Yfirferð laga 2017: V. hluti

pizap.com14909564396391Moldóva

moldova - sunstroke project

Mynd: naitimp3.ru

Hvað: Hey Mamma
Hver: Sunstroke Project
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 17. sæti í fyrri undanriðli

Hildur segir:  Kæti mín var sko ekki lítil þegar ég sá að Sunstroke Project væri að koma aftur í Júró! Ég hélt mikið upp á framlag þeirra 2010 og ekki var verra að dansa við Epic Sax Guy við flutning Heru Bjarkar á Euroclub! Framlag þeirra í ár er stórgott og eitt af fáu gleðipoppi í ár en lagið fær mig alltaf til að kíma aðeins. Lagið er grípandi og textinn auðveldur og því má ætla að margir muni söngla viðlagið í tíma og ótíma! Þá var húmor í sviðsetningunni í undankeppninni heima fyrir þar sem bakraddir sungu í brúðarvendi, undarleg fótahreyfing var aðalstefið (þó symetríuárátta mín þoli illa að hún sé alltaf gerð með sama fæti!) og dansspor sem allir 90’s unglingar þekkja! Síðast en ekki síst er saxafónstefið jafn grípandi og í laginu þeirra frá 2010 og gæti vel endað í öðru 10 klukkustundalöngu myndbandi á Youtube!

Eyrún segir:  Eftirlæti allra, Epic Sax Guy, snýr aftur hress að vanda! Mér finnst þetta lag ekkert síðra en lagið þeirra frá 2010, betra ef eitthvað er, og raula þetta daginn út og inn. Það kæmi mér á óvart ef Sunstroke Project kæmust ekki áfram í aðalkeppnina.

Svartfjallaland 

svartfjallaland - slavko

Mynd: pinkm.me

Hvað: Space
Hver: Slavko Kalezić
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 13. sæti í fyrri undanriðli

Eyrún segir:  Þetta verður eitthvað… þetta atriði ætti eitt og sér að verða til þess að RÚV verður að setja rautt sjónvarpsmerki í hornið! Textinn er grafískur, svo ekki sé meira sagt og heildarmyndin er augsjáanlega gerð til að sjokkera áhorfendur heima í stofu en alveg verið að mjólka (!) staðalímynd aðdáenda keppninnar. Ég veit ekki hvort að húsmóðir á fertugsaldri í Breiðholtinu getur horft á þetta til enda. Verður þetta ekki örugglega fjölskylduvænt?

Hildur segir:  Mér er eiginlega orðavant. Þetta lag finnst mér eiginlega bara svo leiðinlegt að ég á erfitt með að hlusta á það í heilu lagi og hvað þá með athygli. Það er nákvæmleg ekkert frumlegt eða eftirminnilegt við lagið og ég er hrædd um að flétta Slavko og pils hans muni vekja meiri athygli en lagið. 

Pólland

polland - kasia

Mynd: mjuzz.pl

Hvað: Flashlight
Hver: Kasia Moś
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 8. sæti í úrslitum

Hildur segir:  Ég hafði hlustað á lagið nokkrum sinnum í stúdíó útgáfu og það hélt illa athygli minni. Mér fannst það frekar flatt og lítið spennandi við það. Hins vegar um leið og ég horfði á Kösiu flytja lagið live breyttist þetta heldur betur! Kasia hefur magnaða rödd sem heldur manni spenntum allan tíman því manni langar bara að vita hvað hún gerir næst! Ef árangur Pólverja verður eftirtektarverður í ár mun Kasia eiga þann árangur skuldlaust! 

Eyrún segir:  Lag sem er nákvæmlega eins og öll grísk framlög sem flutt hafa verið af konum undanfarið,  og alls ekki minn tebolli. Flott söngkona og allt það en bara dead boring…

Röð laga á svið 2017!

