Veðbankar 2016 – II. hluti

via Eurosong.tumblr.com

via Eurosong.tumblr.com

Það er kominn tími til að líta á stöðuna í veðbönkunum nú þegar dagarnir eru aðeins 14 fram að úrslitakeppni – tvær vikur, gott fólk!! Eru Amír og Sergey saman á toppnum eins og þeir hafa verið? Látum okkur sjá:

Veðbanki Nr. 1 Nr. 2 Nr. 3 Nr. 4 Nr. 5
Oddschecker.com Rússland Frakkland Ástralía Svíþjóð Búlgaría
Paddypower.com Rússland Frakkland Svíþjóð Ástralía Búlgaría
William Hill Rússland Frakkland Ástralía Búlgaría Malta
ESC stats.com Frakkland Rússland Búlgaría Ástralía Spánn
Júróvisjón 2016-hópurinn á FB Frakkland Ástralía Rússland Króatía Búlgaría
OGAE Big Poll Frakkland Rússland Ástralía Búlgaría Ítalía

Hér getum við sagt að línurnar séu lagðar því að Frússar halda toppnum (Frakkar og Rússar). Ástralska lagið er oftast á hæla þeirra og Poli hin búlgarska og Svíinn Frans blanda sér líka í baráttuna. Það er nokkuð ljóst að allt bendir til þess að þessar þjóðir verði í toppbaráttunni.

Veðbankarnir eru yfirleitt naskir á sigurvegarann og hafa verið mörg undanfarin ár (nema 2014, því Conchita kom svo svakalega á óvart!) og þó að við séum enn ekki farin að sjá sviðsetningu laganna er þetta ágætt veganesti inn í keppnisvikurnar sem koma.

En Ísland, hvar er Gretu nú að finna á listunum?

Veðbanki Sæti
Oddschecker.com 19. sæti
Paddypower.com 23. sæti
William Hill 23. sæti
ESC stats.com 22. sæti

Að auki er Hear them calling í 15. sæti í OGAE Big Poll-könnuninni nú þegar 38 klúbbar hafa skilað inn atkvæðum sínum. Í sjálfu sér er breytingin ekki mikil en ef marka má þessa útkomu komumst við Íslendingar þó í úrslitakeppnina.

Næst tökum við saman veðbankatölfræðina eftir viku, þá verða æfingar byrjaðar og vænta má að þá muni þetta e-ð stokkast upp.

Yfirferð laga 2016 – 38/43 Frakkland

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Amir – J’ai cherché
Besti árangur: 1. sæti 1958, 1960, 1962, 1969 og 1977
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Ég leita þín
Uppáhaldið okkar:  Natasha Saint-Pier – Je N’ai Que Mon âme og Sebastíen okkar Tellier – Divine

Hildur segir: Það er ekki vaninn hjá Frökkum að senda hefðbundið popplag í Júróvisjon. Venjulega gera þeir bara það sem þeir vilja og senda allskonar, misskemmtilegt sem þó setur yfirleitt alltaf svip sinn á keppnina. Það er einmitt þessi fjölbreytni oft á tíðum sem gerir keppnina skemmtilega. Sjálf er ég ekki aðdáandi Frakka í keppninni og finnst framlög þeirra mjög oft leiðinlegt. Kannski er það franskan, sem mér hefur alltaf þótt leiðinlegt sem söngmál, kannski eitthvað annað, ég hreinlega veit það ekki. Í ár syngja þeir á blandi af frönsku og ensku, svolítið hefbundið popplag bara sem hinn hrikalega myndarlegi Amir syngur. Með framangreint í huga kom það mér á óvart að í upphafi fannst mér lagið skemmtilegt. Eftir frekar hlustun og eftir því sem tíminn líður þykir mér þó lagið verða leiðigjarnt og velti fyrir mér hvort Amir hafi hreinlega komið aðeins of snemma.

