Söngvakeppnin í 30 ár – 11. hluti: Hr. Bó

bjorgvin_halldorsson

Mynd: dv.is

Björgvin Halldórsson þekkja allir og þá sérstaklega áhugafólk um Söngvakeppni Sjónvarpsins. Björgvin setti heldur betur svip sinn á Söngvakeppnina á fyrstu árum hennar og raunar allt til ársins 1995 þegar hann flutti lagið Núna fyrir okkar hönd í Júrovisjon. Björgvin kom víða við, söng fjölbreytt lög sem oftar en ekki hafa lifað með okkur alla tíð síðan.

Tölfræðin
Það eru fáir, ef nokkur, sem hefur flutt eins mörg lög í Söngvakeppninni eins og Björgvin. Á árunum 1986-1992 flutti hann heil 11 lög, jafnvel þó hann hafi ekki keppt árið 1991. Þetta eru að meðaltali tæplega tvö lög í hverri keppni. Fjögur þessara laga hefur hann flutt í dúett en hin sjö flutti hann einn. Tvo af dúettunum flutti Björgvin með Ernu Gunnarsdóttur sem einnig setti svip sinn á Söngvakeppnina fyrstu árin. Þá söng hann einn dúetanna með Eddu Borg Ólafsdóttur og einn með Kötlu Maríu.

Bjorgvin_tilthrif

Mynd: Dagur 11. feb. 1986, bls 5.

Upphafið
Þegar Söngvakeppnin var haldin árið 1986 voru fengnir nokkrir af þekktari söngvurnum þjóðarinnar til að flytja þau lög sem komust í úrslit. Björgvin að sjálfsögðu á meðal þeirra og hafði hann á þeim tíma verið einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar í meira en 15 ár. Björgvin söng í þessari fyrstu keppni þrjú lög, Með vaxandi þrá eftir Geirmund Valtýsson, í félagi við Ernu Gunnarsdóttur, Ef eftir Jóhann G. Jóhannsson og Ég lifi í draumi eftir Eyjólf Kristjánsson. Síðastnefnda lagið varð, þrátt fyrir að vinna ekki keppnina, eitt af vinsælli dægurlögum þjóðarinnar og lifir enn. Áður en keppnin hófst 1986 var það þó lagið Ef sem þótti hvað sigurstranglegast og rataði það efst í könnun sem DV stóð fyrir.

Flestirviljaadefsigri_1986

1987-1992
Björgvin mætti aftur til leiks í Söngvakeppnina 1987. Keppnisreglum hafði verið breytt og nú voru það höfundar laganna sem völdu flytjendur en ekki Ríkissjónvarpið. Það kom líklega fáum á óvart að Björgvin tók aftur þátt í keppninni með poppi og prakt og söng líkt og árið áður þrjú lög. Aftur söng hann eitt lag í dúett með Ernu Gunnarsdóttur en það var lagið Lífsdansinn eftir Geirmund Valtýsson. Hin lögin tvö, Mín þrá og Ég leyni minni ást voru bæði eftir Jóhann G. Jóhannsson. Lífsdansinum gekk best af lögunum þremur og lenti í 4. sæti með 55 stig. Lagið er líklega það sem hefur lifað hvað best af lögum Björgvins úr keppninni þetta árið. Uppáhaldið okkar hér á AUJ er þó án efa þetta:

Björgvin söng í næstu tveimur keppnum. Árið 1988 flutti hann lagið Í tangó ásamt Eddu Borg Ólafsdóttur og árið 1989 söng hann lagið Sóley ásamt Kötlu Maríu. Í hvorugt skiptið var árangurinn til að  hrópa húrra fyrir, Sóley lenti í 4. sæti af fimm lögum og Í tangó lenti í 5. sæti af tíu lögum, með 55 stig en sigurlagið árið 1988, Þú og þeir, hlaut fullt hús stiga eða 96 stig.

Þegar komið var til ársins 1990 söng Björgvin tvö lög, Sú ást er heit eftir Magnús Þór Sigmundsson og Til þín eftir Gunnar Þórðarson. Keppnin var nú með nýju sniði, tvær undankeppnir og loks úrslitakvöld. Bæði lög Björgvins komust áfram í úrslit. Áfram var þó heppnin ekki beint með Björgvini því lögin lentu í 3. og 4. sæti og áttu ekki roð í sigurlag keppninnar, Eitt lag enn, þrátt fyrir að Til þín hafi fengið öll 21 stig 9. dómnefndarinnar svokölluðu en það var dómnefnd skipuð fagfólki úr tónlistarbransanum sem gaf aðeins einu lagi stig.

Árið 1991 tók Björgvin sér hlé frá Söngvakeppninni en ári seinna mætti hann enn á ný og nú í fyrsta skipti með eigin lag og texta. Lagið Mig dreymir var í toppbaráttunni en aftur varð Björgvin að játa sig sigraðan fyrir Stjórnarfólkinu því lagið Nei eða já hlaut sigur úr býtum.

Bjorgvin_halldorsson_itango

Förin til Dublin
Í gegnum árin þótti mörgum að Björgvin hefði átt að fara í Júróvisjon fyrir hönd Íslands, helst mörgum sinnum. Strax í fyrstu keppninni 1986 var rætt um hann sem okkar besta fulltrúa, jafnvel áður en tilkynnt var um hverjir myndu flytja lögin í keppninni. Mörg lög hans úr Söngvakeppninni hafa lifað góðu lífið meðal landans og jafnvel orðin að klassík. Standa þar hæst draumalögin tvö, Ég lifi í draumi og Mig dreymir.

Árið 1995 þegar ákveðið var í fyrsta skipti af RÚV að blása ekki til forkeppni að neinu tagi til að velja framlag Íslands í Júróvisjon, lá því nánast beinast við að leita til Björgvins. Bjögvin fékk að velja úr nokkrum lögum og var þannig söngvarinn valinn á undan laginu. Lagið Núna eftir Björgvin og Ed Welch varð fyrir valinu og ekki voru allir á eitt sáttir við að útlendingar kæmu að framlagi Íslands. Ed Welch er breskur og útsetjari lagsins var írskur. Í Helgarpóstinum var meðal annars haft eftir Magnúsi Kjartanssyni að það væri svartur dagur í íslenskri tónlistarsögu þegar íslenskir höfundar væru ekki nógu góðir fyrir Júrovisjon.

Allt fór þó vel að lokum, Björgvin og félagar fluttu lagið með prýði í Dublin og enduðu í 15. sæti. Björgvin hefur ekki komið að Söngvakeppninni eftir förina til Dublin en útilokað er að fullyrða að hann hafi sungið sitt síðasta í þeirri keppni.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s