Eftir Júróvisjón: 49 atriði sem komu á óvart á úrslitakvöldinu!

downloadNú er loks vertíðin á enda runnin þetta árið og við þökkum kærlega fyrir samfylgdina!

Áður en við skríðum inn í PED-ið og hlustum á Amar pelos Dois á repeat í fósturstellingu og allar lúppur af Epic Sax Guy sem internetið hefur að geyma, skulum við rifja upp allt það sem var skrítið og skemmtilegt á úrslitakvöldinu á laugardaginn var.

Við verðum að sjálfsögðu að taka fram 49 atriði – eitt fyrir hvert portúgalskt framlag fram til dagsins í dag! 🙂

 1. Hressleikinn í kynningum á lögunum setti punktinn yfir i-ið í stemmingarsköpun, hollensku 90’s-gellurnar áttu klárlega flottasta samhæfða múvið!
 2. Ísraelinn stóð sig því miður ekki sem best í úrslitunum – ótrúlegt samt að hann hafi náð 3. sæti í undankeppninni en endaði í 23. sæti í úrslitunum. Gæti röðin á svið (fyrstur) haft eitthvað þar að segja líka?
 3. Frammistaða Fransescos okkar, sem mestar væntingar hafa auðvitað verið um, var ekki beinlínis töfrum líkust en mjög góð og heildarpakkinn flottur – svona rétt eins og cannelloni með kotasælu, spínati og basilikku; pottþétt en ekkert stórkostlegt!
 4. Samt gott múv hjá honum að vera með regnbogarendur á jakkafötunum, kúdos!
 5. Pólsku brjóstin voru umtöluð eftir undankeppnina; annað hafði aumingja Kasia undir handleggnum á meðan hitt var á sínum stað. Kjóllinn var meira á sínum stað í aðalkeppninni. Húrra fyrir því!
 6. Aww, hvítrússneski kossinn í lok lagsins var einlægur og krúttlegur.
 7. Sá í lok rúmenska lagsins var meira eins og árás, úff!
 8. Mikið hlýtur að vera skemmtilegt að hanga svona í tunglinu hans Nathans Trent. Getur Páll Óskar ekki fengið það fyrir Gaypride-vagninn sinn? Nathan ætlar pottþétt ekki að nota það áfram…
 9. Ætli sviðshönnuður Armena sé enn að hlusta mikið á Ray of Light með Madonnu?
 10. Hollendingarnir hafa ætlað að teika sviðshönnunina frá elsku elsku Michal okkar frá Póllandi í fyrra – með letri fyrir lögblinda. Mögulega skipti það sköpum.
 11. Flosi okkar á 35. mínútu sló algjörlega í gegn – fékk tvít um sig og allt! Love!!
 12. Máttur internetsins svíkur ekki og Epic Sax Guy kom, sá og kom einu fátækasta ríki Evrópu í 3. sæti heilt yfir!
 13. Gullfossinn í danska laginu gerði það vissulega bærilegra en ekki gott samt.
 14. Sjokkið sem við fengum yfir tilkynningu Ísraela í beinni útsendingu í kosningunni! Þýðir þetta að við fáum aldrei fleiri gulldrengi? ALMÁTTUGUR!
 15. DiHaj aserska hlýtur að hafa náð myllu með þessum krossum sínum á bök bakraddasöngvaranna – við veltum því fyrir okkur hvað þeir eigi annars að þýða!?
 16. Króatinn ákvað greinilega að reyna einn síns liðs að toppa Il volo, með óperusöng á ítölsku – stælaði meira að segja hárgreiðsluna þeirra og YESSaði vel í lokin!
 17. Við héldum nánast allan tímann fyrir eyrun í ástralska laginu, því við óttuðumst að það kæmi annar skrækur eins og í undankeppninni. En Isahiah stóð sig mun betur á laugardag – og komst í 9. sæti.
 18. Ótrúlegt samt að lag geti komist í 9. sæti þegar hann fékk ekki nema 2 stig úr símakosningu…
 19. Hræðilegi skrækfalski tónninn kom svo í spænska laginu stuttu seinna – og við vorum engan veginn viðbúnar! Jæks! Ekki að furða að síðasta sætið varð þeirra…
 20. Noregur samplaði sig inn í 10. sætið – spurning hvort við sjáum miklar breytingar í raddnotkun á sviði strax í næstu keppni?
 21. Måns stóð sig að okkar mati mun betur í þessu 3 mínútna innslagi en hinir þrír allt showið… minnti okkur á hvað við söknum LoveLovePeacePeace!
 22. Á topp 10 enduðu þrjú af fjórum lögum sem sungin voru á frummálunum; portúgölsku, ítölsku og ungversku. Hvít-Rússarnir lentu svo í 17. sæti, með hvítrússneskuna í fyrsta sinn, sem er nokkuð gott!