Eyrún segir: ÉG ELSKA FRAKKLAND. ÉG ELSKA AMÍR. Þar hafið þið það! Lagið er vissulega undir áhrifum frá vinsælum popplögum og jafnvel Heroes frá því í fyrra. En það skiptir ekki máli, sjarminn er svo mikill og brosið er svo stórt. Ég voooona að Amír nái að sjarmera (ef það er einhver sem kann að tjá sig í gegnum myndavélina er það hann) restina af Evrópu því að mig langar til Frakklands á næsta ári 🙂

frakkland_amir

 

Yfirferð laga 2016 – 37/43 Belgía

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Laura Tesoro – What’s the pressure
Besti árangur: 1. sæti 1986
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Enginn undir pressu
Uppáhaldið okkar:  Loïc Nottet – Rhythm inside

Hildur segir: Það má eiginlega segja að Belgar hafi verið með ,,kombakk“ í keppninni í fyrra þegar þeir komu tilbúnir í slaginn með frábært lag og náðu árangri eftir því. Þótt lagið í ár sé langt frá því að vera jafn gott og í fyrra eru þeir minna út á túni en oft síðust árin. Lagið er undir áhrifum frá Michael Jackson og þar af leiðandi dansinn í myndbandinu líka. Laura er kannski með helst til of veika rödd til að lyfta laginu á næsta stall en þangað þyrfti það að fara til að vera að einhverju sem á í raun einhverja möguleika. Það má þó búast við glæsilegri danssýningu, jafnvel smá moonwalk hjá Belgum.

Eyrún segir: Já, hér mætir diskóið og jújú gott og blessað að hafa smá af því í hvorri undankeppni (finnska gellan er í fyrri keppninni). Og hressandi svona undir lok kvöldsins. Ég ætla að vera taktísk og segja að rétt eins og Donny Montell komst áfram síðastur á svið 2012, með blindu ástina sína, kemst Laura áfram með því að vera síðust á svið á seinna undankvöldinu. Hún er sjarmatröll og atriðið verður örugglega skemmtilegt en guð veit svo hvað gerist á úrslitakeppninni.

belgia_laura

Yfirferð laga – 36/43 Albanía

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Eneda Tarifa – Fairytale
Besti árangur: 5. sæti 2012
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Dramatísk endalok ævintýranna
Uppáhaldið okkar:  Anjeza Shahini – The image of you og Olta Boka – Zemrën E Lamë Peng

Hildur segir: Byrjun lagsins gefur vísbendingu um gott lag. En byrjunin er nokkuð löng og kona er orðin svo spennt að vonbrigðin þegar viðlagið byrjar eru algjör. Hér erum við sem sagt enn og aftur komin með þemað Vonbrigði viðlaganna. Lagið heldur svo alls ekki dampi og ef ekki verður fyrir eitthvað geggjað show á sviðinu sem fær mann til að gleyma að lagið er orðið leiðinlegt þá mun þetta allt saman gleymast í Júróvisjonþokunni.

Eyrún segir: Ég hélt fyrst að albanska gellan frá í fyrra væri mætt aftur, en þessi er svona look-a-like með slappara lag. Ég heyrði lagið fyrst þegar það var enn á albönsku og svei mér, ef það var ekki áhugaverðara. Mér finnst þetta bara boring… sorrí. Hún er ekki að gera neitt fyrir mig!

albania_eneda

Yfirferð laga 2016 – 35/43 Georgía

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Nika Kocharov & Young Georgian Lolitaz – Midnight Gold
Besti árangur: 9. sæti 2010 og 2011.
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Britpoppið í miðnæturbjarmanum
Uppáhaldið okkar:  Sofia Nizharadze – Shine

Eyrún segir: Það fer alltaf minna og minna fyrir rokki í Júróvisjón en hérna kemur pínu skemmtilegt brit-popp sem er m.a. eftir Thomas G:son sem Júróaðdáendur þekkja frá Euphoriu og fleiri lögum. Ef mér skjátlast ekki kemur hann nálægt tveimur lögum í keppninni í ár. Ég heyri voða mikið Oasis í þessu lagi og finnst það bara nokkuð gott lag og frekar frambærilegt. Gæti trúað að það komist áfram.

