Söngvakeppnin í 30 ár – 14. hluti: Valnefnd RÚV

top-image-larcker-boards-failing-0415
ATHUGIÐ - pistill um hitamálið sem er val á lögum í Söngvakeppnina!

Eins og aðrir júróvisjón-aðdáendur finnst okkur afskaplega áhugavert að spá í val á lögum í keppnir, ekki síst í Söngvakeppnina. Það ríkir ákveðin dulúð yfir hinni ónafngreindu valnefnd RÚV sem sigtar úr lögin sem við fáum svo að heyra í Söngvakeppninni. Á hverju ári fer af stað umræða um þessa valnefnd sem fólk telur yfirleitt að standi sig alls ekki að velja lögin í keppnina – sú umræða er einkar hávær nú í ár, að okkar mati. Við fórum því á stúfana og grófum eftir upplýsingum um hvernig vinnu valnefndar er háttað. Við fengum innanbúðarfólk* á RÚV til að leysa frá skjóðunni um hvernig val á lögum í Söngvakeppnina fer fram:

Hver skipar í valnefndina?

Framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar, sem frá haustinu 2012 hefur verið Hera Ólafsdóttir, ræður til sín fólk í valnefnd. Framkvæmdastjórinn ráðfærir sig við dagskrárdeild, dagskrárstjóra og framkvæmdastjóra RÚV. Framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar hefur þó yfirumsjón með öllu þessu ferli.

Hverjir sitja í valnefnd?

Samsetning hópsins er þannig að FÍH skipar tvo aðila, FTT tilnefnir tvo og framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar skipar einn til tvo fyrir hönd RÚV, karl og konu. Alls sitja yfirleitt sjö manns í valnefndinni. Ef aldurs- eða kynjahlutföllin eru ekki rétt miðast val RÚV við það. Þetta er gert nafnlaust og enginn veit hver verður valinn, sem er gert til að fólk fái frið. Formaður valnefndar og umsjónarmaður valferlisins hefur frá árinu 2000 verið Jónatan Garðarsson.

Hversu lengi má nefndarmaður sitja í valnefndinni?

Sami hópur situr ekki í valnefnd tvö ár í röð. Einstaklingarnir sem sitja í valnefnd geta komið inn aftur síðar en engin regla er á því.

Hvernig fer valið fram?

Höfundar senda inn lög undir dulnefni. Áður en innsending laga varð algjörlega rafræn var geisladiskum með innsendum lögum raðað í kassa og umslögin með réttum nöfnum höfunda var haldið frá. Leyninafn og texti lagsins fylgdu diskunum.

Þegar valnefndin kemur saman og hellir sér í fyrsta rennsli á lögunum eru lögin flokkuð í A, B og C-flokka: A er inni, B er skoðað aftur og C er úti. Öll lög sem fá C-stimpilinn eru strax tekin til hliðar og sett í kassa. Sá kassi er yfirleitt aldrei snertur aftur. Næst er B-flokkurinn tekinn aftur fyrir og sortérað úr honum og þau lög sem fengið hafa B-stimpilinn eru sett í sérkassa sem hægt er að leita í aftur. Yfirleitt er hlustað á öll B-in og A-in oftar en einu sinni. Fyrsta rennsli næst venjulega á einum degi. Í öðru rennsli er gagnrýnin orðin harðari; A er pottþétt inni, B er nánast ekki inn og C er fullkomnlega úti.

Hver valnefndarmaður skrifar sínar athugasemdir hjá sér og flokkar eftir sínu kerfi og nefndarmenn eru lítið að bera saman bækur sínar.

Til þess að fjöldinn verði viðráðanlegur þarf valnefndin að skera öll innsend lög niður í 25-50 lög. Þegar búið er að því er komið að úrslitastundu, þá er einkunnagjöf og þá er það bara eins og í keppninni sjálfri: 1-7, 10 og 12. Kosningin fer aftur fram ef 2 eða 3 lög lenda í sama sæti. Lagalistinn er svo settur upp í skjal frá 1. sæti og niður úr. Formaður valnefndar gengur frá þessu skjali og þeim lögum sem eiga að fylgja, setur allt saman í kassa og afhendir þeim aðila sem sér um umslögin með réttum heitum höfunda.