Nú hefur verið uppljóstrað hvernig röð laga verður í undankeppnunum tveimur og gaman að líta aðeins á það:

SEMI-FINAL 1  – RÖÐ LAGA SEMI-FINAL 2  – RÖÐ LAGA
1. Svíþjóð 1. Serbía
2. Georgía 2. Austurríki
3. Ástralía 3. Rússland
4. Albanía 4. Makedónía
5. Belgía 5. Malta
6. Svartfjallaland 6. Rúmenía
7. Finnland 7. Holland
8. Aserbaídsjan 8. Ungverjaland
9. Portúgal 9. Danmörk
10. Grikkland 10. Írland
11. Pólland 11. San Marinó
12. Moldóva 12. Króatía
13. Ísland 13. Noregur
14. Tékkland 14. Sviss
15. Kýpur 15. Hvíta-Rússland
16. Armenía 16. Búlgaría
17. Slóvenía 17. Litháen
18. Lettland 18. Eistland
19. Ísrael

 

Hér sjáum við að Svala verður 13. á svið á fyrra kvöldinu – rétt eins og norsku drengirnir á því seinna. Það verður að teljast ágætis staðsetning en við hefðum þó fremur viljað koma strax á eftir Tékklandi fremur en stuðpinnunum frá Moldóvu, það er ekki alveg draumastaðan þrátt fyrir að lögin séu nokkuð ólík.

Svíar byrja sjóið og það er ágætt – þess má geta að Christer Björkman ber ábyrgð á uppröðuninni þar sem hann var settur í neyðarstjórn fyrir keppnina eftir mikla dramatík í undirbúningnum og hann er eldri en tvævetur í bransanum.

Belgía sem er ofarlega á veðbankalistum fær sennilega auglýsingahlé á eftir sínu framlagi og það lofar góðu!

Við hefðum viljað sjá Portúgal seinna en mögulega ná þeir rétt fyrir auglýsingar/rétt eftir auglýsingar.

Dauðaframlögin eru önnur á svið, eins og við höfum margoft minnst á áður, og Georgía og Austurríki eru ekki mjög burðug fyrir það fyrsta svo að það verður að segjast að þetta eru ekki góðar fréttir fyrir þau.

Merkilegt að sjá að enn er gert ráð fyrir Rússum þriðju á svið á seinna undankvöldinu, enn er ekki öll nótt úti með þeirra framlag!

maxresdefault (2)

 

 

Yfirferð laga 2017: IV. hluti

pizap.com14909564396391

Grikkland

grikkland - demy

Mynd: news.gtp.gr

Hvað: This is love
Hver: Demy
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 16. sæti í fyrri undanriðli 

Eyrún segir:  Þetta lag lofar ágætu í byrjun en svo kemur kafli sem rímar alveg við það sem við ræddum um sem þema í fyrra; vonbrigði viðlaganna! Hvað er þetta, teknódans inni í miðri ballöðu? Strengir og læti? Æi, Grikkland er orðið pínu despó í þessu finnst mér og mér finnst vanta alla einlægni. Ætli þeir komist samt ekki áfram…

Hildur segir:  Það hefur nú oft komið eitthvað betra frá Grikkjum! Lagið hefur maður heyrt oft áður án þess að ég geti bent á eitthvað eitt lag sem það líkist. Í raun er þetta eins og tvö lög, annars vegar versin sem eru ljúf og frekar róleg og hins vegar viðlagið sem minnir helst á tripphopp 10. áratugarins. Ég verð því bara svolítið rugluð hvað sé um að vera og spyr mig í sífellu hvort þetta sé danspopp eða er þetta ballaða? Hvert sem svarið er mun ég ekki hendast á dansgólfið þegar lagið heyrist, hvorki til að taka trylltan dans né vanga!  

Ísland

island - svala

Mynd: mbl.is

Hvað: Paper
Hver: Svala
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 14. sæti í fyrri undanriðli

Hildur segir:  Ég viðurkenni fúslega að ég fór að gráta þegar Svala vann Söngvakeppnina. Þetta lag talar bara til mín og gerði alveg frá því ég heyrði það fyrst. Það eru tvö lög í keppninni í ár sem gripu mig á fyrstu sekúndum og það var Paper og svo framlag Belga. Lagið er virklega vel gert og grípandi og Svala fæddur performer.  Ég trúi bara ekki öðru en að Svala rúlli þessu upp í Kænugarði! 