Hildur segir: Hér er á ferðinni einhver undarleg blanda af 90’s brit-poppi og Beck Hansen sem gæti hafa verið B-hlið á semi vinsælli smáskífu. Þetta er lagið sem allir þeir, sem eru of góðir með sig til að viðurkenna að vinsæla lagið sé skemmtilegt, hlusta á. Það er í raun ótrúlegt að lagið sé eftir Thomas G:son, þann margreyndar Júróvisjon höfund því það er eins og höfundarnir hafi allt í einu fattað að mínúturnar þrjár voru liðnar svo það var bara klippt á lagið! Þetta mun ekki gera neinar gloríur nema Evrópa verði í 90’s nostalgíukasti.

gerogia

Yfirferð laga 2016 – 34/43 Noregur

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Agnete – Icebreaker
Besti árangur: 1. sæti 2009, 1995 og 1985
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Sendu mér hjálparbeiðni
Uppáhaldið okkar:  Jostein Hasselgård – I’m not afraid to move on

Eyrún segir: Vá, hvað ég varð fyrir sjúklega miklum vonbrigðum þegar Laikan mín vann ekki í NMGP í ár! Ég var svekkt í marga daga út í Agnete sem mér fannst fölsk og syngja þrjú lög í einu. Ég get nú ekki sagt að ég sé 100% búin að taka hana í sátt, en lagið finnst mér reyndar mikið skárra núna. Það venst. Sem er reyndar ekkert alltof gott þegar um Júróvisjón-framlag er að ræða. Ég er enn sannfærð um að Noregur hefði gert mun betur með Laiku og Hungry Hearts í Stokkhólmi – en Agnete verður þeim nú tæpast til skammar, held ég!

Hildur segir: Vá hvað ég varð fyrir sjúklega miklum vonbrigðum þegar Laila mín vann ekki NMGP í ár! Ég var svekkt í marga daga út í Agnete sem mér fannst fölsk og syngja þrjú lög í einu. Ég get nú ekki sagt að ég sé 100% búin að taka hana í sátt, en lagið finnst mér reyndar mikið skárra núna. … Voruð þið hætt að lesa af því þið hélduð að við hefðum óvart sett sama textann?! Svo var aldeilis ekki en núna erum við bara mjög sammála um vinningslagið, þó við séum ósammála um hver hefði átt að vinna. Þó Agnete muni sjálfsagt standa sig vel á sviðinu í Stokkhólmi þá er lagið ekkert sérstakt, Agnete ekki lifandi í myndavélunum, atriðið leiðinlegt og svo læt ég neglunar á henni fara í taugarnar á mér. Hvernig er hægt að lifa eðlilegu lífi með svona langar neglur?! Ég er rétt eins og Eyrún enn sannfærð um að Norðmenn hefðu gert mun betur með Lailu mína já, nú eða Laikan og Hungry Hearts en þær verða allar að bíða betri tíma meðan ísdrottning nýtur sín.

noregur_agnete

Gestapenni AUJ: Haukur í Stokkhólmi

Undirbúningur Svía fyrir Eurovision – Been there, done that 

Svíar eru skipulagt fólk og undirbúningur fyrir Eurovision sem hefst hér í Stokkhólmi eftir örfáar vikur er að öllum líkindum akkúrat á áætlun – þó svo að Euroclub sé enn ekkert nema gegnsæ stálgrind fyrir framan konungshöllina.

Haukur

Haukur er búsettur í Stokkhólmi.

Við sem vorum í Malmö 2013 vitum líka að Svíar vita hvernig á að gera þetta. Aðdáendur skipa stóran sess og hvert stræti og torg mun líklega anga af Eurovision þegar tíminn kemur.

Þetta vitum við, eða vonum allavega, eftir reynsluna í Malmö. Það er þó eitt sem hefur vakið athygli mína og það er að almenningur í þessu annars Eurovision og schlager-elskandi landi virðist ekki alveg vera með á nótunum. Það fer lítið fyrir fréttum um framkvæmdirnar í Globen, ekkert drama eða last-minute kaos virðist hafa komið upp og satt best að segja er það tilfinning mín að margir viti ekki einu sinni hvort Eurovision muni fara fram í Globen eða einhvers staðar annars staðar, jafnvel í annarri borg.

Globen í Stokkhólmi.

