Söngvakeppnin í 30 ár – 24. hluti: Tvöfaldur sigur Gretu 2012 og 2016

Nú er ekki annað hægt en að koma sér niður af bleika skýinu sem við höfum verið á frá því á laugardagskvöldið – þvílík afmælisveisla sem RÚV bauð áhorfendum upp á! Við vorum báðar í salnum og himinlifandi að upplifa lifandi flutning frá Loreen og gráta yfir opnunaratriðinu!

Við tekur nú örstutt greining á því ári Söngvakeppninnar sem minnir ótrúlega um margt á Söngvakeppnina 2012, að því leyti að Greta Salóme Stefánsdóttir spilaði stóra rullu í báðum keppnum og bar tvöfaldan sigur úr býtum!

Í samanburðinum kemur þetta fram:

2012: Tvö lög á fyrsta og þriðja undanúrslitakvöldi (Mundu eftir mér með Jónsa á fyrsta kvöldi, og Aldrei sleppir mér með Heiðu og Guðrúnu Árnýju á því þriðja)
2016: Tvö lög á hvoru undanúrslitakvöldi fyrir sig (Raddirnar/Hear them calling í eigin flutningi á fyrra kvöldinu og Elísabet Ormslev með Á ný á síðara undankvöldinu).

– Sigurlag Gretu flutt á fyrra/fyrsta undankvöldi bæði árið 2012 og 2016.

– Bæði árin ,,veðjar” Greta frekar á lagið sem reynist sigursælla; 2012 dregur hún sig út úr tríóinu Aldrei sleppir þér til að „minnka álagið“ eins og fram kemur í viðtali við Fréttatímann – og í ár, 2016, má leiða líkum að því að sú ákvörðun að velja að flytja annað lagið en ekki hitt á ensku í úrslitunum hafi haft sitt að segja.

– Sigurinn bæði árin er naumur en sannfærandi. Árið 2012 stóðu Greta og Jónsi að lokum efst á móti Bláum Ópal og laginu Stattu upp. Greta og Jónsi hlutu 18.649 atkvæði frá áhorfendum í gegnum símakosningu en Blár Ópal fékk 19.366 atkvæði. Atkvæði dómnefndar réðu því úrslitum en dómnefnd setti þau í fyrsta sæti en Bláan Ópal í það þriðja. Í ár var bilið milli Gretu og Öldu Dísar ögn meira eftir einvígið en óstaðfestar fréttir herma að heildarfjöldi atkvæða á milli þeirra eftir einvígið hafi verið um 40.000 atkvæði á móti 25.000 atkvæðum.

– Árið 2012 sagði Greta í viðtölum að Mundu eftir mér hefði verið samið í Skálholti undir sterkum áhrifum af sögunni um forboðnar ástir Ragnheiðar biskupsdóttur og Daða Halldórssonar. Lag hennar í ár, Raddirnar, ber svipaða dulúð yfir sér en hefur þó óræðari túlkun og Greta segir sjálf að innblástur lagsins sæki hún til Íslands.

– Í kjölfar sigursins 2012 fóru raddir að heyrast sem líktu lagi Gretu við lag Heimis Sindrasonar frá 1998, Álfakónginn og var það flutt af Guðrúnu Gunnarsdóttur og Klöru Ósk Elíasdóttur á plötunni Sól í eldi. Aðspurð neituðu bæði Greta Salóme og Heimir höfundur Álfakóngsins nokkrum líkindum með lögunum. Greta sagðist hafa heyrt Álfakónginn í fyrsta sinn eftir keppnina og Heimir kvaðst bara nokkuð stoltur yfir þessum sögusögnum en ekki heyra nema svipaðan þjóðlegan blæ. Í ár hefur Greta einnig fengið yfir sig ýmsar misuppbyggilegar athugasemdir um stælingu á grafík Måns Selmerlöv frá í fyrra og óhemjulíkindi við lög OMAM.

Það verður að segjast að styrkur Gretu sem flytjanda og lagahöfundar sést í því hversu vel henni hefur vegnað í þau tvö skipti sem hún hefur tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Við óskum henni alls hins besta og vonum að Svíþjóðarævintýrið verði gjöfult!

Söngvakeppnin í 30 ár – 23. hluti: Erna Hrönn

Áfram höldum við með sögu Söngvakeppninnar í 30 ár og hin síðari ár eru einstaka flytjendur sem hafa sérstaklega markað djúp spor. Við höfum nú í fyrri pistlum nefnt fjölmarga flytjendur en Erna Hrönn er ein þeirra sem þarf að taka út fyrir mengið. Ekki vegna þess að hún keppir í Söngvakeppninni í ár heldur vegna gríðarlegrar reynslu hennar sem bakrödd og þeirra sex skipta sem hún hefur tekið þátt í Söngvakeppninni. Erna hefur sérstakan sjarma, er tæknilega mjög fær söngkona og alveg dúndurhress týpa!