Eyrún segir: Áfram Ísland! Nú sendum við flytjanda á heimsmælikvarða sem er með mjög körrent og flott lag sem er algjörlega í anda þeirrar tónlistar sem hún hefur verið að gera vinsæla (og ég kann sjúklega að meta það!) Stórt og epískt lag og ég hlakka SVO til að sjá það á stóra sviðinu í Kænugarði!

Lettland

lettland - triana park

Mynd: eurovisionary.com

Hvað: Line
Hver: Triana Park
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 15. sæti í úrslitum

Eyrún segir:  Þetta lag og þetta viðlag læðist svolítið aftan að mér. Ég er þó alveg sammála Hildi að sviðsetningin hafi verið út um allt í forkeppninni og ég vona að þau leggi metnað í að skoða hana upp á nýtt. Ég ætla sko alls ekki að afskrifa Lettland og held að þetta gæti komið á óvart á stóra sviðinu!

Hildur segir:  Hér er á ferðinni danspopp sem gæti þó stundum hugsað sér að vera annarskonar lag. Í grunninn er lagið fínt en það vantar eitthvað upp á til að það verði nægilega grípandi og eftirminnilegt. Það líður rúm mínúta af því áður en nokkuð ris kemur í lagið og það getur verið dýrkeypt í Eurovision. Í lifandi flutninginum í undankeppninni í Lettlandi var lagið kraftlaus og söngurinn flatur og fyllti engan veginn upp í tómarúmið í laginu þegar kraftinn vantaði. Sviðsetningin heima fyrir virtist illa hönnuð fyrir sjónvarp og minnti meira á tónleika en sjónvarpsflutning. Ég er því hrædd um að þetta floppi allt saman á sviðinu í Kænugarði. 

Yfirferð laga 2017: III. hluti

pizap.com14909564396391Tékkland

tekkland - martina barta

Mynd: ireport.cz

Hvað: My Turn
Hver: Martina Bárta
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 25. sæti í úrslitum

Hildur segir: Hér er á ferðinni falleg ballaða sem Martina syngur af mikilli innlifun. Martina hefur fallega djúpa rödd sem passar laginu vel. Lagið er ekki sérlega eftirminnilegt né grípandi en með útgeislun, einlægni og góðum söng gæti það jafnvel staðið aðeins út í ballöðufargani keppninnar í ár.

Eyrún segir: Einkennileg raddbeiting söngkonunnar fer dálítið í taugarnar á mér í þessu annars mjög rislitla lagi. Svo mikið að ég get varla klárað að hlusta á lagið – er hún að herma eftir Cher eða hvað? Lagið er algjörlega óeftirminnilegt og ég held því miður að Tékkar sitji eftir með sárt ennið í ár þegar umslögin verða opnuð.

Finnland

finland - norma john

Mynd: eurovision.tv

Hvað: Blackbird
Hver: Norma John
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 15. sæti í fyrri undanriðli

Eyrún segir:  Falleg ballaða frá Finnum og ég kann að meta sviðssetninguna eins og hún var í UMK, vona að hún verði svipuð á stóra sviðinu. Þetta gæti alveg gert góða hluti en líka týnst einhvers staðar inn á milli; ég stend mig þó að því að söngla viðlagið reglulega.

Hildur segir: Blackbird er virkilega fallegt lag, líklega fallegasta lagið í keppninni í ár ásamt framlagi Portúgala. Lagið greip mig þó ekki alveg strax, ég þurfti að hlusta nokkrum sinnum á það til að falla alveg fyrir því. Ef lög grípa mann ekki strax í Júróvisjion þarf flytjandinn að gera það á sviðinu. Því miður varð ég fyrir vonbrigðum þegar ég sá lagið live í finnsku undankeppninni því það var eitthvað við söng og raddbeitingu Leenu sem truflaði mig, eitthvað sem kemur ekki eins sterkt fram í stúdíóúgáfunni. Það varð til þess að hún greip mig ekki strax. Ég hef áhyggjur af þessu fyrir hönd Finna því lagið á gott gengi sannarlega skilið! 