 23. Lucie hin breska virðist ekki hafa áttað sig almennilega á close up-unum sínum því að tjáningargretturnar hennar voru þvílíkar að við vorum farnar að halda að hún væri að stæla Salvador.
 24. Hárgreiðsla þýsku stúlkunnar hefði aðeins mögulega getað orðið þýskari ef hún hefði verið með mullet! Hún var allavega mjög busy in the front en lítið party in the back!
 25. Georgíski sigurvegarinn í Junior Eurovision 2016 lét kynnana þrjá líta afar illa út! Þeir voru í 3 mánuði í enskukennslu fyrir keppni! Hún er 11 ára
 26. Ruslana blessunin hefur lítið skánað í enskunni sem heyrðist dálítið í annars skemmtilegu atriði í hléinu og er enn á fullu í víkingaþemanu, að minnsta kosti hringabrynjunni.
 27. Rasskynnabrandarinn hans Gísla Marteins fékk okkur til að skella upp úr! Tékkið á 2:41:00 🙂
 28. Eina dómnefnd þjóðar í úrslitunum sem ekki gaf Portúgal stig var hin búlgarska – keppnisskap much?
 29. En portúgalska dómnefndin gaf reyndar heldur ekki Ítalíu eða Búlgaríu nein stig.
 30. Eftir að dómnefndirnar höfðu lokið sér af og Portúgal var í forystu héldum við næstum að þetta væri komið og símakosningin myndi raða þessu allt öðruvísi.
 31. Ótrúlegt að Ítalinn hafi ekki fengið meira úr símakosningunni – við ímyndum okkur að Ítalía sé enn í sjokki en vonumst til að þetta verði ekki til þess að þeir hætti aftur að keppa!
 32. Portúgalar hafa náð ótrúlegum árangri á 20 árum: 0 stig árið 1997 og 758 stig og sigur árið 2017!
 33. Ótrúlegasta sætaskipanin hlýtur að vera Króatía í 13. sæti! Hvaða brandari var það sem við náðum ekki?
 34. Knús á Marcus and Martinus frá Noregi – krúttmonsur kvöldsins!
 35. Hins vegar minnti Björgvin Halldórsson okkur mest á Austin Powers með Portúgal-handahreyfingunni!Screen-Shot-2017-05-13-at-22.08.21
 36. Merkilegt þegar fagnað var nágrannastigum Spánar til Portúgals en búað yfir stigum Finnlands til Svíþjóðar!
 37. Hins vegar gáfu Portúgalir Spánverjum ekki eitt einasta stig.
 38. Aumingja Levina frá Þýskalandi felldi nokkur tár þegar næstsíðasta sætið varð staðreynd.
 39. Bretum gekk betur nú en oftast áður frá aldamótum og höfnuðu í 15. sæti.
 40. Þeir fengu þó engin dómnefndarstig frá Írlandi eða Möltu en gamla nýlendan Ástralía gaf Bretlandi fullt hús stiga!
 41. Douwe Bob frá Hollandi stal hugmyndinni frá Unnsteini Manúel frá í fyrra og mætti líka með hundinn til að tilkynna stigin!
 42. Auðvitað þekkjum við fótboltakenninguna um EM og hún átti við um laugardaginn: Árið 2004 vinnur Grikkland EM í fótbolta, ári síðar vinna Grikkir Júróvisjón. Í fyrra unnu Portúgalir EM og sigruðu svo í Júróvisjón í ár.
 43. Búgarir toppa sig frá því í fyrra þegar Poli okkar lenti í 4. sæti. Þýðir það ekki að þeir hljóta að vinna á næsta ári?
 44. Síðan tungumálin voru gefin frjáls virðist lag á frummáli einungis sigra á árum sem enda á 7 (það er 2007 og 2017). Ætli séu 10 ár í næsta lag á frummáli?
 45. Áhugavert að síðustu tvö ár hefur þjóð unnið ári eftir að þær tóku sér ársfrí: Úkraína í fríi 2015 og vann 2016, Portúgal í fríi 2016 og vinnur í ár!
 46. Dásemd kvöldsins var auðvitað þegar systkinin sungu saman, ó þvílík stund!
 47. Þau skiptust líka svo fallega á – mætti halda að þetta hafi verið æft, sem það hefur klárlega ekki verið!
 48. Skilaboð Salvadors: „We live in a world of disposable music, fast-food music without any content, and I think this could be a victory for music with people that make music that actually means something. Music is not fireworks, music is feeling, so let’s try to change this – and bring music back, which is really what matters.“
 49. Sérstakt að kynnarnir þyrftu endilega að taka fram hversu opið og nútímalegt land Úkraína væri – svona ef einhver skyldi vera að efast eftir kosningu kvöldsins…