Þetta er mikill munur frá aðdraganda keppninnar í Malmö. Loreen var fagnað sem þjóðhetju og spennan fyrir því að bjóða sjónvarpsaðdáendum að bragða frekar á hinu “sænska tónlistarundri”, eins og þeir kalla það, var mikil. Það var líka reginskandall þegar hnossið fór ekki einu sinni til annarrar heldur ÞRIÐJU stærstu borgarinnar, í stað Stokkhólms sem þá hafði nýopnað stærsta tónleikavettvang Norðurlandanna (Friends Arena). Fréttir voru fluttar af barnakórum sem æfðu sig fyrir stóru stundina og slúðrað var um það hver yrði kynnir.

Nú er öldin önnur. Loreen virðist hafa sprengt á kýli sem hafði angrað þjóðina árum saman en þegar þrýstingnum var sleppt úr þeirri blöðru virðist hafa tekið við sú hugsun að þetta sé nú ekki neitt stórmál. Eins og þjóðin hafi climaxað en vilji nú bara slaka á í stað þess að taka einn snúning í viðbót. Svíar séu nú hvort sem er á leiðinni að stela krúnunni af Írum sem sigursælasta þjóðin í Eurovision og kannski ekki svo smart að vera að gera of mikið mál úr því.

En þrátt fyrir þetta þurfa aðdáendur ekki að örvænta því staðreyndin er eftir allt sú að í Svíþjóð eru schlager og Eurovision alltaf nærverandi. Þeir sem fóru á Eurovision í Rússlandi og Aserbaídsjan kvörtuðu yfir því að hvergi væri hægt að fá að dansa við Eurovision-tónlist. En í Svíþjóð eru alltaf jól fyrir Eurovision-aðdáendur. Heilu skemmtistaðirnir eru helgaðir schlager og Eurovision allan ársins hring og á hommaklúbbunum er alltaf eitt dansgólf þar sem eingöngu Eurovision-tónlist er spiluð. Eurovision-nördar munu líka kannast við forsíðuefni helstu tímarita og sjá tónleikaauglýsingar fyrir andlit sem við öll þekkjum. Fyrri keppendur falla nefnilega aldrei í gleymsku, næstum því eins og forseti sem fær laun til æviloka. Að Önnu Bergendahl frá 2010 undantekinni enda hefur þjóðin aldrei jafnað sig almennilega á sjokkinu þegar hún komst ekki í úrslitin en Anna hefur flúið land og er reyndar óþekkjanleg í dag.

Anna Bergendahl. Eina flopp Svía hin síðari ár.

Þar að auki eru Svíar fagmenn fram í fingurgóma og þeir hafa tekið sér stöðu með aðdáendum. Þetta á að vera hátíð fyrir okkur og þess vegna getum við treyst því að okkar bíður mikið stuð og mikið gaman og að þótt það sjáist ekki núna þá verður borgin alveg örugglega komin í schlager-dívukjólinn akkúrat á þeim degi sem það stendur í dagbókinni þeirra… líklega í viku 17 eins og þeir myndu orða það.

Þetta er Haukur Johnson R. Ólafsson sem talar frá Madr… Stokkhólmi.

Yfirferð laga 2016 – 33/43 Úkraína

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Jamala – 1944
Besti árangur: 1. sæti 2004  með Ruslönu
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Látið okkur vera
Uppáhaldið okkar:  Ruslana, Verka og Tina Karol 

Eyrún segir: Gæsahúð alla leið! Það er svo ótrúlega flott og marglaga, framlag Úkraínumanna í ár. Í fyrsta lagi er þetta stórgóður flutningur hjá hæfileikaríkri söngkonu sem er með svo fallegan Austur-Evróputón í röddinni. Lagið er mjög ethnískt en um leið heyrast poppaðir teknótaktar. Í öðru lagi tekst henni í laginu að segja sögu af þeim hræðilegu atburðum sem hentu hennar nánustu fjölskyldu þegar Tatarar voru fluttir frá Krímskaganum, fjölskyldum var sundrað og fólk drepið. Að ná að tjá allt slíkt í 3 mínútur á sviði í popptónlistarkeppni er afrek. Í þriðja lagi nær hún að dansa undurvel á barmi þess að vera pólitísk í garð yfirvalda í Rússlandi vegna núverandi ástands í Úkraínu. Eftir að Úkraína tók sér hlé í fyrra vegna ástandsins er sérstaklega sterkt að snúa aftur með framlag eins og þetta. Jamala náði mér við fyrstu hlustun og ég er sannfærð um að hún kemst áfram í úrslitin og vonandi kemst hún þar hátt á blað!

