Lag:Chain of Lights Flytjandi:Anita Simoncini og Michele Perniola Hvenær: Annað undankvöld 21. maí
Baksagan: Yngsti dúett Eurovision-sögunnar (32 ár samanlagt!) stígur á svið fyrir San Marínó í ár. Sem þýðir bara eitt: Valentina Monetta er hætt í bili! En Ralph Siegel er hvergi nærri hættur og sendir hér með 24. lagið sitt í Eurovision. Friðarboðskapurinn er alls ráðandi hjá þessu örríki og því senda þau ítalskan dreng og sanmarínaska stúlku. Þau kepptu bæði í Junior Eurovision á undanförnum árum, Anita sem hluti söngsveitarinnar The Peppermints (2014) og Michele árið 2013:
Álit Hildar: Það var með herkjum sem ég komst í gegnum lagið! Til að gulltryggja að mér þætti það örugglega leiðinlegt þá hlustaði ég á það aftur. Og það var alveg jafnleiðinlegt. Lögin hans Ralph hafa ekki verið neitt upp á marga fiska undanfarin ár og honum fer bara hrakandi með hverju árinu greyinu. Ef San Marino á ekki sína eigin lagahöfunda hvernig væri þá að kíkja frekar til Svíþjóðar en til Ralphs?!
Álit Eyrúnar: Jæja já, nú eru krakkarnir úr Junior Eurovision farnir að hellast í aðalkeppnina – og er það vel! Flott að nýta talentana áfram, þetta eru s.s. einu keppendur San Marínó í JESC. Þið munið kannski eftir Tolmachevy-tvíburunum frá Rússlandi í fyrra – sem höfðu einnig tekið þátt í JESC? Burtséð frá öllum barnslegum krúttlegheitum, þá get ég ekki lag sem hefst á orðinu „No“ (Michele)! Hvað er eiginlega verið að meina með því? „Nei, ég vil þetta ekki – sendiði frekar Valentinu í fjórða sinn!“ Lagið er líklega það slakasta í ár og ég get varla hlustað á það. San Marínó á eftir að sitja eftir með sárt ennið, vitið til!
Möguleikar: San Marínó hvílir í 39. sæti í veðbönkum (Oddschecker.com) og án þess að vilja þeim neitt illt, greyjunum, höfum við ekki mikla trú á að það breytist með tíð og tíma!
Ber er hver að baki nema sér Junior Eurovision-bróður og systur eigi!
Lag:Beauty never lies Flytjandi: Bojana Stamenov Hvenær: Fyrra undankvöld 19. maí
Baksagan:
Sjarmatröllinu Bojönu hefur dreymt um að syngja í Eurovision frá því að hún var barn. Hún bar sigur úr býtum í Serbia got talent árið 2012 og rúllaði upp hinum tveimur keppinautunum í Odbrojavanje za Beč (undankeppninni heima fyrir). Lagið hét upphaflega „Ceo svet je moj“ eða Heimurinn er minn og þegar Bojana og lagahöfundur hennar völdu ensku útgáfuna fram yfir þá serbnesku, fór um serbneska ríkissjónvarpið RTS þar sem forsvarsmenn þess hafa ætíð kosið að senda frekar framlög á þjóðtungunni. Allir muna eftir Moltivu 2007. Ástæðuna segir Bojana vera þá að með enskunni nái hún að koma skilaboðunum áleiðis. Tja, bara svoldið eins og Pollapönkararnir í fyrra, muniði?! Svo finnst okkur hún glettilega lík henni Chiöru maltnesku – og hver elskar ekki Chiöru??
Álit Eyrúnar:
Þetta lag fannst mér dásamlegt á serbnesku, og þar sem Serbar hafa alltaf sungið á serbnesku fannst mér þeir bregðast mér dálítið. Önnur vonbrigði voru þegar frábæra aðdáenda-myndbandið sem hefur verið hið opinbera myndband lagsins (sjá hér að ofan) vék fyrir nýju, stílíseruðu myndbandi með ákaflega fitt, flottu og léttklæddu fólki, en ekki aðdáendunum sem fengu að senda sínar útgáfur! Þar finnst mér aðstandendur serbneska atriðisins vera að skjóta sig í fótinn með þessu: „I’m different and it’s OK“. Skammskamm!! Lagið (eða seinnihluti þess) er þetta týpíska júrótrass og ég fagna því í ballöðubendunni í ár, loksins eitthvað hresst!
