Söngvakeppnin í 30 ár – 18. hluti: Kvenhöfundar

konur collage

Þrátt fyrir að flytjendur laga í Söngvakeppninni fái oft mesta athygli eru það höfundar laganna sem í raun keppa. Þeir bera ábyrgð á framsetningu laga sinna, sjá um að fá flytjendur, búningahönnuði og annað sem þarf til og það eru þeir sem fá verðlaunin að lokum, enda er Söngvakeppnin og Júróvisjon, lagakeppni fyrst og fremst.

Í þessu ljósi er vert að velta fyrir sér kynjahlutfalli lagahöfundanna sem keppt hafa í Söngvakeppninni eða tekið þátt í Júróvisjon fyrir Íslands hönd. Við ætlum skoða sérstaklega hlutfall kvenhöfunda í keppninni. Hér verður þó bara fjallað um lögin sem komust í keppnirnar en því miður er engin leið að vita hve margir kvenhöfundar hafa sent inn lög, því eins og kom fram í 14. hluta um valnefnd Rúv er öllum lögum sem ekki komast áfram eytt.

Lagafjöldi
Frá árinu 1986 hafa 292 lög keppt í Söngvakeppninni, eða verið valin til þátttöku í Júróvisjon. 27 þeirra eru eingöngu eftir konur en auk þess eru 17 lög til viðbótar þar sem höfundar eru af báðum kynjum. Það eru því 44 lög af 292 sem samin eru af konum í Söngvakeppninni eða sem framlag Íslands í Júróvisjon, eða 15%.

Ef litið er til textagerðar hækkar hlutfallið aðeins en tæplega 18% texta í Söngvakeppninni eru samdir af konum eða í samvinnu karla og kvenna.

Þróunin
Á fyrstu árum keppninnar voru konur í algjörum minnihluta lagahöfunda. Ein kona er meðhöfundur að lagi frá 1986 en það var ekki fyrr en árið 1990 að kona sást aftur í lagahöfundahópnum. Það var Bergþóra Árnadóttir sem flutti eigið lag og texta. Engin kona var meðal höfunda í keppninni 1991 en Herdís Hallvarðsdóttir átti lag og texta í keppninni 1992. Árið 1993 voru í fyrsta skipti tvær konur höfundar í sömu keppni. Ingunn Gylfadóttir átti tvö lög í keppninni sem hún samdi í félagi við Tómas Hermannsson auk þess sem Katla María Hausmann flutti eigið lag. Árið 1994 flutti Anna Mjöll Ólafsdóttir eigið lag og texta í þriggja laga keppni auk þess sem lag hennar og pabba hennar Ólafs Gauks var valið úr innsendum lögum til keppni í Júrovisjon árið 1996.

Á árunum 1997-2005 voru konur lítt áberandi sem lagahöfundar og bara ein og ein sem skaut upp kollinum í keppnunum eða vali. Þegar Söngvakeppni Sjónvarpsins var endurvakin árið 2006 var það sama upp á teningum. Tvær konur eru skráðir lagahöfundar árin 2006 og 2007. Árið 2008 þegar Laugardagslögin voru kynnt til sögunnar varð nokkur breyting á. Níu lagahöfundar voru valdir til þátttöku og þar af voru fjórar konur þær Hafdís Huld, Svala Björgvins, Fabúla og Andrea Gylfadóttir. Aðeins eitt af þeim sex lögum sem voru valin áfram úr innsendum lögum það ár var eftir konu og því í heildina fimm af 15 lagahöfundum í keppninni það árið konur, eða 33%.

Breyting eftir 2008
Eftir Laugardagslögin þar sem fjöldi kvenhöfunda var hlutfallslega mun hærri en áður hafði verið, var von um að hlutfall þeirra hækkaði næstu ár. Þó var þó ekki því að árin 2009-2011 var fjöldi kvenhöfunda eins og áður einn til tveir höfundar í keppni. Breyting varð þó árið 2012. Þá voru kvenhöfundar fjórir að þremur lögum. Þar af átti Gréta Salóme lag og texta tveggja laga. Annað lag Grétu vann þetta árið og var það í fyrsta skipti sem lag eingöngu eftir konu var framlag Íslendinga í Júróvisjon. Á árunum 20132015 voru kvenhöfundar á bilinu 2-4 í hverri keppni og því ekki veruleg breyting. Í reglum Söngvakeppninnar frá 2014 var reyndar kveðið á um það að halda ætti jöfnu kynjahlutfalli lagahöfunda en greinin í reglunum þótti óheppilega orðuð og fallið var frá því að jafna kynjahlutfallið algjörlega en heldur leitast við að jafna það eftir bestu getu. Það tókst þó ekki sem skyldi því að einungis tvö lög voru eftir kvenhöfunda í keppninni og fimm textar.

Í ár hefur orðið gjörbreyting á en átta konur eru höfundar, einar eða í teymi, sjö laga af 12 í keppninni og það í fyrsta skipti sem meirihluti laga í keppninni eru eftir konur.

Hvað svo?
Ísland skorar oft hátt á jafnréttisskalanum og jafnrétti kynjanna telst með því betra í heiminum hér á landi. Þrátt fyrir það er greinilegt að konur bera skarðan hlut frá borði í Söngvakeppninni, hvort sem ástæðan er að þær sendi ekki lög inn eða þær séu síður valdar. Þrátt fyrir breytingar og aukið hlutfall kvenlagahöfunda, með sérlega góðum árangri í ár, er þó enn langt í land með að jafnvægi á milli kven- og karlhöfunda í keppninni verði algjört.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s