Dagbók Flosa: Júró-Flosi spáir í Undankeppni 2

 

Flosi með vín í Vín

Þá er Júró-Flosi kominn aftur og ætlar að fara yfir lögin úr seinni undariðlinum. Hann lætur að vanda allt flakka og spurning hvort þið séuð sammála honum. Svo það sé tekið fram eru þetta skoðanir hans á lögunum áður en æfingar hefjast í Kænugarði og það er næsta víst að eitthvað breytist að þegar þær líta dagsins ljós!

Jæja elsku dúllurnar mínar ég á mjög erfitt með að finna 10 lög til að fylla upp í en það eru nokkur sem eru að vinna á. Eftir að hafa hlustað á öll lögin, tekið þau lög sem gripu þá og síðan tekið þau lög sem unnu á var samt erfitt að velja. Þá fór ég yfir í veðbankana og pólitíkina sem ég geri aldrei en var nauðsyn núna!  Hér eru helstu niðurstöður en ég fjalla nánar um hvert og eitt lag í videoinu.

Serbía: Flott nútíma popplag, vona að nakti strákurinn fylgi með.
Makedónía: Svolítið Robyn-legt lag og ég elska Robyn. Jana hefur hins vegar verið flöt í fyrirpartýjunum.
Rúmenía: Jóðl og rapp saman, þetta er Júróvision!
Holland: Ég elska fallegar raddútsetningar og þær eru geggjaðar live.
Írland: Sætur strákur og þetta var eitt af þeim lögum sem greip við fyrstu hlustun, en hann hefur verið slappur live.
Noregur: Slöpp undankeeppni í ár í Noregi en það skásta vann og þetta lag vinnur á.
Sviss: Ég get ekki hætt að syngja viðlagið þó að þetta sé búið að vera lengi í spilun, en þetta gæti líka endað í neðsta.
Búlgaría: Hér er þvílíkur hæfileiki drengur á ferðinni og lagið vinnur meira og meira á. Ég held að með geggjaðri sviðsframkomu þá gæti hann stolið þeim atkvæðum sem Rússar hefðu annars fengið og skilað honum í topp 5.
Eistland: Þetta er svona mitt guilty pleasure, 80’s popplag sem er með svaka húkk og minnir á danska lagið In a moment like this.
Ísrael: Þvílíkur kroppur og sjarmör, klárlega besta danslagið í ár en ekki eins gott og Golden boy.

Það eru tvö lög sem banka á dyrnar en það eru Austurríki og Grikkland. Þetta eru lög sem ég hlusta á mikið og vinna á, eins hafa þau verið að gera góða hluti í fyrirpartýjum.

En nú er bara að taka sig til og gera allt klárt fyrir ferðina. Hlakka mikið að deila með ykkur ferðinni og hvað gerist í heimi Júró-Flosa! Ekki gleyma heldur að fylgjast með á snappinu: eurovisionfreak.

Veðbankatjekk – 15 dagar í Júró!

pizap.com14909725607631

Biðin styttist alltaf og styttist og kominn tími til að skoða stöðuna í veðbönkunum enn á ný. Skyldi margt hafa breyst? Nú er ekki nema rétt um vika þar til fyrstu æfingar hefjast – og 15 dagar þar til fyrri undankeppnin fer fram (9. maí) – og þá fara hlutirnir að gerast!

Veðbanki Nr. 1 Nr. 2 Nr. 3 Nr. 4 Nr. 5
Oddschecker.com Ítalía Búlgaría Svíþjóð Portúgal Ástralía
Paddypower.com Ítalía Búlgaría Svíþjóð Portúgal Belgía
William Hill Ítalía Búlgaría Svíþjóð Belgía Portúgal
ESC stats.com Ítalía Belgía Frakkland Portúgal Eistland
Nicerodds.co.uk Ítalía Búlgaría Svíþjóð Portúgal Belgía
OGAE Big Poll Ítalía Belgía Svíþjóð Frakkland Eistland

Eins og við höfum líklega minnst á áður, eru OGAE Big Poll og ESC stats.com kannanasíður sem tengjast aðdáendum beint á/eru reknar af aðdáendum keppninnar meðan hinar eru opinberir veðbankar sem veðja á fleira en Júróvisjón. Á báðum stöðum eru Frakkar og Eistar inni á topp 5 en ekki í öðrum veðbönkum. Hvort það segi eitthvað meira um hina frönsku Ölmu eða Koit og Lauru er e.t.v. of snemmt að segja en þau eru þá klárlega frekar fan favorite – mögulega eru líkur Eista á að komast upp úr undanriðlinum meiri en minni, ef eitthvað er að marka þetta.