Álit Hildar: Europopptaktur tékk, eurovisionhækkun tékk, breyta um lag í miðju lagi tékk, skilaboð tékk, sungið á ensku tékk, rétt próduseríng tékk, frambærilegur söngur tékk, hentar fyrir sviðsetningu í sjónvarpi tékk. Getur maður beðið um eitthvað meira?
Möguleikar:
Serbar drógu sig í hlé í fyrra eftir að hafa ekki komist í aðalkeppnina árið áður. Það er erfitt að toppa sig í fyrsta sinn sem þeir taka þátt en þó má alveg eiga von á að lífleg framkoma Bojönu og staðreyndin að lagið er hressilegt og litríkt skili þeim í aðalkeppnina. Sem stendur er lagið í 20. sæti í veðbönkum (Oddschecker.com) og spurning hvernig framhaldið verður fyrir Bojönu!
Bojana ætlar sannarlega að slá Eurovision-boltann aftur heim í hérað! Serbar vilja sigur!
Jæja, krakkar! Við stöllurnar ætlum að reyna að vera með reglulegar Sögustundir AUJ, þar sem við förum yfir sögulegar staðreyndir og skemmtilegheit. Við viljum líka benda ykkur á undirsíðuna Uppáhaldsen þar höfum við skutlað inn hinu og þessu skemmtilega framlagi og fjallað um það sérstaklega. Við ætlum líka að ná heildarmynd og byrjum þessa Sögustund á þeim löndum sem ekki eru með í keppninni í ár en hafa verið með í gegnum tíðina … a.m.k. þau sem eru til í dag…
EKKI MEÐ 2015
Andorra
Örríkið Andorra hefur sex sinnum tekið þátt í Eurovision, fyrst 2004 og síðast 2009. Því miður hefur Andorra skipað sér sess með landa í Evrópu sem hafa aldrei komist í aðalkeppnina – þar eru Tékkar með þeim í liði! Eymingja Andorra, þeir hafa lagt sig fram um að hafa flest framlögin á katalónsku – heimamálinu – en hafa ekki haft erindi sem erfiði. Hafa sent dramatísk ástarlög, hress popplög og jafnvel eitt lag um umhverfisvernd. Síðasta framlagið var aðfluttur Andorrabúi, hin danska Susanne Georgi sem var í dúettnum Me&My (var vinsæll í 90’s-skandinavíu-unglingaheiminum)
Bosnía
Bosníumenn hafa tekið þátt frá árinu 1993 og voru síðast með 2012. Þá voru þeir í aðalkeppninni þar sem þau lentu í 18. sæti. Síðan þá hafa þeir tekið sér kúnstpásu en við getum verið sammála um það hér á AUJ að það er sjónarsviptir af þeim. Alltaf hressilegt balkanpopp og möguleiki á balkanballöðum (BB) sem við erum svag fyrir (halló Lejla 2006!) – komið aftur Bosníumenn! Uppáhalds var samt hann Deen sem var á diskótekinu 2004, svona líka hress:
Búlgaría
Búlgarar eru pínu misskildir Eurovision-keppendur. Þeir hafa keppt níu sinnum í Eurovision, fyrst 2005 og síðast 2013. Einu sinni, 2007, hafa þeir komist í topp 5 og þar í 5. sæti. Annars hafa þeir ekki komist í aðalkeppnina. Voru ansi nálægt því árið 2012 þegar framlagið var í 10. sæti ásamt Noregi en Noregur fór áfram. Búlgarar hafa yfirleitt sent brjáluð partílög sem gaman er að dilla sér við, danstónlist sem ber keim af þjóðlagahefðum svæðisins (halló Elitsa&Stoyan árin 2013 og 2007!) Við grétum á keppninni í Noregi 2010 þegar vinur okkar hann Miro komst ekki áfram í aðalkeppnina; þvílíkur performans!!
