20 atriði sem voru áhugaverð í úrslitunum!

Frábærri Júróvisjón-keppni lokið með glæstum sigri Nettu Barzilai frá Ísrael. Almáttugur, við vissum ekki hvað við áttum að gera við okkur þegar sigurinn var ljós! Þó að Cesar okkar blessaður sé kominn í guða tölu hjá okkur og hafi átt fyllilega skilið að haldast á toppnum þegar símaatkvæðin voru reiknuð, þá deilum við ekki við dómarann!

Endanleg úrslit voru þessi:

32416505_10155564395041305_2796033223048560640_n

via Eurovision fans Mexico á FB.

 1. Ísrael: 529 stig
 2. Kýpur: 436 stig
 3. Austurríki: 342 stig
 4. Þýskaland: 340 stig
 5. Ítalía: 308 stig
 6. Tékkland: 281 stig
 7. Svíþjóð: 274 stig
 8. Eistland: 245 stig
 9. Danmörk: 226 stig
 10. Moldóva: 209 stig
 11. Albanía: 184 stig
 12. Litháen: 181 stig
 13. Frakkland: 173 stig
 14. Búlgaría: 166 stig
 15. Noregur: 144 stig
 16. Írland: 136 stig
 17. Úkraína: 130 stig
 18. Holland: 121 stig
 19. Serbía: 113 stig
 20. Ástralia: 99 stig
 21. Ungverjaland: 93 stig
 22. Slóvenía: 64 stig
 23. Spánn: 61 stig
 24. Bretland: 48 stig
 25. Finnland: 46 stig
 26. Portúgal: 39 stig

Hér eru 20 atriði sem okkur fannst áhugaverð á úrslitakvöldinu; fyrir þá staðreynd að 20 ár eru liðin frá síðasta sigri Ísraels í Júróvisjón-keppninni:

 1. Netta tryggði Ísrael fjórða sigur landsins í sögu keppninnar (1978, 1979, 1998 og svo 2018)
 2. Netta leiddi veðbankaspár í nærri tvo mánuði fyrir keppnina en um leið og æfingar hófust færðist hún neðar á lista veðbanka. Hún náði þó að skjóta þeim ref fyrir rass í Júróvikunni og bar sigur úr býtum!
 3. Engin Kákasuslönd tóku þátt í úrslitunum í fyrsta sinn frá árinu 2005. Til þeirra landa teljast Armenía, Aserbaídsjan, Rússland og Georgía.
 4. Í þriðja skiptið frá árinu 2015 er gestgjafaþjóðin í neðsta sæti í úrslitunum; aumingja Portúgalar!
 5. Kýpur og Tékkland hafa aldrei náð eins góðri niðurstöðu á úrslitakvöldi; 2. sætið fyrir Kýpur og 6. sætið fyrir Tékkland! Vel af sér vikið!
 6. Ísrael fékk 7 tólfur frá dómnefndum – athygli okkar var þó aðallega á því að allar aðrar tólfur dreifðust á 15 aðrar þjóðir!
 7. Við vorum ánægðar með að Cesar valdi stutterma leðurbol fyrir úrslitakvöldið, honum var greinilega orðið heitt í hamsi!
 8. Jessica frá Ástralíu var mun sterkari raddlega en í undankeppninni sinni, en hún dansaði samt ennþá eins og hún væri ein inni í eldhúsi!
 9. Amaia og Alfred frá Spáni náðu að vera algjörlega í eigin heimi –  og rönkuðu svo við sér í 23. sæti. Við vorum eiginlega á því að þau hefðu átt að vera ofar.
 10. SuRie varð hetja kvöldsins þegar hún náði að halda kúlinu og klára lagið sitt eftir að óprúttinn náungi stökk á sviðið, reif af henni míkrafóninn og gargaði fúkyrði í garð Breta! Ef eitthvað var, varð hún enn einbeittari og flottari eftir atvikið!
 11. Í partíinu okkar voru djúpar pælingar um sviðsetninguna hennar Sööru Aalto. Ein var sú að hún væri Gyðingur sem nasistarnir væru að elta – og næðu að skjóta hana í lokin…
 12. Í raun ættu allir flytjendur að gera eins og Moldóvarnir og klæðast fánalitunum!
 13. Við veltum fyrir okkur hvort Kýpur hafi ekki örugglega fengið afganginn af eldvörpunum sem Malta átti eftir þegar þau duttu út í undankeppninni; nú þegar þær tvær eru þær þjóðir sem langar hvað mest í sigur í Júróvisjón (Malta hefur keppt síðan 1971 án sigurs og Kýpur frá árinu 1981).
 14. Ástralía var kynnt í keppnina árið 2014 þar sem Jessica Mauboy flutti atriði í hléinu. Það var líka í síðasta skipti sem Ísland komst áfram í úrslitin.
 15. Salvador Sobral flutti sigurlag sitt frá 2017 ásamt Brasilíumanninum Caetano Veloso. Hann leit ótrúlega vel út, enda búinn að fá nýtt hjarta – að því er virtist úr píanóleikaranum sem var með þeim á sviðinu!!
 16. Snillingurinn sem kynnti dómnefndarstigin frá Litháen að vera með vindvél/hafgolu, hversu gott var það!
 17. Ótrúlegt að sjá dómnefndirnar setja Ítalíu meðal þeirra neðstu þegar símaatkvæðin skiluðu þeim Ermal og Fabrizio 3. sætinu. Greinilegt að fólk náði boðskapnum!
 18. Sama má segja um Danina sem komust ekki ofarlega á blað hjá dómnefndum en skutust í topp 10 með símaatkvæðunum.
 19. Rybak, kokhrausti sigurvegarinn frá 2009, var að vísu sigurvegari seinni undankeppninnar en mátti sætta sig við 15. sætið í úrslitunum sem verður að teljast óvenjulegt fyrir þá efstu úr undankeppnunum.
 20. Orð Nettu í þakkarræðunni „Að ári í Jerúsalem“ hafa verið túlkuð þannig að ákveðið hafi verið að keppnin yrði haldin þar. Það er enn óljóst en þangað til er gott að minnast þess að þessi frasi er hluti af bænahaldi Gyðinga, passover.