Georgía

georgia - tamara

Mynd: esckaz.com

Hvað: Keep the Faith
Hver: Tamara Gachechiladze
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 20. sæti í úrslitum

Hildur segir:  Æ jæ jæ…. þetta er bara einum of, meira að segja fyrir Júróvisjon! Dramatískt lag, dramatískur söngur, dramatískur texti og dramatískur boðskapur. Ég elska nú yfirleitt friðarboðskap og finnst yfirleitt mjög flott þegar listafólk dregur fram staðreyndir um ástand heimsins en það er eitthvað við samsetninguna hér sem bara truflar mig, finnst algjörlega vanta einlægninga í þetta allt saman og því verður lagið og framsetningin yfirborðsleg og boðskapurinn fer fyrir ofan garð og neðan. 

Eyrún segir:  Tamara, eða Tako, er víst ein af skærustu stjörnum Georgíu og einhverjir muna kannski eftir henni 2009 að syngja í hljómsveitinni 3G um að vilja ekki „Put In“ eða Pútín, en svo var framlagið dregið til baka. Er hægt að draga þetta líka til baka? Alveg hræðilega leiðinlegt að mínu mati!

Yfirferð laga 2017: II. hluti

pizap.com14909564396391Aserbaídjan

aserbaídjan - dihaj

Mynd: dihaj.com

Hvað: Skeletons
Hver: Dihaj
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 17. sæti í úrslitum

Eyrún segir:  Þetta lag fíla ég í botn og mér finnst Dihaj óhemjutöff týpa og söngkona. Viðlagið er mjög sterkt og ég vakna reglulega með það á heilanum! Dihaj hefur mikla reynslu af danstónlist og var áberandi í triphop-danssenunni í London þegar hún lærði í Bretlandi. Ég á því von á almennilegri danssviðssetningu sem á eftir að trylla lýðinn á gólfinu og flýgur svo beint í úrslitin.

Hildur segir: Það er eitthvað við þetta lag sem fær mig til að hlusta, samt finnst mér það ekkert sérlega skemmtilegt. Kannski hlustar kona vegna þess að lagið er sérlega kunnulegt og minnir mig á eitthvað lag sem ég veit samt ekki hvað er en mér finnst örugglega skemmtilegt!  Eða kannski er þetta bara skemmtilegt lag!? Ég bara get ekki ákveðið mig. Lagið er í öllu falli dálítið töff og grípandi en um leið pínu óeftirminnilegt og halló. Ef Dihaj gerir eitthvað skemmtilegt á sviðinu er næsta víst að lagið skelli sér í úrslit. 

Belgía

beliga - blanche

Mynd: eurovisionworld.com

Hvað: City Lights
Hver: Blanche
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 10. sæti í úrslitum

Hildur segir: Þetta er eina lagið í keppninni sem greip mig strax og þá ekki bara við fyrstu hlustun, heldur strax á fyrstu 10 sekúndunum. Ég fékk tár í augun og gæsahúð sem hélt út lagið. Allt strax í fyrsta skipti sem ég heyrði það! Ég hef ekki hugmynd um hvort það er einhver saga á bakvið þetta lag en mín upplifun af því er að þetta sé söngur almennra borgara í stríði. Ég sá þá strax fyrir mér uppgefna og úrræðalausa í miðjum hörmungum. Endirinn á laginu undirstrikaði þetta mjög sterkt og ég sakna þess endis í myndbandinu og á Spotify. En þetta er bara alveg magnað lag í alla staði, röddin, útsetningin, laglínan…. Nú vonar konar að þetta verði vel sviðsett svo þetta fari í toppbaráttuna þar sem það á svo sannarlega heima.

Eyrún segir:   Svona lög fíla ég eiginlega alltaf – ég elskaði Loic og þetta minnir mikið á það framlag Belga 2015. Ég var pínu hissa á að það greip mig ekki alveg frá fyrstu sekúndu og ég held að það sé hin djúpa rödd þessarar ungu stúlku, en ég hef reyndar heyrt líka að hún sé ekki vön að syngja svona djúpt. Það er eitthvað sem segir mér að þetta geti mögulega floppað á sviðinu, sérstaklega ef þetta er of djúpt fyrir hana… Ég er samt gífurlega ánægð með þetta lag, finnst það mjög flott og kúl. Það rís ekki mjög hátt og gæti mögulega orðið flatt (vona samt ekki) því að ég vil endilega sjá Belgíu í úrslitunum aftur!