Króatía
Annað balkanland sem hefur tekið þátt frá 1993, en nú síðast 2013. Króatar hafa verið nokkuð farsælir og hrepptu 4. sæti árin 1996 og 1999 sem er þeirra besti árangur. En eftir að hafa dottið út í undankeppnunum á hverju ári frá 2010-2013 gáfust þeir upp. Þeir áttu sko hvern smellinn á fætur öðrum á tíunda áratugnum og hafa prófað ýmislegt annað; BB, poppballöður, danslög, undarlegt popp (halló Moja stikla 2006!) og meira að segja karlakór! Við segjum: Farið aftur í frábæru melódísku/dramatísku lögin frá 90’s – eins og hina ógleymanlegu Nostalgiju (1995):
Lúxemborg
Sigursælasta þjóðin sem ekki er lengur með, sigraði fimm sinnum (1961,1965, 1972, 1973 og 1983). Af ástæðum sem aðdáendur skilja ekki (en hefur að gera með áhugaleysi ríkissjónvarpsins) hefur Lúxemborg ekki tekið þátt frá árinu 1994. En frá 1956 misstu þeir bara af einni keppni, 1959. Yndisleg lög mörg af þessum elstu, þar sem einfaldleikinn réði sem og gæði laganna. Uppáhalds er þó framlagið frá 1980 þar sem risa mörgæsarpabbi er í aðalhlutverki:
Mónakó
Annað örríki sem tók 24 sinnum þátt, fyrst árið 1959 og nú síðast 2006. Besti árangur var sigur árið 1971. Fengu núll stig 1966. Tóku hlé frá 1979 til 2004 en þar sem árangurinn var dræmur 2004-2006 (komust aldrei í aðalkeppnina) drógu þeir sig aftur í hlé. Auk þess að vera eina landið sem syngur alltaf á frönsku með Frakklandi voru lögin nánast alltaf dramatískar ballöður. En auðvitað einstaka popplag – eins og þetta rífandi stuð frá 1967:
Morrokó
Hefur einu sinni árið 1980, fyrst Afríkuþjóða og sungu á arabísku. Tóku þátt þar sem Ísrael var ekki með þetta ár. Lentu í 18. sæti og fengu öll sín 7 stig frá Ítalíu. Svona hljómar það:
Slóvakía
Slóvakar tóku fyrst þátt árið 1994 þegar þeir voru sjálfstæðir frá Tékklandi. Svo aftur 1996 (besti árangurinn: 18.sæti) og 1998, en tóku síðast þátt árið 2012, þar sem þeir höfðu lent í síðasta sæti í undankeppninni. Árin á undan höfðu líka verið frekar tragísk: komust ekki upp úr undankeppnunum og lentu í 13. sæti 2011, 16. sæti 2010 og 18. sæti 2009. Við vorum nokkuð hrifnar af skógarstemmingunni í Osló 2010 með Horehronie:
Tyrkland
Langflestir aðdáendur Eurovision-keppninnar sakna Tyrkja mikið úr þessum lagahrærigraut því að tyrkneska tónlistin er svo afgerandi og áhugaverð. Þeir voru líka með fyrstu „exótísku“ þjóðunum sem tóku þátt árið 1975. Síðasta framlagið var árið 2012 í Baku og þar var það 7. sæti – en þá höfðu Tyrkir alltaf komist í aðalkeppnina nema árið 2011. Nokkuð fullkomið skólabókardæmi um velheppnað tyrkneskt Eurovision-lag var sent í keppnina árið 1997 og hafnaði í 3. sæti (halló Dinle!)
