Nú er ekki annað hægt en að koma sér niður af bleika skýinu sem við höfum verið á frá því á laugardagskvöldið – þvílík afmælisveisla sem RÚV bauð áhorfendum upp á! Við vorum báðar í salnum og himinlifandi að upplifa lifandi flutning frá Loreen og gráta yfir opnunaratriðinu!
Við tekur nú örstutt greining á því ári Söngvakeppninnar sem minnir ótrúlega um margt á Söngvakeppnina 2012, að því leyti að Greta Salóme Stefánsdóttir spilaði stóra rullu í báðum keppnum og bar tvöfaldan sigur úr býtum!
Í samanburðinum kemur þetta fram:
2012: Tvö lög á fyrsta og þriðja undanúrslitakvöldi (Mundu eftir mér með Jónsa á fyrsta kvöldi, og Aldrei sleppir mér með Heiðu og Guðrúnu Árnýju á því þriðja)
2016: Tvö lög á hvoru undanúrslitakvöldi fyrir sig (Raddirnar/Hear them calling í eigin flutningi á fyrra kvöldinu og Elísabet Ormslev með Á ný á síðara undankvöldinu).
– Sigurlag Gretu flutt á fyrra/fyrsta undankvöldi bæði árið 2012 og 2016.
– Bæði árin ,,veðjar” Greta frekar á lagið sem reynist sigursælla; 2012 dregur hún sig út úr tríóinu Aldrei sleppir þér til að „minnka álagið“ eins og fram kemur í viðtali við Fréttatímann – og í ár, 2016, má leiða líkum að því að sú ákvörðun að velja að flytja annað lagið en ekki hitt á ensku í úrslitunum hafi haft sitt að segja.
– Sigurinn bæði árin er naumur en sannfærandi. Árið 2012 stóðu Greta og Jónsi að lokum efst á móti Bláum Ópal og laginu Stattu upp. Greta og Jónsi hlutu 18.649 atkvæði frá áhorfendum í gegnum símakosningu en Blár Ópal fékk 19.366 atkvæði. Atkvæði dómnefndar réðu því úrslitum en dómnefnd setti þau í fyrsta sæti en Bláan Ópal í það þriðja. Í ár var bilið milli Gretu og Öldu Dísar ögn meira eftir einvígið en óstaðfestar fréttir herma að heildarfjöldi atkvæða á milli þeirra eftir einvígið hafi verið um 40.000 atkvæði á móti 25.000 atkvæðum.
– Árið 2012 sagði Greta í viðtölum að Mundu eftir mér hefði verið samið í Skálholti undir sterkum áhrifum af sögunni um forboðnar ástir Ragnheiðar biskupsdóttur og Daða Halldórssonar. Lag hennar í ár, Raddirnar, ber svipaða dulúð yfir sér en hefur þó óræðari túlkun og Greta segir sjálf að innblástur lagsins sæki hún til Íslands.
– Í kjölfar sigursins 2012 fóru raddir að heyrast sem líktu lagi Gretu við lag Heimis Sindrasonar frá 1998, Álfakónginn og var það flutt af Guðrúnu Gunnarsdóttur og Klöru Ósk Elíasdóttur á plötunni Sól í eldi. Aðspurð neituðu bæði Greta Salóme og Heimir höfundur Álfakóngsins nokkrum líkindum með lögunum. Greta sagðist hafa heyrt Álfakónginn í fyrsta sinn eftir keppnina og Heimir kvaðst bara nokkuð stoltur yfir þessum sögusögnum en ekki heyra nema svipaðan þjóðlegan blæ. Í ár hefur Greta einnig fengið yfir sig ýmsar misuppbyggilegar athugasemdir um stælingu á grafík Måns Selmerlöv frá í fyrra og óhemjulíkindi við lög OMAM.
Það verður að segjast að styrkur Gretu sem flytjanda og lagahöfundar sést í því hversu vel henni hefur vegnað í þau tvö skipti sem hún hefur tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Við óskum henni alls hins besta og vonum að Svíþjóðarævintýrið verði gjöfult!