„Hjartað slær í saumaklúbbum landsins“: Heimilistónar í viðtali

Það er rigningarlegt í Vesturbænum þegar dyrunum er lokið upp fyrir okkur af Elvu Ósk Ólafsdóttur leikkonu á sunnudagseftirmiðdegi. Á móti okkur tekur kökuilmur og glaðlegur hópur kvenna, nefnilega Heimilistónar. Hljómsveitina skipa þær Elva Ósk, Vigdís Gunnarsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Við fáum okkur sæti við borðstofuborðið sem svignar af kræsingum, þ.á m. nýbökuðu kryddbrauði sem ilmaði svona dásamlega. Við erum komnar til að spjalla við þær stöllur um sveitina og þátttöku þeirra í Söngvakeppninni.

Við byrjum á því að spyrja hvað varð til þess að þær ákváðu að senda lagið Kúst og fæjó í Söngvakeppnina og Ólafía Hrönn svarar: „Þetta kom fyrst upp fyrir mörgum árum. Þá sendum við inn lag sem við tókum upp hjá Barða í BangGang. Það komst þó ekki áfram. Þetta hefur þó alltaf blundað í mér sérstaklega. Við hittum svo Maríu Hebu leikkonu í garðveislu hjá Kötlu á 17. júní og hún kom óðamála til okkar og sagði: „Stelpur, núna er tíminn, ég bara veit það!“ … og ég var bara á sama stað og hún og það ýtti á mig að keyra þetta í gang. Ég hef sent nokkrum sinnum inn lag sjálf en ekki komist áfram fyrr en nú.“

AUJ: Hvað er það við Söngvakeppnina sem fékk ykkur til að senda inn lag?
Ólafía Hrönn: „Þetta er bara skemmtilegt en ég er ekki með neinar framavonir,“ segir hún og hlær. Ég fór á Júróvisjón í Vín um árið og mér fannst þetta svo fallegt, bara eins og friðarsamkoma.. Allir höfðu svo æðislega gaman af því að klappa niður 10, 9, 8 áður en keppnin byrjaði og voru svo rólegir, slakir og bara í stuði. Þetta er svo ótrúlega saklaust og mér finnst svo dásamlegt að vera bara í gleðinni og pæla ekki í nokkru öðru.“

AUJ: Hafið þið verið í einhverri sérstakri kynningarstarfsemi fyrir Söngvakeppnina?Myndband_heimilstonar

Ólafía Hrönn: „Við gerum þetta bara eins og strákarnir, gerum myndband og erum með markaðsmanneskju. Það er líka búið að dreifa myndbandinu alveg ville væk.“

Katla: „Við höfum tekið eftir að fólk er að uppgötva okkur sem er svo gaman. En við erum líka með alveg svakalega flottan stuðningshóp með okkur, alveg Rock Solid hópur sem hefur áhuga á Heimilistónum og kemur ár eftir ár á böll hjá okkur.“

AUJ: Hvernig hefur ykkur verið tekið? Halda kannski einhverjir að þið séuð að grínast?

Katla: „Svona bæði og. Við sjáum meira af einlægum viðbrögðum og trú á því að við séum að gera þetta frá hjartanu, sem við erum að sjálfsögðu að gera. En auðvitað tekur maður eftir þessum athugasemdum þar sem fólk heldur að þetta sé skets eða grín.“

Ólafía Hrönn: „Ég veit ekki alveg hvað það er. Fólk er meira að leita eftir staðfestingu á því hvort þetta sé grín eða ekki. Það er ekki alveg með það á hreinu.“

Katla: „Já, ég hef líka fengið spurninguna um hvort við séum við sjálfar eða að leika einhverjar týpur. Það staðfestist þá hér með að við erum bara við sjálfar.“

Ólafía Hrönn: „Já, við sjálfar algjörlega, en puntaðar á gamaldags hátt. Af því okkur finnst það fallegt og gaman.“

