Möguleikar í úrslitum: Aron Hannes

gd

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Aron Hannes og gullgrafararnir hans verða næstsíðastir á svið.

Kostir:

  • Mjög grípandi og gleðileg laglína í anda Bruno Mars.
  • Aron Hannes getur vel sjarmað áhorfendur uppúr skónum í gegnum myndavélarnar.
  • Þaulvanir flytjendur í vel smurðu atriði.

Gallar:

  • Frekar þreytt sviðsetning sem kom ekki nægilega vel út í sjónvarpi.
  • Aðeins of straumlínulagað og verksmiðjuframleitt fyrir stemminguna í ár.
  • Textinn eilítið óviðeigandi á árinu 2018.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Grípandi laglínan hefur allt til að bera til að fljúga beina leið í einvígið. Verði Aron Hannes aðeins hressari og skrúfar örlítið meira upp í sjarmanum en á undankvöldinu ýtir það enn meira undir möguleika lagsins. Það helsta sem getur dregið úr möguleikum Gold digger er tímaskekkjan í texta og sviðsetningu. 

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Það er nokkuð erfitt að segja fyrir um hvernig Evrópa muni taka svona vel smurðu poppi. Alla jafna er gengi svoleiðis smjörpopps gott en við höfum á tilfinningunni að Evrópubúar séu þyrstir í eitthvað aðeins öðruvísi í ár.

Möguleikar í úrslitum: Heimilistónar

kust

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Fjórðu á svið eru hinir frábæru Heimilistónar.

Kostir:

  • Gleðisprengjur frá upphafi til enda. Kv. the fangirls!
  • Flott lag og pínu retró fílingur sem slær í gegn hjá ungum sem öldnum.
  • Þær stöllur eru allar vanar sviðskonur og atriðið er mjög vel útfært, með æðisbakröddum.

Gallar:

  • Hætta á að fólk misskilji lagið sem grín – og afskrifi þar með þetta frábæra framlag.
  • Of mikið í gangi til að það skili sér í sjónvarpinu heim í stofu.
  • … okkur dettur ekki fleira í hug 🙂

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Þetta er dálítið allt-eða-ekkert-dæmi í Söngvakeppninni í ár; annaðhvort floppa Heimilistónar alveg eða þær skjóta sér beina leið í einvígið og við höllumst sannarlega að því síðara því að þær eiga engan sinn líka og eru eina kvenatriðið í ár – og eru þar að auki ekki að syngja um karlmenn. Það eitt ætti að skila þeim alla leið. Hafðu það, Bechdel-kvarði!  

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Ef Heimilistónar sigruðu í Söngvakeppninni, myndi landslagið fyrir framlag Íslands sannarlega vera öðruvísi en hin fyrri ár. Þær eru eitthvað allt öðruvísi og koma snilldarlega inn í framlagasúpu sem virðist fremur litlaus enn sem komið er. Þær verða okkar Spoonful of Sugar til að koma meðalinu niður!

Möguleikar í úrslitum: Ari Ólafsson

ariolafs

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook

Ari Ólafsson verður þriðja lag á svið og flytur lagið sitt á ensku, Our Choice.

Kostir:

  • Einlægt og ljúft lag í góðum flutningi Ara.
  • Fullkomin uppskrift af júróballöðu – Þórunn Erna kann’etta!
  • Ari heillar sannarlega í gegnum linsu myndavélarinnar og brosið verður á sínum stað.

Gallar:

  • Lag sem eðli málsins samkvæmt gæti týnst inn á milli Áttunnar og Heimilistóna…
  • Enska útgáfa textans er pínu litlaus – íslenski textinn safaríkari og blæbrigðaríkari.
  • Ekki beint galli en okkur fannst Ari ekki alveg taka sér nógu mikið pláss í undankeppninni, hann þarf að fá meiri fyllingu á sviðinu og eiga það meira (vonandi verður það komið á laugardaginn!)

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Möguleikarnir fannst okkur minnka helling þegar Ara var hagalega komið fyrir mitt á milli Áttubombunnar og Heimilistónasprengjanna. Hann er þó fyrsta lágstemmda lagið á svið, þrátt fyrir að vera þriðji á svið, og það gæti verið honum í hag. Annars eru þeir tveir, Ari og Dagur, sólóistar með kraftmiklar ballöður og við erum pínu hræddar um að þeir nappi atkvæðum hvor af öðrum – og þá gæti það verið Ara í óhag þar sem Dagur er síðastur á svið og fær þar með meiri vigt.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Eins og Thomas Lundin er búinn að gefa út, eru möguleikar Our Choice ótvíræðir þegar út er komið, hvað flutning og gæði lagsins snertir. Að því sögðu þá eru lágstemmdu lögin fjölmörg í ár (hæ Salvador!) og þar með gætu möguleikarnir á að komast í úrslitin minnkað aðeins. Heilt yfir erum við þó bjartsýnar ef Our Choice verður valið – þá förum við úr sólósöngkonunni sem hefur ekki virkað undanfarin þrjú ár 😉

Möguleikar í úrslitum: Áttan

attan

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Áttan stígur á svið önnur í röð laganna sex sem flutt verða á úrslitunum. Þau flytja lag sitt einnig á ensku, og útleggst það Here for you.

Kostir:

  • Current lag sem er er algjörlega í anda annarra vinsælla laga Áttunnar.
  • Stemming og stuð sem heillar ungu kynslóðina.
  • Útgeislunin af Agli og Sonju á sviðinu er nokkuð smitandi – þrusu bakraddir líka!

Gallar:

  • Live flutningur aðalsöngvara frekar brokkgengur – og við gerum ekki ráð fyrir autotune!
  • Lagið fremur flatt sem slíkt, ekkert ris eða annað sem brýtur það upp, af því leiðir að það verður þreytandi og mónótónískt.
  • Ef heildarframsetningin verður eins og í undankeppninni minnir hún ansi mikið á hæfileikakeppni í grunnskóla.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Áttan hefur vissulega eigin stíl og nánast eigið sólkerfi (fylgjendur þeirra á Facebook eru jafnmargir og allir íbúar Hafnarfjarðar, ca. 28.000 manns!) en þrátt fyrir það hljóta áhorfendur Söngvakeppninnar að velta því fyrir sér hvort flutningur eða vinsældir persónanna á sviðinu vegi þyngra til að velja framlag í Júróvisjón! Við viljum hafa trú á fólki sem heima situr – en Silvía Nótt er okkur flestum þó í fersku minni. Viljum samt minna á að hún var djók!