Erna Hrönn Ólafsdóttir er fædd á Akureyri árið 1981, gekk í Hrafnagilsskóla og sigraði söngkeppni á vegum Menntaskólans á Akureyri um aldamótin síðustu. Árið 2004 var popphljómsveitin Bermuda stofnuð og Erna Hrönn var aðalsöngkona sveitarinnar í fjögur ár. Hljómsveitin gaf út plötuna „Nýr dagur“ á gamlárskvöld 2007. Á sama tíma og hún var í hljómsveitinni lærði hún táknmálsfræði í Háskóla Íslands. Hún sagði skilið við hljómsveitina 2008 og hefur starfað sem bakraddasöngkona.

Hún hefur sungið bakraddir í Söngvakeppninni í yfir 50 og tók fyrst þátt sem slík árið 2006. Hún hefur farið út í Júróvisjón-keppnina tvisvar sinnum sem bakrödd, fyrst með Jóhönnu Guðrúnu 2009 og ári síðar með Heru Björk í Osló.

Í stuttu spjalli sem við áttum við hana fyrir keppnina 2011 sagði Erna Hrönn að fyrir henni væri Söngvakeppnin „Tónlistarveisla- Fjölbreytni- Gleði- Glamúr- Skemmtilegheit“

Fyrsta skiptið sem Erna kom fram sem aðalsöngkona í Söngvakeppninni var árið 2007 þegar hún flutti lagið Örlagadís eftir Roland Hartwell með texta Kristjáns Hreinssonar:

Næst keppti Erna með lagið Glópagull árið 2009 en lag og texti var eftir Einar Oddsson:

Í þriðja sinn sem Erna keppti söng hún sig inn í úrslitin 2011 með lag Arnars Ástráðssonar, Ástin mín eina:

Árið 2013 söng Erna Hrönn lag Sveins Rúnars Sigurðarsonar Augnablik, við texta Ingibjargar Gunnarsdóttur:

Í fyrra tók Erna þátt í fimmta skipti sem aðalsöngkona með drungalegu ballöðuna Myrkrið hljótt og samdi sjálf textann við lag Arnars Ástráðssonar.

Í ár hefur Erna Hrönn toppað fyrri árangur sinn með því að komast í úrslit Söngvakeppninnar með lagi og texta Þórunnar Ernu Clausen, I promised you then, sem hún syngur með Hirti Traustasyni:

Við getum varla sleppt því í sögulegu samhengi að minnast á svokallað PR-vidjó sem hópurinn á bak við framlagið I promised you then stendur að; að flytja lagið á táknmáli en það hefur ekki verið gert áður í Söngvakeppninni svo við vitum til. Og þar eru hæg heimatökin hjá Ernu Hrönn sem lærði táknmálsfræði:

Samhliða söngverkefnunum vinnur Erna Hrönn við dagskrárgerð á útvarpsstöðunum Bylgjunni og Létt-Bylgjunni og tekur á móti skólahópum til 365 miðla.

 

Söngvakeppnin í 30 ár – 22.hluti: 2003

Þegar litið er yfir Söngvakeppnina síðust 30 ár er ljóst að árið 2003 var haldin keppni sem að vissu leyti stóð upp úr. Blásið var til stórrar keppni á tímum þar sem samdráttur hafði verið allsráðandi og var allsráðandi næstu tvö ár á eftir.

birgitta haukdal

Birgitta Haukdal sigraði með laginu Segðu mér allt

Af hverju stór keppni 2003?
Eins og fram hefur komið í öðrum pistlum á síðunni er það ákvörðun hverju sinni á RÚV hvort blásið er til forkeppni eður ei. Ræðst það mikið til af fjármagni sem dagskrárdeild hefur úr að moða á hverju ári og hvort ráðamönnum á RÚV þyki það forsvaranlegt að eyða oft stórum hluta þess í Söngvakeppnina. Það er því forvitnilegt að velta fyrir sér af hverju blásið var til stórrar keppni þetta árið eftir mikinn samdrátt á árunum á undan og eftir.

Þegar ákveðið var að endurvekja Söngvakeppni Sjónvarpsins 2003 hafði ekki verið haldin keppni undir því nafni í 10 ár. Ýmist hafði verið valinn flytjandi eða keppnir frekar fárra laga haldnar innan í öðrum sjónvarpsþáttum eða við hreinlega ekki tekið þátt í keppninni. Sem dæmi fór valið 1994 fram í þættinum Á tali hjá Hemma Gunn þar sem þrjú lög kepptu, árið 1995, 1997 og 1999 var keppandi valinn og árið 2001 kepptu átta lög í laugardagsþætti Steinunnar Ólínu Þorvarðardóttur Milli himins og jarðar. Gengið árið 2001 var slæmt og því kepptum við ekki árið 2002.