Vigdís: „Við höfum lent í alls konar viðbrögðum í gegnum árin og það er svolítið viðhorfið meðal ákveðinna hópa að konur eigi ekki að vera í spilamennsku. Þess vegna hljóti þetta að vera djók. Drukknir karlar hafa til dæmis verið með frammíköll á böllum hjá okkur um að við eigum ekkert heima þarna uppi á sviði í kjólum að spila á trommur og bassa.“

Katla tekur hlæjandi undir þetta og rifjar upp að einn hafi kallað: „Fariði heim, gömlu konur.“

Ólafía Hrönn tekur undir og bætir við að á þessum stundum sé það staðfest að sumir hugsi á þennan hátt: „Ég var að segja Röggu Gísla þetta og hún rifjaði upp að þegar hún var að byrja í Grýlunum stóðu karlar við sviðið og vissu ekkert hvernig þeir áttu að haga sér af því þeir gátu ekki staðsett þær. Og þeir kölluðu bara: „Af hverju ertu svona ljót? Af hverju ertu með svona ljótt hár?“ Þeir vissu bara ekki hvernig þeir áttu að fara inn í þetta mengi og þess vegna gerðu þeir það á svona asnalegan hátt.“

Katla: „Ég get í framhaldi af þessu alveg sagt fyrir hönd okkar allra að sama hvað gerist þá mun enginn taka af okkur gleðina – þetta er bara gaman í gegn.“

Ólafía Hrönn: „Svo er eitt. Við hérna fjórar miðaldra konur. Við erum rosalega góð fyrirmynd fyrir börnin okkar. Að sýna þeim að það sé alveg eðlilegt að fjórar miðaldra konur í kjólum spili í hljómsveit. Þetta valdeflir þau og gefur þeim skilaboð um að það sé gott að fylgja áhugamálum sínum sama á hvaða aldri maður er. Það er svo mikilvægt að koma með mótvægi við þessi stöðugu skilaboð úr auglýsingum um að útlit eigi að vera á einhvern einn ákveðinn hátt og að allir eigi að vera ungir, alltaf.“

2015-05-10 00.08.41

Lagið og sviðsetning
AUJ: Fólk sem þekkir ykkur og böllin ykkar, má það búast við 3 mínútna Heimilistónaballi á sviðinu þann 10. febrúar?  

Elva: „Við náum því miður ekki að skipta um hljóðfæri á milli laga, eins og er aðalsmerki okkar á tónleikunum.“

Vigdís: „Þetta verður fáguð framkoma í fallegum kjólum. Við verðum vel til hafðar, gerum okkar besta og höfum gaman að. Það er ekkert lag eins og okkar og í sjálfu sér erum við ekki að keppa við neinn sem er með svipað lag.“

Katla og Ólafía Hrönn: „Útsetningin á laginu setur dálítið fútt í það. Vignir Snær útsetur með okkur og mér finnst hann eiga ansi mikið í laginu. Svo fengum við konu til að spila á saxófón, Rósu Guðrúnu. Það er rosa flott hjá henni á baritónsaxann og með Jónasi og ritvélum framtíðarinnar.“

Elva: „Svo erum við með tvo voða sæta stráka í bakröddum.“

Katla: „Já, snillingarnir Sigurður Þór Óskarsson og Oddur Júlíusson. Þeir verða á palli fyrir aftan bandið og kannski taka þeir smá dansspor í sólóinu. Þeir hafa náttúrlega verið gógó-dansarar hjá okkur á böllum.“

Ólafía Hrönn: „Þeir eru algjörlega eins og við viljum hafa bakraddirnar, svo bjartir og fallegir og góðir drengir. Það er mikið atriði.“

Katla: „Já, það er hrein orka í þeim og svo eru þeir svo miklir vinir okkar.“

AUJ: En ef þið þið komist áfram, skiptið þið þá um hljóðfæri?

Vigdís: „Það er aldrei að vita. Við skiptum allavega um kjóla, eins og við gerum alltaf!“

AUJ: Það er nú svolítið Júróvisjon að skipta um dress.

