingarnir verðskulda sinn eigin flokk. Basta!

Mucho macho 

Þá er það flokkurinn sem er stútfullur af testósteróni. Í ár getum við ekki annað en sett hann Cesar frá Austurríki efstan í flokk Mucho Macho-anna; kommon, hann er íþróttakennari OG félagsráðgjafi, við getum sko alveg sætt okkur við það! Fast á hæla hans kemur hljóðláti og yfirvegaði Frakkinn Jean Karl. Svört rúllukragapeysa hefur aldrei gert eins mikið fyrir okkur! Önnur hljóðlát macho-týpa er Armeninn Sevak, leðurbrynja og armensk dramatík! Ítalirnir tveir Ermal og Fabrizio eru klárlega í þessum flokki; með sínar rifnu raddir og föt. Við verðum líka að minnast á Vlado úr búlgarska hópnum sem heillaði okkur á stórgóðri æfingu um daginn. Gítarleikarann Bojan frá Makedóníu er einnig vert að nefna sem og Eugent sem þenur raddböndin fyrir Albaníu.

Hverjir eru þá efst á Hotlist AUJ 2018?

Á listanum okkar yfir þá sem við vildum helst rekast á í Lissabon með myndavélina á lofti er auðvitað Cesar, en ekki hver! Fast á hæla hans eru Svisslendingurinn Stefan og Frakkinn Jean Karl.

Að því sögðu fögnum við að sjálfsögðu fjölbreytileikanum, fullmeðvitaðar um að útlitið er ekki allt og að þessir myndarlegu menn séu ekki að keppa eingöngu út af því hvernig þeir líta út, en þetta er allt saman hluti af órjúfanlegri Júró-heild; útlit, framkoma, söngur.