Söngvakeppnin í 30 ár – 15. hluti: Laugardagslögin

laugardagslogin

Það er ekki hægt að rifja upp sögu Söngvakeppninnar án þess að minnast sérstaklega á Laugardagslögin. Eftir að Söngvakeppni Sjónvarpsins var endurvakin 2006 og tvær keppnir með svipuðu sniði árin 2006 og 2007, blés RÚV til algjörlega nýs fyrirkomulags keppninnar. Sett var á fót keppni þar sem bæði var opið fyrir að senda inn lög sem og að höfundar voru fengnir til að semja lög sérstaklega og úr varð laugardagsskemmtiþáttur í fimm mánuði!

Fyrirkomulagið
Níu lagahöfundum var boðið að vera með í keppninni og átti hver þeirra að koma með þrjú lög til keppni. Þá var opið fyrir aðra að senda inn lög og voru af þeim 146 lögum sem bárust voru valin sex lög til keppni. Það voru því í heildina 33 lög sem kepptu. Keppnin hófst laugardaginn 6. október 2007 og endaði með úrslitakvöldi laugardagskvöldið 23. febrúar 2008. Samtals voru þetta 19 þættir og því lengsta undankeppni fyrir Júróvisjon árið 2008 og lengsta undankeppni sem haldin hefur verið hérlendis.

Keppnin var nokkuð flókin en í byrjun kepptu 3 lög í hverjum þætti og kaus almenningur eitt lag áfram í undanúrslit símakosningar. Samtals voru þetta 11 þættir og því 11 lög komin í undanúrslit. Til að velja 12. lagið í undanúrslitin var leitað til hlustenda Rásar 2 sem völdu 11 af þeim 22 lögum sem eftir voru í keppninni til að keppa á Leifs heppna kvöldi (e. wild card). Sigurlag þess þáttar varð því 12. lagið í undanúrslitunum.

Undanúrslitaþættirnir voru fjórir og áfram kepptu þrjú lög í hverjum þætti og komust tvö af þeim áfram í úrslitin sjálf og voru því átta lög sem kepptu loks til úrslita.

Lagahöfundarnir
Í heildina voru það 15 lagahöfundar sem kepptu í Laugardagslögunum. Eins og áður segir voru níu þeirra valdir af Sjónvarpinu og þeir beðnir um að semja þrjú lög hver. Þessi níu höfundar voru afar fjölbreyttur hópur en þeir voru: Andrea Gylfadóttir, Barði Jóhannsson, Guðmundur Jónsson, Gunnar Lárus Hjálmarsson, Hafdís Huld Þrastardóttir, Magnús Eiríksson, Magnús Þór Sigmundsson, Margrét Kristín Sigurðardóttir (Fabúla) og Svala Björgvinsdóttir

Höfundar þeirra sex laga sem komust áfram úr innsendum lögum voru:
Áslaug Helga Hálfdánardóttir, Davíð Þór Olgeirsson, Hallgrímur Óskarsson, Hjörleifur Ingason, Þórarinn Freysson  og Örlygur Smári.

Alls voru átta höfundar sem komust áfram í úrslitin og átti því enginn höfundur tvö lög í úrslitum. Af lagahöfundum níu sem boðin var þátttaka komust sex áfram í úrslitaþáttinn, þau Barði, Guðmundur, Gunnar, Hafdís, Magnús Eiríks og Margrét. Það voru því tveir höfundar sem sendu inn lög sem komust í úrslitin, þeir Davíð Þór og Örlygur Smári.

Lögin í úrslitum
Eftir hina löngu og ströngu keppni 33 laga voru það átta lög sem kepptu á úrslitakvöldinu sem haldið var í Vetrargarðinum í Smáralind. Lögin voru nokkuð fjölbreytt enda höfundahópurinn sem og flytjendahópurinn fjölbreyttur. Fyrirfram þóttu lög Barða og Örlygs Smára sigurstranglegust auk þess sem Dr. Spock og Baggalútur vöktu athygli og margir hrifnir af lagi Fabúlu í flutningi Ragnheiðar Gröndal.