 

Portúgal sigurvegari Júró 2017!

4a545333f5c089c287926abeb132f4e6

Nú er ljóst að Salvador Sobral hefur sigrað í Júróvisjón-keppninni 2017! Vúbbvúbb!

Portúgalir höfðu því erindi sem erfiði í 49. sinn sem þeir taka þátt í keppninni, en fyrsta framlag þeirra var Oração árið 1964. Því miður var frumraun þeirra ekki vel tekið og hafnaði António Calvário í síðasta sæti það árið:

Alls hafa verið fimm ár í Júróvisjón-sögunni sem Portúgal hefur ekki verið með: Árin 1970, 2000, 2002, 2013 og í fyrra 2016 – þvílík endurkoma í ár!

Besti árangur Portúgala í keppninni hingað til hefur verið 6. sætið en því náðu þeir árið 1996 með lagið O meu coração não tem cor þar sem hin heillandi Lúcia Moniz (sem við munum öll eftir úr Love Actually!) söng sig nánast inn í hjörtu Evrópubúa með fadó-stuðlagi. Hins vegar hefur Portúgal þrisvar lent í síðasta sæti; 1964, 1974 og 1997.

Frá upphafi hefur stefna Portúgala verið skýr; framlagið skal vera sungið á frummálinu. Í nokkur skipti (2003, 2005, 2006 og 2007) hefur ensku og jafnvel öðrum tungumálum verið blandað með í textanum en hin framlögin hafa verið á portúgölsku. Portúgal hefur jafnframt verið legið á hálsi að vera gamaldags og hallærislegt í gegnum tíðina, ekki viljað breyta út af vananum að syngja á eigin tungumáli og eigin söngvahefð, sem oftar en ekki miðaðist út frá fadó og öðrum tónlistarhefðum.

Jæja, ekki lengur – þetta hafðist hjá þeim! Og við gætum ekki verið ánægðari með það!

Spá AUJ fyrir úrslitin!

alltum2

Stóra stundin er að renna upp! Úrslitin í Júróvisjon ráðast í kvöld og við sjaldan verið spenntari að sjá hver vinnur! Eins og áður spáum við hverji verði í topp 10 í engri sérstakri röð.

ÍTALÍA
BÚLGARÍA
SVÍÞJÓÐ
PORTÚGAL
HOLLAND
MOLDÓVA
BELGÍA
ARMENÍA
ASERBAÍDSJAN
BRETLAND

Af þessum tíu þjóðum teljum við Ítali, Búlgara og Portúgali sigurstranglegasta.

"Júróvísurnar"

Eyrún Ellý Valsdóttir & Hildur Tryggvadóttir Flóvenz

Júró-Flosi spáir í kvöldið!

Flosi með vín í Vín

Júró-Flosi er í stuði á þessum dásemdar Júró-degi og spáir þessum löndum í topp 10 í engri sérstakri röð. 

Holland
Ítalía
Búlgaría
Svíþjóð
Armenía
Rúmenía
Portúgal
Moldóva
Ungverjaland
Belgía

,,Ég held að ef Ítalía hefur náð að sjarma dómnefndirnar í gær þá standi hann uppi sem sigurvegari. Þó held ég að það sé Jamölu móment framundan og sama lagið verði í 2. sæti hjá bæði dómnefnd og í símakosningu og muni því sigra. Gerist það gæti Ítalinn endaði í 3. sæti og þá líklega Portúgalar í 2. sæti. Ítalinn á þó alveg skilið að vinna. Þrátt fyrir að ég elski öll þessi þrjú lög sem munu slást um 1. sætið þá er Holland það lag sem hefur algjörlega stolið senunni fyrir mig. Og að lokum má ekki gleyma að spá í síðustu sætin en það verða að mínu mati Þýskaland, Spánn og Úkraína.“

alltum2

Sigurvegarar Júróvisjón – náum við alltaf að spotta þá?

alltum2

Við stöllurnar höfum verið að spá og spögulera í Júróvisjón hér á síðunni í rúm sjö ár og það er nú alltaf gaman að rifja upp það sem okkur hefur fundist standa upp úr á hverju ári.

Nú þegar við bíðum eftir stóru stundinni, er upplagt að skoða það sem við höfum sagt um sigurvegara fyrri ára í spánum okkar þar sem við tökum hvert lag fyrir. Þetta gerum við venjulega löngu fyrir keppni og oft höfum við aðeins lag í stúdíóútgáfu, jafnvel einhvern lifandi flutning, til að styðjast við – en ekki lokasviðsetninguna. Það er áhugavert að sjá hvernig maður spottar sigurvegarana á hverju ári. Okkur hefur ekki alltaf tekist það með glæsibrag… en við erum oft fjandi nálægt því!

Svo erum við sannarlega ekki alltaf sammála – og það er alltaf svo gaman! 🙂

Jamala – 1944 (2016)

Í fyrra vorum við meira á því að Rússinn hefði það á lokametrunum en vonuðumst eftir spennandi keppni – sem hún svo varð! Þetta höfðum við að segja um Jamölu:

Eyrún segir: Gæsahúð alla leið! Það er svo ótrúlega flott og marglaga, framlag Úkraínumanna í ár. Í fyrsta lagi er þetta stórgóður flutningur hjá hæfileikaríkri söngkonu sem er með svo fallegan Austur-Evróputón í röddinni. Lagið er mjög ethnískt en um leið heyrast poppaðir teknótaktar. Í öðru lagi tekst henni í laginu að segja sögu af þeim hræðilegu atburðum sem hentu hennar nánustu fjölskyldu þegar Tatarar voru fluttir frá Krímskaganum, fjölskyldum var sundrað og fólk drepið. Að ná að tjá allt slíkt í 3 mínútur á sviði í popptónlistarkeppni er afrek. Í þriðja lagi nær hún að dansa undurvel á barmi þess að vera pólitísk í garð yfirvalda í Rússlandi vegna núverandi ástands í Úkraínu. Eftir að Úkraína tók sér hlé í fyrra vegna ástandsins er sérstaklega sterkt að snúa aftur með framlag eins og þetta. Jamala náði mér við fyrstu hlustun og ég er sannfærð um að hún kemst áfram í úrslitin og vonandi kemst hún þar hátt á blað!

