
Hauk Johnson þarf varla að kynna en hann hefur einnig verið sérlegur gestapenni hjá okkur hér á AUJ og fyrrum stjórnarmaður FÁSES. Eins og við er hann æstur yfir úrslitum Söngvakeppninnar og spáir í spilin fyrir morgundaginn:
„Sem fyrrum lagahöfundur í Söngvakeppninni þekki ég það vel að skoðanir manna eru bæði margar og mismunandi – enda hafa allir sinn smekk. Sjálfur ákvað ég að líta á það þannig að ef ég héldi matarboð og eldaði með svakalega miklum kóríander þá gæti ég ekki ætlast til að fólk sem hatar kóríander elskaði matinn minn. Að sama skapi gæti ég ekki ætlast til að allir aðrir vildu hafa Eurovision-lögin sín eins og mig langaði að hafa þau. Til að sykurhúða umfjöllun mína um lög ársins örlítið mun ég því draga samlíkingar við hina ýmsu matrétti. Lögunum hef ég raðað þannig að ég byrja á því sem passar mínum bragðlaukum minnst og enda á því sem mér finnst vera best á hlaðborði ársins.“
Mynd: Söngvakeppnin á Facebook
6 Our Choice – Ari Ólafsson
„Það þarf varla að minnast á það, enda er það svo augljóst, að Ari er frábær söngvari og er það að mínu mati meginástæðan fyrir því að lagið er með í lokakeppninni. En því miður þá hreyfir laglínan ekki við mér persónulega og sviðsetningin þykir mér síst hjálpa til. Ég hefði gjarnan viljað sjá hana einfaldari og dramatískari, með meiri fókus á Ara og svo hefði ég viljað fá bakraddirnar fram á sviðið eftir upphækkun til að styrkja gæsahúðarmómentið.
Ég myndi líkja þessu við sítrónupavlovu. Það fer mikil vinna í hana, góð hráefni þarf og natni við að fá góðan marens en þrátt fyrir það finnst mér hún ekki góð. Ég treð henni í mig í matarboðum til að móðga ekki kokkinn en myndi aldrei bjóða upp á hana sjálfur. Stundum er smá hluti af marensinum sem ekki er með sítrónubragði. Það er gott. Eins og röddin hans Ara.“
Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.
5 Here For You – Áttan
„Mér finnst mikilvægt að byrja á því að segja að liðið á bakvið Áttuna er greinilega ótrúlega drifið og afkastamikið. Þau eru ung og grö… og ég er of gamall til að klára þessa setningu án þess að það hljómi ógeðfellt. Það er akkúrat það sem rann upp fyrir mér þegar ég sá Áttuna. Allt í einu er maður orðinn gamli kallinn sem skilur ekki unga fólkið. Þau eru vissulega að bjóða upp á aðra tegund tónlistar en við erum vön í keppninni en maður finnur fyrir því að aukin sviðsreynsla og smá fínstilling yrði til batnaðar. Ég hef fulla trú á að þau geti komið með eitthvað sem ég fíla betur síðar ef þau halda áfram af sama krafti. Það besta við þátttöku þeirra í ár er þó það að þau viðhalda áhuga unga fólksins og hver veit nema einhver unglingasnillingur sem við höfum enn ekki kynnst fái innblástur og verði Eurovision-hetjan sem við erum að bíða eftir.
Áttan er eins og eitthvað nýstárlegt salat með blöndu af allskonar sem mér finnst alveg gott, einhverju svolítið nýju og fersku eins og granateplum og svartkáli. En eins og allir muna þá fannst okkur allt rosa gott í fyrstu matarboðunum sem við héldum sem unglingar, og vinum okkar jafnvel líka, en fullorðna fólkið var mögulega að skila matnum í servíettuna.“
Mynd: Söngvakeppnin á Facebook
4 Í stormi – Dagur
„Höfundur lagsins, Júlí Heiðar, hefur sýnt af sér mjög ábyrga hegðun með því að velja Dag til að flytja lagið sitt. Það eru alls ekki allir nógu þroskaðir og auðmjúkir til að fórna eigin egói fyrir hagsmuni lagsins en þótt Júlí Heiðar sé sjálfur mjög frambærilegur, þá passar Dagur augljóslega mun betur við lagið. Þrátt fyrir þessa plúsa er það búið að taka mig ansi margar hlustanir að byrja að kunna ágætlega við lagið. Það af leiðandi finnst mér vanta eitthvað í lagið sem Dagur hefur þó sjálfur – kannski þetta margfræga je ne sais quai!