Kýpur

kypur - hovig

Mynd: eurovoix.com

Hvað: Gravity
Hver: Hovig
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 21. sæti í úrslitum

Eyrún segir:   Um leið og ég heyrði framlag Kýpverja í ár hugsaði ég strax „Rag’n’Bone man!“ Líkindin fóru fyrst svoldið mikið í taugarnar á mér en svo finnst mér þetta bara notalegt og Hovig er nú ekkert ómyndarlegur svo sem. Lagið er nú ekkert stórkostlegt kannski en í myndbandinu eru ýmsar vísbendingar um e.t.v. áhugaverða sviðsframsetningu svo að við getum farið að láta okkur hlakka til! Ég veit ekki hvort þetta kemst áfram og það veltur bara á útkomunni á keppniskvöldinu.

Hildur segir:  Lagaframleiðandi Thomas G:son lætur ekki sitt eftir liggja í Júró í ár og er aftur höfundur framlags Kýpverja. Lagið er velútfært kraftpopp sem Hovig syngur vel. Það er ekkert sérstakt né frumlegt við lagið en það er talsvert grípandi. Hovig á klárlega eftir að heilla áhorfendur heima í stofu. Tel næsta víst að lagið fari í úrslitin en það blandar sér líklega ekki í toppbaráttuna. 

Yfirferð laga 2017: I. hluti

pizap.com14909564396391

Albanía

Albania - lindita

Mynd: wiwiblogs.com

Hvað: World
Hver: Lindita
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 16. sæti í fyrri undanriðlinum.

Hildur segir: 
Lindita reynir röddina gæti verið yfirskrift þessa lags! Hér er á ferðinni afar kraftmikið lag en það er ekki alltaf nóg að vera sterkur. Það þarf líka að skilja eitthvað eftir, einhverja tilfinningu sem fær mann til að muna og upplifa. Ég upplifi því miður lítið þegar ég hlusta á þetta lag og mig langar oftast til að slökkva. Það eins sem ég man þegar því lýkur er ágeng og æpandi rödd Linditu sem mér finnst ég þurfa að forða mér undan.

Eyrún segir:
Albanir eru þekktir fyrir að „revampa“ lögin sín sem þeir hafa auðvitað góðan tíma til, þar sem þeir velja þau í desember. Yfirleitt er albönsku skipt út fyrir ensku (það er gert nú) og svona almennt poppað meira upp. Í þetta sinn finnst mér breytingin alveg ágæt, og lagið finnst mér vaxa við nánari hlustun, húkkurinn er svakalegur. Lindita er náttúrulega vægast sagt öflug söngkona, eins og Hildur bendir á, og ég get alveg séð að með góðri sviðsetningu fljúgi þetta áfram í úrslitin.

Armenía 

Armenia - Artsvik

Mynd: Eurovisionworld

Hvað: Fly with Me
Hver: Artsvik
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 7. sæti í úrslitum.

Eyrún segir:  Mér fannst þetta nú ekki mjög beysið í fyrsta sinn þegar ég heyrði lagið en mjög töff myndbandið og hún augsjáanlega (og -heyranlega) mjög frambærileg söngkona. Mér finnst viðlagið ná mér dálítið en á heildina ekki mjög spennandi lag. Ansi hrædd um að það þurfi eitthvað eldgimmikk á sviðinu til að grípa athyglina, en Armenar hafa reyndar alltaf átt góðu gengi að fagna svo að sennilega er nóg fyrir Artsvik að mæta!

Hildur segir: Lagið lætur ekki mikið yfir sér enda var það dansinn í myndbandinu sem greip mig fyrst þegar ég hlustaði! Ég þurfti raunar að horfa tvisvar til viðbótar til að heyra lagið, svo gaman fannst mér að horfa á dansinn. Lagið er hins vegar bara dálítið gott þegar maður fer að hlusta og mér þykir undirspilið sérstaklega töff og skemmtilegt. Þar tekst að hafa etníska hljóminn án þess að það verði hallærislegt. Ef dansinn kemur á sviðið í Kænugarði og tekst vel til með einum færri dansara en í myndbandinu þá getur hann auðveldlega hrifið fólk nægilega til að kjósa – alveg sama þótt fólk heyri kannski ekki mikið af laginu!

