Söngvakeppnin í 30 ár – 5. hluti: Lagavalið

Kosningar í Söngvakeppninni hafa verið með ýmsu sniði í gegnum tíðina. Í flestum tilfellum virðist þó hafa verið reynt að fá álit almennings á einhvern hátt. Til að mynda hefur almenningskosning gegnum síma verið ráðandi frá því að það var tæknilega mögulegt þótt dómnefndir hafi einnig fengið að fljóta með samhliða. Sitt sýnist þó hverjum um kosningafyrirkomulag í Söngvakeppninni og stundum verið tekist á hvort almenningur eigi að ráða eða leggja málin í hendur dómnefnda skipuðum fagmönnum í tónlistarbransanum. Meðan sumum er alveg sama hvernig kosning fer fram og einbeita sér meira að showinu sjálfu þá þykir öðrum dómnefndir vera til trafala og að það sé almenningur sem eigi að ráða. Þá eru enn aðrir sem vilja endilega hafa dómnefndir með almenningskosningu, jafnvel til að hafa örlítið vit fyrir almenningi sem kýs ekki alltaf ,,hið rétta“.

Kjördæmadómnefndir í stórum keppnum
Í upphafi Söngvakeppninnar var leitast við að fá álit almennings eins og kostur var. Eins og fram kom í 1. hluta kusu 500 manns í 5 dómnefndum hringinn í kringum landið í fyrstu Söngvakeppninni 1981. Annað var þó upp á teningnum 1986 þegar velja átti fyrsta framlag okkar í Júróvisjón. Ein dómnefnd skipuð fimm manns sá um að velja sigurlagið sem skyldi verða fyrsta lag Íslands í Júróvisjón. Sjónvarpið skipaði tvo fulltrúa í dómnefndina en Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag tónskálda og textahöfunda og Félag hljómplötuútgefenda á Íslandi áttu einn fulltrúa hver.

Ekki voru allir á eitt sáttir með þetta fyrirkomulag og var því algjör stefnubreyting á vali á sigurvegara strax árið 1987. Í stað einnar dómnefndar var nú komið á fót átta 11 manna dómnefndum, einni í hverju kjördæmi landsins. Fulltrúar eða fréttaritarar RÚV í hverju kjördæmi sáu um að velja í dómnefndir sem eingöngu áttu að vera skipaðar leikmönnum á aldrinum 16-60 ára. Hver dómnefndarmaður gaf stig og voru samantekin stig lesin upp þegar hringt var í viðkomandi dómnefnd. Stig voru gefin eins og í Júrovisjón-keppninni sjálfri; 1-8 stig og svo 10 og 12 stig. Þetta þýddi auðvitað að öll lög fengu stig enda akkúrat 10 lög sem kepptu.

Þetta fyrirkomulag var áfram við lýði allt til ársins 1993 þótt fjöldi fólks í dómnefndum hvers kjördæmis hafi breyst milli ára. Árið 1990 var þó sú breyting á að 9. dómnefndinni var bætt við. Sat hún í sjónvarpssal og var skipuð reynslumiklu fólki úr tónlistarheiminum. Sú dómnefnd gaf eingöngu einu lagi stig og hafði árið 1990 yfir 21 stigi að ráða. Sama fyrirkomulag með 9. dómnefndinni hélst allt til ársins 1993 þótt skorið hafi verið niður í stigabanka 9. dómnefndarinnar og var hann kominn í 16 stig árið 1993.

Gjörbreytt val á síðari hluta 10. áratugarins
Árið 1994 var Söngvakeppni Sjónvarpsins mun minni í sniðum en árin á undan. Í stað opinnar og stórrar keppni þar sem allir gátu sent inn lög var leitað til þriggja höfunda um að semja lag til keppni. Keppnin fór fram í hinum sívinsæla þætti Á tali hjá Hemma Gunn. Val á laginu var einnig gjörbreytt en í stað kjördæmadómnefndanna sat nú ein 9 manna dómnefnd í sjónvarpssal og fylgdist með lögunum og valdi loks eitt til sigurs.

Í kjölfarið var enn meira dregið saman og í stað keppni hóf RÚV að velja þátttakendur. Árin 1995, 1997 og 1999 var leitað til flytjenda sem síðar völdu sér lag til flutnings. Árið 1995 var það Björgvin Halldórsson, árið 1997 Páll Óskar og árið 1999 Selma Björnsdóttir. Þrátt fyrir að engin forkeppni hafi verið haldin árið 1996 var leitað til þriggja höfunda til að semja lag fyrir keppnina og var lag feðginanna Önnu Mjallar og Ólafs Gauks, Sjúbídú, valið til keppni.

