Gestaálitið okkar fyrir Söngvakeppnina að þessu sinni er Sigrún Huld Skúladóttir a.k.a. Euro-Sigrun, leikkona og júrónörd með meiru. Hún hefur farið mikinn á Facebook undanfarið í grúppunni Júróvisjón 2015 þar sem hún hefur alla anga úti og fylgist með hverju því sem tengist Eurovision og Söngvakeppninni. Við höfum öruggar heimildir fyrir því að umfjöllunin hjá henni verði enn meira og hressilegri þegar nær dregur Eurovision!
Nú ætlar hún hins vegar að spá í spilin fyrir annað kvöld:
CADEM – Fyrir alla
„Ok, ok. Ég skil alveg að þetta lag skuli höfða til fólks. Það sker sig úr, er líflegt og svona hoppandi út um allt og tannað. Dass af Skyr.is og dass af „það sést hverjir drekka Egils Kristal“. Fólk er oft skotið í þannig fíling. En þetta nær mér ekki. Ég var ekki hrifin af stúdíóútgáfu lagsins og svo sá ég það í undanúrslitum og það breytti ekki skoðun minni. Daníel er ekki nógu raddsterkur söngvari til að gefa laginu orkuna sem þarf til þess að það nái flugi. Ég er engan veginn að skilja þennan offhvíta 90’s fatnað né “kumpánlegu” danshreyfingarnar á sviðinu. Mér finnst ég hafa heyrt þetta lag allt of oft í gegnum árin og ég á til að bregðast illa við lögum sem segja mér að vera hress. Þau hafa þveröfug áhrif á mig. Hressa þríeykið í CADEM fær þó hrós fyrir líflega framkomu, góðan vilja og sjarma. En þetta er of mikið plast fyrir minn smekk.
Ég hef ekki mikla trú á að þetta lag muni enda ofarlega í úrslitum. Þau eru að auki fyrst á svið og hætta á að slatti af fólki muni missa af þeim. Margir Eurovision aðdáendur erlendis virðast þá afar hrifnir af þessu og fær lagið yfirgnæfandi kosningu á ESC Bubble. Ég mun horfa og hlusta með opnum hug á laugardaginn og er spennt að sjá hvort enski textinn lyfti þessu upp á hærra plan.“
SUNDAY – Fjaðrir
„Töff, spes, flott. Ég er mjög hrifin af þessu lagi og röddin hennar Hildar er svo djúsí. Dísæt og djúp á sama tíma. Lagið hefur andstæður í sér, hið bjarta og dökka einhvern veginn og það er svo heillandi. Ég varð hrifin af þessu lagi um leið og ég heyrði stúdíóútgáfuna og hrifningin jókst þegar ég sá það í undanúrslitum. Textinn er líka alveg frábær. Margir hafa líkt laginu við framlag Noregs til Eurovision 2013, I Feed you My Love með Margaret Berger og get ég alveg tekið undir það að einhverju leyti. En mér finnst þó lagið alveg standa fyrir sínu án þessa samanburðar. Ég varð því fyrir eilitlum vonbrigðum þegar ég sá atriðið í beinni og minnti stílíseringin á Hildi óneitanlega mjög mikið á áðurnefnda Margaret Berger, hárgreiðslan og hvítt aðsniðið dress. Það var engu líkara en að verið væri að reyna að líkjast þessu framlagi Noregs. Ég hefði verið glaðari með það ef Hildur hefði fengið alveg sérstaka stílíseringu, kannski hrafnadress? Öll sviðssetningin var að auki einhvern veginn ófókuseruð og út um allt.