Heildarútkoman er eins og lasagna. Nær öllum finnst það nokkuð gott og alveg hægt að nota það í matarboði en maður vill helst eitthvað meira spennandi við stór tilefni. Dagur er þó klárlega einhver rándýr ostur sem lyftir þessum annars hversdagslega rétti upp á æðra plan.“
Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.
3 Gold Digger – Aron Hannes
„Aron Hannes er mögulega eini Íslendingurinn sem við vitum um í dag sem hefur burði til að verða alvöru poppstjarna og sem slíkur hefur hann alla burði til að vinna Eurovision fyrir okkur. Hann hefur útlitið, röddina, múvin og sjarmann sem þarf. Svenni S:son er líka orðinn frábær í að framleiða lög sem eru Mello-fær. En ef við ætlum að stefna í sömu átt og Svíar verðum við líka að vera varkár því almenningur er farinn að sjá í gegnum sænsku formúluna og farinn að fá nóg af því að heyra lög sem þeim finnst þau hafa heyrt áður. Þegar lag verður mjög líkt fyrirmyndinni, eða er fyrir tilviljun mjög líkt einhverju mjög frægu lagi, þá verður allavega að koma eitthvað nýtt tvist til að fólk hugsi: „mér er skítsama þótt þetta sé næstum alveg eins því þetta er geðveikt!“. Ég held það komi næst! Að lokum finnst mér þema lagsins kannski óheppilegt með tilliti til stemningarinnar í samfélaginu og ég held að það hefði verið hægt að snúa því laginu í hag ef Aron myndi einfaldlega syngja um strák.
Gold Digger er eins og tempura fried spicy tuna roll. Ferskt og djúsí á sama tíma. Var bara á flottustu stöðunum fyrir nokkrum árum en nú eru allir komnir með það á matseðilinn.“
Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.
2 Battleline – Fókus-hópurinn
„Frammistaða Fókus-hópsins var að mínu mati óaðfinnanleg og lagið er það eina sem ég hef fengið gæsahúð af. Þau ná að fanga powerið og lagið er frábærlega uppbyggt fyrir Eurovision. Áður talaði ég um að Júlí Heiðar hafi sýnt af sér mikinn þroska með því að setja hagsmuni lagsins ofar sínum eigin en í þessu tilviki held ég að hópurinn hefði getað náð lengra ef þau hefðu takmarkað flutninginn við einn eða tvo aðalsöngvara. Það hefði alveg örugglega skapað óþægilega stemningu í hópnum en ég tel að hagsmunum lagsins hefði verið betur borgið. Heildarmyndin verður flókin að fylgjast með og maður nær ekki nægri tengingu við neitt þeirra. Að því sögðu finnst mér þau þó gera það eins vel og hægt er þegar skipta á 3 mínútum á milli 5 söngvara. Íslenski textinn finnst mér mjög góður og betri en sá enski. Ef lagið færi út vildi ég gjarnan sjá það á íslensku af þeim ástæðum.
Battleline er eins og frönsk súkkulaðikaka með mjúkum kjarna. Innihaldið er betra en framsetningin.“
Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.
1 Kúst og fæjó – Heimilistónar
„Þá er komið að kransakökunni í hópnum. Veislan verður alltaf aðeins skemmtilegri ef það er kransakaka á hlaðborðinu. Ég hef sjálfur boðið upp á kransaköku í boði með útlendingum sem aldrei höfðu séð slíka smíð áður og þeim fannst það líka mjög skemmtilegt. Fannst hún meira að segja bara nokkuð góð enda finnst flestum marsípan gott þótt framsetningin hafi verið örlítið framandi. Þeim fannst það kannski ekki besti rétturinn á borðinu en þeir muna örugglega eftir henni. Heimilistónar eru að mínu mati augljóslega svarið í ár og það skemmtilega er að ef við komumst ekki áfram, þá verður okkur alveg sama. Við erum stolt af okkar kransaköku og ef útlendingar skilja það ekki þá er það bara allt í lagi. En á meðan við erum ekki með neitt sem við getum verið 100% um að virki, þá eru Heimilistónar ekki bara öruggasta valið heldur óútreiknanlegasta og skemmtilegasta valið! Áfram stelpur, ég styð ykkur alla leið og EKKI spara Mackintoshið!“