Auglýst var eftir lögum til þátttöku í Júróvisjon um miðjan október 2002. Þegar auglýsingin fór í loftið var ekki endanlega ákveðið hvort halda ætti forkeppni eða velja úr innsendum lögum líkt og árið 1996. Stuttu eftir að auglýsingin fór í loftið var haft eftir Rúnari Gunnarssyni dagskrárstjóra innlendrar dagskrárgerðar að áhugi væri fyrir því að halda forkeppni enda hefði það fyrirkomulag reynst vel og hefði mikla þýðingu fyrir tónlistarbransann. Það varð svo úr að ákveðið var að blása lífi í Söngvakeppnina og það með pompi og prakt í þeirri von að ná betri árangri í Júróvisjon.

gisli og logi 4

Nýjungar og fjölbreytt lög
Af þeim ríflega 200 lögum sem bárust í keppnina voru 15 valin til þátttöku. Keppnin var haldin með nokkuð breyttu sniði en áður hafði tíðkast. Ekki var um nein undankvöld að ræða heldur voru öll lögin tekin upp fyrir sjónvarp og kynnt þrjú í senn í vikunni fyrir úrslitakvöldið. Öll 15 lögin kepptu svo til úrslita en þá voru þau öll flutt lifandi á sviðinu við lifandi hljóðfæraundirleik. RÚV lagði til fjögurra manna hljómsveit og gátu lagahöfundar nýtt sér hana og bætt við eftir þörfum.

Úrslitakvöldið sjálft var haldið í Háskólabíói. Þar var mikið lagt í skemmtilegt show. Í fyrsta skipti í sögu Söngvakeppninnar gafst almenningi kostur á að vera viðstaddur í salnum en selt var inn á úrslitakvöldið. Það var ekki að spyrja að áhuganum enda seldist upp! Gísli Marteinn Baldursson og Logi Bergmann Eiðsson voru fengnir til að kynna keppnina og fóru þeir á kostum. Í nýlegri kosningu FÁSES unnu þeir félagar stórsigur sem bestu kynnar í Söngvakeppninni, hlutu ríflega 50% atkvæða.

Lögin 15 í keppninni voru fjölbreytt, allt frá rokki í europopp. Enginn gleymir innkomu Botnleðju í keppnina enda hlutu þeir 2. sætið fyrir lagið sitt Eurovísa. Ungir upprennandi höfundar úr Kópavoginum ásamt þekktri söngkonu úr framhaldsskólasenunni skutu upp kollinum með eurosmellinum Sá þig sem endaði í 3. sæti. Rúnar Júlíusson tók þátt í keppninni með lag eftir Karl Olgeirsson, Ást á skítugum skóm. Þá söng Ragnheiður Gröndal lag í suðrænum stíl, Ferrari. Eivör Pálsdóttir var lítt þekkt á þessum tíma en heillaði marga með flutningi á hugljúfu lagi eftir Ingva Þór Kormásksson, Í nóttLoks fluttu Regína Ósk og Hjalti Jónsson slagarann Engu þurfum að tapa eftir Einar Örn Jónsson.

Það var svo auðvitað Birgitta Haukdal sem sigraði með lag Hallgríms Óskarssonar Segðu mér allt. 

Ekki endurtekið
Þrátt fyrir gott gengi Birgittu í Júrovisjonkeppninni í Riga um vorið var þetta fyrirkomulag á Söngvakeppninni ekki endurtekið árið eftir. Næstu tvö ár á eftir var innanhúsval á RÚV þar sem Jónsi og Selma voru fengin til að vera fulltrúar okkar í Júróvisjon. Árið 2006 var svo blásið til Söngvakeppninnar á ný en nú með fyrirkomulagi undankeppna þar sem lög keppa sig inn á úrslitakvöld.

Söngvakeppnin í 30 ár – 21. hluti: Verndardýrðlingurinn Páll Óskar

MINN-HINSTI-DANS-PRÓMÓ-MYND-19971-315x214OK, OK, við vitum alveg að Páll Óskar hefur aldrei keppt í Söngvakeppninni en hlutur hans í 30 ára sögu keppninnar eru engu að síður ótvíræður. Það er varla hægt að nefna Júróvisjón á Íslandi án þess að hugsa um Palla!

Eftir erfiðu árin um miðjan tíunda áratuginn þegar árangur íslensku laganna var slakur, fjárhagurinn bágur og allir voru að bíða eftir næstu Siggu Beinteins, eða næsta 4. sæti, var hringt í poppstjörnuna Pál Óskar og honum boðið að taka þátt með sólarhrings umhugsunarfresti. Ráðamenn á RÚV höfðu veður af því að Palli væri júróaðdáandi og í samtali við okkur sagði hann að sem slíkur hafi hann vitað að á þessum tímapunkti hafi „meistaradeildin verið hætt að spila“ með í Júróvisjón eins og hann orðaði það, það hafi því þurft að koma og taka keppnina svolítið í gegn – og það gerði hann.

Palli fékk sjálfur að útfæra lagið, textann, útsetninguna, alla útfærslu, sviðssetningu, kóreógrafíu, músíkvídeóinu; öll og vildi engar spurningar! Það er m.a. ástæðan fyrir því að það var hvítur sófi á sviðinu en slíkur leikmunur hafði ekki sést í Júróvisjón áður.

Hann var þó ekki viss um að lagið Minn hinsti dans væri væntanlegt sigurlag. En hann vissi að enginn hefði mætt með latex-búninga í keppnina eða þurft að klippa á keppanda í einhverjum löndum vegna kynferðislegra tilburða á sviðinu. En hann var sannarlega tilbúinn að rugga bátnum!