Úkraína
Vegna ástandsins heima fyrir sá Úkraína sér ekki fært að taka þátt í ár. Þessi þjóð sem hefur 12 sinnum tekið þátt, fyrst 2003 og síðast 2014 hefur verið ein farsælasta austantjaldsþjóðin. Úkraínumenn unnu auðvitað 2004 (halló Ruslana frábæra!) en versti árangurinn var 19. sæti 2005 í aðalkeppninni, árið sem þeir héldu keppnina og í eina skiptið sem þeir hafa sungið á heimamálinu. Það er svo erfitt að velja eitt framlag, þau eru hvert öðru stórfenglegra en ætli Verka elskan Serduchka segi þetta ekki best: Tanzen!
Lag:Here for you Flytjandi: Maraaya Hvenær: Annað undankvöld 21. maí
Baksagan Marjetka og Raay eru músíkalskt danstónlistarpar og hljómsveitin, sem er um ársgömul, ber nöfn þeirra beggja. Þau báru sigur úr býtum í undankeppninni EMA 2015 í heimalandinu. Marjetka vakti þar athygli í brúðarkjól með risastór heyrnartól og þau hafa orðið hennar helsta einkennismerki. Maraaya sjá keppnina sem glugga út til Evrópu en hafa ekki mikil afskipti haft annars af Eurovision. Þar sem þau eiga tvö ung börn, sem fylgja með á Eurovision, verða þau sennilega fyrst heim af djamminu, en luft-fiðluleikarinn heldur ef til vill uppi heiðrinum? Þau leggja mikið upp úr kynningum á laginu, m.a. með þessari acappella-útgáfu (Glee hvað?)
Álit Hildar
Hér er sko ekkert verið að draga hlutina á langinn! Lagið byrjar strax á viðlaginu og eftir örfáar sekúndur er danstakturinn mættur á svæðið og viðlagið aftur á 48. sekúndu lagsins! Það er jú kannski það sem nær manni við lagið, enginn löng intró, ekkert ballöðuvæl, enginn mega boðskapur, bara hressandi popplag sem er sko velkomið í öllu þessu ballöðufári sem keppnin er í ár. Heyrnatólin eru æði og ef ég yrði í Vín myndi ég örugglega bara rölta með þau um bæinn alla daga! Svo náttúrlega blikkar Raay áhorfendur svona rétt eins og Björn Jörundur gerði í Söngvakeppninn og hver veit nema það fleyti þeim eitthvað áfram.
Álit Eyrúnar Frábært lag, eitt af mínum uppáhalds – eftir að ég komst yfir hversu mikið söngkonan stælir hina bresku Duffy – sjá t.d. hér. Lagið er mjög hressandi og danslagið í keppninni að mínu mati. Heyrnartólin eru skemmtilegt einkennismerki; ég sé fólk fyrir mér á keppninni að styðja sína konu með risastór heyrnartól!
Möguleikar Slóvenía verður næstsíðust á svið í ár í undankeppninni og sú staðreynd ásamt því að vera með lag sem er ólíkt öðrum í ballöðustorminum í ár, kemur til með að fleyta þeim nokkuð örugglega inn í úrslitin. Maraaya fylgir Tinköru Kovac eftir sem kom Slóveníu í aðalkeppnina í fyrsta sinn frá 2011. Veðbankarnir spá Slóveníu 8. sæti (Oddschecker.com) og það hlýtur að teljast mjög gott!
Hey, höldum niðri í okkur andanum þangað til við förum á svið!
Veðbankaspár eru eins fastur liður í Eurovision-undirbúningnum og yfirferð Páls Óskars á Rás 2 í Eurovikunni. Við höfum stundum tekið þann pól í hæðina að pæla í veðbönkunum ca. mánuði fyrir keppnina. Fyrr en það er ekki alltaf mikið að marka og samkeppnin ekki farin að harðna neitt að ráði – þrátt fyrir að lögin séu öll verið tilkynnt formlega um tveimur mánuðum fyrir keppni.
Við höfum bætt inn í listann okkar góða hinum frábæra „Júróvisjón 2015″-hópi á FB en þar er kosið vikulega um topp 5-lögin af miklum móð! Annars er augljóst að lítil fjölbreytni er í spám hinna opinberu veðbanka; skiptast á að hafa Noreg og Finnland í 5. sæti en önnur eru eins. Það eru aðdáendaspárnar sem brjóta þetta upp, en þrátt fyrir það hafa enn ekki verið birtar neinar kosningatölur frá stóru aðdáendasamtökunum, OGAE International.