Hildur segir: Eyrún hefur sannarlega rétt fyrir sér að hér er á ferðinni marglaga lag þar sem að mikilli snilld er búið að setja mjög margt saman og koma mörgu á framfæri á 3 mínútum. En snilldin fellst í mínum huga bara í því. Lagið strípað finnst mér afskaplega leiðinlegt og þar að leiðandi er erfitt að hlusta og meðtaka allt það sem Jamala er að segja okkur og við þurfum svo sannarlega að heyra. En það er samt alveg á hreinu að hún flýgur í úrslitin og verður á topp 10 sem hún má sannarlega vera.

Måns Zelmerlöv – Heroes (2015)

Þegar Månsinn mætti vorum við heitar fyrir honum en ekki alveg sannfærðar því að Hildur hafði meiri trú á Belganum og Ísraelanum en Eyrún á þeirri rússnesku og Ítölunum. Þetta sögðum við um Måns:

Álit Eyrúnar: Ég féll sko alveg í stafi þegar ég heyrði þetta lag fyrst – fannst þetta lag hafa sama „wow-factor“ og Euphoria t.d. Síðan hef ég hlustað gegndarlaust á það (þið þekkið þetta!) og það hefur sýnt sig að mínu mati að þetta er ekki alveg eins skotheld tónsmíð og sigurlag Eurovision 2012, og ég er orðin pínu leið á Måns greyinu. Þetta er samt mjög fínt popplag og svona „anthem“-lag. Með grafíkinni sem þjónar svo afskaplega vel sjónræna hluta keppninnar kemur þetta til með að slá algjörlega í gegn!

Álit Hildar: Akúrat öfugt við Eyrúnu sá ég engan vá-faktor í Heros þegar ég sá og heyrði það fyrst. Reyndar gerði það ekki heldur þegar ég sá og heyrði Euphoriu fyrst en það er önnur saga! Lagið vinnur aðeins á (svona þegar maður kemst í gegnum þennan undarlega kántrí kafla í byrjun – hver ákvað þetta eiginlega?!) en eftir að myndband við lagið án grafíkurinnar á sviðinu var gert sést svo vel hvað lagið er slakt í stúdíóúgáfu. Þess vegna er nú alveg frábært fyrir Måns að júróvision er keppni í sjónvarpi þar sem sviðssetning vegur að minnsta kosti jafn mikið og lagið!

Conchita Wurst – Rise like a Phoenix (2014)

Árið sem Pollapönkararnir fóru vorum við helst á því að Rúmenía, Austurríki og Svíþjóð myndu eiga í toppslagnum, en þetta höfðum við að segja um Conchitu:

Eyrún segir: Alveg frá því að Conchita rétt missti af sigrinum 2012 í austurrísku söngvakeppninni hef ég dáðst að henni sem karakter og því sem hún stendur fyrir: Frelsi einstaklingsins til að vera nákvæmlega eins og hann/hún kýs án þess að þurfa að passa í ákveðin hólf samfélagsins! Lagið 2012 var ekki næstum eins gott og það sem hún komst svo alla leið með í ár (kannski sem betur fer) því að nú er hún mætt til að taka þetta með trompi. Ég vonavonavona að Evrópubúar geti horft fram hjá fordómum sínum (ef þeir eru til staðar) og valið út frá besta laginu, því að lagið hennar Conchitu og flutningurinn á sannarlega að skila henni áfram í úrslitin og í toppslaginn!

Hildur segir: Conchita Conchita, hún er bara svo ótrúlega frábær! Ekki nóg með að vera stórgóð söngkona, þá hefur hún frábæra útgeislun á sviðinu, er þrælskemmtileg í viðtölum og á blaðamannafundum og nýtur sín algjörlega í sviðsljósinu. Conchita býður okkur upp á stóra ballöðu í söngleikjastíl og ef hennar söngleikjalag er borið saman við belgíska framlagið sem líka hefur vott af söngleikjastíl verður ekki annað sagt en að Conchita vinni þann belgíska í öllu, rödd, framkomu, lagi og tilfinningum! Vona jafn mikið að Conchita komist áfram og ég vona að Pólverjar komist ekki áfram!

Emmelie de Forest – Only Teardrops (2013)

Árið 2013 vorum við báðar á keppninni og vorum framan af mjög vissar um að hin litla og smámælta Emmelie frá Danmörk myndi hreinlega rústa keppninni en eftir að við komum til Malmö dró úr þessari vissu okkar (eða við komnar með hið margfræga Makedóníuheilkenni). Svona spáðum við í Emmelie:

Hildur segir: Þetta var  fyrsta lagið sem ég heyrði í keppninni í ár fyrir utan það íslenska. Ég heillaðist gersamlega af því strax við fyrstu hlustun og þrátt fyrir að hafa ekki heyrt neitt annað lag í keppninni var ég handviss um að það myndi vinna. Núna þegar ég hef heyrt öll lögin mörgum sinnum er ég enn viss um að það muni vinna. Lagið er eiginlega einskonar blanda af Euphoriu og Wild Dances, sigurlaginu hennar Ruslönu frá 2004, en samt sem áður með sinn eigin hljóm, sem gerir það að verkjum að lagið gengur algjörlega upp. Emmelie hin konungborna (eða svo segir hún að minnsta kosti!) flytur lagið líka ljómandi vel og sviðsetning í undankeppninni í Danmörku var góð svo ég stend við það sem ég segi, þetta er mjög líklegur sigurvegari í ár.