Að sögn Palla lá í loftinu að eitthvað áhugavert kæmi út úr símakosningunni sem árið 1997 var reynd í fyrsta sinn í nokkrum löndum. Eftir keppnina þar sem hann steig síðastur á svið kom í ljós að hann hafnaði í 20. sæti af 25 alls á opinberu stigatöflunni en samkvæmt símakosningunni eingöngu hefði það verið 6. sætið! Ári síðar var símakosningin tekin í notkun að fullu.

Screen Shot 2016-02-18 at 23.37.48

Myndir: palloskar.is

Þegar við spurðum Palla hvað honum fyndist um Söngvakeppnina sem forval fyrir Júróvisjón, sagði hann að í raun væri búið að reyna um það bil allt og allt hafi virkað á sama tíma og allt hafi floppað.

Aðspurður um hvort við komum til með að sjá hann í Söngvakeppninni aftur, segist Palli vera meira en reiðubúinn að keppa aftur fyrir Íslands hönd þegar rétta lagið komi til hans, en það hafi ekki gert það enn.

Við tökum innilega undir orð Palla þegar hann útskýrir hvers vegna Júróvisjón er svona stórt mál á Íslandi:

„Þetta er eins og jólin; við eigum ekki Thanksgiving, Halloween eða bank holidays eins og margar aðrar þjóðir. Við kannski tókum bara Eurovision til að búa til grillpartí, afsökun fyrir því að fjölskyldan myndi hittast og vera saman. Það vill síðan til að þessi keppni getur verið drulluspennandi stundum og gott sjónvarpsefni. Við bjuggum þessa tradisjón til og hún kikkaði inn þegar Stjórnin komst í 4. sætið og við fórum á hliðina.“

Ef Júróvisjón er hátíðisdagur, þá er verndardýrðlingur hennar svo sannarlega enginn annar en Páll Óskar. Á undanförnum árum hefur hann fengið hlutverk sem kynnir og skemmtikraftur á úrslitakvöldum Söngvakeppninnar og í tengslum við kynningar á Júróvisjón. Í ár sá hann svo til þess að nafn hans verður um alla framtíð tengt keppninni fyrir Íslendinga með bilaða pepplaginu Vinnum þetta fyrirfram!

Það er enginn eins og Páll Óskar, og Söngvakeppnin og Júróvisjón væru ekki svipur hjá sjón án hans! ❤

Screen Shot 2016-02-18 at 23.38.00

Myndir: palloskar.is

Söngvakeppnin í 30 ár – 20. hluti: Lögin sem lifðu

Af þeim tæplega 300 lögum sem hafa keppt í Söngvakeppninni er fjöldinn allur af lögum sem ekki unni en hafa þó lifað með okkur og sum jafnvel orðið vinsæl. Við ætlum að rifja upp nokkur þeirra.

Árið 1986 söng Björgvin Halldórsson lag eftir lítt þekktan lagahöfund, hinn unga Eyjólf Kristjánsson. Lagið er að sjálfsögðu Ég lifi í draumi sem festi sig strax í sessi sem afar vinsælt lag. Það hefur komið út á fjölda hljómplatna, bæði með Björgvini sjálfum, Eyva og á safnplötum.

Keppnin árið 1987 var stútfull af skemmtilegum lög sem mörg hver hafa notið vinsælda og fest sig í sessi sem klassísk lög í íslensku tónlistarsenunni. Norðurljós eftir Gunnar Þórðarson í flutningi Eyva er líklega hvað vinsælast af þeim  en lög á borð við Lífsdansinn, Aldrei ég gleymi og Í blíðu og stríðu eftir Jóhann Helgason eru allt lög sem lifa með þjóðinni.

Þó mætti örugglega tína til nokkur lög úr keppninni 1988 er Sólarsamban hans Magga Kjartans klárlega lang eftirminnilegasta lagið og fáir sem ekki þekkja það!

Þegar kafað er í heildarlagalista söngavkeppninnar sést fljótt að þau eru mörg lögin sem hafa lifað með okkur frá upphafsárum keppninnar. Árið 1989 kepptu aðeins fimm lög en fjögur þeirra eru þekkt meðal þjóðarinnar. Það er auðvitað sigurlagið Það sem enginn sér en þetta ár kepptu líka lögin Línudans eftir Magnús Eiríksson, Alpatwist eftir Geirmund Valtýsson í flutningi Bítlavinafélagsins og Sóley eftir Gunnar Þórðarson.

Það er ekki hægt að skilja við upphafsár Söngvakeppninnar án þess að minnast á lögin Karen eftir Jóhann Helgason og Mig dreymir eftir Björgvin Halldórsson sem bæði kepptu árið 1992 og lagið Ég læt mig dreyma eftir Friðrik Karlsson frá árinu 1990.

Við hoppum næst til ársins 2003. Þá var aftur blásið til stórrar Söngvakeppni Sjónvarpsins eftir nokkuð hlé. Þar sigraði Hallgrímur Óskarsson með laginu Segðu mér allt. En það er langt frá því að vera eina lagið sem lifði. Eurovísa þeirra Botnleðjufélaga háði baráttu um 1. sætið við Segðu mér allt og náði inn á topplista, sat meðal annars í 1. sæti íslenska listans á X-inu í apríl 2003.