Spá AUJ – úrslit

AUJ_cover

Stóra stundin er að renna upp! Úrslitin í Júróvisjon ráðast í kvöld og við sjaldan verið eins spenntar því að keppnin er eins og galopin bók sem enginn veit hvernig endar! Eins og áður spáum við hverjir verði í topp 10 í engri sérstakri röð. Og það verða:

BÚLGARÍA
FRAKKLAND
KÝPUR
ÍSRAEL
FINNLAND
AUSTURRÍKI
DANMÖRK
ÚKRAÍNA
EISTLAND
MOLDÓVA

spáAUJ-12.5aspáAUJ-12.5b

Af þessum tíu teljum við Búlgaríu, Frakkland og Kýpur sigurstranglegust.

img_3635.jpg

Flosi okkar, sem oft hefur deilt sínum skoðunum á Öllu um Júróvisjon, er sammála okkur að hluta til og telur að toppbaráttan verði sannarlega á milli Frakklands, Kýpur, Búlgaríu , Ísrael, Austurríkis og Eistlands. Hann telur einnig að Ástralía, Svíþjóð, Ungverjaland og Noregur verði með í gleðinni á toppnum.

 

Skellur í seinni undankeppninni!

Allt er á suðupunkti í Júróheiminum nú eftir að seinni niðurskurðurinn fór fram í gærkvöldi. Ótrúlegt en satt náðu Norðurlöndin öll að koma sér í úrslitin (fyrir utan okkur) en síðast gerðist það árið 2014, sælla minninga. Við gátum reyndar lítið horft á Rybak – það er stundum eins og með Clovn; kona getur ekki hætt að horfa en er með krónískan hroll á meðan!

nor

Á heildina litið var kvöldið fremur slæmt raddlega séð, áberandi stress í röddinni hjá mörgum flytjendum.