Eyrún segir: Ég er örugglega ein fárra sem er ekki haldin dönsku bakteríunni í ár. Þrátt fyrir það er þetta frambærilegasta lag en stúlkan er heldur mikið að stæla sænsku Loreen frá því í fyrra, berfætt í síðri slá með slegið hár – notar reyndar engan snjó… Ég get alveg séð winner í þessu lagi eins og margir hafa spáð (þ.á m. allir veðbankar) en þetta er ekki besta lag keppninnar að mínu mati. Mér finnst þetta svoldið eins og Danir hafi farið yfir Öresundsbrúnna, náð sér í IKEA-hillu eða Volvo og ákveðið að merkja með danska fánanum í staðinn – eða lógói Illum!

Loreen – Euphoria (2012)

Þegar Júróvisjón var í Baku vorum við sannfærðar um að það yrði undankeppnisþjóð sem ynni keppnina og spáðum í því heilmikið. Þetta höfðum við að segja um Loreen:

Eyrún segir: Loreen kemur á eftir fimm fremur pasturslitlum söngkonum og býður upp á allt annað og meira – vekur fólkið sennilega af einhverjum doða. Lagið er mjög flott dans-teknó og sviðsetningin ógleymanleg, hreyfingarnar náttúrulegar og dálítið líkar jógastöðum stundum! Laginu er spáð sigri og það er nánast fullvíst að það verður efst upp úr undanriðlinum inn í aðalkeppnina. Ég þori ekki að fullyrða að það vinni því að mér eru örlög Eistlands og Ungverjalands frá því í fyrra í fersku minni (Ungverjalandi var t.d. spáð sigri í mörgum veðbönkum en hafnaði í 22. sæti í aðalkeppninni í fyrra!) en ofarlega verður hún Loreen og á það alveg skilið því að hún er hörkusöngkona! Hvort sem lagið vinnur eða ekki, er það komið til að vera í hugum og hjörtum Eurovision-aðdáenda sem eiga eftir að raula „Euphoooooooriiiaaaa“ langt fram á næsta vetur!

Hildur segir: Þetta er líklegasta hæpaðasta lagið í keppninni í ár og það er ekki að ástæðulausu. Lagið er hörku flott júrópopp, sérlega vel útsett og frábær flutningur. Sviðsetning er líka öðurvísi en maður á að venjast og það í sambland við ógleymanlegt viðlag er nánast fullvíst að þetta fljúgi áfram í úrslit og jafnvel alla leið á toppinn. Eyrún nefnir örlög Ungverjalands í fyrra en það sem ég tel vera megin munur á þessu lagi og framlagi Ungverja í fyrra er að sviðsetning gekk engan vegin upp hjá Ungverjum í fyrra og lagið kom illa út í sjónvarpið þó það sé snilld í stúdíó útsetningu. Um Loreen og Euphoriunnar hennar gildir hins vegar allt annað. Það er hannað fyrir svið og sjónvarp. Þrátt fyrir allt þá verð ég að segja að ég skildi þetta hæp bara alls ekki í fyrstu og fannst lagið hreinlega leiðinlegt við fyrstu hlustun og gat lengi vel ekki horft á Loreen því ég sá aldrei nein svipbrigði í andliti hennar. Það er hins vegar allt liðið hjá og í dag er þetta eitt af mínu uppáhalds júróvísjonlögum. Ef margir upplifa hins vegar það sama og ég  við fyrstu hlustun má Loreen passa sig.

Ell & Nikki – Running Scared (2011)

Árið 2011 vorum við ekki alveg með puttann á púlsinum og sáum alls ekki fyrir að sigurvegarinn kæmi úr austri. Þá töldum við líklegt að Bretland, Eistland eða Svíþjóð myndu berjast um vinningssætið. Þetta höfðum við að segja um Aserbaídsjan:

Eyrún segir: Azerum hefur ávallt gengið vel í keppninni og frá byrjun 2008 hafa þeir alltaf verið í topp 10. Í ár senda þeir dúóið Ell og Nikki eða Eldar og Nigar, sem samkvæmt textanum eru hlaupandi um allt í hræðslukasti. Hvað það kemur laginu við sem er melódramatískt popp veit ekki nokkur maður en viðlagið „I’m running and I’m scared tonight“ er endurtekið ca. 1700 sinnum og ætti að vera vel innprentað í heila þeirra sem heima sitja. Azerar léku sama leikinn með góðum árangri árið 2009 en þá lenti lagið Always í 2. sæti og línan „Always in my mind, always in my heart“ kirfilega fest í minni Evrópu. Ég er viss um að þú fórst að söngla lagið í huganum, lesandi góður! Azerbaídjan fer nokkuð örugglega áfram í úrslitin!

Hildur segir: ,,Af hverju að breyta því sem vel gengur?“ gæti verið mottó Azera í þessari keppni því að núna, í fjórða skipti sem þeir taka þátt, senda þeir lag eftir sömu höfunda í annað sinn og þetta er í þriðja sinn sem höfundar laganna hafa tengingu við Svíþjóð! Lagið er eins og önnur lög sem Azerar hafa sent algjört heilalím og ég hef haft það reglulega á heilanum. Eins og Eyrún bendir á þá er textinn undarlegur og þau hlaupa og hlaupa hrædd um í nóttinni og það er eini hluti textans sem festist í heilanum svo að heilinn á manni hleypur álíka mikið um og er eiginlega líka hræddur um að þetta lag fari aldrei úr hausnum á manni! Lagið er sænskur Volvo, traustur en ekki sigurvegari og Azerar munu því fljúga áfram í úrslitin og enda ofarlega þar en ekki vinna!