Eurovísa var ekki eina 2. sætis lagið sem hefur lifað af lögunum sem hafa keppt á þessari öld. Árið 2006 keppti Trausti Bjarnason með lagið sitt Þér við hlið í flutningu Regínu Óskar en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Silvíu Nótt. Árið 2007 varð lagið Eldur í 2. sæti en hefur lifað lengi ekki hvað síst meðal Júróvisjon aðdáenda. Lagið Ho ho ho we say hey hey hey eftir Barða Jóhannsson laut svo í lægra haldi fyrir This is my life árið 2008 er líklega lag sem flestir þekkja.

Í lagasúpunni sem kepptir 2008 var að finna fleiri lög sem lifðu áfram eftir keppnina. Þar á meðal er lag Svölu Björgvins Wiggle wiggle song sem Haffi Haff flutti svo eftirminnilega en einnig lag Dr. Gunnar Hvar ertu nú? í flutningi Dr. Spock. Bæði lögin duttu inn á topplista hér á landi í kjölfar keppninnar og hafa orðið að költ lögum úr Söngvakeppninni.

Þegar líður nær deginum í dag verður erfiðar að meta hvaða lög lifa enda styttra um liðið. Þó má úr síðustu fimm til sex keppnum nefna lög á borð við WaterslideÉg trúi á betra líf, Lífið snýst, Gleði og glens og Hjartað brennur sem munu líklega öll lifa með okkur áfram á næstu árum.

Að lokum má ekki sleppa annars sætis lagi síðasta ár. Í síðasta skipti eftir þá StopWaitGo félaga í flutningi Friðriks Dórs var án efa lang vinsælasta lagið í keppninni 2015 mun lifa með okkur um ókomna tíð! Það má líka geta þess að í kosningu FÁSES félaga um lagið sem hefði átt að vinna söngavkeppnina en sigraði lagið örugglega!

Söngvakeppnin í 30 ár – 19. hluti: Regína Ósk

Regínu Ósk Óskarsdóttur söngkonu þarf nú ekki að kynna fyrir nokkrum einasta júróvisjónaðdáanda, íslenskum eða erlendum. Við viljum þó taka saman fyrir ykkur feril hennar í Söngvakeppninni í tilefni að 30 ára þátttökuafmæli okkar í Júróvisjón.

Regína hefur verið söngfugl frá unga aldri og tekið þátt í söngkeppnum alla sína skólagöngu, hún lenti m.a. í öðru sæti í Söngkeppni framhaldsskólanna 1996 eftir að hafa sigrað í söngkeppni Menntaskólans í Hamrahlíð.

Hún söng með Söngsystrum og síðan með hljómsveitinni 8-villt, lærði djasssöng í FÍH og tók þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á Litlu hryllingsbúðinni 1999.

Feril sinn í Söngvakeppni Sjónvarpsins hóf Regína Ósk í keppninni 2001 þegar hún ásamt Kristjáni Gíslasyni og Dísellu Lárusdóttur söng bakraddir í öllum lögum keppninnar. Þá hélt hún út til Kaupmannahafnar sem hluti af TwoTricky-hópnum og söng bakraddir ásamt Margréti Eir  í Angel. 

Regína söng svo lagið Engu höfum að tapa ásamt Hjalta Jónssyni í Söngvakeppninni 2003 en höfundur lagsins var Einar Örn Jónsson:

Hún fór síðan í annað skiptið út það sama ár sem bakraddasöngkona í Júróvisjón með Birgittu Haukdal í laginu Tell me. Árið 2005 söng hún bakraddir með Selmu í laginu If I had your love.

Árið 2006 átti Regína Ósk stórleik í Söngvakeppninni þegar hún heillaði alla júróvisjónaðdáendur upp úr skónum með laginu Þér við hlið eftir þá Trausta Bjarnason og Magnús Þór Sigmundsson. Margir telja það vera það lag sem helst hefði átt að vinna en Silvía Nótt náði að stela sigrinum og Regína þurfti að láta sér annað sætið lynda:

Regína hélt áfram að veðja á réttu hestana og árið 2008 sigruðu þau Friðrik Ómar, eða Eurobandið, örugglega í Söngvakeppni Sjónvarpsins; Laugardagslögunum með dúndursmellinum eftir Örlyg Smára; Fullkomið líf:

Þau fóru með lagið sem á ensku útlagðist This is my life út í Júróvisjón og urðu fyrsta framlag okkar Íslendinga til að komast upp úr undankeppnunum eftir að það fyrirkomulag var tekið upp, og höfnuðu í 14. sæti í Serbíu.

Hin síðari ár hefur Regína síður en svo slegið af í þátttöku sinni í Söngvakeppninni. Árið 2012 keppti hún með vindvélarslagarann Hjartað brennur; lagið eftir Maríu Björk Sverrisdóttur, Frederick Randquist, Marcus Frenell og Önnu Andersson og texti eftir Kristján Hreinsson og Önnu Andersson:

Í Söngvakeppninni í fyrra, 2015, söng Regína Ósk Aldrei of seint, annað lag þeirra Maríu Bjarkar, Marcusar Frenell og þá hafði Sarah Reeve bæst í höfundateymið. Textann samdi Regína sjálf:

Við á Allt um Júróvisjón vonum nú að Regína láti sjá sig aftur í Söngvakeppninni sem fyrst með lag sem kemur henni alla leið út í Júróvisjón enn á ný!