Sem stendur er Ísland í 10. sæti í opinberu veðbönkunum – og það verður spennandi að fylgjast með tímanum fram að keppni!
Að lokum rákumst við á sérlega skemmtilega tölfræði hér sem sýnir glögglega að þeir sem stíga á svið í seinni helmingi aðalkeppninnar bera greinilega oftast sigur úr býtum (krossum fingur!):
Spaugstofuna þarf vart að kynna fyrir neinum enda hafa þeir verið fastagestir á skjám landsmanna um árabil. Þar gerðu þeir grín að landi og þjóð með ýmsum hætti og margt af því sem þeir hafa gert er orðin gamanklassík. Söngvakeppni Sjónvarpsins og júróvision var þar ekki undanskilið.
Þeir Örn Árnason, Karl Ágúst Úlfsson, Randver Þorláksson, Pálmi Gestsson og Sigurður Sigurjónsson hófu sína fyrstu þáttaröð af Spaugstofunni á RÚV í byrjun árs 1989. Strax árið eftir voru þeir með innslög í Söngvakeppni Sjónvarpsins og gerði nokkur ár þar á eftir. Innslögin tengdust Söngvakeppninni oftast ekki neitt en enduðu oft á eigin júróvision-framlagi Spaugstofumanna. Þá gerður þeir, eins og von var, líka sínar eigin útgáfur af framlögum okkar í júróvision. Þar er skemmst að minnast laga á borð við Út úr kú (Sjúbídú) og útgáfa þeirra af Einu lagi enn sem lenti í 4. sæti í Zagreb árið 1990.
1989
Árið 1989 var það lag Valgeirs Guðjónssonar, Það sem enginn sér, í flutningi Daníels Ágústar sem sigraði í vali milli sex laga. Gengi lagsins í Lausanne í Sviss er geymt en ekki gleymt enda hlaut það núll stig. Hins vegar varð lagið Alpatvist eftir Geirmund Valtýsson í flutningi Bítlavinafélagsins í öðru sæti. Þar sem það var bæði hressara og já, líklega skemmtilegra lag, tóku Spaugstofumenn það upp á sína arma og fluttu sem Alkatwist!
1992
Þetta ár var Spaugstofan með nokkur innslög milli laga í Söngvakeppni Sjónvarpsins sem kölluðust Lífsbarátta landans og fjallaði um hinn undarlega þjóðflokk Íslendinga. Innslögin enduðu á framlagi Spaugstofumanna í Söngvakeppninni sem fjallaði einmitt líka um land og þjóð auk þess sem þeir félagar gerðu stólpagrín að Söngvakeppninni.
1991
Vinsælasta júróvisionframlag okkar meðal Íslendinga er án efa Draumur um Nínu sem Stebbi og Eyvi fluttu í Róm árið 1991. Því gekk ekkert allt of vel – endaði þar í 15 sæti en varð að ódauðlegum hittara med det samme hér heima. Þetta ár urðu líka stjórnarskipti á Alþingi. Fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar varð til (Viðeyjarstjórnin) með samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins sem hafði kjörtímabilið á undan unnið í vinstri stjórn með Alþýðubandalagi, Borgarflokknum og Framsóknarflokknum. Spaustofumenn sáu þarna leik á borði að sameina þetta og fluttu Draum um Nonna vorið 1991!
1990
Í fyrsta skipti sem Spaugstofan var með innslög í Söngvakeppninni enduðu þeir á sínu fyrsta júróvísjon-lagi. Þar sungu fjöldinn allur af persónum úr Spaugstofunni og lagið, sem nefndist Alveg týpískt júróvisjónlag, er líklega þeirra allra eftirminnilegasta lag!