Ástralía

Astralia - Isaiah

Mynd: news.com.au

Hvað: Don’t Come Easy
Hver: Isaiah
Á svið: Fyrri undanriðill
Gengi 2016: 2. sæti í úrslitum

Hildur segir: Það dylst engum að líkt og síðastliðin tvö ár senda Ástralir gæðapopp í Júróvisjon! Virkilega vel unnið lag sem Isaiah syngur af innlifun sem maður heyrir ekki oft hjá 17 ára söngvurum. Þó lagið hafi ekki gripið mig strax þá verður það betra við hverja hlustun. Eiginlega alveg burtséð frá hvort lagið er mjög grípandi eða ekki, þá er næsta víst að Ástralir haldi áfram að gera góða hluti í keppninni því gæðin eru í fyrirrúmi hjá þeim! 

Eyrún segir:  Ég kann mjög vel að meta hversu PC Ástralir eru og duglegir að senda fulltrúa ólíkra þjóðarbrota og nú stígur fyrsti frumbyggi Ástralíu á stóra sviðið í Kænugarði í vor. Hann er náttúrulega með stjarnfræðilega þroskaða rödd miðað við aldur og við skulum vona að hann nái að koma þessu flotta lagi til skila sem er eftir sömu höfunda og Sound of Silence frá í fyrra. Ég held með Ástralíu og krúttinu honum Isaiah!

Spá AUJ fyrir úrslit Söngvakeppninnar 2017

alltum2

Stóra stundinn er í kvöld og við fáum að vita hver verður fulltrúi okkar í Júróvisjon í Kænugarði í vor. Við spáum í spilin hver eru líklegust til sigurs.

Eyrún spáir

1EEVÞað hefur sjaldan verið eins erfitt að spá fyrir um úrslitin því að ég held að í ár hafi plögg keppenda náð hápunkti sínum – og það kemur til með að skila sér! Keppnin er mjög jöfn og nánast öll framlögin sem hafa burði til að vinna. Ég held þó að ef allir ná að skila sínu án vandkvæða (tæknilegra og annarra), þá standi tvö lög upp úr sem eru næstsíðust og síðust á svið; Svala og Daði Freyr. Svala hefur auðvitað reynsluna og gæði í framsetningu og lagasmíð og er fan-favorite en Daði hefur læðst fram og mun sennilega toppa á réttum tíma í úrslitunum. Þriðja sætið gætu báðir Aronarnir vermt og kannski ómögulegt að meta líkur annars fram yfir hinn, ég held að á endanum séu þeir að keppast um sama markhópinn. Ég hallast þó fremur að Aroni Hannesi ef ég á að velja og held að það verði mjög mjótt á mununum. Ég ætla þess vegna að henda þessari spá fram:

3. sætið: Aron Hannes – Tonight

2. sætið: Daði Freyr – Is This Love?

1. sætið: Svala – Paper

Hildur spáir:

HTF_6Í þessari sterku keppni er dálítið erfitt að spá fyrir um hvað muni gerast. Svala verður að teljast mjög sigurstrangleg en það eru Aronarnir tveir líka. Áður en keppni hófst þótti mér Hildur einnig mjög sigurstrangleg en hef horfið frá þeirri skoðun eftir að hafa séð atriði hennar á sviði (alveg óháð hljóðveseni). Ég trúi þó að hún gæti blandað sér í baráttuna um 3. sætið, þó einna helst ef Aronarnir tveir stela stigum hvor af öðrum. Rúnar Eff gæti einnig komið á óvart og jafnvel barist um 3. sætið og að sama skapi veit maður ekkert hvað Daði og gagnamagnið munu gera. Sem sagt virðist allt geta gerst í þessari keppni en ég legg eftirfarandi spá fram:

