Möguleikar í úrslitum: Aron Hannes

gd

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Aron Hannes og gullgrafararnir hans verða næstsíðastir á svið.

Kostir:

 • Mjög grípandi og gleðileg laglína í anda Bruno Mars.
 • Aron Hannes getur vel sjarmað áhorfendur uppúr skónum í gegnum myndavélarnar.
 • Þaulvanir flytjendur í vel smurðu atriði.

Gallar:

 • Frekar þreytt sviðsetning sem kom ekki nægilega vel út í sjónvarpi.
 • Aðeins of straumlínulagað og verksmiðjuframleitt fyrir stemminguna í ár.
 • Textinn eilítið óviðeigandi á árinu 2018.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Grípandi laglínan hefur allt til að bera til að fljúga beina leið í einvígið. Verði Aron Hannes aðeins hressari og skrúfar örlítið meira upp í sjarmanum en á undankvöldinu ýtir það enn meira undir möguleika lagsins. Það helsta sem getur dregið úr möguleikum Gold digger er tímaskekkjan í texta og sviðsetningu. 

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Það er nokkuð erfitt að segja fyrir um hvernig Evrópa muni taka svona vel smurðu poppi. Alla jafna er gengi svoleiðis smjörpopps gott en við höfum á tilfinningunni að Evrópubúar séu þyrstir í eitthvað aðeins öðruvísi í ár.

Möguleikar í úrslitum: Heimilistónar

kust

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Fjórðu á svið eru hinir frábæru Heimilistónar.

Kostir:

 • Gleðisprengjur frá upphafi til enda. Kv. the fangirls!
 • Flott lag og pínu retró fílingur sem slær í gegn hjá ungum sem öldnum.
 • Þær stöllur eru allar vanar sviðskonur og atriðið er mjög vel útfært, með æðisbakröddum.

Gallar:

 • Hætta á að fólk misskilji lagið sem grín – og afskrifi þar með þetta frábæra framlag.
 • Of mikið í gangi til að það skili sér í sjónvarpinu heim í stofu.
 • … okkur dettur ekki fleira í hug 🙂

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Þetta er dálítið allt-eða-ekkert-dæmi í Söngvakeppninni í ár; annaðhvort floppa Heimilistónar alveg eða þær skjóta sér beina leið í einvígið og við höllumst sannarlega að því síðara því að þær eiga engan sinn líka og eru eina kvenatriðið í ár – og eru þar að auki ekki að syngja um karlmenn. Það eitt ætti að skila þeim alla leið. Hafðu það, Bechdel-kvarði!  

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Ef Heimilistónar sigruðu í Söngvakeppninni, myndi landslagið fyrir framlag Íslands sannarlega vera öðruvísi en hin fyrri ár. Þær eru eitthvað allt öðruvísi og koma snilldarlega inn í framlagasúpu sem virðist fremur litlaus enn sem komið er. Þær verða okkar Spoonful of Sugar til að koma meðalinu niður!

Möguleikar í úrslitum: Ari Ólafsson

ariolafs

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook

Ari Ólafsson verður þriðja lag á svið og flytur lagið sitt á ensku, Our Choice.

Kostir:

 • Einlægt og ljúft lag í góðum flutningi Ara.
 • Fullkomin uppskrift af júróballöðu – Þórunn Erna kann’etta!
 • Ari heillar sannarlega í gegnum linsu myndavélarinnar og brosið verður á sínum stað.

Gallar:

 • Lag sem eðli málsins samkvæmt gæti týnst inn á milli Áttunnar og Heimilistóna…
 • Enska útgáfa textans er pínu litlaus – íslenski textinn safaríkari og blæbrigðaríkari.
 • Ekki beint galli en okkur fannst Ari ekki alveg taka sér nógu mikið pláss í undankeppninni, hann þarf að fá meiri fyllingu á sviðinu og eiga það meira (vonandi verður það komið á laugardaginn!)