Lena – Satellite (2010)

Árið 2010 vorum við líka báðar staddar í Osló og duttum í fyrsta sinn inn í Júróbúbbluna. Þetta var það sem við höfðum að segja um Lenu:

Hildur segir: Fyrst þegar ég heyrði þetta lag gat ég ekki alveg keypt það og fannst það bara frekar leiðinlegt. Ég hef hins vegar algjörlega skipt um skoðun og finnst lagið alveg frábært! Það er bara eitthvað bæði við Lenu og lagið sem gerir það ómótstæðilegt og mikið eurovision á sama tíma og það er alls ekki eurovisionlegt. Lenu er spáð góðu gengi í veðbönkunum, er rétt á hæla hinnar azerbætjinsku Safuru í toppsætið. Ég hlakka mikið til að sjá Lenu á sviðinu og spái henni góðu gengi og jafnvel sigri í ár.

Eyrún segir: Uppáhaldslagið mitt í keppninni. Ég vissi strax og ég heyrði þýska lagið að nú væri Þýskaland að vakna úr Eurovision-dvala síðustu 28 ára! Frá því að þeir unnu með Ein Bisschen Frieden hafa þeir þó tvisvar lent í öðru sæti og einu sinni í því þriðja en síðari ár hafa verið mjög slök. Í ár héldu þeir undankeppnina Unser Star fur Oslo sem voru sjö undankvöld. Lena Meyer-Landrut sigraði og er alvöru stjarna í Þýskalandi fyrir vikið, aðeins 18 ára gömul. Lagið er mjög grípandi og líflegt og maður getur varla setið kyrr þegar maður hlustar á það! Ef hún stendur sig á sviðinu og flytur þetta almennilega þá munu Þjóðverjar bjóða til veislu að ári! Það er líka kominn tími á stórþjóð – og af þeim stóru fjórum er Þýskaland langlíklegast! Go Lena!

 

Gengi Íslands: Skipta kynningarviðburðirnir fyrir keppni máli?

Eftir að ljóst var að við Íslendingar sætum eftir þegar valið var inn í lokakeppnina 2017 á þriðjudagskvöldið, fóru eins og venjulega ýmsar raddir á kreik sem reyna að skýra út hvers vegna það gerist. Við vitum alveg að performansinn var af heimsklassa, atriðið var þaulskipulagt og lagið var grípandi (hlaut yfirgnæfandi kosningu hér heima og einnig meðal hinna alþjóðlegu dómnefnda sem tóku þátt í Söngvakeppninni). Það eru þó alltaf einhverjar skýringar sem spekingar hafa á takteinum.

Ein af þeim sem glymur um þessar mundir er að kynningin á íslenska framlaginu í ár hafi ekki verið nægileg. Svala tók ekki þátt í hinum fjölmörgu aðdáendaviðburðum sem áttu sér stað í ár; þeir stærstu eru tíundaðir hér fyrir neðan. Hennar kynningarstarf miðaðist að mestu við samfélagsmiðlana, eins og hjá svo mörgum.

Skoðum þetta aðeins.

Íslenskir keppendur í Júróvisjón hafa sumir hverjir tekið þátt í aðdáendatengdum kynningarviðburðum fyrir keppnina en það er mjög mismunandi milli ára. Hera Björk (2010) og Eyþór Ingi (2013) fóru ekki á sérstaka viðburði. Bæði komust þau þó áfram í úrslitin. Einnig má nefna að bæði María Ólafs og Greta Salóme tóku þátt í kynningarviðburðum; María í Rússlandi (2015) og Greta Salóme (2016) í London. Þær komust þó hvorugar áfram úr undanriðlunum.

Hvernig lítur þetta út fyrir aðra keppendur í ár? Eru fleiri í Svölu sporum; mættu ekki á þessa stærstu (og dýrustu) aðdáendakynningarviðburði og sátu svo eftir með sárt ennið eftir undankvöldin?

Stærstu viðburðirnir í ár voru í Amsterdam, Tel Aviv og London.

19484

Eurovision in Concert 2017 (Amsterdam 8. apríl): Kýpur, Holland, Ítalía, Ungverjaland, Aserbaídsjan, Svartfjallaland, Búlgaría, Ísrael, Albanía, Armenía, Makedónía, Serbía, Danmörk, Rúmenía, Sviss, Þýskaland, Hvíta-Rússland, Írland, Moldóva, Spánn, Noregur, Georgía, San Marínó, Pólland, Austurríki, Litháen, Finnland, Malta, Svíþjóð, Slóvenía, UK og Tékkland.

Af þeim 32 þjóðum sem tóku þátt í Amsterdam:

4 af stóru þjóðunum sem eru öruggar í úrslit.
12 þjóðir komust ekki áfram í úrslit.
16 þjóðir komust áfram í úrslit.

download

Eurovision party 2017 (London 2. apríl): Ítalía, Búlgaría, Svartfjallaland, Frakkland, Makedónía, Belgía, Rúmenía, Austurríki, Svíþjóð, Úkraína, Þýskaland, UK, Spánn, Slóvenía, Malta, Lettland, Danmörk og Finnland.