 

Gömul uppáhalds: Mín þrá

Eyrún skrifar:

Við allt grúskið okkar á Youtube og nú Spotify (takk RÚV!) þar sem ýmis gömul lög hafa dúkkað upp úr gömlum keppnum, rakst ég aftur á þennan gullmola og það er sannarlega happafundur, því að ég var alveg búin að steingleyma þessu framlagi!

Hér má segja að Söngvakeppnin kjarni sig; allt í þessu lagi og ekki síður atriði er gott – á því er enginn vafi! Fyrir það fyrsta flytur Bjöggi það og hefur augsýnilega verið fataður upp í gervi Georgs mannsins hennar Stellu í orlofi (sem kom út árið áður). Dansararnir/bakraddirnar eru óaðfinnanlegar í vóóó-inu sínu, ómarkvissum dansi og múnderingu. Takið eftir skæslegum magabolnum og snjóhvítu pokabuxunum! Að lokum má ekki gleyma leðurjakkatöffaranum á gítarinn, lökunum á skilrúmunum og RÚV-merkinu sem snýst!

Lagið er eiturhresst með góðum texta og afar grípandi millikafla. Þvílík synd að við sendum ekki þessa gleðibombu út árið 1987!

 

Söngvakeppnin í 30 ár – 18. hluti: Kvenhöfundar

konur collage

Þrátt fyrir að flytjendur laga í Söngvakeppninni fái oft mesta athygli eru það höfundar laganna sem í raun keppa. Þeir bera ábyrgð á framsetningu laga sinna, sjá um að fá flytjendur, búningahönnuði og annað sem þarf til og það eru þeir sem fá verðlaunin að lokum, enda er Söngvakeppnin og Júróvisjon, lagakeppni fyrst og fremst.

Í þessu ljósi er vert að velta fyrir sér kynjahlutfalli lagahöfundanna sem keppt hafa í Söngvakeppninni eða tekið þátt í Júróvisjon fyrir Íslands hönd. Við ætlum skoða sérstaklega hlutfall kvenhöfunda í keppninni. Hér verður þó bara fjallað um lögin sem komust í keppnirnar en því miður er engin leið að vita hve margir kvenhöfundar hafa sent inn lög, því eins og kom fram í 14. hluta um valnefnd Rúv er öllum lögum sem ekki komast áfram eytt.

Lagafjöldi
Frá árinu 1986 hafa 292 lög keppt í Söngvakeppninni, eða verið valin til þátttöku í Júróvisjon. 27 þeirra eru eingöngu eftir konur en auk þess eru 17 lög til viðbótar þar sem höfundar eru af báðum kynjum. Það eru því 44 lög af 292 sem samin eru af konum í Söngvakeppninni eða sem framlag Íslands í Júróvisjon, eða 15%.

Ef litið er til textagerðar hækkar hlutfallið aðeins en tæplega 18% texta í Söngvakeppninni eru samdir af konum eða í samvinnu karla og kvenna.

Þróunin
Á fyrstu árum keppninnar voru konur í algjörum minnihluta lagahöfunda. Ein kona er meðhöfundur að lagi frá 1986 en það var ekki fyrr en árið 1990 að kona sást aftur í lagahöfundahópnum. Það var Bergþóra Árnadóttir sem flutti eigið lag og texta. Engin kona var meðal höfunda í keppninni 1991 en Herdís Hallvarðsdóttir átti lag og texta í keppninni 1992. Árið 1993 voru í fyrsta skipti tvær konur höfundar í sömu keppni. Ingunn Gylfadóttir átti tvö lög í keppninni sem hún samdi í félagi við Tómas Hermannsson auk þess sem Katla María Hausmann flutti eigið lag. Árið 1994 flutti Anna Mjöll Ólafsdóttir eigið lag og texta í þriggja laga keppni auk þess sem lag hennar og pabba hennar Ólafs Gauks var valið úr innsendum lögum til keppni í Júrovisjon árið 1996.

Á árunum 1997-2005 voru konur lítt áberandi sem lagahöfundar og bara ein og ein sem skaut upp kollinum í keppnunum eða vali. Þegar Söngvakeppni Sjónvarpsins var endurvakin árið 2006 var það sama upp á teningum. Tvær konur eru skráðir lagahöfundar árin 2006 og 2007. Árið 2008 þegar Laugardagslögin voru kynnt til sögunnar varð nokkur breyting á. Níu lagahöfundar voru valdir til þátttöku og þar af voru fjórar konur þær Hafdís Huld, Svala Björgvins, Fabúla og Andrea Gylfadóttir. Aðeins eitt af þeim sex lögum sem voru valin áfram úr innsendum lögum það ár var eftir konu og því í heildina fimm af 15 lagahöfundum í keppninni það árið konur, eða 33%.