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Möguleikarnir fannst okkur minnka helling þegar Ara var hagalega komið fyrir mitt á milli Áttubombunnar og Heimilistónasprengjanna. Hann er þó fyrsta lágstemmda lagið á svið, þrátt fyrir að vera þriðji á svið, og það gæti verið honum í hag. Annars eru þeir tveir, Ari og Dagur, sólóistar með kraftmiklar ballöður og við erum pínu hræddar um að þeir nappi atkvæðum hvor af öðrum – og þá gæti það verið Ara í óhag þar sem Dagur er síðastur á svið og fær þar með meiri vigt.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Eins og Thomas Lundin er búinn að gefa út, eru möguleikar Our Choice ótvíræðir þegar út er komið, hvað flutning og gæði lagsins snertir. Að því sögðu þá eru lágstemmdu lögin fjölmörg í ár (hæ Salvador!) og þar með gætu möguleikarnir á að komast í úrslitin minnkað aðeins. Heilt yfir erum við þó bjartsýnar ef Our Choice verður valið – þá förum við úr sólósöngkonunni sem hefur ekki virkað undanfarin þrjú ár 😉

Möguleikar í úrslitum: Áttan

attan

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Áttan stígur á svið önnur í röð laganna sex sem flutt verða á úrslitunum. Þau flytja lag sitt einnig á ensku, og útleggst það Here for you.

Kostir:

 • Current lag sem er er algjörlega í anda annarra vinsælla laga Áttunnar.
 • Stemming og stuð sem heillar ungu kynslóðina.
 • Útgeislunin af Agli og Sonju á sviðinu er nokkuð smitandi – þrusu bakraddir líka!

Gallar:

 • Live flutningur aðalsöngvara frekar brokkgengur – og við gerum ekki ráð fyrir autotune!
 • Lagið fremur flatt sem slíkt, ekkert ris eða annað sem brýtur það upp, af því leiðir að það verður þreytandi og mónótónískt.
 • Ef heildarframsetningin verður eins og í undankeppninni minnir hún ansi mikið á hæfileikakeppni í grunnskóla.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Áttan hefur vissulega eigin stíl og nánast eigið sólkerfi (fylgjendur þeirra á Facebook eru jafnmargir og allir íbúar Hafnarfjarðar, ca. 28.000 manns!) en þrátt fyrir það hljóta áhorfendur Söngvakeppninnar að velta því fyrir sér hvort flutningur eða vinsældir persónanna á sviðinu vegi þyngra til að velja framlag í Júróvisjón! Við viljum hafa trú á fólki sem heima situr – en Silvía Nótt er okkur flestum þó í fersku minni. Viljum samt minna á að hún var djók!

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Vinsældir að heiman skila sér sannarlega ekki út á stóra sviðið, þetta vitum við alveg – og vonandi áttar Áttan sig líka á því. Það verður því að byggja þessa skýjaborg á traustum grunni – lagi eða flutningi. Enough said!

Möguleikar í úrslitum: Fókus-hópurinn

fokus

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Fyrst á svið á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar eru krakkarnir í Fókus-hópnum með lagið Battleline.

Kostir:

 • Hressilegt lag sem auðvelt er að fá á heilann.
 • Allt hörku söngvarar sem hafa góða útgeislun og flytja lagið örugglega.
 • Enski textinn rennur nokkuð vel og passar við lagið.

Gallar:

 • Kameruvinnan og stíliseringin þarf að vera samræmd, sem getur verið pínu tricky í þessu atriði.
 • Erfitt gæti reynst fyrir áhorfandann heima í stofu að sympatisera við þau sem hóp, og hópurinn orðið flokkur af einsöngvurum.
 • „Fæ-fæ-fæ-fight“ er kannski ekki besta línan í þessum úrslitum 😉

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Þrátt fyrir að flokkur söngvara hafi nú ekki gert neinar gloríur hingað til í Söngvakeppninni verður lagið að teljast nokkuð sterkt og við sjáum alveg að það rati í einvígið. Líkurnar hljóta því að teljast vera með þeim – kannski bara erfitt fyrir þau að vera fyrst, og hress lög sem á eftir fylgja gætu skyggt á þau.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Þetta atriði sjáum við fyrir okkur að virki vel í Eurovision sjálfri, það eru jafnvel pínu schlager-element í því (sem er gott). Þau eru hress og flott, Fókus krakkarnir, og skemmtileg á að heyra – líka a cappella svo að þau yrðu sannarlega til sóma í meet&greet.

Eftir seinna undankvöld Söngvakeppninnar 2018

songvakeppnin2

Mynd: Söngvakeppnin á Facebook.