Áhugavert er einnig að sjá að Búlgarinn, sem margir hafa kallað svarta hestinn í ár, virðist ekki heilla aðdáendur eins mikið upp úr skónum og almennir veðbankar veðja á.

Við erum ánægðar að sjá að Portúgal er að færast ofar á lista veðbankanna og mjög sáttar fyrir hönd Salvadors! Isaiah hinn ástralski er líka að festa sig aðeins í sessi.

Því miður er ekki alveg nógu bjart yfir gengi Íslands í veðbönkunum og eins og staðan er í dag (24.4.) eru öll hin Norðurlöndin ofar okkur á lista.

Veðbanki Ísland
Oddschecker.com 25. sæti
Paddypower.com 26. sæti
William Hill 26. sæti
ESC stats.com 22. sæti
Nicerodds.co.uk 24. sæti
OGAE Big Poll 23. sæti

Eins og margoft hefur komið fram áður, breytist þó staðan yfirleitt þegar æfingar hefjast. Við treystum Svölu fullkomnlega til að kollvarpa öllum fyrirfram mótuðu hugmyndunum sem fólk hefur um íslenska framlagið – því þetta verður algerlega stórkostlegt á sviðinu 🙂

Yfirferð laga 2017: XV. hluti

pizap.com14909564396391Úkraína

Ukraina - O.Torvald

Mynd: viva.ua

Hvað: Time
Hver: O.Torvald
Á svið: Úrslit
Gengi 2016: 1. sæti í úrslitum

Saga Úkraínu í Júróvisjon er ekki sérlega löng í samhengi við ríflega 60 ára sögu keppninnar. Úkraína steig fyrst á svið árið 2003 og hefur síðan þá bara einu sinni sleppt því að vera með en það var árið 2015. Í heildina hefur því Úkraína tekið þátt 14 sinnum.

Á heildina lítið hefur gengi Úkraínu verið nokkuð gott. Fyrsta framlag þeirra, Hasta la vista, er leynilegt uppáhald Alls um Júróvisjon og endaði í 14. sæti. Ári síðar kom Ruslana, sá og sigraði með Wild Dances sem enginn Júró-aðdáandi gleymir. Síðan þá hefur Úkraína alltaf verið með í úrslitakeppninni. Lægsta sæti þeirra í úrslitum er 19. sæti en það var árið 2005 þegar keppnin var síðast haldin í Kænugarði. Þá lenti Úkraína í 15. sæti í Baku árið 2012 með lagið Be my guest og í 12. sæti í Moskvu árið 2009 með lagið Be my valentine. Öll hin árin hefur Úkraína verið í topp 10 og í raun sex sinnum í topp 5. Hvar Úkraína lendir í ár er óljóst en það verður að teljast ansi líklegt að keppnin verði að minnsta kosti ekki haldin aftur í Kænugarði að ári!

Eyrún segir: Alls ekki svo slæmt rokklag frá bandi sem hefur verið starfandi frá 2005. Ég verð að segja að ég hlusta ekki mikið á það og hoppa oft yfir það á playlistanum en þegar maður virkilega hlustar og pælir í textanum er þetta svakalega merkingarþrunginn texti: Time against the lies / Time will give us a sign / I can make a promise / It’s our time to shine. Pólitíkin skín svo sannarlega í gegn. Ég held að Úkraínumönnum eigi eftir að ganga fremur vel í úrslitakeppninni í ár þrátt fyrir að sigurinn verði nú líklega ekki þeirra.

