Söngvakeppnin í 30 ár – 6. hluti: Í upphafi var…

Þjóðviljinn 04.05.1985-99.tbl.

Bls. 7 í laugardagsblaði Þjóðviljans 4. maí 1985 (af timarit.is)

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum júró-áhugamanni að í ár er fagnað þrjátíu ára þátttöku Íslands í Júróvisjón-keppninni sjálfri og þar sem Söngvakeppni Sjónvarpsins hefur oftast verið það form sem notað hefur verið til að velja framlag okkar í Júróvisjón fer vel á því að hún verði vettvangur hátíðahaldanna í ár.

Upphafið að þessu öllu er þó ótrúlega forvitnilegt. Hvers vegna varð árið 1986 sérstaklega fyrir valinu? Eins og við fjölluðum um í 1. hluta var fyrsta Söngvakeppni Sjónvarpsins sem haldin var með svipuðu sniði og Júróvisjón haldin í febrúar og mars 1981. Í samtali okkar við Rúnar Gunnarsson, fyrrum dagskrárgerðarmann á RÚV sem var einn af aðstandendum keppninnar 1981 kom fram að sú keppni hafi orðið til að brjóta ísinn í umræðunni um þátttöku í Júróvisjón og sýna efasemdarmönnum að Ríkissjónvarpið stóð fyllilega undir þeim kröfum að framleiða tónlistarkeppni í beinni útsendingu í sjónvarpi. Margir hafi velt fyrir sér hvers vegna Af litlum neista hafi ekki verið valið sem framlag í Júróvisjón fyrst svo vel hafi verið staðið að vali lags árið 1981.

Vísir 17.3.1981-63.tbl.

Vísir 17. mars 1981, bls. 2 (af timarit.is)

 

Ef rýnt er í fundargerðir útvarpsráðs, undanfara stjórnar RÚV ohf. sem hafði allt um dagskrármál stofnunarinnar að segja frá 1985-2007, er greinilegt að fjárhagslegar þrengingar hafa verið ein aðalástæða þess að flutningur á sjónvarpsefni frá Evrópu með notkun jarðstöðvarinnar Skyggnis við Úlfarsfell hófst ekki fyrr en haustið 1980. Eins og Jónatan Garðarsson bendir á í inngangi sínum (Gleðibankabókin 2011, 11) var eitt meginskilyrða þess að fá að taka þátt í Júróvisjón að geta sýnt beint frá keppninni í þátttökulöndunum því að atkvæðagreiðslan fór fram um leið og keppnin var haldin.

Á fundi útvarpsráðs 10. október 1980 var áréttað að stefnt yrði að því að „nýta jarðstöðina til flutnings sjónvarpsefnis, svo fljótt sem auðið er“ og „að gerður verði samningur við Evróvisjón um fulla aðild Ríkisútvarpsins að samtökunum, og um nýtingu hinna daglegu fréttasendinga þeirra.“ Í byrjun árs höfðu tæki til að taka við efni frá Skyggni ekki enn verið keypt því að „reynt hefði verið að semja við Landsímann í fyrravor, sem teldi sig ekki geta boðið lægra verð en $1500 á dag, sem þætti of hátt, miðað við fjárhagsgetu Ríkisútvarpsins.

Ef ekki hafði verið leyst úr þessum útsendingarmálum í fjarskiptasambandi við Evrópu í janúar 1981 er ómögulegt að ætla að sigurlag innanhússkeppni á vegum RÚV (sem var jú í beinni útsendingu) í mars þar á eftir hafi fengist samþykkt sem framlag Íslands í þá keppni. Eins og við vitum núna skuldbindur þátttökuland sig til að skila framlagi fyrir ákveðinn tíma ár hvers og hefur það verið í kringum 15. mars. Að auki krefst þátttaka heilmikils undirbúnings og við þekkjum það að undirbúningsferlið á RÚV hefst strax að hausti fyrir komandi keppni á nýju ári.

Úr þessum tæknilegu vandkvæðum var leyst á næstu misserum á eftir því að fram kemur í fundargerð útvarpsráðs frá 11. mars 1983 að samþykkt sé að sýna beint frá Júróvisjón-keppninni í Munchen í Þýskalandi.

Rúmu ári seinna, 24. ágúst 1984, er hugsanleg þátttaka aftur á borði útvarpsráðs og niðurstaða fundarins verður að „ekki er talið tímabært að íslenska sjónvarpið taki þátt í söngvakeppni sjónvarpsstöðva í Evrópu árið 1985. Málið verði þó kannað áfram, m.a. með því að senda fulltrúa frá Sjónvarpinu til að fylgjast með framkvæmd keppninnar í Gautaborg á næsta ári.“

Þessi niðurstaða var rædd í fjölmiðlum og þótti nokkuð fréttnæm eins og sést hér í grein á annarri síðu Morgunblaðsins daginn eftir fund útvarpsráðs, 25. ágúst 1984:

Morgunblaðið 25.08.1984.191.tbl.

Umrætt ár, 1985, var sýnt beint frá Júróvisjón-keppninni í sjónvarpi og hún send út samtímis á Rás 2.

Breytingar voru gerðar á starfsemi innlendrar dagskrárgerðar á RÚV í júní 1985. Á haustfundi útvarpsráðs 17. september var umræða um skýrslu starfsmanna og fulltrúa FTT á Júróvisjón-keppnina 1985 í Gautaborg. Seinna sömu viku fundaði ráðið aftur og ræddi Markús Örn Antonsson þá um að „það ætti að láta reyna á það innan EBU hvort aðstæður hér leyfðu þátttöku Ríkisútvarpsins“.

Í vikunni þar á eftir, 27. september 1985, samþykkti útvarpsráð svo formlega að sækja um aðild að Eurovision-söngvakeppninni „með fyrirvara og án skuldbindinga, til að að gera sér grein fyrir kostnaði við slíka þátttöku.“ Í lok október var útvarpsráði skýrt frá því að EBU hefði samþykkt þátttöku Ríkisútvarpsins í Júróvisjón.

Í byrjun árs var kynntur fyrir útvarpsráði fjárhagsrammi að söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og þrátt fyrir að þessi áætlun væri bókuð „djarfhuga“ í fundargerð útvarpsráðs voru tillögur Hrafns Gunnlaugssonar yfirmanns dagskrárdeildar samþykktar efnislega – með fyrirvara um kostnað. Í kjölfarið var ákveðið að gera forkeppninni fyrir Júróvisjón mjög góð skil í dagskránni, bæði sjónvarps og á báðum rásum útvarpsins. Fullvíst er að kynningarmálum voru gerð góð skil ef marka má bókun útvarpsráðs á fundi 14. febrúar sem segir að söngvakeppni sjónvarpsstöðva „væri á hverju kvöldi og borin upp tillagan um að poppþættir í dagskrá frá 7.-16. mars verði felldir niður á meðan á söngvakeppninni stendur.

Að mati útvarpsráðs má greinilega öllu ofgera 🙂

Nánar um undirbúning og framkvæmd keppninnar 1981 er að finna í áðurbirtum pistli okkar (1. hluta). Fyrir forvitna bendum við á safnadeild RÚV þar sem hægt er að leita í gagnagrunnum, skoða og hlusta á dagskrárefni á staðnum. Við höfum svo sannarlega eytt þar löngum stundum sem er alltaf jafngaman!

TÍMINN 19.01.1986 - 14.tbl.

Tíminn, 19. janúar 1986, bls. 2 (af timarit.is)

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s