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Vinsældir að heiman skila sér sannarlega ekki út á stóra sviðið, þetta vitum við alveg – og vonandi áttar Áttan sig líka á því. Það verður því að byggja þessa skýjaborg á traustum grunni – lagi eða flutningi. Enough said!

Möguleikar í úrslitum: Fókus-hópurinn

fokus

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Fyrst á svið á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar eru krakkarnir í Fókus-hópnum með lagið Battleline.

Kostir:

  • Hressilegt lag sem auðvelt er að fá á heilann.
  • Allt hörku söngvarar sem hafa góða útgeislun og flytja lagið örugglega.
  • Enski textinn rennur nokkuð vel og passar við lagið.

Gallar:

  • Kameruvinnan og stíliseringin þarf að vera samræmd, sem getur verið pínu tricky í þessu atriði.
  • Erfitt gæti reynst fyrir áhorfandann heima í stofu að sympatisera við þau sem hóp, og hópurinn orðið flokkur af einsöngvurum.
  • „Fæ-fæ-fæ-fight“ er kannski ekki besta línan í þessum úrslitum 😉

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Þrátt fyrir að flokkur söngvara hafi nú ekki gert neinar gloríur hingað til í Söngvakeppninni verður lagið að teljast nokkuð sterkt og við sjáum alveg að það rati í einvígið. Líkurnar hljóta því að teljast vera með þeim – kannski bara erfitt fyrir þau að vera fyrst, og hress lög sem á eftir fylgja gætu skyggt á þau.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Þetta atriði sjáum við fyrir okkur að virki vel í Eurovision sjálfri, það eru jafnvel pínu schlager-element í því (sem er gott). Þau eru hress og flott, Fókus krakkarnir, og skemmtileg á að heyra – líka a cappella svo að þau yrðu sannarlega til sóma í meet&greet.

Eftir seinna undankvöld Söngvakeppninnar 2018

songvakeppnin2

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Nú hafa undanriðlarnir tveir fyrir úrslit Söngvakeppninnar 2018 farið fram og við sitjum eftir með 6 lög (engan Svarta-Pétur í ár) í úrslitunum. Hér ætlum við að rekja ofurlítið hvað fram fór í Háskólabíó á laugardaginn var:

Aron Hannes mætti galvaskur fyrstur á sviðið með tvo unga dansara og þrjár bakraddir sér til fulltingis. Í fyrstu atrennu þurfti hann þó að standa vaktina einn þar sem ekkert heyrðist í bakröddunum. En eftir að öll hin lögin voru flutt fengu þeir félagar að spreyta sig í annað sinn. Með honum í bakröddum voru m.a. Ásgeir Orri úr StopWaitGo og Pétur úr Bláum Ópal og F.U.N.K. og hressleikinn var sannarlega fyrir hendi. Nokkuð öruggt að þeir hafi komist áfram og salurinn tók vel undir.

Rakel Páls var önnur á svið og gaman að sjá örlítinn metnað í sviðssetningu og meira að segja smá gimmikk þegar hvítu tjöldin féllu. Flutningurinn hennar var gallalaus og lagið naut sín vel. Eina sem stakk okkur var hversu illa staðsett byrjunin á klippunni hennar var; byrjaði á löngum blast-tóni sem var alls ekki takt við heildaryfirbragð lagsins.

SLAY-stúlkurnar héldu uppi stuðinu og breyttu sviðinu í alvöru diskópartí. Bakraddasöngkonurnar voru ögn óöruggar en engan bilbug var að finna á Stefaníu sem sýndi og sannaði að hún er virkilega góð söngkona. Ekki spillti neitt fyrir stemmingu og stuði, enda DJ-búr úr diskókúlu og risadiskókúla á sviðinu að ógleymdum glimmersprengjum í lokin.

Þórir og Gyða komu flestum í salnum til að brosa (bambaramm!). Greinilegt var að framsetning á sviðinu átti að vera mjög afslöppuð, sófi, mottur og lampar á sviðinu en þetta varð pínu kaótískt fyrir vikið, enginn heildarstíll. Stress mátti aðeins sjá á flytjendunum og þetta varð pínu stíft en voða ljúft og rann vel.

Dagur Sigurðsson var næstsíðastur á svið með allt powerið í húsinu. Vopnaður veglegum bakröddum, skýja- og eldingagrafík stóð Dagur sig frábærlega og var eiginlega betri en í stúdíó-útgáfunni. Júlí Heiðar sló sneriltrommuna af list og heildarmyndin svakalega flott. Verðugt sæti á úrslitakvöldinu þar!

Áttan lokaði svo keppninni (að Aroni Hannesi undanskildum) og mikil spenna var í loftinu fyrir frammistöðu þeirra. Gaman var að sjá Aron Brink og Ásgeir Orra standa þétt við bakið á Agli í bakröddum. Ekki kom neitt sérlega á óvart að þau Egill og Sonja hafi verið fölsk en lífsgleðin skein af þeim og það virðist hafa skipt meginmáli í flutningnum – stemmingin í húsinu var gríðarleg eftir flutninginn. Með sterkt bakland virðast þeim engin sund lokuð og næst eru það úrslitin!