Vigdís: „Já, algjörlega. Við erum Júróvisjón, þú sagðir það einhvern tímann, Lolla, og það er rétt – það er samasemmerki á milli Heimilistóna og Júróvisjón.“

AUJ: Hvað getið þið sagt okkur um lagið ykkar?
Elva: „Lagið er eiginlega tvö lög sem við höfum verið að æfa í bútum. Textinn varð eiginlega til á heimleið eftir æfingu.“

Ólafía Hrönn: „Ein okkar fékk þessa hugmynd: Eigum við að setja þennan bút saman við þennan? Og það var alveg bingó. Gerðist mjög hratt, eiginlega bara á 7 mínútum.“

Vigdís: „Þannig gerast hlutirnir stundum og þetta gekk svo vel upp. Lagið var í rauninni löngu tilbúið en svo þurfti að ná í þessa búta og sauma þá saman. Svona bútasaumur.“

Katla: „Textinn hentar okkar konsepti vel, skilaboðin um vinskap kvenna þar sem alls konar gerist og við erum breyskar og skemmtilegar og svo framvegis.“

Vígdís: „Textinn varð til undir norðurljósum, í alvöru.“

Elva: „Þetta er fallegt.“

Ólafía Hrönn: „Hver og ein kom með sína línu.“

Vigdís: „Við saumuðum þetta allar saman. Og það er svolítið Heimilistónar; þessi orka.“

Ólafía Hrönn: „Því að við erum sósíalistar.“

Vigdís: „Já, við erum jafnaðarmanneskjur.“

Katla: „Þetta er svo mikið samspil, við erum alltaf að gera þetta saman og erum ekkert eigingjarnar á neitt.“

Ólafía Hrönn: „Og engin er aðal, sem mér finnst svo fallegt.“

Elva: „Einmitt, til dæmis getur Katla komið með hugmynd að bassalínu þó að hún sé á hljómborði og ég bent á að það vanti trommur á ákveðnum stað þótt ég sé á bassanum. Svona vinnum við þetta allar saman.“

Vigdís: „Við höfum heyrt að það sé mjög gaman að vera fluga á vegg á æfingum og í upptökum.“

Ólafía Hrönn: „Svo æfum við hver á sitt hljóðfæri en þegar það kemur að ballinu er maður ekkert með á hreinu á hvaða hljóðfæri maður spilar. Ég hef nokkrum sinnum lent í því að ég er kannski komin á hljómborðið en á að vera á gítar. Svo heyrist stundum: ,,Muniði á hvaða hljóðfæri ég var í þessu lagi?” Það er ferlega sætt.“

Katla: „Maður byrjar kannski að spila og hugsar svo: „Vá, af hverju er ég svona léleg?” og þá fattar maður að maður á að vera á allt öðru hljóðfæri,” segir Katla og hlær.

Heimilstonar

AUJ: Er textinn sannur?
Vigdís: „Algjörlega. Hann er allur sannur, alveg sami bútasaumurinn og lagið. Saumó og konur. Ég held að allar konur geti speglað sig í honum.“

Ólafía Hrönn: „Vitiði hvað eru margir saumaklúbbar á landinu? Ég var einu sinni veislustjóri í veislu hjá saumaklúbbsfélagi Íslands. Það fyllti heilt íþróttahús. Það eru allar konur á Íslandi í saumaklúbb.“  Þetta er svona underground-starfsemi segi ég.

Vigdís: „Við höfum allar heyrt þessar sögur sem eru í textanum, oft af því við erum í mörgum saumaklúbbum og heyrum sögur á milli þeirra. Nöfnin í textanum eru þó bara fengin út í loftið því þau rímuðu.“

Ólafía Hrönn: „Þau eru bara fengin út í loftið, svo að það sé á hreinu. Það er til dæmis Ása í mínum saumaklúbb og hún er alls ekki að góna á ryk. Algjör tilviljun!“

Elva: Við tengjum við saumaklúbba landsins og hjörtu okkar slá þar.

Saga Heimilistóna
Við snúum þá talinu að öðru og langaði að heyra um upphaf sveitarinnar og hvernig samstarfið hefur þróast en Heimilistónar hafa verið starfandi í 21 ár, með nokkrum mannabreytingum þó. Í upphafi var Halldóra Björnsdóttir starfandi með bandinu og Ragnhildur Gísladóttir hefur verið Heimilistónn auk annarra sem hafa stoppað stutt við og aðstoðað á giggum.