Af þeim 18 þjóðum sem tóku þátt í London:

Allar stóru þjóðirnar sem eru öruggar í úrslit sem og Úkraína
6 þjóðir komust ekki áfram í úrslit.
6 þjóðir komust áfram í úrslit.

Israel-calling-2017

Israel Calling 2017 (Tel Aviv 5. apríl): Ísrael, Frakkland, Armenía, Írland, Makedónía, Serbía, Svartfjallaland, Svíþjóð, Pólland, Rúmenía, Danmörk, Litháen, Lettland, Belgía, Austurríki, Spánn, Noregur, Þýskaland, Finnland, Hvíta-Rússland, Slóvenía, Georgía, Sviss, Moldóva, San Marínó, Búlgaría og Tékkland.

Hér verður að benda á að Svala sendi vidjóskilaboð til aðdáenda í Tel Aviv, auk hinnar grísku Demy og Ástralans Isaiah. Þetta er stjörnumerkt í neðstu töflunni hér fyrir neðan.

Af þeim 28 þjóðum sem tóku þátt í Tel Aviv:

3 af stóru þjóðunum sem eru öruggar í úrslit.
11 þjóðir komust ekki áfram í úrslit.
13 þjóðir komust áfram í úrslit.

Hér brjótum við þetta frekar niður:

Alls undankeppnaþjóðir sem tóku þátt í einum eða fleiri viðburðum  30 þjóðir
Þar af komust áfram 20 þjóðir
Þar af komust ekki áfram 14 þjóðir

Áhugavert að sjá að meiri líkur voru á því að þær þjóðir sem kepptu í undankeppnunum kæmust áfram en ekki ef þær tóku þátt í viðburðum, ef marka má töfluna sem er hér allra neðst.

Það voru alls sex þjóðir sem ekki tóku þátt í viðburðunum sem hér eru til skoðunar. Það voru Eistland, Ísland, Grikkland, Ástralía, Portúgal og Króatía. Af þeim sátu einungis Eistland og Ísland eftir sem höfðu ekki tekið þátt í neinum viðburðum.

Alls undankeppnaþjóðir sem tóku EKKI þátt í viðburðum 6 þjóðir
Þar af komust áfram 4 þjóðir
Þar af komust ekki áfram 2 þjóðir

Hvað segir þetta okkur? Nánast bara að það er enn mjög erfitt að segja til með hvort Svölu hefði gengið betur ef hún hefði tekið þátt í þessum kynningarviðburðum – kannski, en kannski ekki!

—-

LAND VIÐBURÐIR ÚRSLIT
Albanía 1 0
Armenía 2 X
Aserbaídsjan 1 X
Austurríki 3 X
Ástralía* 0 X
Belgía 2 X
Bretland 2 X
Búlgaría 3 X
Danmörk 3 X
Eistland 0 0
Finnland 3 0
Frakkland 3 X
Georgía 2 0
Grikkland* 0 X
Holland 1 X
Hvíta-Rússland 2 X
Írland 2 0
Ísland* 0 0
Ísrael 2 X
Ítalía 2 X
Lettland 2 0
Litháen 2 0
Króatía 0 X
Kýpur 1 X
Makedónía 3 0
Malta 2 0
Moldóva 2 X
Noregur 2 X
Pólland 2 X
Portúgal 0 X
Rúmenía 3 X
San Marínó 2 0
Serbía 2 0
Slóvenía 3 0
Spánn 3 X
Sviss 2 0
Svíþjóð 3 X
Svartfjallaland 3 0
Tékkland 2 0
Ungverjaland 1 X
Úkraína 1 X
Þýskaland 3 X

Myndtruflanir og loftbelgur á tunglinu!

Það var sannarlega fjör á sviðinu í gærkvöldi þegar seinni undanriðilinn fór í loftið. Það var ögn meira af proppsi á sviðinu á seinna kvöldinu en því fyrra auk þess sem við sáum 50 sekúndna langan gullfoss á sviðinu!

Kvöldið hófst á því að hin serbneska Tijana í síðkjól sem sýndi þó aðeins meira en vaninn er af síðkjólunum!

2953dcac8fc7b1621752de03326abe41

Í næsta atriði fór hinn austurríski Nathan með okkur til tunglsins þar sem hann krúttaði næstum yfir sig þar sem hann sveif um skýin meðan hann talaði við karlinn í tunglinu. Tunglið var ekki eina stóra proppsið því að hinn háraddaði Brendan frá Írlandi mætti með loftbelg á sviðið og Rúmenarnir mættu með tvær stórar glimmer-fallbyssur sem við biðum allan tímann eftir að myndu skjóta út tonni af konfetti!

69c8014758faf7f6ed9bde1d95380019

Það er ekki oft sem gulir kjólar birtast á Júróvisjon-sviðinu en það gerist í gær. Og þetta var sko enginn smá kjóll sem söngkonan í Timabelle skartaði og okkur fannst geðveikur!

3549bd0932712c715697b10ec40830df

Norðmennirnir mættu með margar brellur þetta árið. Þeir fengu leyfi til að nota samplaðar raddir á bandi og nýttu þann hluta lagsins í gimmik með myndum af Aleksander. Það var ekki það eina einnig var boðið upp á blikkandi grímur og truflanir á útsendingu!

