Söngvakeppnin í 30 ár: 25. hluti: „Það þarf meiri Lars í málið“

 

Hallgrimur Oskarsson

Hallgrímur Óskarsson

Eins og fram hefur komið í yfirferð okkar á sögu Söngvakeppninnar hefur fyrirkomulag hennar verið með ýmsum hætti. Framsetning og reglur hafa þróast og breyst milli ára og niðurstöður keppninnar og árangur í Júróvisjón verið misjafn í kjölfarið. Skoðanir á keppninni hafa verið ólíkar í gegnum tíðina og margir haft álit á því hvernig hún ætti að vera.

Hallgrímur Óskarsson lagahöfundur er einn af þeim sem hefur ákveðnar skoðanir á fyrirkomulagi keppninar. Allt um Júróvisjón settist niður með honum og ræddi um Söngvakeppnina frá mörgum hliðum.Fyrir þá sem ekki þekkja Hallgrím er hann m.a. höfundur framlags okkar frá árinu 2003, Open your heart, sem Brigitta Haukdal flutti. Hann hefur átt níu önnur lög í Söngvakeppninni og oft náð hátt; til að mynda árin 2009 og 2011 þegar lögin hans Undir regnbogann og Ég trúi á betra líf lentu í 2. sæti.

Hallgrímur lýsir sjálfum sér sem hollvini Söngvakeppninnar enda hefur hann oft tekið þátt og er mikill áhugamaður um keppnina. Hann segir að til þess að ná árangri í Júróvisjón-keppninni úti þurfi engu að síður að hafa það skýrt hvort Söngvakeppnin sé í raun leið til að velja framlag Íslands í Júróvisjón eða hvort hún eigi að vera lagakeppni hér heima fyrir:

„Í hugum fólks er Söngvakeppnin fyrst og fremst undankeppni fyrir Júróvisjón og því ætti að undirbúa hana sem slíka. Þetta er keppni og því þurfum við að setja í keppnisgírinn og leita leiða við að velja það framlag sem er vænlegast til árangurs í keppninni úti, bara rétt eins og þegar valið er í landsliðið í fótbolta. Þar eru þeir leikmenn valdir í liðið sem skara fram úr í íþróttinni og mynda saman lið sem er líklegt til árangurs enda spilað til að vinna, ekki til að vera með. Við eigum líka að taka þátt í Júróvisjón til að vinna!“

Tungumálafrelsi mikilvægt
Hallgrímur nefnir nokkur atriði sem hann telur mikilvægt að hafa í huga og breyta ef á að keppa til að vinna. Fyrst tiltekur hann tungumálið og bendir á að texti þurfi að hans mati að hafa jafnmikinn húkk og lagið sjálft, ef vel á að ganga.

„Að skilyrða að lögin séu flutt á íslensku í byrjun er í raun eins og að banna notkun ákveðinna hljófæra sem megi svo breyta síðar. Að banna t.d. selló væri furðulegt og það sama gildir um tungumál. Rödd flytjandans er eitt aðalhljóðfærið í laginu og blæbrigði ólíkra tungumála hafa áhrif á það hljóðfæri. Einnig er tungumálafrelsi mikilvægt út frá kynningarsjónarmiði: Að syngja fyrst á íslensku en ætla sér alltaf að syngja á öðru máli komist lagið alla leið, væri því næstum því eins og að kynna nýtt lag til sögunnar.“

Aukin fagmennska í lagavali
Aðspurður um valnefndina að baki lögunum í Söngvakeppninni segir Hallgrímur:
„Það er verið að passa að ekki sé vitað hver er í henni og það er allt í lagi. Í þessu litla landi er það bara mjög fínt. En útkoman úr henni einkennist oft af stefnuleysi í lagavalinu. Mig grunar að það sé vegna þess að of mikil áhersla sé lögð á að hlusta á lögin eins og þau hljóma núna, en ekki hvert er hægt að taka þau.“

Einnig telur hann að val laganna inn í keppnina sé annað atriði sem þurfi að huga að. Að hans mati sé það afturför að ætla höfundum að senda inn fullbúið lag því að fyrst og fremst eigi valnefndin að hlusta eftir góðri lagasmíð, óháð útsetningu eða söng sem geti komið á síðari stigum. Til að þetta geti átt sér stað verði því að vera fólk í valnefndinni sem hafi þann hæfileika að hlusta á lagasmíð en ekki lög. ,,Það sé ekki á færi allra að gera slíkt og því þarf að vanda valið í nefndina“ segir Hallgrímur. Tillaga Hallgríms er að RÚV fái til sín erlenda pródúsenta sem fengju öll innsend lög með sér eina helgi á afvikinn stað, t.d. í sumarbústað, og settu þannig fram val sitt án nokkurrar aðkomu annarra. Þannig næðist fram fagmennska í vali á laginu þar sem um væri að ræða eingöngu þá sem hafa eyra fyrir góðum lagasmíðum óháð útsetningu. „Þetta snýst um að gera meira af því að fá Lars í málið“, segir Hallgrímur til að leggja áherslu á mál sitt og vísar til Lars Lägerback landsliðsþjálfara í fótbolta.