Hildur segir: Einhverra hluta vegna var ég búin að ákveða að mér þætti lagið leiðinlegt áður en ég hlustaði á það í fyrsta skipti. Kannski er það vegna þess að síðast þegar Úkraína keppti á heimavelli í Júróvisjon þá var framlag þeirra svo slakt að flestir vilja líklega gleyma þeim þremur mínútum sem þeir urðu af við áhorf á lagið. Lagið í ár er eina rokklag keppninar og alveg ótrúlega hefðbundið iðnaðarrokk sem maður hefur heyrt 1000 sinnum áður. Það er kannski ekkert sérlega leiðinlegt en heldur ekkert sérlega skemmtilegt og lítið eftirminnilegt við það. Lagið hlusta ég því bara til að geta munað hvernig það er en ekki til að njóta. Svo finnst mér best að horfa ekki því að það truflar mig hvað söngvarinn minnir mig á Gillz.

 

Yfirferð laga 2017: XIV. hluti

pizap.com14909564396391Ítalía

Italia - Francesco Gabbani

Mynd: Francesco Gabbani – Facebook

Hvað: Occidentali’s Karma
Hver: Francesco Gabbani
Á svið: Úrslit
Gengi 2016: 16. sæti í úrslitum

Hildur segir: Það er nákvæmlega ekkert hægt að segja annað um þetta lag en þetta er algjör hittari sem mun vinna þessa keppni! Ég get hlustað endalaust á lagið og ekki skemmir húmorískur texti með áleitnum undirtóni. Fransecesco hefur líka þetta afslappaða en örugga yfirbragð sem einhvern veginn talar til mín auk þess sem það er ekkert skemmtilegra en að fá górillu á svið í Júró! Halló Ítalía 2018!

Eyrún segir: Já, það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast til að Ítalir sigri ekki í ár! Sem betur fer er þetta samt sjónvarpskeppni og við eigum enn eftir að sjá hvernig flest framlögin koma út á sviðinu í Kænugarði. Yfirburðir lags, texta, sjarmerandi flytjanda og margt fleira eru samt óumflýjanlegir og mjög hætt við því að árið í ár verði eins og þegar Loreen vann eða Alexander Rybak.  Mér finnst það alls ekki slæmt enda stórkostlegt lag í alla staði, en það er alltaf gaman þegar það er smá spenna í loftinu 🙂

Spánn

Spann - Manel Navarro

Mynd: los40.com

Hvað: Do it for your lover
Hver: Manel Navarro
Á svið: Úrslit
Gengi 2016: 22. sæti í úrslitum

Eyrún segir: Mjögmjögmjög þunnt lag, verður kjánalegt með viðlaginu og einhvern veginn verð ég alltaf pirruð á hversu smábarnaleg laglínan er – þetta gæti verið stef úr sjónvarpsþætti fyrir börn! (kannski fyrir utan textann…) Jújú, það verður örugglega hægt að syngja með en Makedóníuheilkennið er víðsfjarri hjá mér, þrátt fyrir að ég hafi hlustað svakalega mikið á framlögin í ár!

Hildur segir: Fyrst þegar ég heyrði lagið var ég nokkuð hrifin af því en eftir því sem maður hlustar oftar þá þreytist lagið mjög og verður frekar pirrandi bara. Ef ég hlusta ekki á það í nokkurn tíma hættir það yfirleitt að vera leiðinlegt en dettur þó alltaf aftur þangað. Ég er því búin að læra að hlusta ekki mikið á það. Viðlagið er verulega einfalt og eftirminnilegt og það gæti hjálpað Spánverjum að draga inn nokkur stig en ég er ansi hrædd um að Spánverjar verði einhvers staðar í kringum 20. sætið.