Elsku Kristian frá Búlgaríu stóð einn á sviðinu en þvílíkt show sem hann bauð upp á! Eldingar og rigning í magnaðri grafík!

6c56c2c73f4f7054c022f1bf7efa265a

Það er svo ekki hægt að sleppa því að nefna Joci Pápi frá Ungverjalandi sem var svo hrærður á sviðinu að við gátum ekki annað en tárast yfir fallegum og einlægum flutningi hans. Verðskuldað að komast áfram!

818d54ec4084ce1d1cb44f91b957f973

 

 

Þessi komust áfram í 2. undanriðli!

Kvöldið í kvöld var spennandi og þau tíu lönd sem komust áfram voru:

Búlgaría, Hvíta-Rússland, Króatía, Ungverjaland, Danmörk, Ísrael, Rúmenía, Noregur, Holland og Austurríki!

Þetta þýðir að við vorum sammála um 8 af 10 sem komust áfram og Eyrún var með Hvíta-Rússland inni – við höfðum greinilega ekki nóga trú á Önju hinni dönsku en hún marði þetta, vel gert!

Spá AUJ um seinni undankeppnina!

alltum2

Lífið heldur áfram i Júró-landi og við erum búnar að liggja yfir því hvernig seinna undankvöldið er í kvöld.

Niðurstöður spánnar á þriðjudaginn voru 7/10 hjá okkur báðum, við vorum báðar með tvö lönd inni sem hin var ekki með. Hvorug okkar hafði þó trú á pólsku gellunni og tóga-bleyjunni, eins og Gísli Marteinn benti á.

Við erum óvenju sammála um hvernig þetta fer í kvöld en þessi níu lönd teljum við báðar að fari áfram:

BÚLGARÍA
NOREGUR
KRÓATÍA
UNGVERJALAND
RÚMENÍA
EISTLAND
ÍSRAEL
HOLLAND
AUSTURRÍKI

Þá spáir Eyrún HVÍTA-RÚSSLANDI áfram en Hildur spáir MÖLTU sem tíunda landi inn. Báðar teljum við SERBÍU vera á mörkunum að komast auk þess sem HVÍTA-RÚSSLAND er á mörkunum hjá Hildi.

 

"Júróvísurnar"

Dagbók Flosa: Júró-Flosi spáir í seinni undanriðli

Flosi með vín í Vín

Flosi heldur áfram að skemmta sér í Júrólandi og gerir ýmislegt fleira en bara að fylgjast með stóra sviðinu. Hér að neðan er spá hans fyrir kvöldið í kvöld:

Þá er maður búinn að jafna sig eftir þriðjudaginn og eins og Queen sagði „Show must go on“. Ég er ekkert smá stoltur af okkar framlagi og ekkert sem hún gat gert í þessu. Við skulum sleppa neikvæðisröddum og njóta restinnar af keppninni og þess sem hún hefur upp á að bjóða.

Í gær fór ég í stórskemmtilega ferð til Chernobyl með nokkrum Íslendingum. Þessi ferð er ein af þessum augnablikum sem maður gleymir aldrei. Ég læt nokkrar myndir fylgja því að það lýsir betur hversu orðlaus ég var í þessari ferð.

En það er komið að því:

Mín 10 lönd sem fara áfram:

Austurríki: Hann er búinn að sjarma alla upp úr skónum hérna í Kænugarði og atriðið er flott á sviði. Væri alveg til í að eiga kvöldstund undir tunglinu hans með glas af rósavíni og hann syngjandi til mín.

Rúmenía: Þetta hefur bara vaxið í áliti hjá mér eftir að ég kom út. Þetta er það fáránlegt að ég elska þetta svo mikið. Það gæti unnið kvöldið en verður pottþétt í topp 3 í kvöld.

Holland: Þetta er orðið mitt uppáhalds á þessu undankvöldi og er komið í topp 5 hjá mér. Þær eru búnar að negla hvert einasta rennsli og ég fæ gæsahúð í hvert sinn. Svarti hesturinn í kvöld.

Ungverjaland: Þetta er ekki lag sem ég held mikið upp á en hann er held ég að fara áfram því að það er öðruvísi. Ég fýla reyndar sígaunahlutann en svo fer hann alveg með það þegar hann rappar.

Danmörk: Ekki lag sem ég fíla en þetta er eini söngvarinn sem getur stöðvað Svölu frá því að vera besti söngvarinn í ár. Þvílíkt sem hún neglir lagið og hún á eftir að fljúga áfram.

Króatía: Þetta atriði er rosalegt og fer áfram á því hversu furðulegt það er því að hann er líka frábær söngvari.

Noregur: Flott lag og fer áfram. Mjög flott á sviði.

Búlgaría: Þetta er eina lagið sem getur stoppað Ítalann frá sigri að ég held og eins og er. Hann er bara 17 ára og er þvílíkt flottur.

Eistland: Mitt „guilty pleasure“ í ár. Þetta lag gæti dottið út en ég vona að það fari áfram.

Ísrael: Þegar maður horfir á hvaða lög komust áfram á þriðjudaginn þá fer þetta áfram þó að hann geti ekki sungið og atriðið ekkert spes. Þetta er hresst og skemmtilegt lag og hann endar „showið“.