Hildur segir: Eyrún hefur sannarlega rétt fyrir sér að hér er á ferðinni marglaga lag þar sem að mikilli snilld er búið að setja mjög margt saman og koma mörgu á framfæri á 3 mínútum. En snilldin fellst í mínum huga bara í því. Lagið strípað finnst mér afskaplega leiðinlegt og þar að leiðandi er erfitt að hlusta og meðtaka allt það sem Jamala er að segja okkur og við þurfum svo sannarlega að heyra. En það er samt alveg á hreinu að hún flýgur í úrslitin og veður á topp 10 sem hún má sannarlega vera.

ukraina_jamala

Yfirferð laga 2016 – 32/43 Danmörk

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Lighthouse X – Soldiers of love
Besti árangur: 1. sæti 1963, 2000 og 2013
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Þrír sætir strákar
Uppáhaldið okkar:  Lonnie Devantier – Hallo Hallo

Hildur segir: Bíddu, hvernig gat þetta lag unnið forkeppnina í Danmörku? Hvernig gat verið að hvorki BraceletMuri og Mario komstu ekki einu sinni í súperfinalinn? Ég er bara eitt stórt spurningamerki um val Dana ár. Lagið er formúla af verri endanum, það er ekkert að gerast á sviðinu og lagið virðist að minnsta kosti 5 mínútur í flutningi. Eiginlega er þetta bara allt of löng Dressman-auglýsing. Svo fer líka nafnið í taugarnar á mér. Af hverju þurfa þeir að vera hermenn ástarinnar? Geta þeir ekki bara verið boðberar hennar? – Kv. pirraði júróvisjon-aðdáandinn.

Eyrún segir: Ég er alveg sammála Hildi, ég hefði svo sannarlega kosið Muri og Mario ef ég hefði getað haft áhrif á val Dana í ár. Þetta lag er algjört miðjumoð og því miður svo óskaplega mörg önnur lög sem tékka í sömu box (sætir strákar *tjekk*, sykurpopp *tjekk*) en eru svo miiiiiklu betri tónsmíðar en þetta. Danir ættu ekki að vera alltof bjartsýnir í ár, held ég!

danmork_lighthousex

Yfirferð laga 2016 – 31/43 Búlgaría

pizap.com14594232060141

Lag og flytjandi: Poli Genova – If Love Was A Crime
Besti árangur: 5. sæti 2007 – Water
Umfjöllunarefni í þremur orðum: „Ósigrandi glæpamenn ástarinnar
Uppáhaldið okkar:  Hann Miro okkar – Angel Si Ti

Eyrún segir: Um leið og lagið byrjar heyrir maður strax að þetta er nútímalegt popplag með hljóðeffektum sem trenda núna, en líka bara vel samið af fjölþjóðlegu lagahöfundateymi. Poli er líka stórkostlegur listamaður og Na Inat frá 2011 náttúrulega klassík. Ég er mjög hrifin af þessu lagi og finnst það eiga fullt erindi í toppbaráttuna. Áfram Poli!

Hildur segir: Það er ennþá óskiljanlegt að Poli hafi ekki komist í úrslitin 2011 með Na Inat. Það var nútímalegt og skemmtilegt og Poli er frábær performer og í miklu uppáhaldi. Ég hoppaði því hæð mína þegar ég sá að hún myndi taka þátt aftur í ár. Lagið hennar í ár greip mig ekki alveg jafn hratt og Na Inat en það er virkilega vel smíðað og gott nútímapopp sem er svolítið ferskur blær í þessari keppni. Lagið er eitt af mínum uppáhalds í ár og ég vona heitt og innilega að Poli komist í úrslitin og  blandi sér í toppbaráttuna þrátt fyrir vinaleysi Búlgaríu í keppninni.

bulgaria_poli