I. Yfirferð laga í Söngvakeppninni 2017

ss2017_a

Mynd: ruv.is/songvakeppnin

Nú erum við komnar með fiðring í tærnar og hlustirnar fyrir keppnina á laugardaginn og farnar að gíra okkur upp fyrir setuna í Háskólabíói þar sem veisla verður fyrir augu og eyru. Eigum við þá ekki að byrja á því að líta á þau lög sem keppa þetta fyrra undankvöld Söngvakeppninnar 2017?

Nótt – Aron Hannes Emilsson – Sveinn Rúnar Sigurðsson og Ágúst Ibsen

Hildur: Hresst og skemmtilegt popplag sem konu langar alveg að dilla sér við! Bæði lagið og söngur Arons minna mig á einhverja samblöndu af Justin Bieber og Eric Saade sem hlítur bara að vera góð blanda fyrir Júróvisjon. Þetta er eitt af fjórum topplögum í keppninni í ár og með góðri sviðsetningu og hreinum söng flýgur þetta í úrslitin í Laugardalshöll.

Eyrún: Hressandi smellur frá Sveini Rúnari í flutningi Arons sem er frekar current og hresst og minnir á vinsælu popplögin í dag- og er nú þegar komið á marga viral-lista á Spotify, mjög gott! Ef framsetningin á sviðinu virkar kemur þetta til með að slá í gegn hjá ungu kynslóðinni. Kemur mér í gott skap.

Bammbaramm – Hildur – Hildur Kristín Stefánsdóttir

Eyrún: Frábært lag og algjör eyrnaormur í Hildar-stíl. Ég fíla hana í botn (og hélt þvílíkt með Fjöðrum um árið!) og held að töffheitin í henni og laginu séu nokkuð alþjóðleg og skili sér algjörlega á stóra sviðinu úti í Kænugarði.

Hildur: Þetta fær maður bara á heilann það er bara þannig! Lagið er hressilegt í stíl hennar nöfnu minnar en hún er í miklu uppáhaldi hjá mér. Stíll Hildar, sem hún hefur kynnt okkur rækilega síðust mánuði, heldur sér í þessu lagi og það á án efa eftir að hljóma á útvarpsstöðvum landsins að lokinni keppni – hvað sem gerist þar! Eina áhyggjuefni mitt er sviðsetningin.

Mér við hlið – Rúnar Eff – Rúnar Eff

Hildur: Afskaplega huggulegt og einlægt lag. Finnst það miklu betra á íslensku en ensku, fer Rúnari einhvern betur að syngja á hinu ylhýra. Þetta er kannski alveg lag sem lendir á mínum playlista en engu að síður fínasta lag með dálítið ávanabindandi viðlagi, ég hef að minnsta kosti staðið mig af því að syngja það öðru hvoru, alveg upp úr þuru! 

Eyrún: Ekki lag sem nær mikið til mín, en textinn er einlægur. Að mínu mati rís lagið nægilega til að ná til annarra en þeirra sem hafa nú þegar ákveðið að kjósa Rúnar – og það endar bara allt í einu.

Heim til þín – Júlí Heiðar Halldórsson og Þórdís Birna Borgarsdóttir – Júlí Heiðar Halldórsson og Guðmundur Snorri Sigurðarson

Eyrún: Æ, það er svo gaman að sjá þau Júlí og Þórdísi aftur eftir að þeim gekk svona vel í fyrra og komust í úrslitin. Ég verð reyndar að segja að lagið í ár er aðeins síðra en 90’s rappið frá í fyrra (jú, það var fínt þó að ég hafi kannski náð því í fyrstu hlustun). Mér finnst lagið í ár vera aðeins of mikið hopp á OMAM-vagninn til að vera alveg málið, en hver er svosem orginal? Er á báðum áttum hvort þetta komist í gegn, kannski veltur það á framsetningunni á sviðinu…

Hildur: Líkt og Eyrún er ég algjörlega á báðum áttum hvort þetta lag kemst áfram í úrslitin. Lagið greip mig ekki við fyrstu hlustun en verður eiginlega betra eftir því sem maður heyrir það oftar. Viðlagið er sérstaklega grípandi en ég hugsa að lagið eigi sé betri von um að komast á topp 10 lista á útvarpsstöðvanna en gera  góða hluti á Júróvisjon sviðinu. 

Skuggamynd – Erna Mist Pétursdóttir – Erna Mist Pétursdóttir og Guðbjörg Magnúsdóttir

Hildur: Ég kolféll fyrir þessu strax við fyrstu hlustun enda aðdáandi góðra dramtískra ballaða. Lagið minnir mig á eitthvað annað lag en kem því engan vegin fyrir mig. Það stundum gott í Júróvisjon að vera kunnulegur án þess að vera of kunnulegur en það þarf samt að vera eitthvað aðeins meira til að ná góðum árangri. Þrátt fyrir lagið sé mjög gott þá finnst mér það vanta þetta sem skilur það frá öðrum ef það fer á stóra sviðið í Kænugarði. Þetta er lagið sem verður á mörkunum að komst áfram í úrslitin og gæti jafnvel endað sem SvartiPétur í úrslitunum. 

Eyrún: Hljómfagurt og heillandi lag og ekki laust við að smá Melfest-fílingur sé í uppbyggingunni, sem er gæðamerki! Þetta hæfileikabúnt sem þessi stelpa er, mætt annað árið í röð og ég vona innilega að við sjáum hana líka í úrslitunum! 

Til mín – Arnar Jónsson og Rakel Pálsdóttir – Hólmfríður Samúelsdóttir

Eyrún: Algjörlega uppáhaldsdúettinn minn í ár og raddirnar þeirra Arnars og Rakelar hljóma einstaklega vel saman. Rakel var í Hinemoa sem keppti í Söngvakeppninni 2015 (Þú leitar líka að mér) og lagahöfundurinn Hólmfríður í keppninni 2014 (Eftir eitt lag). Við eigum klárlega eftir að sjá smá drama í úrslitunum í Laugardalshöll og ég vona að það verði Rakel og Arnar!

Hildur: Hér á ferðinni önnur dramatísk ballaða en þrátt fyrir að fíla þær yfirleitt þá er eitthvað við þessa sem nær mér ekki alveg. Lagið er fallegt, raddir Arnars og Rakelar passa vel samana og allt saman bíður þetta upp á huggulega og eftirtektaverða framsetningu á sviðinu. Vonandi eru margir þarna út sem fíla þau og kjósa áfram!

Gestaálit Flosa: Fyrri undankeppni Söngvakeppninnar 2017

Flosi með vín í Vín

Flosi Jón Ófeigsson er okkar tryggasti gestaálitsgjafi og búin að vera með okkur næstum öll sjö árin. Hann er mættur að vanda með sínar einstöku pælingar um lögin sem keppa á fyrra undankvöldinu þann 25. febrúar næstkomandi.  

Söngvakeppnin tók stórt skref í fyrra þegar ákveðið var að halda úrslitin í Laugardagshöll og ég held að það hafi verið vítamínsprengja og hvatning fyrir lagahöfunda að taka þátt í þessari keppni. Í ár er ekkert lag sem ég get sagt að sé slæmt en ég ætla að reyna eftir bestu getu að finna út hvaða 3 lög komast áfram á fyrra undankvöldinu.

Lesa meira