Tveir áskrifendur duttu út, Rússland og Rúmenía, og spurning hvort nú sé áhuginn á tónlist loksins að yfirgnæfa pólitísk áhrif sem oft hafa loðið við (hvort sem það er Salvador Sobral að þakka/kenna) – en lögin voru skelfileg bæði tvö svo að við erum sáttar 😉

Tvær eftirhermur kepptu í keppninni um hvor væri líkari Jared Leto: Jonas víkingur frá Danmörku og Lukas hatta-hipster frá Póllandi:

Þýðingarmikil augnaráð voru áberandi í gærkvöldi og þar eru Serbarnir efst á blaði. Það var mikill samsærissvipur á þeim og greinilegt að börn Jarðar skiptu þá gífurlegu máli – spurning hvort allir aðrir áhorfendur hafi náð pointinu. Angistarsvipur einkenndi líka  Jessicu frá San Marínó og Christabelle frá Möltu; þær vissu kannski hvað beið…

Dansinn var nú kannski ekki upp á marga fiska (nema fiskadansinn hjá Pólverjunum, djók!) og sporin voru mörg frekar sérstök; krampa-reiðidans hjá Hollendingum, slow motion-pallaleikfimi hjá Serbunum, vélmennadans hjá San Marínó, dónalegur dans á bak við hurð hjá Moldóvunum (ji minn!) og dans sem stoppaði af ásettu ráði hjá Slóvenunum. Góðu spor kvöldsins áttu þó slóvensku stelpurnar og dansaranir frá Rússlandi.

Margir tengdu Belgíu við Bondstemmingu en við fengum sama væb frá lettnesku píunni – sem hafði svo aðeins verið að horfa á Eleni frá Kýpur á þriðjudaginn og bætti við höfuðhreyfingu og hár“kasti“ frá henni. Bond-lögin tvö duttu algjörlega niður dauð og ómerk því að þau komust hvorugt áfram.

Heildarstílisering á lagi var klárlega flottust hjá Úkraínu – þvílíkt sem þessi líkkistuframsetning var töff!

ukr

 

 

 

 

 

Spá AUJ – seinni undankeppni

AUJ_cover

Það er komið að seinni undanriðlinum og ekki seinna vænna en að spá í spilin fyrir kvöldið! Rétt eins og fyrir fyrri undanriðilinn er erfitt að spá fyrir um hverjir komast áfram. Ástæðan er þó önnur er á þriðjudaginn því að þá var erfitt að velja úr mörgum góðum lögum á meðan að núna er erfitt að velja heil tíu lög sem komast áfram!

Afraksturinn af þriðjudeginum var að Hildur hafði rétt fyrir sér með 7 lönd en Eyrún 8 lönd. Við verðum að vera nokkuð sáttar við það því að þetta var sannkallaður dauðariðill!!

Við erum því ekki heldur alveg sammála um hverjir fara áfram en teljum báðar að þessi lönd fari áfram:

NOREGUR
DANMÖRK
MOLDÓVA
SVÍÞJÓÐ
SVARTFJALLALAND
SLÓVENÍA
ÁSTRALÍA
PÓLLAND

Þá telur Eyrún að ÚKRAÍNA og HOLLAND fari áfram.

Hildur telur að UNGVERJALAND og MALTA fari áfram.

Nú skulum við sjá hversu sannspáar við verðum – spennó spennó!

Gærkvöldið í hnotskurn!

Heilagur Sakis! Júróvisjon-sviðið í Altice Arena var svo yfirfullt af júróbombum að við höfum sjaldan séð annað eins á einu kvöldi! Fyrirfram var ljóst að mjög erfitt væri að spá fyrir um úrslit kvöldins þótt raunin hafi orðið sú að öll umtöluðustu atriðin komust áfram. Stærstu fréttirnar eru að Aserbaídsjan og Grikkland komust ekki áfram en þetta er í fyrsta skipti sem Aserar komast ekki í úrslit og ljóst að Aisel braut blað í Júrósögu Asera. Grikkir hafa tekið þátt í Júróvisjon frá árinu 1974 og Yianna er önnur í sögu þeirra til að skila þeim ekki í úrslit.

En kíkjum aðeins nánar á hvað fyrir augu bar á sviðinu í Lissabon í gær.

Kvöldið hófst á einni júrósprengjunni sem líklega verður lítið minnst á í Júróvisjonsögunni. Ólíkt því í fyrra virðast jógastöður  (Francesco Gabbani, apinn og namaste, þið munið!) ekki vera gera sig í ár. Engar skikkjur voru áberandi í ár en þær virkuðu heldur takmarkað fyrir keppendur í fyrra.

Ari, Eugent og Elina áttu í harðri háu-tóna keppni sem þau tvö síðarnefndu unnu – því miður!