Yfirferð laga II: Söngvakeppnin 2018

songvakeppnin2018_2

Seinna undankvöldið í Söngvakeppninni í kvöld og því ekki seinna vænna en að kíkja á lögin sex sem keppa í kvöld:
Golddigger / Gold Digger – Aron Hannes

Hildur: Líklega er hér á ferðinni mest grípandi lag keppninnar í ár. Þegar ég hlustaði í gegnum öll lögin í fyrsta skipti var þetta annað tveggja laga sem ég mundi yfir höfuð eftir. Við sáum það í fyrra að Aron Hannes er næstum eins og fæddur fyrir svona keppni, hann er góður flytjandi, óhræddur á sviðinu og kann sannarlega að tala við myndavélarnar. Þó lagið sé ekki frumlegt þá er það vel unnið og útsett og því næsta víst að Aron flýgur beina leið í Laugardalshöllina.
Eyrún: Aron tekur annan túr í Söngvakeppninni í ár og lagið (eða element úr því) höfum við öll heyrt áður (halló Bruno Mars!) – það er oft góðs viti og hjálpar til upp á tengingar. Fjörið á pottþétt ekki eftir að vanta á sviðið. Eina sem mér finnst virkilega vont er textinn á íslensku, sá enski er strax betri og vonandi þarf ég ekki mikið að pirra mig á hinum íslenska því að enski verður jú fluttur í Laugardalshöll og Aron er nánast öruggur þangað.

Óskin mín / My wish – Rakel Pálsdóttir

Eyrún: Rakel er alveg dásamleg söngkona og er reynslumikil í Söngvakeppninni. Lagið er hugljúft og einfaldleikinn virkar oftast best. Ég held að hún sé örugg áfram í úrslitin og mjög verðugur fulltrúi þar!
Hildur: Yndilega hugljúft lag með svo ótrúlega fallega sögu á bak við sig. Rakel er góður flytjandi og mun án efa skila sínu 100% og ríflega það á sviðinu. Þrátt fyrir að lagið sé fallegt og hugljúft er það kannski helst til of lágstemmt til þess að eiga möguleika á að fara áfram í úrslit.

Svaka stuð / Heart Attack – Stefanía Svavarsdóttir, Agnes Marinósdóttir og Regína Lilja Magnúsdóttir

Hildur: Ég er ekki sérlegur diskó-aðdáandi og því miður er þetta ákúrat sú tegund af diskó lögum sem mér fara eiginlega bara í taugarnar á mér. Lagið er þó vel gert og stelpurnar, með Stefaníu í fararbroddi, munu án efa flytja lagið vel. Ég hef örlitlar áhyggjur af því að þetta sé eitt af þeim lögum sem erfitt er að sviðsetja en vona svo sannarlega að þeim hafi tekist að búa til skemmtilegt show fyrir sjónvarp!
Eyrún: Æ, þetta lag gæti orðið svo mun meira en það er, sem er meiri synd því að þær eru allar þrjár þrususöngkonur og Stefanía Svavars ein besta og fjölhæfasta söngkona af yngri kynslóðinni. En því miður held ég að þetta eigi ekki upp á pallborðið í ár.

Brosa / With You – Þórir Geir Guðmundsson og Gyða Margrét Kristjánsdóttir

Eyrún: Hugljúft og krúttlegt lag en ég veit ekki alveg með framhaldið því að það verður að virka líka á sviðinu, kemestría og jafnvel pínu gimmikk getur hjálpað mikið til.
Hildur: 
Líkt og í fyrra lagi þeirra Guðmundar og Fannars þá er svo mikil gúddífíling að kona fer ósjálfrátt að dilla sér. Hér er á ferðinni annar af tveimur dúetum kvöldsins og það mun mæða mikið á þeim Þóri og Gyðu að ná góðri kemestríu bæði sín á milli og  við áhorfendur. Ef vel tekst til eiga þau góða von á að komast áfram.

Í stormi / Saviours – Dagur Sigurðsson

Hildur: Það verður gaman að sjá Dag á Söngvakeppnissviðinu enda magnaður söngvari! Lagið hentar honum einkar vel og hann mun negla þetta. Júlí Heiðar hefur sviðsett lögin sín nokkuð skemmtilega. Mér finnst þó vanta eitthvað í það til að fullkomna það og tel því að gengi lagsins mun því velta  mikið á því hvernig það kemur út í sjónvarpinu.
Eyrún: Ég fílaði lagið alveg frá fyrstu hlustun og það á heilmikið erindi á sviðið. Ég hlakka mikið til að sjá það og powerið verður sko ekki sparað! Stundum er það jafnvel í það mesta og mætti alveg tóna aðeins niður. Ég er þó nokkuð viss um að Dagur flýgur áfram í úrslitin.

 Hér með þér / Here for you – Áttan – Sonja Valdin og Egill Ploder

Eyrún: Áttan er afskaplega vinsæl og uppskriftin að þessu lagi er eins og á flestum vinsælum lögum í dag, autotune og easy-listening ballaða með gríðarlegum endurtekningum. Ég er pínu hrædd við lifandi flutninginn hjá þeim, því að mér finnst þau hafa verið fremur brokkgeng live undanfarið en baklandið er sterkt og ég hugsa að fyrsta umslagið verði þeirra í kvöld.
Hildur:
 Ég er kannski bara orðin of gömul, en ég fatta þetta lag ekki. Finnst lagið hvorki fugl né fiskur og líða hreinlega áfram án þess að kona taki eftir því að verið sé að spila það. Það er lítið ris í laginu og viðlagið endurtekið aftur og aftur sem getur bæði virkað leiðigjarnt og eftirminnilegt og bara spurning hvoru megin lagið lendir! Áttan er gríðarlega vinsæl og þau eru síðust á svið svo að það er næsta víst að þau verða með í Laugardalshöllinni 3. mars.

 

 

Eftirleikurinn eftir fyrra undankvöld Söngvakeppninnar

Nú þegar hálfleikur er; fyrri undankeppnin búin og sú síðari handan við hornið, er rétt að við metum örlítið stöðuna eftir laugardagskvöldið síðasta.