Hvernig urðu Heimilistónar til? Af hverju þessi tónlist?
Vigdís: „Okkur langaði bara að spila saman og það var svona frumástæðan fyrir stofnun bandsins. Hugmyndin að bandinu fæddist þegar við vorum í Þreki og tárum.“

Katla: „Eins og Elva sagði í viðtali um daginn, þá eru þetta lög mæðra okkar.“

Elva: „Já, þetta er svolítið tilfinningin þegar maður kemur heim úr skólanum og maður heyrir gutlið í vaskinum og lögin sem voru í útvarpinu þegar við vorum litlar.“

Vigdís: „Í Þreki og tárum voru þessi lög áberandi, það var þessi tími og Edda Heiðrún var í hlutverki söngkonu. Þá fæddist þessi hugmynd: Af hverju stofnum við ekki kvennaband? Svo lærði Elva á bassa. Okkur fannst það vanta. Og af hverju ekki að dubba sig upp og taka þetta alla leið? Okkar sérstaða hefur verið að gera svona cover, en við erum samt ekki beint cover-band, því að við höfum tekið ensku textana og gert þá að okkar, snúið þeim beint yfir á íslensku.“

Screen Shot 2018-02-08 at 20.47.08

Elva: „Við sömdum tónlist fyrstu árin, en það var allt svo þunglyndislegt.“

Þær hlæja allar þegar Ólafía Hrönn segist semja mjög þunglyndislega tónlist: Það passaði ekkert inn í Heimilistóna-konseptið,“ segir hún; „Við þurftum að feta okkur svolítið áfram. Það sem ég hafði fram að færa þá átti bara alls ekki heima með Heimilistónum á þeim árum, það var allt svo dapurlegt eitthvað! Ég hef samt talað fyrir því að við kæmum með okkar eigið efni. Ég var í kvennahljómsveit á yngri árum og samdi meira og minna allt fyrir hljómsveitina – og það var allt svona heavy. Ég er bara svoleiðis – er ekki maðurinn bara stundaglas? Jafnmikið báðum megin?“

Katla: „Ólafía er drifkrafturinn, hún getur fært fjöll – og okkur með.“

Ólafía Hrönn: „Takk fyrir það.“

Elva: „Ég man líka þegar við vorum að byrja, hvað það var rosalegur léttir og gleði þegar maður var í dramatískum hlutverkum að fá þetta mótvægi. Það var það sem maður þurfti til að komast út úr drunganum og gera eitthvað skemmtilegt með vinum sínum.“

AUJ: Hvernig hefur starfið þróast á þessu 21 ári sem hljómsveitin hefur lifað?
Ólafía Hrönn: „Ekki mjög hratt myndi ég segja.“ Þær hlæja allar.

Vigdís: „Eins og gefur auga leið höfum við verið svolítið fastar í þessum tíma, tímavélinni.“

Katla: „Við erum líka mjög fastar í vinnu, þegar maður er í leikhúsinu þá gerir maður ekki mikið annað. Við erum náttúrulega fjórar, vorum lengi fimm og það getur verið erfitt að stilla saman strengi og æfa, en áhuginn er mikill. Það er líka rosalega mikil vinna á bakvið hvert ball. Við rótum sjálfar, göngum frá sviðinu og flytjum græjurnar, sjáum um plögg og miðasölu. Við erum sem betur fer með góða maka, sem nenna að standa í þessu með okkur fáum fjölsklydurnar með í þetta.“

Vigdís: „Mottóið okkar hefur líka alltaf verið að fjölskyldan gangi fyrir þannig að ambisjónin hefur verið meira að gera þetta okkur til gamans. Að hittast, spila og vera saman. Að spila opinberlega hefur aldrei verið kvöð.“

AUJ: Þau hljóta þá að vera mörg eftirminnileg giggin í gegnum árin?
Vigdís: „Við eigum svo sannarlega. Við höfum spilað mjög víða, til dæmis í sundlaug og bát og svo auðvitað í Ameríku.“