Ný tækni á nýrri öld
Eftir glæsilegan árangur Selmu 1999 var aftur árið 2000 blásið til opinnar keppni um að komast í Júróvisjón og kepptu 5 lög í þættinum Stutt í spunann um að verða fulltrúi Íslands í Júróvisjón. Valið var nú með algjörlega nýjum hætti en í fyrsta skipti var lagið kosið í almenningskosningu í gegnum síma. Hver sem er gat því hringt í gjaldfrjálst 800-númer og með því kosið sitt lag. Árin 2001 og 2003 var sama upp á tengingnum, almenningskosning í gegnum síma réð úrslitum. Árið 2003 var þó sett þak á hve oft var hægt að hringja en hægt var að kjósa þrisvar sinnum úr hverju númeri. Væri kosið oftar ógiltust atkvæðin sem á undan komu.

Eftir glæsilega keppni 2003 var aftur dregið saman í Söngvakeppninni. Árin 2004 og 2005 var því engin undankeppni. Árið 2004 var höfundum þó leyft að senda inn lög en dómnefnd valdi eitt lag til keppni og valdi í framhaldinu flytjanda í samráð við höfund lagsins. Árið 2005 var aftur leitað til Selmu Björnsdóttur um að flytja lag Íslands í Júróvisjón.

Söngvakeppni sjónvarpsins endurvakin
Árið 2006 var Söngvakeppni Sjónvarpsins endurvakin og hefur hún verið haldin með svipuðu sniði allar götur síðan. Þó að blæbrigðamunur hafi verið á keppnunum hvað varðar fjölda laga í undanúrslitum, fjölda undankvölda, staðsetningu og fleira þá hefur val á lagi verið með svipuðum hætti.

Ferlið er á þá leið að RÚV auglýsir eftir lögum í keppnina. Höfundar senda lög sín inn undir dulnefni. Eftir að lokafrestur er liðinn velur dómnefnd þann fjölda laga sem á að fara í úrslit. Dómnefndin fær ekki upplýsingar um höfunda laganna. Lögin keppa á undankvöldum og ákveðinn fjöldi fer áfram á úrslitakvöldið. Símakosning almennings ræður hverjir komast áfram í úrslitin, sem og hver vinnur á úrslitakvöldinu.

Þrátt fyrir að þetta hafi verið grunnurinn að vali okkar síðastliðin 10 ár hafa þó nokkrar útfærslur verið kynntar til leiks. Öll munum við eftir á Laugardagslögunum 2007-2008 en þá var bæði opið fyrir höfunda að senda inn lög auk þess sem níu höfundar voru fengnir til að semja þrjú lög hver. Eitt lag úr hverjum undanþætti komst í úrslitin auk þess að svokallaður Leifs heppna-þáttur (Wild Card) var kynntur til leiks. Val á lögum sem komust í Leifs heppna-þáttinn fór fram í kosningu meðal hlustenda Rásar 2. Það var svo símakosning sem réð úrslitum um hvaða lag varð Leifur heppni og komst í úrslit. Hrein símakosning réð úrslitum um sigurvegara.

Árið 2012 var dómnefnd aftur kynnt til leiks eftir langt hlé. Í stað þess að símakosning gilti var ákveðið að atkvæði dómnefnda gilti til jafns við atkvæði í símakosningu auk þess sem dómnefndin valdi eitt lag áfram í úrslitin af þeim sem ekki komust áfram í símakosningu. Þetta féll ekki í kramið hjá öllum og árið 2013 voru því enn kynntar breytingar. Dómnefnd var áfram til staðar og giltu atkvæði hennar til jafns við atkvæði í símakosningu. Hins vegar var bætt við svokölluðum Super-final þar sem tvö efstu lögin kepptu aftur og þá gilti símakosningin eingöngu. Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði allar götur síðan en það er aldrei að vita hvað gerist árið 2017!

 

 

 

Söngvakeppnin í 30 ár – 4. hluti: Dr. Eurovision

Sögu Söngvakeppninnar má skipta upp í nokkur tímabil. Þar ber þó helst að nefna árin sem lög voru handvalin af RÚV til að fara fyrir okkar hönd á móti þeim tímabilum þegar RÚV hélt keppni þar sem lag var valið með kosningu.