Fátt kom á óvart í úrslitakeppninni en sigurstranglegustu lögin, Ho ho ho we say hey hey hey eftir Barða og Fullkomið líf eftir Örlyg Smára, lentu eins og flestir muna í 2. og 1. sæti. Dr. Spock kom þó nokkuð á óvart í 3. sætinu. Regína Ósk og Friðrik Ómar undir nafni Eurobandsins báru sigur úr bítum og fluttu lagið This is my life í Serbíu og voru fyrsta framlag Íslendinga til að komast upp úr forkeppninni.

Ragnhildur og Gisli

Ragnhildur Steinunn og Gísli Einars, kynnar Laugardagslaganna

Gagnrýni úr öllum áttum
Það voru alls ekki allir á eitt sáttir um Laugardagslögin. Strax í upphafi heyrðust gagnrýnisraddir um að þátturinn væri bæði leiðinlegur og langdreginn. Strax eftir fyrsta þáttinn ritaði Reynir Traustason pistil í DV þar sem hann lýsti skoðunum sínum á þættinum og var ekki par hrifinn. Þegar líða tók á heyrðust fleiri gangrýnisraddir og þótti mörgum lopinn teygður um of í vali á framlagi Íslands í Júróvisjon. Ekki voru allir ósáttir og bentu margir á að ekki mætti einblína of mikið á forvalið fyrir Júróvisjon heldur þyrfti að horfa á þetta sem skemmtiþátt í sjónvarpi.

Margir viðruðu einnig skoðanir sínar á kynnunum keppninnar sem voru þau Ragnhildur Steinunn og Gísli Einarsson. Strax í upphafi var bent á að Ríkissjónvarpið ofnotaði Ragnhildi sem virtist vera allt í öllu og sumum þótti Gísli ekki eiga heima í þætti sem þessu, hann stæði í skugganum af Ragnhildi sem stæði sig vel eða væri eins og Reynir Traustason sagði: ,,Spyrillinn Gísli Einarsson, sem er yfirburðasjónvarpsmaður að öllu jöfnu, var eins og jólasveinn á útihátíð um verslunarmannahelgi.“ (DV, 9. október 2007, bls. 22). 

Það var ekki bara þátturinn sem slíkur og kynnarnir sem fengu gagnrýni. Magnúsi Eiríkssyni þótti hann til að mynda hafa verið plataður í forkeppni fyrir Júróvisjon og haft var eftir öðrum höfundum, þó nafnlaust, í Fréttablaðinu að þeir væru á sama máli og Magnús. Allir tóku þó þátt og virtist Magnús hafa náð sáttum um þetta því að í spurningu dagsins í Fréttablaðinu þann 17. október segir hann: ,,Nei nei ég vissi nú hvað hékk á spýtunni og verð að segja að þetta er í raun mjög gott framtak hjá RÚV.“

Loks var það safnplatan Laugardagslögin 2008 sem fékk gagnrýni. Bæði voru flytjendur ósáttir við að ekki hefði verið samið við þá sérstaklega um flutning þeirra á plötunni auk þess sem platan fékk skelfilega útreið gagnrýnandans Atla Bollasonar í Morgunblaðinu 23. mars 2008 undir fyrirsögninni Laugardagslygin.

laugardagslygin

Metáhorf
Þrátt fyrir gagnrýnisraddir voru Laugardagslögin gríðarlega vinsæl. Eftir fyrsta mánuðinn mældist áhorf á Laugardagslögin 46% en það fór stigvaxandi og náði hámarki í undankeppnunum og úrslitakeppnunum þegar áhorfið var í kringum 60%. Þá fóru all nokkur lög úr úrslitunum á Lagalistann og sat sigurlagið This is my life meðal annars í 1. sæti í nokkrar vikur. Platan með lögunum úr keppninni varð einnig vinsæl og var söluhæsta platan í 5 vikur eftir keppni.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s