Ég hugsa að þetta lag sé vel staðsett annað á svið og á milli laga sem eru síðri að mínu mati. Staðsetningin mun styrkja stöðu lagsins og gera það eftirminnilegra. Fjaðrir hefur alla burði til að raka inn stigum hjá Eurovision aðdáendum og dómnefndinni en ekki síður hjá þeim sem eru orðnir leiðir á Eurovision klisjum. Ég væri kampakát ef Sunday lentu í einvíginu og tel ekki ólíklegt að það verði einmitt raunin. Ég er get varla beðið eftir að sjá og heyra SUNDAY massa þetta á laugardagskvöldið með enskum texta.“
Björn og félagar – Piltur og stúlka
„Þetta lag er skyndibitinn og innihaldið er „We are the World“, Fíladelfía og Nýdönsk. Innihaldið heillar mig ekki. Textinn er svona við eigum öll að vera vinir, elska hvort annað og vera góð og við erum öll manneskjur og deilum sammanneskjulegum tilfinningum og þannig. Rosa fínt og allt það. Ég fíla góðan friðarboðskap bara eins og næsti Eurovision nöttari en þessi skýtur yfir markið. Textinn er svo mikið að messa yfir manni og þess vegna fæ ég svona trúarlegan fíling. Augun poppuðu næstum úr hausnum á mér í undanúrslitunum ég ranghvolfdi þeim svo mikið. Þrátt fyrir alla þessa svakalegu neikvæðni hjá mér vil ég samt gefa flytjendunum fjórum hrós fyrir samstillta og orkumikla framkomu. Þau fúnkera vel saman og eru fagmenn fram í fingurgóma. Stílísering og sviðssetning var einnig til fyrirmyndar en það dugði ekki til að bjarga þessu lagi. Ég veit þó fyrir víst að margir eru hrifnir af þessu og ber ég fulla virðingu fyrir því. En þetta nær mér ekki einu sinni örlítið.
Staðsetning Björns og félaga er nokkuð góð, beint á eftir Fjöðrum. Ég hugsa neflilega að aðdáendur þessa lags séu ekkert sérlega hrifnir af laginu á undan og öfugt. Þessir tveir hópar svissa líklega pissupásum. Hentugt í Eurovision partýinu!“
María Ólafs – Lítil skref
„Þessi sjarmablossi kom algerlega aftan að mér í undanúrslitunum. Ég var alls ekki hrifin af þessu lagi í stúdíóútgáfunni og er enn ekkert sérlega hrifin af því. En María kom sá og massaði dæmið! Hún var bara svo flott að hún náði mér og ég lá kylliflöt. Hún er örlítið tæp á lágu nótunum en maður gleymir því um leið og hún kýlir fast á háu nóturnar. María ber þetta lag alla leið og lagið á allt henni að þakka. Að því sögðu þá skil ég samt sem áður engan veginn hvaðan pælingarnar á bakvið stílíseringuna og sviðssetninguna koma. Umgjörð virðist ekkert vera í takt við lagið. Þetta blómálfa og Emmelie de Forest lúkk er í hrópandi mótsögn við girl-powerið í laginu. Vá hvað það væri hægt að gera mikið með það! Hún tekur loks ákvörðun að fara frá gaurnum og er heil á ný og allt það. You go girl! í blómálfakjólnum…
Ég hugsa að María komist langt í keppninni og endi jafnvel í einvígi. Þó lagið heilli mig ekki og sviðssetningin hafi verið út úr kú að mínu mati þá er ég það hrifin af söngkonunni að ég verð ekki svekkt ef lagið keppir í Vínarborg fyrir Íslands hönd. Ég er afar spennt að fá að sjá og heyra þetta í beinni með enskum texta.“
Elín Sif – Í kvöld
„Algerlega frá fyrstu hlustun uppáhalds lagið mitt í keppninni. Ég held svo mikið með Elínu Sif að mig verkjar. Þegar ég heyri þetta lag þá ferðast ég aftur í tímann að fyrsta vangadansinum mínum. Elín er svo sjarmerandi að það nær alveg frá sviðinu í gegnum sjónvarpsskjáinn og í stofur landsmanna. Hún segir mér sögu og ég fer með henni inn í þennan hlýja og ástríka heim sem hún hefur skapað. Svo mætir hún bara með gítarinn sinn „Ein Bisschen Frieden“ style og siglir í gegnum þetta eins og ekkert sé. Sviðssetningin í undanúrslitunum hæfðu lagi og flytjanda fullkomlega. Engin tilgerð, ekkert flúr, bara einlægni og mýkt. Bakröddin stóð sig vel og þær sungu vel saman stöllurnar en þær voru ekki fullkomlega samstilltar fyrri hluta lags, en mér fannst eins og bættist í öryggið eftir sem leið á lagið og seinni hluti þess hljómaði eins og karamellur, jarðaber og játningar á bleiku skýi.