Eins og þið vitið öll komust Fókus hópurinn, Ari Ólafsson og Heimilistónar áfram á úrslitakvöld Söngvakeppninnar 3. mars. En hvernig ætli þjóðin hafi komist að þeirri niðurstöðu? Við rýnum þetta aðeins:

Þórunn Antonía var fyrst á svið og setti alla áhorfendur í salnum í blússandi Júróstemmingu með útpældu gimmikki og látum! Atriðið í heild var afskaplega skemmtilegt í salnum og virkaði vel (jújú, við vorum í salnum) en það tapaðist heilmikið í sjónvarpinu. Ef lagið væri sterkara myndi því sennilega hafa gengið betur með allan þennan myndræna stuðning (og glimmer!) Hljóðið var líka mikið að trufla Þórunni sem er algjörlega óþolandi þar sem Hildur lenti í nákvæmlega sömu stöðu í fyrra, (muniði?) og það gengur ekki upp að ekki sé hægt að vera fyrstur á svið án þess að hljóðið klikki. Niðurstaðan var sú að Þórunn Antonía komst ekki áfram en okkur kæmi sannarlega ekki á óvart ef þetta verður valið sem Wildcard – hver vill ekki sjá þetta á stóra sviðinu í Laugardalshöll?

Tómas og Sólborg fylgdu fast á hæla glimmeratriðisins með lágstemmda lagið sitt. Kameruvinnan fókuseraði á nærmyndir og minnti um margt á vinsæl lög í Júróvisjón undanfarið (enda engin ástæða til að breyta því sem er gott!). Stress var svolítið áberandi hjá þeim og hafði áhrif á röddunina sem virkaði dálítið fölsk, sérstaklega í sjónvarpinu. Við höfðum heyrt um wardrope malfunction í þessu atriði fyrr um daginn en heildarmynd flytjendanna var þó mjög flott og heilsteypt. Því miður náðu þau samt ekki í gegn.

Ari var þriðji á svið og sjálfsöryggið skein af honum og hann brosti allan tímann. Bakraddirnar ,,léku“ undir á hljóðfæri og það virkaði mjög vel. Ari negldi þvílíkt erfiða háa tóninn og það að hann var í recappinu hefur mikið hjálpað til. Það kom okkur sannarlega ekki á óvart að hann hafi flogið í gegn, stóð sig eins og hetja!

Heimilistónar rúlluðu því upp að koma inn fjórðu á svið. Litasprengjurnar stóðu við sitt og fágunin og fagmennskan skein af þeim! Bakraddirnar ýttu undir skemmtilegheitin í laginu með framkomu sinni og sólói á munnhörpu-bindið. Það var enginn vafi eftir flutninginn að þær væru að koma fram í Laugardalshöll en þær voru lesnar síðastar upp og því verður gaman að sjá hvernig atkvæðin skiptust („lesin upp í engri sérstakri röð“ er alltaf doldið útpælt, sama hvað hver segir, að okkar mati).

Næst síðust á svið var Fókus hópurinn. Lagið fluttu þau af fullum krafti og salurinn fagnaði ákaft. Þau voru greinlega vel æfð og tókst að sviðsetja lagið án þess að búa til kaos fimm einsöngvara. Þrátt fyrir að fatnaður  þeirra væri ekki beinlínis í samræmdur og staðsetningar á sviðinu á stöku stað örlítið off kom það ekki að sök enda skein orka þeirra og gleði í gegn og það telur. Það kom því ekki á óvart að þau yrðu lesin upp fyrst enda áhorfendur hrifnir af þeim.

Guðmundur Þórarins lokaði svo kvöldinu með lagi sínu og fékk dansara sér til fulltingis. Hann var örlítið stirður í hreyfingum og greinilega ekki mikið búinn að æfa. Þrátt fyrir bakraddastuðning var flutningur hans ekki alveg nógu sterkur og nokkrir óhreinir tónar áberandi. Hann var samt sjarmerandi og virkaði einlægur og þau bæði. Með ögn meiri slípun hefði hann mögulega neglt þetta betur, pínu synd.

„Hjartað slær í saumaklúbbum landsins“: Heimilistónar í viðtali

Það er rigningarlegt í Vesturbænum þegar dyrunum er lokið upp fyrir okkur af Elvu Ósk Ólafsdóttur leikkonu á sunnudagseftirmiðdegi. Á móti okkur tekur kökuilmur og glaðlegur hópur kvenna, nefnilega Heimilistónar. Hljómsveitina skipa þær Elva Ósk, Vigdís Gunnarsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Við fáum okkur sæti við borðstofuborðið sem svignar af kræsingum, þ.á m. nýbökuðu kryddbrauði sem ilmaði svona dásamlega. Við erum komnar til að spjalla við þær stöllur um sveitina og þátttöku þeirra í Söngvakeppninni.

Við byrjum á því að spyrja hvað varð til þess að þær ákváðu að senda lagið Kúst og fæjó í Söngvakeppnina og Ólafía Hrönn svarar: „Þetta kom fyrst upp fyrir mörgum árum. Þá sendum við inn lag sem við tókum upp hjá Barða í BangGang. Það komst þó ekki áfram. Þetta hefur þó alltaf blundað í mér sérstaklega. Við hittum svo Maríu Hebu leikkonu í garðveislu hjá Kötlu á 17. júní og hún kom óðamála til okkar og sagði: „Stelpur, núna er tíminn, ég bara veit það!“ … og ég var bara á sama stað og hún og það ýtti á mig að keyra þetta í gang. Ég hef sent nokkrum sinnum inn lag sjálf en ekki komist áfram fyrr en nú.“

AUJ: Hvað er það við Söngvakeppnina sem fékk ykkur til að senda inn lag?
Ólafía Hrönn: „Þetta er bara skemmtilegt en ég er ekki með neinar framavonir,“ segir hún og hlær. Ég fór á Júróvisjón í Vín um árið og mér fannst þetta svo fallegt, bara eins og friðarsamkoma.. Allir höfðu svo æðislega gaman af því að klappa niður 10, 9, 8 áður en keppnin byrjaði og voru svo rólegir, slakir og bara í stuði. Þetta er svo ótrúlega saklaust og mér finnst svo dásamlegt að vera bara í gleðinni og pæla ekki í nokkru öðru.“

AUJ: Hafið þið verið í einhverri sérstakri kynningarstarfsemi fyrir Söngvakeppnina?Myndband_heimilstonar

Ólafía Hrönn: „Við gerum þetta bara eins og strákarnir, gerum myndband og erum með markaðsmanneskju. Það er líka búið að dreifa myndbandinu alveg ville væk.“

Katla: „Við höfum tekið eftir að fólk er að uppgötva okkur sem er svo gaman. En við erum líka með alveg svakalega flottan stuðningshóp með okkur, alveg Rock Solid hópur sem hefur áhuga á Heimilistónum og kemur ár eftir ár á böll hjá okkur.“

AUJ: Hvernig hefur ykkur verið tekið? Halda kannski einhverjir að þið séuð að grínast?