Breyting eftir 2008
Eftir Laugardagslögin þar sem fjöldi kvenhöfunda var hlutfallslega mun hærri en áður hafði verið, var von um að hlutfall þeirra hækkaði næstu ár. Þó var þó ekki því að árin 2009-2011 var fjöldi kvenhöfunda eins og áður einn til tveir höfundar í keppni. Breyting varð þó árið 2012. Þá voru kvenhöfundar fjórir að þremur lögum. Þar af átti Gréta Salóme lag og texta tveggja laga. Annað lag Grétu vann þetta árið og var það í fyrsta skipti sem lag eingöngu eftir konu var framlag Íslendinga í Júróvisjon. Á árunum 20132015 voru kvenhöfundar á bilinu 2-4 í hverri keppni og því ekki veruleg breyting. Í reglum Söngvakeppninnar frá 2014 var reyndar kveðið á um það að halda ætti jöfnu kynjahlutfalli lagahöfunda en greinin í reglunum þótti óheppilega orðuð og fallið var frá því að jafna kynjahlutfallið algjörlega en heldur leitast við að jafna það eftir bestu getu. Það tókst þó ekki sem skyldi því að einungis tvö lög voru eftir kvenhöfunda í keppninni og fimm textar.

Í ár hefur orðið gjörbreyting á en átta konur eru höfundar, einar eða í teymi, sjö laga af 12 í keppninni og það í fyrsta skipti sem meirihluti laga í keppninni eru eftir konur.

Hvað svo?
Ísland skorar oft hátt á jafnréttisskalanum og jafnrétti kynjanna telst með því betra í heiminum hér á landi. Þrátt fyrir það er greinilegt að konur bera skarðan hlut frá borði í Söngvakeppninni, hvort sem ástæðan er að þær sendi ekki lög inn eða þær séu síður valdar. Þrátt fyrir breytingar og aukið hlutfall kvenlagahöfunda, með sérlega góðum árangri í ár, er þó enn langt í land með að jafnvægi á milli kven- og karlhöfunda í keppninni verði algjört.

Eftir seinna undankvöld Söngvakeppninnar 2016

Jæja, seinna undankvöldið er frá og við viljum gera það upp á sama hátt og hið fyrra. Hérna eru okkar pælingar eftir laugardagskvöldið.

Þau lög sem komust áfram:

hqdefault (4)

Spring yfir heiminn – Þórdís Birna og Guðmundur Snorri – Júlí Heiðar

Eyrún: Fannst þetta lag yfirmáta hallærislegt við fyrstu hlustun, e-r næntís nostalgía. Þetta óx þó og þegar ég heyrði ensku útgáfuna kolféll ég bara. Frábær flutningur og söngkonan Þórdís Birna ofsalega örugg í sínum flutningi. Hlakka mikið til að sjá þau flytja ensku útgáfuna í Laugardalshöllinni! 
Hildur: Rétt eins og Eyrúnu fannst mér lagið afskaplega hallærislegt við fyrstu hlustun. Það óx þó örlítið en ekki nægilega mikið til að losna algjörlega við kjánahrollinn. Hann er þó ekki tengdur þessu lagi sérstaklega en rapplög í bland við laglínu finnst mér alltaf svolítið off. Enska útgáfan er þó miklu betri en sú íslenska og lagið kom mér algjörlega á óvart í live flutningi í Háskólabíói og kom mér ekkert á óvart að þau hefðu flogið áfram eftir hann.

ma_20160112_000680-1

Á ný – Elísabet Ormslev – Greta Salóme

Eyrún: Ofsalega fallegt lag í einstökum flutningi Elísabetar. Mér fannst hún þó óörugg á laugardagskvöldið og því alls ekki útséð hvoru megin borðs hún félli. Útfærsla atriðisins átti þó fyllilega skilið að komast áfram.
Hildur: Lagið þykir mér sérlega fallegt og Elísabet gerir því góð skil. Þrátt fyrir smá óöryggi á laugardagskvöldið finnst mér lagið lang sterkast af þeim lögum sem í keppninni eru. 

ma_20160112_000679-1

Augnablik – Alda Dís Arnardóttir – Alma Guðmundsdóttir og James Wong

Eyrún: Það kom mér nákvæmlega ekkert á óvart að Alda Dís kæmist áfram, það var nánast gefið. Gaman að sjá hversu örugg hún var og flutningurinn allur til sóma. Lagið er algjört heilalím!
Hildur: Rétt eins og Eyrún bendir á kom það alls ekkert á óvart að Alda Dís kæmist áfram. Ég er þó alls ekki sammála um að lagið sé heilalím enda get ég aldrei munað hvernig það er og fer yfirleitt að syngja annað augnabliks lag úr Söngvakeppninni þegar ég reyni að rifja það upp. Alda gjörnelgdi þetta hins vegar á laugardaginn og verður klárlega í toppbaráttunni. 

