Kosningar í Söngvakeppninni hafa verið með ýmsu sniði í gegnum tíðina. Í flestum tilfellum virðist þó hafa verið reynt að fá álit almennings á einhvern hátt. Til að mynda hefur almenningskosning gegnum síma verið ráðandi frá því að það var tæknilega mögulegt þótt dómnefndir hafi einnig fengið að fljóta með samhliða. Sitt sýnist þó hverjum um kosningafyrirkomulag í Söngvakeppninni og stundum verið tekist á hvort almenningur eigi að ráða eða leggja málin í hendur dómnefnda skipuðum fagmönnum í tónlistarbransanum. Meðan sumum er alveg sama hvernig kosning fer fram og einbeita sér meira að showinu sjálfu þá þykir öðrum dómnefndir vera til trafala og að það sé almenningur sem eigi að ráða. Þá eru enn aðrir sem vilja endilega hafa dómnefndir með almenningskosningu, jafnvel til að hafa örlítið vit fyrir almenningi sem kýs ekki alltaf ,,hið rétta“.
Kjördæmadómnefndir í stórum keppnum
Í upphafi Söngvakeppninnar var leitast við að fá álit almennings eins og kostur var. Eins og fram kom í 1. hluta kusu 500 manns í 5 dómnefndum hringinn í kringum landið í fyrstu Söngvakeppninni 1981. Annað var þó upp á teningnum 1986 þegar velja átti fyrsta framlag okkar í Júróvisjón. Ein dómnefnd skipuð fimm manns sá um að velja sigurlagið sem skyldi verða fyrsta lag Íslands í Júróvisjón. Sjónvarpið skipaði tvo fulltrúa í dómnefndina en Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag tónskálda og textahöfunda og Félag hljómplötuútgefenda á Íslandi áttu einn fulltrúa hver.
Ekki voru allir á eitt sáttir með þetta fyrirkomulag og var því algjör stefnubreyting á vali á sigurvegara strax árið 1987. Í stað einnar dómnefndar var nú komið á fót átta 11 manna dómnefndum, einni í hverju kjördæmi landsins. Fulltrúar eða fréttaritarar RÚV í hverju kjördæmi sáu um að velja í dómnefndir sem eingöngu áttu að vera skipaðar leikmönnum á aldrinum 16-60 ára. Hver dómnefndarmaður gaf stig og voru samantekin stig lesin upp þegar hringt var í viðkomandi dómnefnd. Stig voru gefin eins og í Júrovisjón-keppninni sjálfri; 1-8 stig og svo 10 og 12 stig. Þetta þýddi auðvitað að öll lög fengu stig enda akkúrat 10 lög sem kepptu.
Þetta fyrirkomulag var áfram við lýði allt til ársins 1993 þótt fjöldi fólks í dómnefndum hvers kjördæmis hafi breyst milli ára. Árið 1990 var þó sú breyting á að 9. dómnefndinni var bætt við. Sat hún í sjónvarpssal og var skipuð reynslumiklu fólki úr tónlistarheiminum. Sú dómnefnd gaf eingöngu einu lagi stig og hafði árið 1990 yfir 21 stigi að ráða. Sama fyrirkomulag með 9. dómnefndinni hélst allt til ársins 1993 þótt skorið hafi verið niður í stigabanka 9. dómnefndarinnar og var hann kominn í 16 stig árið 1993.
Gjörbreytt val á síðari hluta 10. áratugarins
Árið 1994 var Söngvakeppni Sjónvarpsins mun minni í sniðum en árin á undan. Í stað opinnar og stórrar keppni þar sem allir gátu sent inn lög var leitað til þriggja höfunda um að semja lag til keppni. Keppnin fór fram í hinum sívinsæla þætti Á tali hjá Hemma Gunn. Val á laginu var einnig gjörbreytt en í stað kjördæmadómnefndanna sat nú ein 9 manna dómnefnd í sjónvarpssal og fylgdist með lögunum og valdi loks eitt til sigurs.
