Söngvakeppnin í 30 ár – 1. hluti

Ragga_Gisla_1981

Ragga Gísla flytur lagið ,,Eftir ballið“ í úrslitakeppninni 1981. Í bakröddum má sjá Jóhann Helgason, Pálma Gunnarsson, Helgu Möller og Björgvin Halldórsson

Það hefur varla farið fram hjá júróvisjon-aðdáendum að í ár eru 30 ár frá því að Ísland tók fyrst þátt í Júróvisjon. Í fyrsta sinn sem Ísland tók þátt var blásið til veglegrar undankeppni sem kölluð var Söngvakeppni Sjónvarpsins þar sem Gleðibankinn kom, sá og sigraði svo eftirminnilega.

Í ljósi þessa afmælisárs ætlum við á Öllu um Júróvisjon að bregða aðeins út af vananum í umfjöllun okkar fyrir Söngvakeppnina. Í stað þess að fjalla um lögin, flytjendur og höfunda og pæla í gengi laganna ætlum við fram að úrslitum að birta 30 færslur um sögu Söngvakeppninnar!

Undanfari Júróvisjon-þátttöku
Fyrsta færslan fer þó aðeins lengra en 30 ár aftur í tímann, nánar tiltekið 35 ár aftur í tímann og fjallar um allra fyrstu Söngvakeppni Sjónvarpsins sem haldin var í febrúar og mars 1981. Forsaga þessarar keppni, og síðar Söngvakeppni Sjónvarpsins sem undankeppni fyrir Júróvisjon, á sér nokkuð dýpri rætur. Allt frá því á 7. áratugnum hafði verið þrýstingur á þátttöku Íslands í Júróvisjon. Það voru þó einkum tæknimál sem stóðu í vegi fyrir þátttöku lengi vel. Þegar hér var komið við sögu var þátttaka tæknilega möguleg og veltu menn því eðlilega vöngum yfir hugsanlegri þátttöku Íslands. Það varð þó ekki þátttaka í Júróvisjon sem vakti fyrir forsvarsmönnum RÚV á þessum tíma heldur fyrst og fremst það tækifæri sem byðist lagahöfundum til að koma tónlist sinni á framfæri.

Ríflega 500 lög
Rúv auglýsti eftir lögum til þátttöku í keppninni sem fram fór í febrúar og mars 1981. Ríflega 500 lög bárust og valdi sérstök dómnefnd 30 lög til keppni. Sex lög kepptu á undankvöldum þar sem tvö komust áfram á úrslitakvöld sem haldið var í beinni útsendingu 7. mars 1981. Rétt eins og við þekkjum enn þann dag í dag sendu höfundar lögin sín inn undir dulnefni en það sem hefur breyst í áranna rás er að höfundar hafa nú yfirumsjón með framsetningu laga sinna í keppninni sjálfri. Það var hins vegar ekki upp á teningnum árið 1981 (og raunar ekki heldur 1986) því að eftir að höfundar sendu inn lögin lauk þeirra aðkomu að laginu og framgangi þess í keppninni. Magnús Ingimarsson var hljómsveitarstjóri 10 manna hljómsveitar sem spilaði undir í öllum lögunum og sá hann alfarið um útsetningu laganna. Raunar vissu höfundar svo lítið um lögin að einn þeirra, Leó R. Ólafsson, vissi ekki af því að lagið hans ,,Eftir ballið“ hefði komist í keppnina. Í viðtali við siglo.is árið 2011 lýsir hann því hvernig hringt hafi verið í hann og honum sagt að lagið hans væri í sjónvarpinu en hann var að spila á balli sama kvöld.

bubbi annar af theim bestu

Vísir, 31. mars 1981, bls. 16

Gagnrýni á keppnina
Sex söngvarar voru fengnir til að flytja öll lögin; þau Jóhann Helgason, Pálmi Gunnarsson, Helga Möller, Ragnhildur Gísladóttir, Björgvin Halldórsson og Haukur Morthens. Segja má að þarna hafi fjórir þekktir söngvarar stimplað sig strax í keppnina en Pálmi, Jóhann, Helga og Björgvin komu öll oft fram í Söngvakeppninni, sérstaklega á fyrstu árunum um og eftir 1986. Val á þessum söngvurum var þó ekki gagnrýnislaust. Í leiðurum og lesendabréfum dagblaðanna mátti lesa hneykslan yfir því að sjálfur Bubbi Morthens, sem auðvitað var stórstjarna á þessum tíma, hafi ekki verið einn af flytjendum. Þótti það merki um hallærisleika keppninnar og má kannski segja að þar hafi strax myndast ákveðinn ,,hallærisleika“-stimpill sem margir telja enn vera á keppninni.

Palmi_Gunnars_1981

Pálmi syngur í keppninni 1981

Sálfræðinemi sigrar í almenningskosningu
Það vakti vissulega athygli að sigurvegari keppninnar var ekki þekktur lagahöfundur heldur ungur sálfræðinemi að nafni Guðmundur Ingólfsson. Það var enginn annar en Pálmi Gunnarsson sem flutti sigurlagið, Af litlum neista, sem enn er þekkt í dægurlagaflóru Íslendinga. Erfitt hefur verið að grafa upp höfunda hinna laganna en í úrslitunum var einnig lag eftir Bergþóru Árnadóttur og áðurnefndan Leó R. Ólafsson. Sigurlagið var valið af 500 manns í dómnefndum hringinn í kringum landið. Í heildina voru fimm dómnefndir, hver skipuð 100 manns sem gáfu lögunum stig og var þeim svo safnað saman af fulltrúm sjónvarpsins á hverjum stað og lesin upp í beinni útsendingu. Það má því segja að í þessari fyrstu keppni hafi í raun verið almenningskosning á sigurlaginu.

 

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s