Katla: „Svona bæði og. Við sjáum meira af einlægum viðbrögðum og trú á því að við séum að gera þetta frá hjartanu, sem við erum að sjálfsögðu að gera. En auðvitað tekur maður eftir þessum athugasemdum þar sem fólk heldur að þetta sé skets eða grín.“

Ólafía Hrönn: „Ég veit ekki alveg hvað það er. Fólk er meira að leita eftir staðfestingu á því hvort þetta sé grín eða ekki. Það er ekki alveg með það á hreinu.“

Katla: „Já, ég hef líka fengið spurninguna um hvort við séum við sjálfar eða að leika einhverjar týpur. Það staðfestist þá hér með að við erum bara við sjálfar.“

Ólafía Hrönn: „Já, við sjálfar algjörlega, en puntaðar á gamaldags hátt. Af því okkur finnst það fallegt og gaman.“

Vigdís: „Við höfum lent í alls konar viðbrögðum í gegnum árin og það er svolítið viðhorfið meðal ákveðinna hópa að konur eigi ekki að vera í spilamennsku. Þess vegna hljóti þetta að vera djók. Drukknir karlar hafa til dæmis verið með frammíköll á böllum hjá okkur um að við eigum ekkert heima þarna uppi á sviði í kjólum að spila á trommur og bassa.“

Katla tekur hlæjandi undir þetta og rifjar upp að einn hafi kallað: „Fariði heim, gömlu konur.“

Ólafía Hrönn tekur undir og bætir við að á þessum stundum sé það staðfest að sumir hugsi á þennan hátt: „Ég var að segja Röggu Gísla þetta og hún rifjaði upp að þegar hún var að byrja í Grýlunum stóðu karlar við sviðið og vissu ekkert hvernig þeir áttu að haga sér af því þeir gátu ekki staðsett þær. Og þeir kölluðu bara: „Af hverju ertu svona ljót? Af hverju ertu með svona ljótt hár?“ Þeir vissu bara ekki hvernig þeir áttu að fara inn í þetta mengi og þess vegna gerðu þeir það á svona asnalegan hátt.“

Katla: „Ég get í framhaldi af þessu alveg sagt fyrir hönd okkar allra að sama hvað gerist þá mun enginn taka af okkur gleðina – þetta er bara gaman í gegn.“

Ólafía Hrönn: „Svo er eitt. Við hérna fjórar miðaldra konur. Við erum rosalega góð fyrirmynd fyrir börnin okkar. Að sýna þeim að það sé alveg eðlilegt að fjórar miðaldra konur í kjólum spili í hljómsveit. Þetta valdeflir þau og gefur þeim skilaboð um að það sé gott að fylgja áhugamálum sínum sama á hvaða aldri maður er. Það er svo mikilvægt að koma með mótvægi við þessi stöðugu skilaboð úr auglýsingum um að útlit eigi að vera á einhvern einn ákveðinn hátt og að allir eigi að vera ungir, alltaf.“

2015-05-10 00.08.41

Lagið og sviðsetning
AUJ: Fólk sem þekkir ykkur og böllin ykkar, má það búast við 3 mínútna Heimilistónaballi á sviðinu þann 10. febrúar?  

Elva: „Við náum því miður ekki að skipta um hljóðfæri á milli laga, eins og er aðalsmerki okkar á tónleikunum.“

Vigdís: „Þetta verður fáguð framkoma í fallegum kjólum. Við verðum vel til hafðar, gerum okkar besta og höfum gaman að. Það er ekkert lag eins og okkar og í sjálfu sér erum við ekki að keppa við neinn sem er með svipað lag.“

Katla og Ólafía Hrönn: „Útsetningin á laginu setur dálítið fútt í það. Vignir Snær útsetur með okkur og mér finnst hann eiga ansi mikið í laginu. Svo fengum við konu til að spila á saxófón, Rósu Guðrúnu. Það er rosa flott hjá henni á baritónsaxann og með Jónasi og ritvélum framtíðarinnar.“

Elva: „Svo erum við með tvo voða sæta stráka í bakröddum.“

Katla: „Já, snillingarnir Sigurður Þór Óskarsson og Oddur Júlíusson. Þeir verða á palli fyrir aftan bandið og kannski taka þeir smá dansspor í sólóinu. Þeir hafa náttúrlega verið gógó-dansarar hjá okkur á böllum.“

Ólafía Hrönn: „Þeir eru algjörlega eins og við viljum hafa bakraddirnar, svo bjartir og fallegir og góðir drengir. Það er mikið atriði.“

Katla: „Já, það er hrein orka í þeim og svo eru þeir svo miklir vinir okkar.“

AUJ: En ef þið þið komist áfram, skiptið þið þá um hljóðfæri?

Vigdís: „Það er aldrei að vita. Við skiptum allavega um kjóla, eins og við gerum alltaf!“

AUJ: Það er nú svolítið Júróvisjon að skipta um dress.