Lögin sem sitja eftir:

ma_20160112_000674-1

Ótöluð orð – Erna Mist og Magnús Thorlacius

Eyrún: Fyrir laugardagskvöldið fannst mér ekki alveg ljóst hvort Spring yfir heiminn eða Ótöluð orð kæmust áfram. Umgjörð lagsins líktist helst til mikið framsetningu Common Linnets árið 2014 að mínu mati en þau voru óhemju krúttleg og stóðu sig vel.
Hildur: Þau stóðu sig vel á laugardagskvöldið en kom þó lítið á óvart að lagið hafi ekki komist áfram. Þó það sé fallegt er það frekar óeftirminnilegt og nær ekki alveg í gegn í sjónvarpinu. 

ma_20160112_000672-1

Óvær – Helgi Valur Ásgeirsson – Karl Olgeirsson

Eyrún: Óvænt ánægja að sjá glimmerið og glysið í þessu atriði og áhorfendur fengu sannarlega e-ð fyrir sinn snúð. En það var þó ekki nóg til að koma Helga Val í úrslitin, því miður.
Hildur: Ég varð ekki aðdáandi þessa lags fyrr en Helgi steig á svið á laugardaginn í glimmer gallanum með Bowie múvin og nelgdi þetta bara. Var eiginlega viss um að hann færi áfram eftir það en það varð ekki úr. 

maxresdefault (2)

Ég leiði þig heim – Pálmi Gunnarsson – Þórir Úlfarsson

Eyrún: Vonbrigði kvöldsins að sjá Pálma með nótnastatífið og óöruggan á texta lagsins. Annars solid flutningur. „Ég leiði tig heim“, hvað var það?
Hildur: Lagið fannst mér jafn leiðinlegt á laugardaginn eins og við hlustun áður. Nákvæmlega  ekkert eftirminnilegt við það nema Pálmi. 

 

 

Söngvakeppnin í 30 ár – 17. hluti: Guðrún Árný

Ein af eftirminnilegri stórsöngkonum sem Söngvakeppnin hefur alið er Guðrún Árný Karlsdóttir. Flutningur hennar í laginu Andvaka var ógleymanlegur og í uppáhaldi hjá mörgum aðdáendum. Að okkar mati er líka ákveðinn gæðastimpill að hafa hana með í lagi í Söngvakeppninni, hún hefur blæbrigðaríka og þróttmikla ballöðurödd og setur sitt mark á hvert einasta lag.

Eins og segir á síðu Guðrúnar Árnýjar, er hún fædd 23. mars 1982 og starfað sem söngkona síðustu ár og sungið í hvers kyns kirkjulegum athöfnum. Hún hefur sungið frá blautu barnsbeini, var m.a. í barnakór Öldutúnsskóla í Hafnarfirði og sigraði í Söngkeppni Samfés sem unglingur og söngkeppni framhaldsskólanna 1999.

Hún hefur alls fimm sinnum tekið þátt í Söngvakeppninni og auk þess farið út til Baku árið 2012 sem bakrödd fyrir Gretu Salóme og Jónsa.

Fyrsta tilraun Guðrúnar Árnýjar var árið 2001, þegar hún söng lagið Komdu til mín en lag og texti voru eftir Grétar Sigurbergsson, fyrrum réttargeðlækni á Sogni. Árið 2001 átti Grétar tvö lög í tíu laga úrslitum í Söngvakeppninni:

Næst lét Guðrún Árný til sín taka í Söngvakeppninni 2003 í Háskólabíó þegar hún ásamt Dísellu Lárusdóttur söng lag og texta Sveins Rúnars Sigurðssonar, Með þér, sem Sveinn Rúnar segist hafa samið til hundsins síns. Lagið kom út á plötu höfundarins, Sveins Rúnars, Valentine lost (2007) þegar hann hélt út ásamt Eiríki Haukssyni.

Lagið Andvaka söng Guðrún Árný í keppninni 2006 þegar Silvía Nótt stal senunni, en lag og texti voru eftir Trausta Bjarnason en hann átti einnig lagið Þér við hlið í keppninni það ár sem í flutningi Regínu Óskar hafnaði í 2. sæti. Guðrún Árný gaf lagið út á plötu sinni Eilíft líf sem kom út sama ár. Auk lagsins Andvaka voru frumsamin lög á plötunni.

Guðrún Árný sneri aftur í Söngvakeppnina árið 2012 og söng þá tvö lög. Annað þeirra var lagið Minningar, lag og texti eftir Valgeir Skagfjörð:

Hitt lagið í Söngvakeppninni 2012 sem Guðrún Árný söng, var lag Gretu Salóme Stefánsdóttur Aldrei sleppir mér, en hún flutti það ásamt Gretu sjálfri og Heiðu Ólafsdóttur. Þegar í ljós kom að Greta Salóme átti tvö lög í úrslitum Söngvakeppninnar valdi hún að flytja eingöngu lagið Mundu eftir mér og því fluttu Guðrún og Heiða lagið tvær á úrslitakvöldinu:

Þegar Greta og Jónsi voru svo valin sem fulltrúar Íslands í Aserbaídsjan, fór Guðrún Árný með sem bakrödd:

Aftur sneri Guðrún Árný til keppni árið 2014 þegar hún flutti annað lag Trausta Bjarnasonar, Til þín við texta Guðrúnar Evu Mínervudóttur rithöfundar:

Það væri frábært að fá ekta ballöðusöngkonu aftur í keppnina að ári – þangað til næst, Guðrún Árný! 🙂