789653Einn þeirra lagahöfunda sem siglt hefur í gegnum hvort tveggja (val og keppni) er Sveinn Rúnar Sigurðsson, sem kallaður hefur verið Dr. Eurovision þar sem hann hefur komið metfjölda laga í Söngvakeppnina; alls 14 lög í sjö keppnum, eitt valið (Heaven) og annað kosið (Valentine Lost)! Hann státar af því að eiga þrjú lög í þremur Söngvakeppnum; árin 2006, 2012 og 2013; og tvö lög í keppninni 2007.

 

Hér er afrekaskráin sem er ekkert smá:

Ár Lagaheiti Flytjendur
2003 Með þér Dísella og Guðrún Árný
2004 Heaven Jónsi
2006 100% hamingja Heiða Ólafs
2006 Mynd af þér Birgitta Haukdal
2006 Útópía Dísella
2007 Valentine Lost (Ég les í lófa þínum) Eiki Hauks
2007 Draumur Hreimur Örn
2012 Hugarró Magni
2012 Leyndarmál Íris Hólm
2012 Stund með þér Rósa Birgitta
2013 Ekki líta undan Magni
2013 Til þín Jógvan og Stefanía
2013 Augnablik Erna Hrönn
2015 Augnablik Stefanía Svavarsdóttir

Eins og sést keppti Sveinn Rúnar fyrst í Söngvakeppninni árið 2003 með laginu Með þér sem Dísella og Guðrún Árný sungu. Ári seinna átti hann lagið Heaven með Jónsa sem valið var til að keppa í Eurovision. Þrjú lög hans rötuðu í keppnina 2006 og tvö ári síðar þegar lag hans Ég les í lófa þínum/Valentine Lost með Eika keppti í Helsinki. Sveinn Rúnar átti þrjú lög í hvorri keppni 2012 og 2013 og að lokum eitt lag í síðustu Söngvakeppni.

Ef einhver hefur reynsluna af því að keyra mörgum og mismunandi lögum í gegnum Söngvakeppni Sjónvarpins þá er það Sveinn Rúnar. Hann hefur líka skýrar skoðanir á því hvað þarf til að komast í gegnum niðurskurðinn hjá hinni alræmdu valnefnd RÚV:

Það eru til leiðir til að komast í gegnum niðurskurðinn: Ein þeirra er sú að vinna lagið vel. Ég get ekki treyst því að fagleg dómnefnd leggi tvo og tvo saman og fái út sömu niðurstöðu og ég vildi ef ég kem ekki hugsuninni minni frá mér og þau geta ekki treyst því að viðkomandi lagahöfundur hafi getu til að klára lagið, ef hann sendir það inn óklárað. Þau gefa þessum lögum ekki séns lengur, held ég. Hugmyndin þarf að vera skýr. Þetta var ekki þannig og þegar ég kom mínu fyrsta lagi að 2003 þá var það bara demó, enginn texti til og það var pan-flauta sem átti að vera söngurinn. Lagið var ekki í tempói, ódýrt hljómborð og kassettutæki á borðinu. Núna þarftu að fullvinna hugmyndina.

Annað sem Sveinn Rúnar nefnir er aðgengileiki lagsins. Það verður að vera mjög aðgengilegt en ekki um of: Ef „húkkurinn“ er of sterkur, geti það orðið leiðigjarnt á þeim stutta líftíma sem lögin fá.

Sveinn Rúnar er í þeirri einstöku stöðu að hafa alltaf komist í gegn með lögin sín, líka þegar hann sendi inn fleiri en eitt. Hann leggur líka á það áherslu að fara ekki endilega í sömu áttina með tónsmíðarnar og segist hafa prófað ýmsa stíla; þjóðlagapopp, popp og þungt rokk. Sú staða að hafa mörg lög í Söngvakeppninni er að hans mati ekkert endilega ákjósanlegust:

Það er ekkert grín að vera með þrjú lög í fanginu. Þetta er mikil fjárhagsleg umsýsla, mikill mannauður og heilmikið fyrirtæki að reka tvö lög; hvað þá þrjú! RÚV breytti fyrirkomulaginu 2015 og núna má senda inn tvö lög og ég held að það sé bara best fyrir alla að vera bara með eitt lag og sinna því. Ég naut þess a.m.k. mjög að vera bara með eitt lag í fyrra.