Ég vona að landinn muni heillast með mér og Elín Sif komast í einvígið. Ég hlakka svo mikið til að heyra enska textann á laugardaginn! Það er mín ósk að þetta lag verði framlag okkar í Vínarborg og það myndi gleðja mig óstjórnlega mikið ef sú yrði raunin. Ég held að Elín Sif hafi alla burði til að heilla Evrópu (og Ástralíu) upp úr skónum!“
Friðrik Dór – Í síðasta skipti
„Heilalím ársins án efa. Lagið grípur og það er mjög vel samið. Fullt af klisjum en það böggar mig ekki. Ég vakna með þetta lag á heilanum og ég hef ekkert á móti því að það skuli dvelja þar við. Ég er síraulandi það og þekki fleiri sem eru í sömu stöðu. Friðrik Dór fer mjög vel með það en ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir eilitlum vonbrigðum með flutninginn í undanúrslitum. Það var eins og hann ætti erfitt með hæstu nóturnar og reif í nokkrum sinnum en ok allt í lagi með það. Ég hreifst samt með, lagið er bara svo asskoti grípandi. Það minnir mig á gömlu 60’s gullmolana þar sem textinn fékk að njóta sín og honum var haldið uppi með grípandi og eftirminnilegri laglínu. Vel gert!
Þetta er næstsíðasta lag úrslitakvöldsins og það hlýtur að vera príma staðsetning. Elín Sif hitar upp með ljúfum ástartónum og ástarsorginni rignir yfir þegar Friðrik Dór mætir á svið. Ég trúi ekki öðru en að þetta lag muni fara í einvígi og það kæmi mér ekkert á óvart ef það myndi sigra. Ég myndi ekkert fara í fýlu ef það væri niðurstaðan.“
Haukur Heiðar – Milljón augnablik
„Píanóið og takturinn eiga þetta lag. Haukur Heiðar fellur dáldið í skuggann af undirspilinu, sérstaklega fyrri partinn. Þetta minnir mig mikið á „How to Train your Dragon“ lagið hans Jónsa en takturinn er sá sami. Það er skemmtilegur léttleiki yfir því og ævintýralegur blær sem heillar mann með. En kannski eru það áhrifin frá fyrrnefndu teiknimyndinni. Finnst eins og ég sé að fljúga um loftin blá eitthvað að kanna og tengjast barninu í mér. Ég sakna þess eilítið að Haukur fái ekki að blasta á háu tónunum eins og hann er þekktur fyrir. Það var eins og hann ætti erfitt með sönginn í undanúrslitum, það vantaði öryggið og styrkinn í röddina, en ég spyr mig hvort lagið liggi kannski of lágt fyrir hans raddsvið. Ég er ekkert síður að fatta stílíseringuna á honum og á erfitt með að tengja herforingjajakkann (eða hvað þetta er) við lagið. Þetta lag nær mér þó alltaf út á (eldhús)gólf því takturinn er einmitt svo grípandi.
Þetta er síðasta lagið sem fer á svið á úrslitakvöldinu en ég held samt sem áður að það sé ekki að fara að skora mjög hátt. Samkeppnin er einfaldlega of hörð.“