Vigdís: „Já, algjörlega. Við erum Júróvisjón, þú sagðir það einhvern tímann, Lolla, og það er rétt – það er samasemmerki á milli Heimilistóna og Júróvisjón.“

AUJ: Hvað getið þið sagt okkur um lagið ykkar?
Elva: „Lagið er eiginlega tvö lög sem við höfum verið að æfa í bútum. Textinn varð eiginlega til á heimleið eftir æfingu.“

Ólafía Hrönn: „Ein okkar fékk þessa hugmynd: Eigum við að setja þennan bút saman við þennan? Og það var alveg bingó. Gerðist mjög hratt, eiginlega bara á 7 mínútum.“

Vigdís: „Þannig gerast hlutirnir stundum og þetta gekk svo vel upp. Lagið var í rauninni löngu tilbúið en svo þurfti að ná í þessa búta og sauma þá saman. Svona bútasaumur.“

Katla: „Textinn hentar okkar konsepti vel, skilaboðin um vinskap kvenna þar sem alls konar gerist og við erum breyskar og skemmtilegar og svo framvegis.“

Vígdís: „Textinn varð til undir norðurljósum, í alvöru.“

Elva: „Þetta er fallegt.“

Ólafía Hrönn: „Hver og ein kom með sína línu.“

Vigdís: „Við saumuðum þetta allar saman. Og það er svolítið Heimilistónar; þessi orka.“

Ólafía Hrönn: „Því að við erum sósíalistar.“

Vigdís: „Já, við erum jafnaðarmanneskjur.“

Katla: „Þetta er svo mikið samspil, við erum alltaf að gera þetta saman og erum ekkert eigingjarnar á neitt.“

Ólafía Hrönn: „Og engin er aðal, sem mér finnst svo fallegt.“

Elva: „Einmitt, til dæmis getur Katla komið með hugmynd að bassalínu þó að hún sé á hljómborði og ég bent á að það vanti trommur á ákveðnum stað þótt ég sé á bassanum. Svona vinnum við þetta allar saman.“

Vigdís: „Við höfum heyrt að það sé mjög gaman að vera fluga á vegg á æfingum og í upptökum.“

Ólafía Hrönn: „Svo æfum við hver á sitt hljóðfæri en þegar það kemur að ballinu er maður ekkert með á hreinu á hvaða hljóðfæri maður spilar. Ég hef nokkrum sinnum lent í því að ég er kannski komin á hljómborðið en á að vera á gítar. Svo heyrist stundum: ,,Muniði á hvaða hljóðfæri ég var í þessu lagi?” Það er ferlega sætt.“

Katla: „Maður byrjar kannski að spila og hugsar svo: „Vá, af hverju er ég svona léleg?” og þá fattar maður að maður á að vera á allt öðru hljóðfæri,” segir Katla og hlær.

Heimilstonar

AUJ: Er textinn sannur?
Vigdís: „Algjörlega. Hann er allur sannur, alveg sami bútasaumurinn og lagið. Saumó og konur. Ég held að allar konur geti speglað sig í honum.“

Ólafía Hrönn: „Vitiði hvað eru margir saumaklúbbar á landinu? Ég var einu sinni veislustjóri í veislu hjá saumaklúbbsfélagi Íslands. Það fyllti heilt íþróttahús. Það eru allar konur á Íslandi í saumaklúbb.“  Þetta er svona underground-starfsemi segi ég.

Vigdís: „Við höfum allar heyrt þessar sögur sem eru í textanum, oft af því við erum í mörgum saumaklúbbum og heyrum sögur á milli þeirra. Nöfnin í textanum eru þó bara fengin út í loftið því þau rímuðu.“

Ólafía Hrönn: „Þau eru bara fengin út í loftið, svo að það sé á hreinu. Það er til dæmis Ása í mínum saumaklúbb og hún er alls ekki að góna á ryk. Algjör tilviljun!“

Elva: Við tengjum við saumaklúbba landsins og hjörtu okkar slá þar.

Saga Heimilistóna
Við snúum þá talinu að öðru og langaði að heyra um upphaf sveitarinnar og hvernig samstarfið hefur þróast en Heimilistónar hafa verið starfandi í 21 ár, með nokkrum mannabreytingum þó. Í upphafi var Halldóra Björnsdóttir starfandi með bandinu og Ragnhildur Gísladóttir hefur verið Heimilistónn auk annarra sem hafa stoppað stutt við og aðstoðað á giggum.

Hvernig urðu Heimilistónar til? Af hverju þessi tónlist?
Vigdís: „Okkur langaði bara að spila saman og það var svona frumástæðan fyrir stofnun bandsins. Hugmyndin að bandinu fæddist þegar við vorum í Þreki og tárum.“

Katla: „Eins og Elva sagði í viðtali um daginn, þá eru þetta lög mæðra okkar.“

Elva: „Já, þetta er svolítið tilfinningin þegar maður kemur heim úr skólanum og maður heyrir gutlið í vaskinum og lögin sem voru í útvarpinu þegar við vorum litlar.“

Vigdís: „Í Þreki og tárum voru þessi lög áberandi, það var þessi tími og Edda Heiðrún var í hlutverki söngkonu. Þá fæddist þessi hugmynd: Af hverju stofnum við ekki kvennaband? Svo lærði Elva á bassa. Okkur fannst það vanta. Og af hverju ekki að dubba sig upp og taka þetta alla leið? Okkar sérstaða hefur verið að gera svona cover, en við erum samt ekki beint cover-band, því að við höfum tekið ensku textana og gert þá að okkar, snúið þeim beint yfir á íslensku.“

Screen Shot 2018-02-08 at 20.47.08

Elva: „Við sömdum tónlist fyrstu árin, en það var allt svo þunglyndislegt.“

Þær hlæja allar þegar Ólafía Hrönn segist semja mjög þunglyndislega tónlist: Það passaði ekkert inn í Heimilistóna-konseptið,“ segir hún; „Við þurftum að feta okkur svolítið áfram. Það sem ég hafði fram að færa þá átti bara alls ekki heima með Heimilistónum á þeim árum, það var allt svo dapurlegt eitthvað! Ég hef samt talað fyrir því að við kæmum með okkar eigið efni. Ég var í kvennahljómsveit á yngri árum og samdi meira og minna allt fyrir hljómsveitina – og það var allt svona heavy. Ég er bara svoleiðis – er ekki maðurinn bara stundaglas? Jafnmikið báðum megin?“

Katla: „Ólafía er drifkrafturinn, hún getur fært fjöll – og okkur með.“

Ólafía Hrönn: „Takk fyrir það.“

Elva: „Ég man líka þegar við vorum að byrja, hvað það var rosalegur léttir og gleði þegar maður var í dramatískum hlutverkum að fá þetta mótvægi. Það var það sem maður þurfti til að komast út úr drunganum og gera eitthvað skemmtilegt með vinum sínum.“

AUJ: Hvernig hefur starfið þróast á þessu 21 ári sem hljómsveitin hefur lifað?
Ólafía Hrönn: „Ekki mjög hratt myndi ég segja.“ Þær hlæja allar.