Okkur lék hins vegar forvitni á að vita hver munurinn væri á því að senda lag í keppni þar sem kosið væri um það eða að vera valinn af RÚV með lag sem færi út fyrir okkar hönd:

Mér fannst allt ferlið við valið 2004 (Heaven) frekar óþægilegt og ég lofaði sjálfum mér því að gera það ekki aftur. Tónlistarmennirnir voru mjög ósáttir við að þessi vettvangur sem skaffar þeim tekjur og kynningu hafi verið lagður niður það árið og einhver einn fenginn í þetta. Ég lenti í dálítið ómálefnalegri gagnrýni í blöðunum frá kollegum út af því. Það var ekki síst eftir að keppninni lauk og við höfðum ekki náð þeim árangri sem við stefndum að; við lentum þó í 19.sæti og lagið hefur lifað meðal aðdáenda. Ég lofaði sjálfum mér því að ég þyrfti að vinna lýðræðislega næst svo að ég næði að vinna mig út úr þessu, svo að mér liði ekki eins og ég hefði fengið forgjöf.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins fyrst?

Ég spyr mig einnar spurningar þegar ég er búinn að skapa eitthvað. Ef mér finnst verkið vera gott þá hlýtur að vera eitt æðsta markmið listamannsins að sköpun hans fái að fara í dóm sem flestra. Og Söngvakeppni Sjónvarpsins er bara langstærsti vettvangurinn til þess, sérstaklega á árinu 2016 þegar markaðurinn hefur tekið stakkaskiptum, og nánast ógjörningur fyrir nýja listamenn að ná áheyrn einhverra. Þetta er langsterkasti vettvangurinn til að kynna nýja tónlist.

Sveinn Rúnar telur jú að með samfélagsmiðlum sé vissulega auðveldara að koma lögum út til fólksins en það geti reynst erfitt að ná eyrum þeirra því að framboðið sé svo mikið. Einnig sé útgáfa unnins lags ákaflega dýr og óvissa ríki um endurheimt kostnaðarins. Með Söngvakeppnisfyrirkomulaginu sé hægt að leggja lágmarks fjárfestingu fram en þurfa samt ekki að borga með sér.

En er þá einhver gullin Júróvisjón-formúla sem hann hefur fullkomnað? Hver eru skilaboð Sveins Rúnars til lagahöfundanna sem hafa hug á að senda lög í næstu Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2017?

Margir gera þau mistök að ákveða að semja Júróvisjónlag. Þeir gera mistök þau að fara í fortíðina og elta uppi einhverja júróvisjónlummu. Var Euphoria Júrólegt lag? Nei. Varð Euphoria vinsælt í Evrópu? Alveg rosalega. Mistökin eru þau að fara eftir einhverri formúlu því að formúlan eldist alveg svakalega illa. Ekkert minna laga (nema eitt) var samið fyrir Júróvisjón. Semdu bara tónlist sem virkar. Gerðu eitthvað sem virkar utan keppninnar. Það kemst í gegn.

 

Söngvakeppnin í 30 ár – 3. hluti: Endalaus „Augnablik“?

hqdefault (1)      mqdefault

Í þau þrjátíu ár sem Söngvakeppni Sjónvarpsins hefur lifað með íslensku þjóðinni hafa hundruð íslenskra dægurlaga orðið til, flest þeirra á íslensku. Það hefur verið eitt helsta einkenni þessarar lagakeppni menningarstofnunarinnar RÚV að ganga út frá íslenskum texta laganna sem frumflutt eru í keppninni. Óhjákvæmlegur fylgifiskur þess er að endurtekningar geta komið fyrir… trekk í trekk jafnvel!

Við kynningu á lögunum í Söngvakeppninni 2016 urðum við varar við óánægjuraddir með heiti lagsins Augnablik einmitt vegna þessa – þetta væri gjörsamlega ofnotað lagaheiti!

Þegar við skoðum þetta nánar er ljóst að 3 lög í sögu Söngvakeppninnar hafa borið heitið (auk eins sem hét (Milljón) augnablik), þ.e. ca. eitt á hverjum tíu árum. Nema að þessi lög hafa öll komið á síðustu þremur árum. Og tvö þeirra eftir sama höfund (hæ Sveinn Rúnar!)