 

eurovision-czech1

Hressleikinn var í fyrrirúmi hjá Mikolas og félögum og ekki að sjá að bakið hrjáði hann mikið. Hvort hressleikinn skapaðist af andrúmsloftinu, verkjalyfjum eða einhverjum öðrum lyfjum er erfitt að segja en við vorum að minnsta kosti fegnar að þriðji dansarinn þurfti ekki að fara í uppptökupróf og gat því verið með.

Dansinn dundi oft yfir kvöldið, fyrst þegar Ísrael steig á stokk og mátti þá halda að konur væru staddar á Euroclub frekar en á showinu sjálfu! Næsta dansbomba kom þegar Saara Alto flutti Monster og þá voru það ekki bara standandi áhorfendur sem dilluðu sér heldur braust út dansstemmning í græna herberginu. Eleni var síðust í röðinni og var þá svo mikil stemming komin í salinn að líklega voru fleiri að dansa en horfa!

bulgaria

Röddunarveisla og gæsahúðarmóment kvöldsins voru í boði Búlgaríu – hamingjan sanna, kannski vinna þau þetta bara!

austria

Við erum loks að spá í að setja Cesar á dýrlingalista Júróvisjon og færa honum nafnbót heilagleikans. Verður hann því þriðji Júróvisjondýrlingur AUJ á eftir Sakis og heilagri Carolu!

 

 

Spá AUJ – fyrri undankeppni

 

AUJ_cover

Hér í Lissabon er Júróvisjon-gleðin í algleymingi og loksins komið að fyrsta keppniskvöldi! Við erum hæfilega bjartsýnar á að uppáhaldslögin okkar komist áfram en eins og við vitum er Júróvisjon óútreiknanleg keppni og jafnvel enn óútreiknanlegri í ár en oft áður!

Við erum óvenju sammála um hvernig þetta fer í kvöld en þessi 8 lönd teljum við báðar að fari áfram:

ASERBAÍDSJAN
ÍSRAEL
KÝPUR
BÚLGARÍA
AUSTURRÍKI
EISTLAND
GRIKKLAND
FINNLAND

Þá spáir Hildur því að ÍSLAND og TÉKKLAND fari áfram auk þess sem Sviss og Albanía eru á mörkunum að komast.

Eyrún spáir ALBANÍU og ÍRLANDI áfram, en Ísland og Armenía verði á mörkunum.

 

Veðbankatjekk – daginn fyrir fyrri undankeppni!

Veðbanka-spár copy

Sólin skín hér í Lissabon en við erum dálítið meira að missa okkur yfir deginum á morgun og hvernig þetta fer allt saman. Við höfum fylgst með veðbönkunum og þar er öldugangurinn heilmikill. Fjöldi framlaga inni á topp tíu er í raun meiri en sem nemur sætunum því að staðan breytist mörgum sinnum á dag. Þetta stefnir því í tvísýna og spennandi keppni – kíkjum á þetta!

Veðbanki Nr. 1 Nr. 2 Nr. 3 Nr. 4 Nr. 5
Oddschecker.com Ísrael Eistland Noregur Kýpur Frakkland
Paddypower.com Ísrael Noregur Frakkland Eistland Búlgaría
Nicerodds.co.uk Ísrael Noregur Eistland Kýpur Frakkland
William Hill Ísrael Eistland Noregur Kýpur Búlgaría
Eurovisionworld Ísrael Eistland Noregur Kýpur Frakkland

Hér sjáum við að Netta situr enn á toppnum en þó er Eistland heldur betur farið að velgja henni undir uggum – og í gær var það Rybakkinn! Franska parið er enn inni á topp fimm en Eleni hin eldheita festir sig þó í sessi eftir frábærar æfingar og almenn dívuheit. Við söknum þess að Búlgararnir séu ekki ofar en vitum þó að allt getur gerst. Í fyrra á svipuðum tíma var ljóst að Salvador sótti hart að Francesco og apanum en Kristian Kostov var þó inni á topp fimm. Hins vegar sást hvergi í Moldóvana sem skutu sér upp í þriðja sætið!

Lítið er að frétta af gengi íslenska framlagsins, eins og sést hér að neðan, og því verður morgundagurinn óskrifað blað. En eins og Churchill sagði: Það er enginn lítill maður í stríði!

Veðbanki Ísland
Oddschecker.com 42. sæti
Paddypower.com 40. sæti
William Hill 36. sæti
Nicerodds.co.uk 39. sæti
Eurovisionworld 0 stig