Bretland

bretland - Lucie Jones

Mynd: mirror.co.uk

Hvað: Never give up on you
Hver: Lucie Jones
Á svið: Úrslit
Gengi 2016: 24. sæti í úrslitum

Hildur segir: Ég get ekki fyrir mitt litla líf munað örðu úr þessu lagi milli þess sem ég hlusta. Þegar ég man svo eftir að hlusta þá man ég að lagið er eiginlega hvorki fugl né fiskur. Það er einhæft á langdregin hátt ólíkt belgíska framlaginu í ár. Auk þess að vera einhæft er það mjög lengi að byrja og liðið vel á aðra mínútu þegar eitthvað fer að gerast sem er reyndar ekki mjög mikið. Hvort sem Lucie neglir þetta á sviðinu eða ekki, þá spái ég Bretum ekki sérlega góðu gengi í ár.

Eyrún segir: Bretar veðja á ballöðu í ár og fá þrusu söngkonu sem er sviðsvön úr leikhússenunni í London. Ég held að henni eigi eftir að ganga vel í ár – lagið er m.a. samið af Emmelie de Forrest fyrrum Júrósigurvegara og hún er solid á sviðinu. Kannski er lagið ekki nægilega áhugavert en lengi má vona samt… kannski splæsa Bretar í grand sviðssetningu í ár!?

 

Yfirferð laga 2017: XIII. hluti

pizap.com14909564396391Holland

Holland - OG3NE

Mynd: televizier.nl

Hvað: Lights and shadows
Hver: OG3NE
Á svið: Seinni undanriðill
Gengi 2016: 11. sæti í úrslitum

Eyrún segir: Mér finnst þetta ágætlega grípandi melódía en get ekki fyrir mitt litla líf skilið orð af því sem þær segja, sem er synd því að þær systur syngja þetta sem óð til móður sinnar sem berst við krabbamein og lagið er samið af föður þeirra. Hljómurinn er virkilega fallegur en ég held samt að það verði ekki nóg til að koma þeim áfram í úrslitin.

Hildur segir: Það er einhvern veginn eins og eitt af trendum keppninnar í ár sé afturhvarf til 10. áratugarins. Við hlustun á mörgum lögum finnst mér ég greina áhrif þess áratugar í lögunum. Hvort það er gott eða slæmt skal ekki dæmt um ákkúrat hér en Hollendingar hafa heldur betur hoppað á þennan afturhvarfsvagn. Lagið gæti nefninlega allt eins verið B-hlið á Spice Girls-smáskífu frá árinu 1996. Lagið er B-hliðar lag því það er langt því frá að vera slæmt lag en það er heldur enginn hittari. Það gæti hins vegar auðveldlega orðið uppáhaldslag harðra aðdáenda OG3NE eins og B-hliðarlög eiga til að verða hjá helstu aðdáendum tónlistarfólks. Þar sem B-hliðar ná ekki endilega til fjöldans þá er ég hrædd um að þær systur sitji eftir með sárt ennið þann 11. maí.

Frakkland

Frakkland - alma

Mynd: twitter.com

Hvað: Requiem
Hver: Alma
Á svið: Úrslit
Gengi 2016: 6. sæti í úrslitum

Hildur segir: Ég spái því að þetta lag verði spilað á Euroclub og allir dansi! Kannski verður það spilað í einhverri remix-útgáfu því lagið er kannski ekki hefðbundið danslag. Viðlagið er hins vegar svo skemmtilegt að það er ábyggilega enginn sem getur setið kjurr undir því. Hvert gengi Ölmu verður finnst mér óljóst og velta mikið á sviðsetningu og hversu vel henni tekst að tala við áhorfendur heima í stofu.

Eyrún segir: Ég kann mjög vel að meta stefnuna sem Frakkar hafa verið að taka undanfarin ár í Eurovision og verð að segja að þeir eru klárlega uppáhalds stórþjóðin mín! Alveg frá Aminu, Sebastian Tellier og til Amírs í fyrra – þá gera þeir einhvern veginn bara það sem þeim sýnist (sem heppnast oft) en eru ekki að apa upp eftir neinum öðrum. Það er náttúrulega gífurlegur menningarlegur bræðingur í þessu stóra landi og einhvern veginn alltaf af nógu að taka. Alma fetar í örugg fótspor Amirs sem lenti því miður bara í 6. sæti (dæmi um hversu illa sviðsetningin getur farið með frábært lag). Eftir að laginu hennar var breytt (ensku bætt inní og viðlaginu breytt) fussuðu margir aðdáendur og sveiuðu en mér finnst það virkilega gott. Sammála Hildi um það að þetta verður spilað á Euroclub og í Júrópartíum víðsvegar!