Augnablik – Erna Hrönn 2013
Augnablik – Stefanía Svavarsdóttir 2015
Milljón augnablik – Haukur Heiðar 2015
Augnablik – Alda Dís 2016

ma_20160112_000679-1

En er þetta þá vinsælasta hugmyndin að lagaheiti? Hefur frumleikinn almennt verið við völd þegar kemur að lagaheitum?

Jah, tvö ár í röð (2013-2014) kom lag í Söngvakeppnina sem hét Til þín.

Til þín – Jógvan og Stefanía 2013
Til þín – Guðrún Árný 2014

Allt og Aldrei virðast vera nánast jafnvinsæl í lagaheitum (4 og 5). Birgitta söng um að segja allt 2003 t.d. og Erna Gunnars gleymdi aldrei 1986 (og við ekki henni!)

Segðu mér allt – Birgitta 2003
Allt – Höskuldur Örn Lárusson 2003
Allt eða ekkert – Finnur Jóhannsson 2007
Þú gafst mér allt – Bergþór Smári 2007

Aldrei ég gleymi – Erna Gunnars 1986
Orðin komu aldrei – Snorri 2007

Aldrei sleppir mér – Gréta Salóme 2012
Aldrei segja aldrei – Íris Lind Verudóttir 2012

Aldrei of seint – Regína Ósk 2015

Lag og líf eru líka prýðileg lagaheiti, ef marka má fjölda laga sem bera slík heiti. Þar hefur þó líf vinninginn með 9 heiti sem vísa í lífið.  Ást nær líka á blað með 6 lagaheiti:

Syngdu lag – Pálmi Gunnars 1986
Eitt lag enn  – Stjórnin 1990

Lífið er lag – Model 1987
Lagið þitt – Böddi og JJ Soul Band 2011
Eftir eitt lag – Greta Mjöll 2014

Ég leyni minni ást – Björgvin 1987
Sumarást – Jóhanna Linnet 1987
Ástarævintýri (Á vetrarbraut) – Eyvi og Ingi Gunnar 1988
Ást á skítugum skóm – Rúnni Júl 2003
Ástin mín eina – Erna Hrönn 2011
Eilíf ást – Hebbi 2012

Lífsdansinn – Björgvin og Erna 1987
Lífið er lag – Model 1987
Lengi lifi lífið – Sissa og Jóhannes Eiðsson 1991
Fullkomið líf – Eurobandið 2008
Lífsins leið – Áslaug Helga 2008
Ég trúi á betra líf – Magni 2011
Ég á líf – Eyþór Ingi 2013
Lífið snýst – Svavar Knútur og Hreindís Ylva 2013
Lífið kviknar á ný – Sigga Eyrún 2014

Það verður þó að segjast alveg eins og er að klisjukenndustu (og um leið vinsælustu) lagaheitin eru þau sem fjalla um mig (ég) (17) og þig (þú) (13):

Aldrei ég gleymi – Erna Gunnars 1987
Ég leyni minni ást – Björgvin 1987
Ég bý hér enn – Ingunn Gylfa 1993
Hvar ég enda – Þóra Gísla 2003
Þú og ég (er ég anda) – Hansa 2003
Á ég – Bjartmar 2006
Ég hef fengið nóg -Ellert og Von 2007
Ég les í lófa þínum – Eiki 2007
Ég og heilinn minn – Heiða 2007
Núna veit ég – Magni og Birgitta 2007
Ef ég hefði vængi – Halli Reynis 2011
Ég lofa – Jógvan 2011
Ég trúi á betra líf – Magni 2011
Ég kem með – Ellert 2012
Ég á líf – Eyþór Ingi 2013
Ég syng – Unnur Eggerts 2013
Þangað til ég dey – F.U.N.K 2014

Þú og þeir – Stormsker og Stebbi 1988
Þú leiddir mig í ljós – Jóhanna Linnet 1989
Þú, um þig, frá þér, til þín – Helga Möller og Karl Örvarsson 1992
Þú mátt mig engu leyna – Margrét Eir 1992
Þú – Hreimur 2003
Þú og ég (er ég anda) – Hansa 2003
Engin eins og þú – Heiða Ólafs 2007
Þú gafst mér allt – Bergþór Smári 2007
Þú tryllir mig – Hafsteinn Þórólfsson 2007
Hvað var það sem þú sást í honum? – Baggalútur 2008
Þú – Jóhanna Guðrún 2013
Elsku þú – Vignir Snær 2014
Þú leitar líka að mér – Hinemoa 2015