Í kjölfarið var enn meira dregið saman og í stað keppni hóf RÚV að velja þátttakendur. Árin 1995, 1997 og 1999 var leitað til flytjenda sem síðar völdu sér lag til flutnings. Árið 1995 var það Björgvin Halldórsson, árið 1997 Páll Óskar og árið 1999 Selma Björnsdóttir. Þrátt fyrir að engin forkeppni hafi verið haldin árið 1996 var leitað til þriggja höfunda til að semja lag fyrir keppnina og var lag feðginanna Önnu Mjallar og Ólafs Gauks, Sjúbídú, valið til keppni.
Ný tækni á nýrri öld
Eftir glæsilegan árangur Selmu 1999 var aftur árið 2000 blásið til opinnar keppni um að komast í Júróvisjón og kepptu 5 lög í þættinum Stutt í spunann um að verða fulltrúi Íslands í Júróvisjón. Valið var nú með algjörlega nýjum hætti en í fyrsta skipti var lagið kosið í almenningskosningu í gegnum síma. Hver sem er gat því hringt í gjaldfrjálst 800-númer og með því kosið sitt lag. Árin 2001 og 2003 var sama upp á tengingnum, almenningskosning í gegnum síma réð úrslitum. Árið 2003 var þó sett þak á hve oft var hægt að hringja en hægt var að kjósa þrisvar sinnum úr hverju númeri. Væri kosið oftar ógiltust atkvæðin sem á undan komu.
Eftir glæsilega keppni 2003 var aftur dregið saman í Söngvakeppninni. Árin 2004 og 2005 var því engin undankeppni. Árið 2004 var höfundum þó leyft að senda inn lög en dómnefnd valdi eitt lag til keppni og valdi í framhaldinu flytjanda í samráð við höfund lagsins. Árið 2005 var aftur leitað til Selmu Björnsdóttur um að flytja lag Íslands í Júróvisjón.
Söngvakeppni sjónvarpsins endurvakin
Árið 2006 var Söngvakeppni Sjónvarpsins endurvakin og hefur hún verið haldin með svipuðu sniði allar götur síðan. Þó að blæbrigðamunur hafi verið á keppnunum hvað varðar fjölda laga í undanúrslitum, fjölda undankvölda, staðsetningu og fleira þá hefur val á lagi verið með svipuðum hætti.
Ferlið er á þá leið að RÚV auglýsir eftir lögum í keppnina. Höfundar senda lög sín inn undir dulnefni. Eftir að lokafrestur er liðinn velur dómnefnd þann fjölda laga sem á að fara í úrslit. Dómnefndin fær ekki upplýsingar um höfunda laganna. Lögin keppa á undankvöldum og ákveðinn fjöldi fer áfram á úrslitakvöldið. Símakosning almennings ræður hverjir komast áfram í úrslitin, sem og hver vinnur á úrslitakvöldinu.
Þrátt fyrir að þetta hafi verið grunnurinn að vali okkar síðastliðin 10 ár hafa þó nokkrar útfærslur verið kynntar til leiks. Öll munum við eftir á Laugardagslögunum 2007-2008 en þá var bæði opið fyrir höfunda að senda inn lög auk þess sem níu höfundar voru fengnir til að semja þrjú lög hver. Eitt lag úr hverjum undanþætti komst í úrslitin auk þess að svokallaður Leifs heppna-þáttur (Wild Card) var kynntur til leiks. Val á lögum sem komust í Leifs heppna-þáttinn fór fram í kosningu meðal hlustenda Rásar 2. Það var svo símakosning sem réð úrslitum um hvaða lag varð Leifur heppni og komst í úrslit. Hrein símakosning réð úrslitum um sigurvegara.
Árið 2012 var dómnefnd aftur kynnt til leiks eftir langt hlé. Í stað þess að símakosning gilti var ákveðið að atkvæði dómnefnda gilti til jafns við atkvæði í símakosningu auk þess sem dómnefndin valdi eitt lag áfram í úrslitin af þeim sem ekki komust áfram í símakosningu. Þetta féll ekki í kramið hjá öllum og árið 2013 voru því enn kynntar breytingar. Dómnefnd var áfram til staðar og giltu atkvæði hennar til jafns við atkvæði í símakosningu. Hins vegar var bætt við svokölluðum Super-final þar sem tvö efstu lögin kepptu aftur og þá gilti símakosningin eingöngu. Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði allar götur síðan en það er aldrei að vita hvað gerist árið 2017!