Lag: Amanecer Flytjandi: Edurne Hvenær: Aðalkeppnin 23. maí
Baksagan Spánn er að spýta aðeins í lófana þegar kemur að Eurovision; fyrst Þjóðverjar og Austurríkismenn geta þetta ennþá, hlýtur þeirra móment að koma, eða hvað? Edurne sem er þekkt sjónvarpsstjarna og kærasta Man.united-fótboltastjörnu, var því fengin til að flytja lag frá skotheldum sænskum lagahöfundum (Thomas G:son sem átti Euphoriu og Tony Sánchez-Ohlsson sem samdi m.a. lagið hennar Pastoru Soler 2012 „Quédate conmigo„) Og hún er þrusuflytjandi eins og sést hér:
Álit Hildar Þvílíkt drama sem Spánverjar bjóða okkur upp á í ár! Risastórt lag með miðaldaævintýraþema myndbandi þar sem bónorð breytist í hrylling, Edurne hleypur og biðilinn líka, fálkar koma við sögu og hellisdyr sem ábyggilega opnast ekki nema nægilega margir öskri ,,Harka parka innskal arka“! Og ekki má gleyma trúlofunarhringnum merktum hinum örlagaríka degi 23. maí 2015. Það er ekki laust við að kona sé bara örlítið þreytt eftir allt þetta á 3 mínútum. En þar sem leiða má líkur að því að hvorki hellisdyr né rándýr mæti á sviðið í Vín og það er ekki nægileg stór til að fara í langhlaup á 3 mínútum þá fái lagið meiri athygli en það gerir í myndbandinu sem er stórgott því þetta er ábyggilega besta framlag Spánverja í áratugi, bæði smellið og sænskt!
Álit Eyrúnar Jú, Edurne er með’etta! Ef flutningurinn verður pottþéttur (engin falskheit eða slíkt) verður þetta áreiðanlega mikið sjónarspil á sviðinu í Vín. Mér sýnist reyndar sviðsmyndin ekki leyfa neina gladiatora með tígrisdýr en við skulum sjá til 🙂 Ég var a.m.k raulandi viðlagið eftir eina hlustun „iiiieeeeiiiieeeeooooo“ – festist rækilega í hausnum á manni.
Möguleikar Edurne er sem stendur í 13. sæti í veðbönkum (Oddschecker.com) og er á fljúgandi siglingu, leggur mikið í kynningarstarf með órafmögnuðum flutningi og sinfóníuhljómsveit. Það verður þó að segjast að möguleikar hinna stóru þjóða eru sennilega minni þar sem þau fá bara einn flutning á sínu framlagi en önnur lög í úrslitunum tvo. Og Spánn hefur sannarlega ekki verið í náðinni frá svona ca. 1969!
Edurne hefur slegið í gegn sem Sandy í Grease – og nú vill hún Eurovision-titillinn (wúhúhú, þú ert allt sem ég vil)!
Lag: Adio Flytjandi:Knez Hvenær: Seinna undankvöld 21. maí
Baksagan Zeljko Joksimovic, velkrýndur konungur Balkanballaðanna (BB) og hinn nýi Hr. Eurovision (Hr. Logan má muna sinn fífil fegurri…) snýr aftur með enn eina þjóðlagasnilldina. Hinn velþekkti Knez, eða Nenad Knežević eins og hann heitir fullu nafni, flytur en hann hefur átt góðu gengi að fagna í fyrrum Júgóslavíu frá því að hann hóf sólóferil sinn árið 1992. Hann var þó töluvert meira í danspoppinu til að byrja með – eins og eitt þekktasta lag hans, Ti si kao magija, ber gott vitni um:
Lagið Adio er á hinn bóginn sannkölluð balkanballaða og hefst á 30 sekúndna inngangskafla án söngs. Myndbandið sýnir ákafa Svartfellinga í að sýna fegurð landsins (kannast einhver við svona náttúrurúnk, ehemm!?).