Svo er augljóst að það hefur gefist vel að klístra nokkrum af þessum vinsælu orðum saman í eitt lagaheiti. Lagið sem einhvern dreymir um að senda í Söngvakeppnina 2017 gæti því heitið á íslensku: „Ég elska þig allt mitt líf en aldrei lag“

Eitt skemmtilegasta lagaheitið er á lagi sungnu af Sigríði Guðnadóttur í Söngvakeppninni 1991. Það ber hið stórkostlega og undarlega nafn: Mér þykir rétt að þú fáir að vita (*dramatískur trommusláttur*)

 

Söngvakeppnin í 30 ár – 2. hluti: 1988

Við stökkvum nú til ársins 1988, þriðju keppni Söngvakeppni Sjónvarpsins sem undankeppni fyrir Júróvisjon. Fyrsta keppnin var haldin 1986 þegar Gleðibankinn kom sá og sigraði og Júróvisjon-æði rann á þjóðina, allir full vissir um að Ísland myndi sigra. Þó gengið hafi verið verra en menn áætluðu 1986 var þjóðin full bjartsýni árið 1987 þegar Valgeri Guðjónsson vann með laginu sínu Hægt og hljótt í flutningi Höllu Margrétar en lenti aftur í 16. sæti.

Þegar komið var til ársins 1988 virtist sem svo að það væru ekki allir jafn bjartsýnir og áður og innanbúðar fólk hjá RÚV þegar farið að efast um þátttöku Íslands í Júrovisjon. Meðal annars var haft eftir Hrafni Gunnlaugssyni á blaðamannafundi þann 22. janúar 1988, þar sem lögin í keppninni voru kynnt, að ekki væri hægt að líta á þátttöku Íslands í Júróvisjon sem sjálfgefna. Keppni var þó haldin árið 1988 með svipuðu sniði og árið áður.

Keppni nýliðanna
Eftir að hrun var í innsendum lög milli áranna 1986 og 1987 (287 og 59) jókst nú aðeins fjöldi innsendra laga sem var árið 1988 samtals 117. Eins og áður voru 10 lög valin úr þeim hópi til keppni. Þegar ljóst var hverjir voru höfundar þessara 10 laga var ljóst all margir nýliðar voru meðal höfunda. Sjö höfundar af þeim 11 höfundum sem skráðir voru fyrir lögun 10 voru nýliðar og sumir þeirra í raun ekki mikið þekktir á þessum tíma. Meðal nýliðanna voru Valgeir Skagfjörð, Grétar Örvarsson og Magnús Kjartansson. Inn á milli nýliðanna var þó að nokkra finna ,,gamalreynda“ höfunda í keppnin m.a. Eyjólf Kristjánsson, Gunnar Þórðarson og Geirmund Valtýsson.

Nokkuð var einnig um nýja flytjendur þó gömlu keppurnar Björgvin Halldórsson og Pálmi Gunnarsson hafi einnig tekið þátt. Guðrún Gunnarsdóttir söng lag þáverandi eiginmanns síns, Valgeirs Skagfjörðs, Dag eftir dag sem er eitt af þeim lögum sem enn lifir úr keppninni. Þá steig Bjarni Arason á stokk ásamt Sigrúnu Waage og Grétari Örvarssyni í fyrsta skipti en Bjarni og Grétar áttu eftir að taka oftar þátt og með betra árangri. Tveir menn tóku einnig þátt í fyrsta sinn þeir, Sverrir Stormsker og Stefán Hilmarson. Saman fluttu þeir lag Sverris , Þú og þeir, betur þekkt sem Sókrates sem var nafn lagsins í Júróvisjon í Dublin um vorið. Sverrir hafði vakið nokkra athygli fyrir þátttöku sína í keppninni, einkum fyrir klúrna texta, en virðist hafa fallið vel í kramið hjá þjóðinni.

Hofundar_1988

Morgunblaðið, 26. janúar 1988, bls. 15

Fullt hús stiga
Fyrirkomulag kosningar í keppninn var það sama og kynnt hafði verið til leiks árið áður. Fór hún þannig fram að settar  voru á fót 11 manna dómnefndir í öllum kjördæmum landsins. Í dómnefndum máttu eingöngu sitja leikmenn og áttu þær að vera þverskurður af íbúum kjördæmanna. Hver dómnefndarmaður kaus fyrir sig og stigin síðan tekin saman og lögunum gefin 1-12 stig líkt og í Júróvisjon sjálfir. Árið 1987 hafði þetta fyrirkomulag leitt til spennandi stigagjafar þar sem Lífið er lag með hljómsveitinni Módel og Hægt og hljótt í flutningi Höllu Margrétar bitust um fyrsta sætið.