Þýskaland

tyskaland - levina

Mynd: gettyimage.com

Hvað: Perfect life
Hver: Levina
Á svið: Úrslit
Gengi 2016: 26. sæti í úrslitum

Eyrún segir: Ég sá einhvers staðar vidjó þar sem líkindin milli þýska framlagsins og Titanium með Siu voru rædd og það er vissulega hægt að færa fyrir því einhver rök að þau séu lík. Mögulega gæti það verið Levinu í vil en ég held þó að þetta lag þurfi mega-gimmikk til að gera eitthvað í aðalkeppninni.

Hildur segir: Hvort Þjóðverjar lendi í síðasta sæti í þriðja skipti í röð í ár veltur kannski helst á því hvaða lög verða með í úrslitunum. Í stúdíó-útgáfunni er lagið heldur flatt og óspennandi en eftir að hafa horft á Levinu syngja live á sviðið skipti ég um skoðun því ekki bara að hún hafi ekki sungið feilnótu, þá er mun meira líf í rödd hennar heldur en kemur fram í stúdíó-útgáfunni. Lagið fór því úr því að vera heldur óspennandi og flatt yfir í að vera huggulegt til afhlustunar.

Dagbók Flosa: Júró-Flosi spáir í Undankeppni 1

Flosi með vín í VínÞá er Júró-Flosi farinn að gera sig kláran fyrir ferðina miklu til Kænugarðs og hvað er betra en að fara yfir þau lög sem hann heldur að fari áfram?

Hann ætlar að byrja á fyrri undanriðlinum og hann lætur allt flakka og spurning hvort þið séuð sammála honum. Taka má fram að þetta er hans skoðun áður en hann sér lögin á æfingum í Kænugarði.

Ég er sko farinn að telja niður þangað til að ég fer af stað í nýtt land, þökk sé Eurovision. Hver man ekki eftir því þegar keppnin var í Baku og því ævintýri sem því fylgdi? Ég er allaveganna búinn að læra það að ég ætla að fara með opinn hug og hlakka ekkert smá til. Á þessum nótum þá skulum við demba okkur í þetta.

Svíþjóð “Klobbalagið mitt og fer beint á top 5 hjá mér”.
Ástralía “ Fallegur strákur sem er með fallega ballöðu í þessu ballöðublóðbaði en sísta framlag Ástrala til þessa”.
Belgía “Þetta var það lag sem greip mig mest við fyrstu hlustun en hefur dalað eftir því sem ég hlusta meira og hún hefur ekki verið að standa sig vel í fyrirpartýjunum”. Svartfjallaland “Hommalagið mitt og mig langar í hárið hans”.
Aserbaídjan “Sænsk lög eru alltaf góð sama hvaðan þau koma á Júróvision”.
Portúgal “Þetta er æðislegt og fór beint á top 5 hjá mér, fær mig til að dansa og vera rómantískur”.
Moldavía “Zumbalagið í ár og fær mig til að dilla mér og syngja”.
Ísland “Svarti hesturinn í ár og mun fljúga áfram”.
Kýpur “Þetta var eitt af þeim lögum sem greip við fyrstu hlustun en fer svo sem ekki mikið lengra”.
Armenía “Minnir mig á Frozen með Madonnu og það er góðs viti, elska þjóðlega hljóminn í laginu”.

Þetta er klárlega erfiðari riðillinn í keppninni og örugglega margt eftir að breytast eftir að ég sé þau á æfingum en þetta er góð byrjun og ég hlakka til að segja ykkur hverjum ég held með í undanriðli tvö. 