Nú hafa undanriðlarnir tveir fyrir úrslit Söngvakeppninnar 2018 farið fram og við sitjum eftir með 6 lög (engan Svarta-Pétur í ár) í úrslitunum. Hér ætlum við að rekja ofurlítið hvað fram fór í Háskólabíó á laugardaginn var:

Aron Hannes mætti galvaskur fyrstur á sviðið með tvo unga dansara og þrjár bakraddir sér til fulltingis. Í fyrstu atrennu þurfti hann þó að standa vaktina einn þar sem ekkert heyrðist í bakröddunum. En eftir að öll hin lögin voru flutt fengu þeir félagar að spreyta sig í annað sinn. Með honum í bakröddum voru m.a. Ásgeir Orri úr StopWaitGo og Pétur úr Bláum Ópal og F.U.N.K. og hressleikinn var sannarlega fyrir hendi. Nokkuð öruggt að þeir hafi komist áfram og salurinn tók vel undir.

Rakel Páls var önnur á svið og gaman að sjá örlítinn metnað í sviðssetningu og meira að segja smá gimmikk þegar hvítu tjöldin féllu. Flutningurinn hennar var gallalaus og lagið naut sín vel. Eina sem stakk okkur var hversu illa staðsett byrjunin á klippunni hennar var; byrjaði á löngum blast-tóni sem var alls ekki takt við heildaryfirbragð lagsins.

SLAY-stúlkurnar héldu uppi stuðinu og breyttu sviðinu í alvöru diskópartí. Bakraddasöngkonurnar voru ögn óöruggar en engan bilbug var að finna á Stefaníu sem sýndi og sannaði að hún er virkilega góð söngkona. Ekki spillti neitt fyrir stemmingu og stuði, enda DJ-búr úr diskókúlu og risadiskókúla á sviðinu að ógleymdum glimmersprengjum í lokin.

Þórir og Gyða komu flestum í salnum til að brosa (bambaramm!). Greinilegt var að framsetning á sviðinu átti að vera mjög afslöppuð, sófi, mottur og lampar á sviðinu en þetta varð pínu kaótískt fyrir vikið, enginn heildarstíll. Stress mátti aðeins sjá á flytjendunum og þetta varð pínu stíft en voða ljúft og rann vel.

Dagur Sigurðsson var næstsíðastur á svið með allt powerið í húsinu. Vopnaður veglegum bakröddum, skýja- og eldingagrafík stóð Dagur sig frábærlega og var eiginlega betri en í stúdíó-útgáfunni. Júlí Heiðar sló sneriltrommuna af list og heildarmyndin svakalega flott. Verðugt sæti á úrslitakvöldinu þar!

Áttan lokaði svo keppninni (að Aroni Hannesi undanskildum) og mikil spenna var í loftinu fyrir frammistöðu þeirra. Gaman var að sjá Aron Brink og Ásgeir Orra standa þétt við bakið á Agli í bakröddum. Ekki kom neitt sérlega á óvart að þau Egill og Sonja hafi verið fölsk en lífsgleðin skein af þeim og það virðist hafa skipt meginmáli í flutningnum – stemmingin í húsinu var gríðarleg eftir flutninginn. Með sterkt bakland virðast þeim engin sund lokuð og næst eru það úrslitin!

Yfirferð laga II: Söngvakeppnin 2018

songvakeppnin2018_2

Seinna undankvöldið í Söngvakeppninni í kvöld og því ekki seinna vænna en að kíkja á lögin sex sem keppa í kvöld:
Golddigger / Gold Digger – Aron Hannes

Hildur: Líklega er hér á ferðinni mest grípandi lag keppninnar í ár. Þegar ég hlustaði í gegnum öll lögin í fyrsta skipti var þetta annað tveggja laga sem ég mundi yfir höfuð eftir. Við sáum það í fyrra að Aron Hannes er næstum eins og fæddur fyrir svona keppni, hann er góður flytjandi, óhræddur á sviðinu og kann sannarlega að tala við myndavélarnar. Þó lagið sé ekki frumlegt þá er það vel unnið og útsett og því næsta víst að Aron flýgur beina leið í Laugardalshöllina.
Eyrún: Aron tekur annan túr í Söngvakeppninni í ár og lagið (eða element úr því) höfum við öll heyrt áður (halló Bruno Mars!) – það er oft góðs viti og hjálpar til upp á tengingar. Fjörið á pottþétt ekki eftir að vanta á sviðið. Eina sem mér finnst virkilega vont er textinn á íslensku, sá enski er strax betri og vonandi þarf ég ekki mikið að pirra mig á hinum íslenska því að enski verður jú fluttur í Laugardalshöll og Aron er nánast öruggur þangað.