Ólafía Hrönn: „Já, það er nú frægt þegar við spiluðum í sundlauginni. Við vorum að spila í innilauginni fyrir einhverja norræna ráðstefnu og svo var öllum allt í einu hleypt inn í einu…“

Elva: „í gegnum svona lítið op…“

Ólafía Hrönn: „Þannig að vatnið í sundlauginni flæddi bara eins og flóðbylgja á móti okkur og rafmagnssnúrurnar! Við stóðum bara og horfðum á fjöltengin…“

Vigdís: „… og forðuðum okkur bara!“

Elva: „En við vorum á sundfötum!“Screen Shot 2018-02-08 at 20.50.14

Vigdís: „Já og með sundhettur. En hugsunin sem kom var bara: ,,Þetta er hræðilegt, ég gæti dáið.“

Ólafía Hrönn: „Það hefði verið hallærislegur dauðdagi.“ (hlær)

Vigdís: „En við hefðum samt tekið okkur vel út á sundfötunum.“ (allar hlæja)

Hlátrasköllin halda áfram þegar sögur af eftirminnilegum giggum eru rifjaðar upp.
Vigdís: „Svo man ég alltaf þegar við vorum fyrir norðan með skemmtiprógrömmin. Við ferðuðumst um salinn og dönsuðum írska riverdansa og eðlilega vorum við í brúðarkjólum! Allt í einu dettur Elva úr axlarlið og kallar: „Er læknir í salnum?“ Salurinn veinaði náttúrlega úr hlátri og hélt að þetta væri hluti af gríninu. En það vildi til, eins og alltaf, að það var læknir í salnum og við sungum bara áfram og hann kippir Elvu í lið á miðju sviðinu. Ég hló svo mikið að ég frussaði í míkrafóninn og fékk smá raflost.“

Ólafía Hrönn: „Hvað mynduð þið segja að væri besta giggið? Er það ekki bara í Eyjum? Á Þjóðhátíðinni?“

Katla:  „Ég myndi segja að það hafi verið á Akureyri á 17. júní þegar þú komst svífandi niður úr krana Lolla úr 50 metra hæð. Syngjandi og við vorum með gjörnin. Fengum topplausan fornbíl sem var keyrður hægt niður göngugötuna og fólkið allt í kring að hylla bandið, eða við upplifðum það þannig.“ (hlær)

Ólafía Hrönn: „ Við fundum mjög fyrir því þá að Akureyringar væru að fatta okkur.“

Katla: „Þetta var æðislega gaman.“

Vigdís: „Ógleymanlegt.“

Plata í pípunum
Undir lokin spyrjum við hvort satt sé sem heyrst hefur að þriðja platan sé á leiðinni. Elva er fljót til svars: „Jú, og með frumsömdu efni eingöngu.“

Vigdís: „Við eigum okkur draum um vinylplötu.“

Elva: „Við erum aðeins byrjaðar að taka upp eitt og eitt lag.“

Ólafía Hrönn: „Ég er ekki frá því að platan komi út í vor.“

AUJ: Verður Kúst og fæjó þá fyrsta lagið af plötunni?
Elva: „Væntanlega, titillagið kannski.“

Ólafía Hrönn: „Já kannski það, en það koma alltaf svo frábærar hugmyndir hjá okkur.“

AUJ: Hvernig er með aðra listsköpun, þið sem eruð leikkonur og að spila í hljómsveit?
Ólafía Hrönn: „Jú, ég er það. Ég hef áhuga á myndlist og er að mála. Og ég er líka í hannyrðum og myndi segja að ég sé textíllistamaður. Okkur langar að hafa eitt textíllistaverkið sem skraut ef við komumst áfram.“

Katla: „…þegar við komumst áfram!“

Við látum þetta verða lokaorðin enda nóg að gera hjá Heimilistónum. Með fulla maga af kryddbrauði skiljum kveðjum við stelpurnar þar sem þær funda um næstu skref í Söngvakeppnisundirbúningnum.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s