Hvenær fer valið fram?

Valnefndin hittist í Efstaleitinu. Yfirleitt er helgi tekin í valið; dagurinn hefst kl. 08 og setið við til kl. 18. Ef valið næst ekki á tveimur dögum er nokkrum kvöldum bætt við. Þó er ekki setið sleitulaust við, heldur unnið í törnum og pásur teknar til að hreinsa hugann og ekki síður eyrun!

Leggur valnefndin áherslu á fjölbreytileikann?

Valnefnd er ekki sett fyrir að hafa lögin sem fjölbreyttust, en horfa fremur í styrk þeirra og hvort melódían gangi upp. Þess vegna er lagt upp úr því að fá fagfólk úr bransanum til að meta lögin og greina kjarnann frá hisminu því lögin eru afskaplega ólík og mismikið unnin þegar þau eru send inn í keppnina.

Ef hins vegar valið verður of einsleitt, þá er í reglum Söngvakeppninnar að framkvæmdastjórn hefur vald til þess að hafa áhrif eða breyta ef hún telur að einhverju þurfi að breyta, en samkvæmt okkar heimildum hefur það ekki gerst.

Hvað gerist eftir að valnefndin hefur lokið störfum?

Framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar ber ábyrgð á að fara í gegnum skjal valnefndarinnar, tengja lögin við rétt nöfn höfunda og fara að reglum keppninnar sem snúa að höfundum; Íslendingur þarf að vera í höfundateymi og fólk komið með lögaldur o.s.frv. Farið er kerfisbundið yfir skjalið frá efsta sæti og niður úr og hringir í viðkomandi höfunda til að bjóða þeim þátttöku og að koma á fyrsta fund. Á þeim fundi eru línur lagðar fyrir þátttöku og farið yfir reglur keppninnar. Ef höfundar ganga ekki að þeim reglum fá þeir ekki að taka þátt og haft er samband við höfund næsta lags á lagalistanum. Ef allt um þrýtur, hefur framkvæmdastjóri keppninnar einnig undir höndum listann yfir lögunum sem sett voru í B-flokk. Í slíkum tilvikum hefur komið upp að inn komi nýr hópur til að hlusta á lögin sem komust áfram (A) og þau lög sem ekki komust áfram (B og C), til að sjá hvort valnefnd hafi yfirsést eitthvað. Þessi hópur hefur verið skipaður starfsfólki RÚV.

Hvað verður um lögin sem standa út af borðinu?

Lögum sem ekki eru valin er eytt. Geisladiskum er eytt á lögbundinn hátt og í reglunum eru höfundar látnir vita að þeir fái lögin ekki til baka. Engir listar eru heldur haldnir yfir þá sem hafa sent inn lög samkvæmt heimildum okkar. Með þessu leyninafnakerfi verður spenna yfir tilkynningum um höfunda og yfirleitt er það á fárra vitorði fram að tilkynningu. Lög hafa verið send oftar en einu sinni inn og jafnvel verið tekin inn í Söngvakeppnina í annarri eða þriðju tilraun.

Hvetur RÚV einstaka höfunda til að taka þátt?

Í gegnum tíðina hefur RÚV hvatt einstaka höfunda til að taka þátt með einum eða öðrum hætti, og það er í reglum keppninnar að framkvæmdastjórn hefur leyfi til þess, í þeim undantekningartilvikum þegar fyrirsjáanlegt er að fá boðleg lög eru í keppninni, að leita beint til höfunda og bjóða þeim þátttöku í keppninni. Yfirleitt er sá varnagli settur að lagið þurfi að vera samþykkt áður en það er tekið inn í keppnina, s.s. ekki rata óheyrð lög eftir umbeðna höfunda beinustu leið í keppnina heldur þurfi að fara í gegnum einhvers konar innanhúss síu á RÚV. Í gegnum tíðina hafa ungir höfundar verið hvattir til að taka þátt sem og árið sem kynjakvóti í höfundateymi var næstum því settur á.

Við vonum að þetta hafi gefið lesendum síðunnar ákveðna innsýn í vinnubrögð valnefndar fyrir Söngvakeppnina!

*Heimildarmenn: Hera Ólafsdóttir og Jónatan Garðarsson.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s