Óskin mín / My wish – Rakel Pálsdóttir

Eyrún: Rakel er alveg dásamleg söngkona og er reynslumikil í Söngvakeppninni. Lagið er hugljúft og einfaldleikinn virkar oftast best. Ég held að hún sé örugg áfram í úrslitin og mjög verðugur fulltrúi þar!
Hildur: Yndilega hugljúft lag með svo ótrúlega fallega sögu á bak við sig. Rakel er góður flytjandi og mun án efa skila sínu 100% og ríflega það á sviðinu. Þrátt fyrir að lagið sé fallegt og hugljúft er það kannski helst til of lágstemmt til þess að eiga möguleika á að fara áfram í úrslit.

Svaka stuð / Heart Attack – Stefanía Svavarsdóttir, Agnes Marinósdóttir og Regína Lilja Magnúsdóttir

Hildur: Ég er ekki sérlegur diskó-aðdáandi og því miður er þetta ákúrat sú tegund af diskó lögum sem mér fara eiginlega bara í taugarnar á mér. Lagið er þó vel gert og stelpurnar, með Stefaníu í fararbroddi, munu án efa flytja lagið vel. Ég hef örlitlar áhyggjur af því að þetta sé eitt af þeim lögum sem erfitt er að sviðsetja en vona svo sannarlega að þeim hafi tekist að búa til skemmtilegt show fyrir sjónvarp!
Eyrún: Æ, þetta lag gæti orðið svo mun meira en það er, sem er meiri synd því að þær eru allar þrjár þrususöngkonur og Stefanía Svavars ein besta og fjölhæfasta söngkona af yngri kynslóðinni. En því miður held ég að þetta eigi ekki upp á pallborðið í ár.

Brosa / With You – Þórir Geir Guðmundsson og Gyða Margrét Kristjánsdóttir

Eyrún: Hugljúft og krúttlegt lag en ég veit ekki alveg með framhaldið því að það verður að virka líka á sviðinu, kemestría og jafnvel pínu gimmikk getur hjálpað mikið til.
Hildur: 
Líkt og í fyrra lagi þeirra Guðmundar og Fannars þá er svo mikil gúddífíling að kona fer ósjálfrátt að dilla sér. Hér er á ferðinni annar af tveimur dúetum kvöldsins og það mun mæða mikið á þeim Þóri og Gyðu að ná góðri kemestríu bæði sín á milli og  við áhorfendur. Ef vel tekst til eiga þau góða von á að komast áfram.

Í stormi / Saviours – Dagur Sigurðsson

Hildur: Það verður gaman að sjá Dag á Söngvakeppnissviðinu enda magnaður söngvari! Lagið hentar honum einkar vel og hann mun negla þetta. Júlí Heiðar hefur sviðsett lögin sín nokkuð skemmtilega. Mér finnst þó vanta eitthvað í það til að fullkomna það og tel því að gengi lagsins mun því velta  mikið á því hvernig það kemur út í sjónvarpinu.
Eyrún: Ég fílaði lagið alveg frá fyrstu hlustun og það á heilmikið erindi á sviðið. Ég hlakka mikið til að sjá það og powerið verður sko ekki sparað! Stundum er það jafnvel í það mesta og mætti alveg tóna aðeins niður. Ég er þó nokkuð viss um að Dagur flýgur áfram í úrslitin.

 Hér með þér / Here for you – Áttan – Sonja Valdin og Egill Ploder

Eyrún: Áttan er afskaplega vinsæl og uppskriftin að þessu lagi er eins og á flestum vinsælum lögum í dag, autotune og easy-listening ballaða með gríðarlegum endurtekningum. Ég er pínu hrædd við lifandi flutninginn hjá þeim, því að mér finnst þau hafa verið fremur brokkgeng live undanfarið en baklandið er sterkt og ég hugsa að fyrsta umslagið verði þeirra í kvöld.
Hildur:
 Ég er kannski bara orðin of gömul, en ég fatta þetta lag ekki. Finnst lagið hvorki fugl né fiskur og líða hreinlega áfram án þess að kona taki eftir því að verið sé að spila það. Það er lítið ris í laginu og viðlagið endurtekið aftur og aftur sem getur bæði virkað leiðigjarnt og eftirminnilegt og bara spurning hvoru megin lagið lendir! Áttan er gríðarlega vinsæl og þau eru síðust á svið svo að það er næsta víst að þau verða með í Laugardalshöllinni 3. mars.