Nú var hins vegar lítil spenna og strax ljóst hvert stemmdi. Stigagjöfin dreifðist nokkuð á milli flestra laga að lagi Sverri Stormskers undanskildu sem fékk 12 stig úr öllum kjördæmum landsins. Athygli vakti að Sverrir fékk meira að segja 12 stig úr Norðulandskjördæmi Vestra, höfuðvígi Geirmundar Valtýssonar sem einnig átti lag í keppninni. Samtals fékk því lagið Þú og þeir 96 og þar með fullt hús stiga. Nokkuð var hins vegar barist um annað sætið en það var lagið Ástarævintýri eftir Eyjólf Kristjánsson og Inga Gunnar Jóhannsson í flutningi þeirra beggja hlaut sætið með 63 stig. Fasta á hæla þess var lagið Mánaskin eftir Guðmund Árnason sem hlaut 61 stig, fullt af Sigrúnu Waage og Eyjólfi Kristjánssyni. Í fjórða sæti var svo sveifla Geirmundar þettar árið, Látum söngin hljóma, einnig í flutningi Stefáns Hilmarssonar, með 57 stig.

 

Bongóblíða
Þrátt fyrir að all nokkur lög hafi lifað góðu lífi eftir keppnina var eitt sem skar sig úr og varð að hálf-gerðu költ lagi úr Söngvakeppninni. Lagið er að sjálfsögðu Sólarsamba eftir Magnús Kjartansson. Lagsins er minnst fyrir margar sakir en tvennt verður að teljast standa upp úr.

Í fyrsta lagi kom orðið ,,bongóblíða“ fyrir í texta lagsins. Oft hefur verið talið að um nýyrðasmíð hafi að ræða hjá textahöfundinum Halldóri Gunnarssyni en ekki eru allir sammála um það. Hvort sem orðið var nýyrði eða ekki er ljóst að notkun þess jókst í kjölfarið og margir sem nýta sér það við lýsingu á sérstaklega góðu veðri. Í öðru lagi er Sólarsamba eftirminnilegt fyrir það að í fyrsta skipti í Söngvakeppninni var slegið á létta strengi og dansað á mörkum grínsins í lagi sem keppti en grínlög hafa skotið upp kollinum með reglulegu millibili síðan.

Það er ekki hægt að segja skilið við Sólarsömbu og keppnina 1988 án þess að minnast á Margréti Gauju, dóttur Magnúsar Kjartanssonar sem flutti Sólarsömbuna með pabba sínum á sviðinu. Margrét var 12 ára þarna og virtist hafa lítt gaman af þessu uppátæki pabba síns að fá hana með sé á sviðið.

 

 

Söngvakeppnin í 30 ár – 1. hluti

Ragga_Gisla_1981

Ragga Gísla flytur lagið ,,Eftir ballið“ í úrslitakeppninni 1981. Í bakröddum má sjá Jóhann Helgason, Pálma Gunnarsson, Helgu Möller og Björgvin Halldórsson

Það hefur varla farið fram hjá júróvisjon-aðdáendum að í ár eru 30 ár frá því að Ísland tók fyrst þátt í Júróvisjon. Í fyrsta sinn sem Ísland tók þátt var blásið til veglegrar undankeppni sem kölluð var Söngvakeppni Sjónvarpsins þar sem Gleðibankinn kom, sá og sigraði svo eftirminnilega.

Í ljósi þessa afmælisárs ætlum við á Öllu um Júróvisjon að bregða aðeins út af vananum í umfjöllun okkar fyrir Söngvakeppnina. Í stað þess að fjalla um lögin, flytjendur og höfunda og pæla í gengi laganna ætlum við fram að úrslitum að birta 30 færslur um sögu Söngvakeppninnar!