Álit Hildar Húrra fyrir því að BB er ekki dauð í júróvisjon en Svartfellingar halda upp heiðri hennar í líkt og í fyrra. Þrátt fyrir að Adio sé samið af kónginum Zeljko þá er þetta langt frá því að vera hans besta og hljómar meira eins og eitthvað endurunnið sem hann hefur gert mögum sinnum áður. Lagið stendur þó undir nafni sem BB með hljómþýðum karlsöngvara, fiðluleik og löngum inngangskafla. Ég verð þó að segja að ég varð fyrir vonbriðgum þegar ég heyrði lagið enda bjóst ég við meira af Zeljko!
Álit Eyrúnar Ég var guðslifandi fegin að frétta að það yrði ein alvöru BB í ár – Zeljko sé lof og dýrð! Þetta er vissulega engin Lane Moje, en fyrir mig er þetta alveg nóg. Í ár eru bara 7 lönd sem syngja ekki á ensku, Svartfjallaland þeirra á meðal, og þetta er klárlega uppáhalds lagið mitt sem er ekki á ensku! Knez er nú kannski ekkert svakalega fyrir augað, en við skulum vona að sviðsetning og pródúksjónin verði þannig að lagið njóti sín til fulls í staðinn fyrir að setja hann alltof mikið í mynd… Ég hlakka mikið til að sjá Svartfjallaland og hvort þau komist áfram!
Möguleikar Svartfellingar komust í aðalkeppnina í fyrsta sinn í fyrra þegar Moj Svijet vann hug og hjörtu evrópskra áheyrenda/áhorfenda með fallegri BB! Nú er Svartfjallaland í 36. sæti veðbankans (Oddschecker.com) og við verðum að sjá hvort framvindan verði Knez í vil en það er ljóst að BB, og ekki síst Zeljko, eiga marga aðdáendur í álfunni! Því má þó ekki gleyma að keppnin í ár er mikil ballöðukeppni og því alls ekki víst að þessi nái eins vel í gegn og margar aðrar BB á undan henni.
Syngur í sturtuhausinn – vonandi ekki svanasönginn!
Lag: Time to shine
Flytjandi:Melanie René Hvenær: Seinni undankeppni 21. maí
Baksagan Frá því að Svisslendingar tóku upp á því aftur að hafa forvalskeppni fyrir júróvision 2011 hlýtur val þeirra að teljast með þeim flóknari í Evrópu! Í Sviss eru fjórar opinberar sjónvarpsstöðvar, ein fyrir hvert opinbert tungumál en þau eru þýska, franska, ítalska og romansh. Allar stóðu þær fyrir sínu eigin vali á lögum til að keppa í forvalskeppninni sem nefnist einfaldlega Die große Entscheidungsshow eða Stóri valþátturinn! Að lokum kepptu sex lög í lokakeppninni í janúar þar sem hin máretíusættaða Melanie sigraði. Melanie þessi hefur svona meira verið að læra að syngja en meika það en ætlar sér að meika það með fyrstu sólóplötunni sinni sem er væntanleg í kringum júróvisionkeppnina. Til eru að minnsta kosti tvö opinber myndbönd við lagið auk þess sem framlag hennar hefur orðið nokkrum innblástur í gerð ýmiskonar vídeóa – meðal annars þessa:
Löngum hafa keppendur Sviss komið frá þýskumælandi hluta landsins. Melanie er hins vegar frá Genf og fyrsti fulltrúi frönskumælandi Sviss frá árinu 1996 og í raun fyrsti fulltrúi frá Genf síðan 1992!
Álit Hildar Lagið greip mig engan veginn í fyrstu hlustun og ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað það. Ekki einu sinni þegar ég var búin að hlusta á það 10 sinnum í röð, þá hljómaði enn sænska lagið í höfðinu á mér, sem ég hafði einmitt verið að hlusta á næst á undan! Mér finnst samt lagið skemmtilegra með hverri hlustun en það er líklega ekki mjög júróvisionvænn eiginleiki. Ekki besta lagið en heldur ekki versta lagið!
