Undirbúningur Svía fyrir Eurovision – Been there, done that
Svíar eru skipulagt fólk og undirbúningur fyrir Eurovision sem hefst hér í Stokkhólmi eftir örfáar vikur er að öllum líkindum akkúrat á áætlun – þó svo að Euroclub sé enn ekkert nema gegnsæ stálgrind fyrir framan konungshöllina.

Haukur er búsettur í Stokkhólmi.
Við sem vorum í Malmö 2013 vitum líka að Svíar vita hvernig á að gera þetta. Aðdáendur skipa stóran sess og hvert stræti og torg mun líklega anga af Eurovision þegar tíminn kemur.
Þetta vitum við, eða vonum allavega, eftir reynsluna í Malmö. Það er þó eitt sem hefur vakið athygli mína og það er að almenningur í þessu annars Eurovision og schlager-elskandi landi virðist ekki alveg vera með á nótunum. Það fer lítið fyrir fréttum um framkvæmdirnar í Globen, ekkert drama eða last-minute kaos virðist hafa komið upp og satt best að segja er það tilfinning mín að margir viti ekki einu sinni hvort Eurovision muni fara fram í Globen eða einhvers staðar annars staðar, jafnvel í annarri borg.

Globen í Stokkhólmi.
Þetta er mikill munur frá aðdraganda keppninnar í Malmö. Loreen var fagnað sem þjóðhetju og spennan fyrir því að bjóða sjónvarpsaðdáendum að bragða frekar á hinu “sænska tónlistarundri”, eins og þeir kalla það, var mikil. Það var líka reginskandall þegar hnossið fór ekki einu sinni til annarrar heldur ÞRIÐJU stærstu borgarinnar, í stað Stokkhólms sem þá hafði nýopnað stærsta tónleikavettvang Norðurlandanna (Friends Arena). Fréttir voru fluttar af barnakórum sem æfðu sig fyrir stóru stundina og slúðrað var um það hver yrði kynnir.
Nú er öldin önnur. Loreen virðist hafa sprengt á kýli sem hafði angrað þjóðina árum saman en þegar þrýstingnum var sleppt úr þeirri blöðru virðist hafa tekið við sú hugsun að þetta sé nú ekki neitt stórmál. Eins og þjóðin hafi climaxað en vilji nú bara slaka á í stað þess að taka einn snúning í viðbót. Svíar séu nú hvort sem er á leiðinni að stela krúnunni af Írum sem sigursælasta þjóðin í Eurovision og kannski ekki svo smart að vera að gera of mikið mál úr því.
En þrátt fyrir þetta þurfa aðdáendur ekki að örvænta því staðreyndin er eftir allt sú að í Svíþjóð eru schlager og Eurovision alltaf nærverandi. Þeir sem fóru á Eurovision í Rússlandi og Aserbaídsjan kvörtuðu yfir því að hvergi væri hægt að fá að dansa við Eurovision-tónlist. En í Svíþjóð eru alltaf jól fyrir Eurovision-aðdáendur. Heilu skemmtistaðirnir eru helgaðir schlager og Eurovision allan ársins hring og á hommaklúbbunum er alltaf eitt dansgólf þar sem eingöngu Eurovision-tónlist er spiluð. Eurovision-nördar munu líka kannast við forsíðuefni helstu tímarita og sjá tónleikaauglýsingar fyrir andlit sem við öll þekkjum. Fyrri keppendur falla nefnilega aldrei í gleymsku, næstum því eins og forseti sem fær laun til æviloka. Að Önnu Bergendahl frá 2010 undantekinni enda hefur þjóðin aldrei jafnað sig almennilega á sjokkinu þegar hún komst ekki í úrslitin en Anna hefur flúið land og er reyndar óþekkjanleg í dag.

Anna Bergendahl. Eina flopp Svía hin síðari ár.
Þar að auki eru Svíar fagmenn fram í fingurgóma og þeir hafa tekið sér stöðu með aðdáendum. Þetta á að vera hátíð fyrir okkur og þess vegna getum við treyst því að okkar bíður mikið stuð og mikið gaman og að þótt það sjáist ekki núna þá verður borgin alveg örugglega komin í schlager-dívukjólinn akkúrat á þeim degi sem það stendur í dagbókinni þeirra… líklega í viku 17 eins og þeir myndu orða það.
Þetta er Haukur Johnson R. Ólafsson sem talar frá Madr… Stokkhólmi.