3. sætið: Is this love – Daði og gagnamagnið

2. sætið: Aron Brink – Hypnotised

1. sætið: Paper – Svala

Við ætlum líka að setja fram smá líkindaæfingar til gamans – eins og við höfum gert áður – eingöngu byggt á okkar mati og tilfinningu (ekki hávísindalegt):

Flytjendur efstir eftir blandaða kosningu Minni líkur eftir einvígið Meiri líkur eftir einvígið
Svala og Aron Hannes Aron Hannes Svala
Svala og Aron Brink Aron Brink Svala
Svala og Daði og Gagnamagnið Daði og Gagnamagnið Svala
Svala og Hildur Hildur Svala
Daði og Gagnamagnið og Aron Hannes Daði og Gagnamagnið Aron Hannes
Hildur og Aron Hannes Hildur Aron Hannes
Aron Brink og Aron Hannes Aron Brink Aron Hannes
Aron Brink og Daði og Gagnamagnið Daði og Gagnamagnið Aron Brink
Hildur og Aron Brink Aron Brink Hildur
Hildur og Daði og Gagnamagnið Hildur Daði og Gagnamagnið

Svo verður bara spennandi að sjá!

Möguleikar í úrslitum: IS THIS LOVE?

 

 

 

 

 

 

 

 

Daði Freyr og Gagnamagnið sjá um að loka úrslitakvöldinu á laugardaginn kemur og stíga síðust á svið!

Kostir:

  • Húmor og einlægni í flutningi.
  • Góð sviðsetning í samræmi við lagið þar sem allt virkar.
  • Nær til áhorfendahóps sem annars myndi sennilega ekki fylgjast með Söngvakeppninni.

Gallar:

  • Húmor sem getur farið fyrir ofan garð og neðan hjá einhverjum.
  • Reynsluleysi og stress gæti komið niður á flutningi.
  • Svona tónlist e.t.v. ekki fyrir markhópinn sem „venjulega“kýs í Söngvakeppninni

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Það er erfitt að segja til um möguleikana í Söngvakeppninni. Ef Aronarnir tveir taka stig hvor af öðrum er aldrei að vita nema Daði lendi í súperúrslitunum með Svölu. 

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Hugsanlega er lagið aðeins of lókal til að ná til Evrópu. Ef Evrópa er í stuði fyrir fólk sem hefur húmor fyrir sjálfu sér gætu Daði og félagar náð upp úr undanúrslitunum.

Gestapistill: Júró-Flosi spáir í Melló!

Júró-Flosi er mjög spenntur þessa dagana og ein af hans uppáhalds forkeppnum er næstkomandi laugardag. Við erum að sjálfsögðu að tala um sænsku Melodifestivalen.

Í ár er mikil fjölbreytni af lögum og Júró-Flosi að sjálfsögðu búinn að mynda sér skoðun hvað hann telji best. Þar má meðal annars nefna Hýenuvælið til sexapíl dauðans sem fær hann til að dreyma blauta drauma á nóttunni.

Ekki missa af því hvað hann hefur að segja um lögin og aldrei að vita en hann sé sammála Svíum í ár, eða hvað?

Möguleikar í úrslitum: PAPER

Svala verður næstsíðust á sviðið í úrslitunum á laugardaginn kemur.

Kostir:

  • Current popplag en um leið aðgengilegt án þess að vera of klisjukennt.
  • Öruggur og töff flutningur – mjög í anda Svölu og því sem hún stendur fyrir!
  • Fagmennska í fyrirrúmi.

Gallar:

  • Myndvinnslan virðist ekki nægilega vel úthugsuð.
  • Svala talar sjaldan beint við myndavélina og verður því fjarlægari áhorfendum.
  • … okkur detta engir fleiri gallar í hug! 🙂

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Hún er talin sigurstranglegust og þar erum við sammála. Það er bara nokkurn veginn allt við lagið og atriðið sem gengur upp. 

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Svala verður að teljast mjög líkleg til að komast í úrslitakeppnina ef allt gengi að óskum á sviðinu, sér í lagi ef myndvinnslan verður bætt. Þar gæti hún jafnvel átt möguleika á að fara í topp 10.