Vigdís: „Eins og gefur auga leið höfum við verið svolítið fastar í þessum tíma, tímavélinni.“

Katla: „Við erum líka mjög fastar í vinnu, þegar maður er í leikhúsinu þá gerir maður ekki mikið annað. Við erum náttúrulega fjórar, vorum lengi fimm og það getur verið erfitt að stilla saman strengi og æfa, en áhuginn er mikill. Það er líka rosalega mikil vinna á bakvið hvert ball. Við rótum sjálfar, göngum frá sviðinu og flytjum græjurnar, sjáum um plögg og miðasölu. Við erum sem betur fer með góða maka, sem nenna að standa í þessu með okkur fáum fjölsklydurnar með í þetta.“

Vigdís: „Mottóið okkar hefur líka alltaf verið að fjölskyldan gangi fyrir þannig að ambisjónin hefur verið meira að gera þetta okkur til gamans. Að hittast, spila og vera saman. Að spila opinberlega hefur aldrei verið kvöð.“

AUJ: Þau hljóta þá að vera mörg eftirminnileg giggin í gegnum árin?
Vigdís: „Við eigum svo sannarlega. Við höfum spilað mjög víða, til dæmis í sundlaug og bát og svo auðvitað í Ameríku.“

Ólafía Hrönn: „Já, það er nú frægt þegar við spiluðum í sundlauginni. Við vorum að spila í innilauginni fyrir einhverja norræna ráðstefnu og svo var öllum allt í einu hleypt inn í einu…“

Elva: „í gegnum svona lítið op…“

Ólafía Hrönn: „Þannig að vatnið í sundlauginni flæddi bara eins og flóðbylgja á móti okkur og rafmagnssnúrurnar! Við stóðum bara og horfðum á fjöltengin…“

Vigdís: „… og forðuðum okkur bara!“

Elva: „En við vorum á sundfötum!“Screen Shot 2018-02-08 at 20.50.14

Vigdís: „Já og með sundhettur. En hugsunin sem kom var bara: ,,Þetta er hræðilegt, ég gæti dáið.“

Ólafía Hrönn: „Það hefði verið hallærislegur dauðdagi.“ (hlær)

Vigdís: „En við hefðum samt tekið okkur vel út á sundfötunum.“ (allar hlæja)

Hlátrasköllin halda áfram þegar sögur af eftirminnilegum giggum eru rifjaðar upp.
Vigdís: „Svo man ég alltaf þegar við vorum fyrir norðan með skemmtiprógrömmin. Við ferðuðumst um salinn og dönsuðum írska riverdansa og eðlilega vorum við í brúðarkjólum! Allt í einu dettur Elva úr axlarlið og kallar: „Er læknir í salnum?“ Salurinn veinaði náttúrlega úr hlátri og hélt að þetta væri hluti af gríninu. En það vildi til, eins og alltaf, að það var læknir í salnum og við sungum bara áfram og hann kippir Elvu í lið á miðju sviðinu. Ég hló svo mikið að ég frussaði í míkrafóninn og fékk smá raflost.“

Ólafía Hrönn: „Hvað mynduð þið segja að væri besta giggið? Er það ekki bara í Eyjum? Á Þjóðhátíðinni?“

Katla:  „Ég myndi segja að það hafi verið á Akureyri á 17. júní þegar þú komst svífandi niður úr krana Lolla úr 50 metra hæð. Syngjandi og við vorum með gjörnin. Fengum topplausan fornbíl sem var keyrður hægt niður göngugötuna og fólkið allt í kring að hylla bandið, eða við upplifðum það þannig.“ (hlær)

Ólafía Hrönn: „ Við fundum mjög fyrir því þá að Akureyringar væru að fatta okkur.“

Katla: „Þetta var æðislega gaman.“

Vigdís: „Ógleymanlegt.“

Plata í pípunum
Undir lokin spyrjum við hvort satt sé sem heyrst hefur að þriðja platan sé á leiðinni. Elva er fljót til svars: „Jú, og með frumsömdu efni eingöngu.“

Vigdís: „Við eigum okkur draum um vinylplötu.“

Elva: „Við erum aðeins byrjaðar að taka upp eitt og eitt lag.“

Ólafía Hrönn: „Ég er ekki frá því að platan komi út í vor.“

AUJ: Verður Kúst og fæjó þá fyrsta lagið af plötunni?
Elva: „Væntanlega, titillagið kannski.“

Ólafía Hrönn: „Já kannski það, en það koma alltaf svo frábærar hugmyndir hjá okkur.“

AUJ: Hvernig er með aðra listsköpun, þið sem eruð leikkonur og að spila í hljómsveit?
Ólafía Hrönn: „Jú, ég er það. Ég hef áhuga á myndlist og er að mála. Og ég er líka í hannyrðum og myndi segja að ég sé textíllistamaður. Okkur langar að hafa eitt textíllistaverkið sem skraut ef við komumst áfram.“

Katla: „…þegar við komumst áfram!“

Við látum þetta verða lokaorðin enda nóg að gera hjá Heimilistónum. Með fulla maga af kryddbrauði skiljum kveðjum við stelpurnar þar sem þær funda um næstu skref í Söngvakeppnisundirbúningnum.