cassette-tapes-back-from-the-dead1

En það er ekki bara valið á lögunum inn í keppnina sem skiptir máli, heldur líka valið í keppninni sjálfri að mati Hallgríms. Stundum sé ekki endilega vænlegast að láta þjóðina eina velja framlagið.

„Þegar þjóðin velur er oft á tíðum ekki verið að hugsa um þau fáu en mikilvægu atriði sem skipta máli til að ná góðum árangri. Að auki eru sjónvarpsáhorfendur ekki alltaf sammála um það sem gengur í Íslendinga og það sem gengur í Evrópubúa í keppninni. Því ætti endanlegt val á sigurvegara að speglast í þeim sem kjósa í lokakeppninni.“

Nefnir hann í því samhengi aðferð sem tekin var upp í Eystrasaltsríkjunum í kringum aldamótin. Þar var fenginn hópur fólks víða að úr Evrópu sem horfði á lögin og valdi síðar. Árangur Letta og Eista var með ágætum á þessum tíma og telur Hallgrímur fyrirkomulag valsins hafa haft þar mikið að segja. Einnig mætti horfa til þess sem Svíar gera með sína landskeppni þar sem lokakeppninni sé sjónvarpað til nágrannalanda og að þeir fái að taka þátt.

Samtal við myndavélarnar
Í huga Hallgríms er eitt meginatriði sem skiptir máli til að ná góðum árangri í Júróvisjón; að flytjandi komi vel út, sé „sympatískur“, í myndavélunum. „Þetta er svona blanda af því að vera tilfinningavera og að vera hugrakkur ásamt því að þora að vera alveg opinn og tala frá innstu hjartarótum við linsuna.“ segir Hallgrímur. Hann bætir við að það skipti höfuðmáli að ná til sjónvarpsáhorfenda um alla Evrópu í gegnum myndavélarnar til þess að fá kosningu og vill meina að framkoma í fjölmiðlum og uppákomum víðsvegar í aðdraganda keppninnar skiptir ekki nærri eins miklu máli þó að það sé gaman. Um möguleika Íslands til að vinna segir Hallgrímur:

„Sigurinn dettur inn þegar flytjandi kemur fram sem er sympatískur. Það er næstum því hægt að sigra með hvaða lag sem er, ef það er í meðallagi gott, það er hægt að vera með allskonar lög og allskonar útsetningar en það er ekki hægt að sigra ef flytjandinn kann ekki að tala við kameru.“

Sigur konseptsins
Aðspurður um hvort Jamala, sigurvegari Júróvisjon í ár, hafi náð að tala við myndavélarnar og vera sympatísk sagði Hallgrímur að hún hafi unnið því að hún hafi náð til fólks með skilaboðum um að vera á móti stríði og stríðsóðum valdhöfum sem skeyta engu um mannlega líðan og bætti við:

„Fólk er komið með nóg af slíku. Þannig náði Jamala betur til fólks en mörg önnur lög en ekki í gegnum lagasmíðina sjálfa heldur í gegnum skilaboðin og það hvernig hún lifði sig inn í skilaboðin á sviðinu. Lag hennar var e.t.v. ekki minnisstæðasta lagið sem slíkt en minnisstæðustu skilaboðin og mesta innlifunin á sviðinu. Þessi úrslit eru góð fyrir keppnina því að umbúðir og innihaldsleysi töpuðu fyrir framúrstefnulegu lagi með mikið innihald og flutning söngkonu sem greinilega var innilega að meina það sem hún var að syngja um.“ 

Hallgrími varð í spjalli okkar einnig tíðrætt um konsept laga í Júróvisjon en hann telur það vera mikilvægan hluta til að sigra. Nærtækt væri að skoða áfram sigur Jamölu í ár en Hallgrímur segir hann líka hafa verið sigur konspetins en ekki aðeins sigur lagsins:

„Hljóðhlutinn er þriðjungur, sjónræni hlutinn er þriðjungur en konsept lags, sem oft gleymist að vinna með er alveg jafnstór hluti. Auðskiljanlegt konsept Jamölu sem allir skildu samstundis var jafnmikilvægt í sigri hennar og innlifunin og lagið.“

birgitta haukdal

Birgitta Haukdal flytur lagið Open your heart í Júróvisjon 2003.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s