Undanfari Júróvisjon-þátttöku
Fyrsta færslan fer þó aðeins lengra en 30 ár aftur í tímann, nánar tiltekið 35 ár aftur í tímann og fjallar um allra fyrstu Söngvakeppni Sjónvarpsins sem haldin var í febrúar og mars 1981. Forsaga þessarar keppni, og síðar Söngvakeppni Sjónvarpsins sem undankeppni fyrir Júróvisjon, á sér nokkuð dýpri rætur. Allt frá því á 7. áratugnum hafði verið þrýstingur á þátttöku Íslands í Júróvisjon. Það voru þó einkum tæknimál sem stóðu í vegi fyrir þátttöku lengi vel. Þegar hér var komið við sögu var þátttaka tæknilega möguleg og veltu menn því eðlilega vöngum yfir hugsanlegri þátttöku Íslands. Það varð þó ekki þátttaka í Júróvisjon sem vakti fyrir forsvarsmönnum RÚV á þessum tíma heldur fyrst og fremst það tækifæri sem byðist lagahöfundum til að koma tónlist sinni á framfæri.

Ríflega 500 lög
Rúv auglýsti eftir lögum til þátttöku í keppninni sem fram fór í febrúar og mars 1981. Ríflega 500 lög bárust og valdi sérstök dómnefnd 30 lög til keppni. Sex lög kepptu á undankvöldum þar sem tvö komust áfram á úrslitakvöld sem haldið var í beinni útsendingu 7. mars 1981. Rétt eins og við þekkjum enn þann dag í dag sendu höfundar lögin sín inn undir dulnefni en það sem hefur breyst í áranna rás er að höfundar hafa nú yfirumsjón með framsetningu laga sinna í keppninni sjálfri. Það var hins vegar ekki upp á teningnum árið 1981 (og raunar ekki heldur 1986) því að eftir að höfundar sendu inn lögin lauk þeirra aðkomu að laginu og framgangi þess í keppninni. Magnús Ingimarsson var hljómsveitarstjóri 10 manna hljómsveitar sem spilaði undir í öllum lögunum og sá hann alfarið um útsetningu laganna. Raunar vissu höfundar svo lítið um lögin að einn þeirra, Leó R. Ólafsson, vissi ekki af því að lagið hans ,,Eftir ballið“ hefði komist í keppnina. Í viðtali við siglo.is árið 2011 lýsir hann því hvernig hringt hafi verið í hann og honum sagt að lagið hans væri í sjónvarpinu en hann var að spila á balli sama kvöld.

bubbi annar af theim bestu

Vísir, 31. mars 1981, bls. 16

Gagnrýni á keppnina
Sex söngvarar voru fengnir til að flytja öll lögin; þau Jóhann Helgason, Pálmi Gunnarsson, Helga Möller, Ragnhildur Gísladóttir, Björgvin Halldórsson og Haukur Morthens. Segja má að þarna hafi fjórir þekktir söngvarar stimplað sig strax í keppnina en Pálmi, Jóhann, Helga og Björgvin komu öll oft fram í Söngvakeppninni, sérstaklega á fyrstu árunum um og eftir 1986. Val á þessum söngvurum var þó ekki gagnrýnislaust. Í leiðurum og lesendabréfum dagblaðanna mátti lesa hneykslan yfir því að sjálfur Bubbi Morthens, sem auðvitað var stórstjarna á þessum tíma, hafi ekki verið einn af flytjendum. Þótti það merki um hallærisleika keppninnar og má kannski segja að þar hafi strax myndast ákveðinn ,,hallærisleika“-stimpill sem margir telja enn vera á keppninni.

Palmi_Gunnars_1981

Pálmi syngur í keppninni 1981

Sálfræðinemi sigrar í almenningskosningu
Það vakti vissulega athygli að sigurvegari keppninnar var ekki þekktur lagahöfundur heldur ungur sálfræðinemi að nafni Guðmundur Ingólfsson. Það var enginn annar en Pálmi Gunnarsson sem flutti sigurlagið, Af litlum neista, sem enn er þekkt í dægurlagaflóru Íslendinga. Erfitt hefur verið að grafa upp höfunda hinna laganna en í úrslitunum var einnig lag eftir Bergþóru Árnadóttur og áðurnefndan Leó R. Ólafsson. Sigurlagið var valið af 500 manns í dómnefndum hringinn í kringum landið. Í heildina voru fimm dómnefndir, hver skipuð 100 manns sem gáfu lögunum stig og var þeim svo safnað saman af fulltrúm sjónvarpsins á hverjum stað og lesin upp í beinni útsendingu. Það má því segja að í þessari fyrstu keppni hafi í raun verið almenningskosning á sigurlaginu.