 

Yfirferð laga I: Söngvakeppnin 2018

songvakeppnin2018_1

Hin fyrri Söngvakeppnisvika er aldeilis runnin upp og ekkert hefur heyrst hér frá okkur… en örvæntið ekki! Það kann að vera að við séum önnum kafnar í lífinu um þessar mundir en við erum aldrei of uppteknar fyrir Söngvakeppnina og hér er okkar mat á lögunum sem keppa í ár á fyrra undankvöldi Söngvakeppninnar 10. febrúar, á laugardaginn kemur 🙂

Heim / Our Choice – Ari Ólafsson

EyrúnBjarta og fallega röddin hans Ara er klárlega stór þáttur í þessu lagi og hann fær að fara nær allan skalann. Að því sögðu finnst mér lagið byrja dálítið lágt fyrir hann, og það gæti orðið shaky ef taugarnar fara að segja til sín – nú eða tæknin að stríða. En Ari er nokkuð sjóaður miðað við ungan aldur og ætti að klára þetta með glans. Ég held að þetta lag gæti alveg farið áfram í aðalkeppnina, en samkeppnin væri kannski við Guðmund Þórarinsson sem er þó með annars konar lag.
Hildur: Hér kemur ekkert á óvart, lagið byrjar á rólegu nótunum en stækkar svo smám saman, góður millikafli kemur á hárréttum tíma, lagið nær svo hápunkti rétt áður en því lýkur aftur á rólegu nótunum. Ég er sökker fyrir svona formúlu og fíla því lagið mjög vel. Hef þó örlitlar áhyggjur af háu nótunum rétt eftir millikaflann, það er áhætta sem fylgir svona löguðu. Það mun því velta á dagsforminu hjá Ara hvernig fer því að mistök í frávikunum eru sjaldnast fyrirgefin. 

Aldrei gefast upp / Battleline – Fókus hópurinn: Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósa Björg Ómarsdóttir, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Karitas Harpa Davíðsdóttir og Eiríkur Þór Hafdal

Hildur: Hér er power-ið sko skrúfað í botn! Það kemur ekki á óvart með þessi fimm saman enda öll alveg súpersöngvarar.  Lagið greip mig ekki í fyrstu en verður bara betra með hverri hlustun. Held að gengi lagsins muni algjörlega velta á hvernig þau munu sviðsetja lagið enda erum við ekki vön að sjá svona stóra sönghópa í Söngvakeppninni. Hér verða þau að finna leiðina til að virka saman sem hópur fremur en fimm einstaklingar án þess að áhorfendur upplifi kaos á sviðinu. 
Eyrún: Alvöru powerballaða a la Júróvisjón og ég fíla hana í botn. Lagið er fínt og uppbyggingin hæfilega dramatísk, ég hlakka til að sjá hvað þau gera á sviðinu þegar dramatíkin er í hámarki – konfetti-fallbyssur? Ég veit ekki alveg hvort þau komast áfram en það ræðst eiginlega bara á sviðsframsetningunni.

Ég mun skína / Shine – Þórunn Antonía

Eyrún: Lag sem gerir afskaplega lítið fyrir mig og ég hoppa alltaf yfir… Eitthvað í textanum fer í taugarnar á mér – það gæti verið hluti af óþolinu. Held ekki að þetta sé að fara að gera neitt.
Hildur: Ég hef lengi beðið eftir Þórunni Antoníu í Söngvakeppnina. Verð þó að viðurkenna að ég varð fyrir smá vonbrigðum. Lagið er pínu óeftirminnilegt og í raun bara viðlagið sem hugsanlega nær smá flugi. Einhvern veginn passar enski textinn betur í versunum en íslenski textinn betur í viðlaginu sem gerir það að verkum að mér finnst eitthvað vanta upp á í báðum útgáfum. Ég hlakka hins vegar mikið til að sjá Þórunni á sviðinu, ég er svo viss um að það verði eitthvað! 

Litir/Colours – Guðmundur Þórarinsson

Eyrún: Guðmundur skipti um sess við Þóri og Gyðu sem verða í staðinn 17. febrúar. Hann flytur afskaplega afslappað og útvarpsvænt lag. Held að hann taki þetta alveg eins og bróðir hans forðum tíð og jafnvel blanda sér í einvígið.
Hildur: Nú viðurkennist bara að ég var búin að gleyma þessu lagi! Eins og Eyrún segir er lagið mjög útvarpsvænt en ég er ansi hrædd um að það sé eitt af þeim lögum sem virka betur í útvarpi en á sviði og spái því að það komist ekki áfram. 

Ég og þú / Think It Through – Tómas Helgi Wehmeier og Sólborg Guðbrandsdóttir

EyrúnVeit ekki alveg hvað mér finnst um þennan dúett, hljómar svo sem vel en fer algjörlega inn um annað eyrað og út um hitt. Held að þau komist ekki áfram.
HildurDúettar snúast um kemestríu á sviði eins og Rakel og Arnar sýndu og sönnuðu í fyrra. Þótt þetta lag sé ekki fyrirferðarmikið þá gæti það léttilega laumað sér í úrslitin, líklega þá öllum að óvörum! 

Kúst og fæjó – Heimilistónar: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Vigdís Gunnarsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir og Katla Margrét Þorgeirsdóttir.

Hildur: Elsku bestu Heimilistónarnir mínir, loksins komnar í Söngvakeppnina! Þetta er bara algjörlega uppáhaldslagið mitt í keppninni í ár. Lagið er einstaklega vel heppnað svo ekki sé talað um textann! Hvaða kona kannast ekki við eitthvað úr þessum texta?! Þeir sem hafa séð Heimilistóna spila live vita að sviðsetning verður ekkert slor. Þær fljúga áfram og verða í einvígi á úrslitakvöldinu.  
Eyrún: Ljósi punkturinn í skammdeginu undanfarið var fréttin um að Heimilistónar tækju þátt í Söngvakeppninni – ég hef farið með himinskautum síðan! Klárlega langsamlega besta lagið í keppninni, bæði lag, texti og flytjendur. ALLT við þetta atriði verður frábært og ég er sannfærð um að þær taki þetta. Þeir sem gefa lítið fyrir þetta lag hafa barasta ekki upplifað Heimilistóna live – það er ógleymanlegt!