Álit Eyrúnar
Ég gleymi ítrekað hvaða framlag Sviss er með í ár! Satt best að segja hefur þetta lag líka verið svo lengi út í júró-kosmósinu að ég er komin með leið á því. Viðlagið er þó ágætlega grípandi, að minnsta kosti við fyrstu hlustun. Ég geri mér grein fyrir því að einhverjir komi til með að fíla það í fyrstu hlustun (í keppninni sjálfri) en sjálf tek ég pissupásu, trúi ég!
Möguleikar Möguleikar Sviss á því að komast í aðalkeppnina í ár teljum við slakar. Lagið er í sterkara lagi, ballaða en samt ekki, en það er eitthvað óeftirminnilegt við það. Melanie er hins vegar hörku söngukona. Hún tapar líklega á því að vera strax á eftir Svíþjóð sem er náttúrlega það lag sem allir eru að tala um og verður mikið fyrir augað (ekki bara Måns heldur líka grafíkin!). Samkvæmt Oddschecker.com er Melanie í botnbaráttunni í veðbönkunum en þeir hafa ekki alltaf verið sannspáir!
,,Kjóstu mig góði“ gæti Melanie sannarlega verið að segja hér!
Lag:Heros Flytjandi:Måns Zelmerlöv Hvenær: Seinni undankeppni 21. maí
Baksagan Herra Zelmerlöv (frændi Selmu Lagerlöf – nei djók!) gæti auðveldlega fengið nafnbótina Hr. Melodifestivalen þar sem hann er þar öllum hnútum kunnugur (þyrfti samt að deila nafnbótinni með þeim nokkrum…). Hann tók þar þátt árin 2007 og 2009 og hefur verið á skjánum sem kynnir í söngkeppnum og þáttum og hvert mannsbarn þekkir hann í Svíþjóð. Á sviðinu í Melodifestivalen hafði hann stórfenglega grafík sem reyndar hefur verið nokkuð umdeild þar sem staðhæft er að þetta sé allt meira og minna stolið (samsæriskenningar í Eurovision? Nei hættiði nú alveg!) – hér má m.a.s. sjá eina slíka framsetningu:
Álit Eyrúnar Ég féll sko alveg í stafi þegar ég heyrði þetta lag fyrst – fannst þetta lag hafa sama „wow-factor“ og Euphoria t.d. Síðan hef ég hlustað gegndarlaust á það (þið þekkið þetta!) og það hefur sýnt sig að mínu mati að þetta er ekki alveg eins skotheld tónsmíð og sigurlag Eurovision 2012, og ég er orðin pínu leið á Måns greyinu. Þetta er samt mjög fínt popplag og svona „anthem“-lag. Með grafíkinni sem þjónar svo afskaplega vel sjónræna hluta keppninnar kemur þetta til með að slá algjörlega í gegn!
Álit Hildar Ákúrat öfugt við Eyrúnu sá ég engann vá-faktor í Heros þegar ég sá og heyrði það fyrst. Reyndar gerði það ekki heldur þegar ég sá og heyrði Euphoriu fyrst en það er önnur saga! Lagið vinnur aðeins á (svona þegar maður kemst í gegnum þennan undarlega kántrí kafla í byrjun – hver ákvað þetta eiginlega?!) en eftir að myndband við lagið án grafíkurinnar á sviðinu var gert sést svo vel hvað lagið er slakt í stúdíóúgáfu. Þess vegna er nú alveg frábært fyrir Måns að júróvision er keppni í sjónvarpi þar sem sviðssetning vegur að minnsta kosti jafn mikið og lagið!
Möguleikar Svíar eru meðal sigursælustu þjóða í Eurovision og gengi þeirra hefur verið mjög gott undanfarin ár – raunar svo gott að í þetta eina skipti sem þeir komust ekki í aðalkeppnina (með aumingja Önnu Bergendahl árið 2010) ætlaði allt um koll að keyra og þeir veltu því fyrir sér hvað hefði klikkað. Måns mun sko ekki klikka í ár, það getið þið bókað, hann er sem stendur í 1. sæti í veðbönkunum (Oddschecker.com)!
Måns mun klárlega svífa inn í úrslitin þó að hann verði kannski ögn meira klæddur! Mynd: aftonbladet.se