Yfirferð laga 2017: XII. hluti

pizap.com14909564396391San Marínó

San Mariono - Valentina Monetta and Jimmie Wilson

Mynd: celebmix.com

Hvað: Spirit of the night
Hver: Valentina Monetta and Jimmie Wilson
Á svið: Seinni undanriðill
Gengi 2016: 12. sæti í fyrri undanriðli

Hildur segir: Hún er mætt eina ferðina enn hún Valentina og núna í dúett! Lagið er eins og önnur lög sem hún hefur flutt í keppninni, eftir sjálfan lagakónginn Ralph Siegel. Þetta árið býður Herr Siegel okkur upp á danspopp. Ég veit nú samt ekki hversu mikið hann hefur verið á dansstöðunum undanfarin ár enda lagið í engu samhengi við nútímann eða bara almennt þá sem finnst gaman að dansa við popptónlist! Það liggur við að þetta detti í flokkinn Skelfing eða snilld  en er líklega of mikil skelfing til að eiga einhverja möguleika í flokkinn. Möguleikar í keppninni hins vegar eru  held ég svo gott sem engir.

Eyrún segir: Valentina stóð greinilega ekki nógu vel við hótunina sína um að taka aldrei þátt í Júróvisjón aftur (sem hún lýsti yfir á Instagram eftir síðustu þátttöku) og er mætt aftur. Manni er nú farið að þykja ansi vænt um hana, blessaða, og því tek ég henni bara fagnandi! Lifi diskóið! Þetta verður að öllum líkindum arfaslakt atriði og nær ekki að toppa hennar besta árangur (sem er 24. sæti í úrslitum). Æh, en það er allt í lagi – hún verður hress og kát og knúsar alla þarna úti í klessu!

Serbía

serbia - Tijana Bogićević

Mynd: hellomagazin.rs

Hvað: In too deep
Hver: Tijana Bogićević
Á svið: Seinni undanriðill
Gengi 2016: 18. sæti í úrslitum

Eyrún segir: Þetta er frekar módernt lag með fínum takti, fíla það alveg ágætlega. Mér fannst hún Tijana frekar brokkgeng live á aðdáendaviðburðunum fyrr í mánuðinum en það getur allt batnað með æfingu og fínni sviðssetningu, kannski fáum við nútímadans? Það er einhver Melodifestivalen-hljómur í þessu lagi sem gæti passað þar sem það eru nokkrir Svíar í höfundateyminu. Mér finnst alveg líklegt að Serbíu gangi fremur vel ef sviðssetningin hjálpar til.

Hildur segir: Þau eru nú ekki ýkja mörg danslögin í ár og maður hefði haldið að þau stæðu þess vegna upp úr, allaveganna í minningunni. En svo er það ekki, því mér tekst alltaf að gleyma þessu lagi. Það er þó alls ekki slæmt, bara fátt athyglisvert við það. Mér finnst lagið einhvern veginn vera þannig að það bjóði upp á að floppa á sviði en teknóskotin lög þurfa yfirleitt eitthvað aðeins meira til að verða ekki hallærisleg á sviðinu. Ég græt t.d. ennþá glataða sviðsetningu Miros árið 2010. 

Sviss

Sviss - Timebelle

Mynd: celebmix.com

Hvað: Apollo
Hver: Timebelle
Á svið: Seinni undanriðill
Gengi 2016: 18. sæti í seinni undanriðli

Hildur segir: Á eurovision.tv er laginu lýst sem power-ballöðu. Kannski  er það 90’s unglinga syndómið sem veldur því en ég myndi seint kalla þetta power-ballöðu! Til þess vantar alla Titanic-dramatíkina og því myndi ég frekar lýsa þessu sem popplagi í rólegri kantinum! En hvað sem öllum skilgreiningum líður, þá finnst mér lagið skemmtilegt og bara nokkuð töff. Ég fæ viðlagið reglulega á heilann og held að þau í Timebelle smelli sér í úrslitin. 

Eyrún segir: Ágætlega grípandi lag frá Svisslendingum í ár og ég held einmitt líka að þau komist í úrslitin. Ég gæti alveg trúað því að sviðsetningin verði dramatísk sbr. vidjóið sem er tekið í kastala í Rúmeníu. Solid og fínt popplag og alls ekkert miðjumoð eins og oft áður.