Yfirferð laga – II. hluti

yfirferðarmynd

Yfirferðin heldur ótrauð áfram. Nú er komið að næstu sex lögum í fyrri undanriðlinum þann 6. maí næstkomandi. Um er að ræða sex mjög mismunandi lög; t.d. söngleikjalag frá Belgíu, europopp frá Úkraínu, rólega ballöðu frá Aserbaídsjan og auðvitað enn eitt lagið frá Valentinu Monettu!

russland

RússlandShine í flutningi Tolmachevy-systranna

Eyrún segir: Sterílla lag er varla til í Eurovision-heiminum, úff hvað mér finnst þetta leiðinlegt! Tvíburasysturnar eru ógnar krúttlegar – en samt ekki eins mikil krútt og þegar þær unnu Junior Eurovision 2006. Rússar eiga nú tæplega von á miklum stuðningi í ár vegna pólitískra umsvifa á Krímskaganum en Eurovision er samt dálítið annar heimur en sá raunverulegi. Og í Eurovision-heimi komast Rússar alltaf áfram (eða nánast alltaf…). Það verður allavega ekki laginu að þakka…

Hildur segir: Rússar hafa nú oft gert betur en þetta! Þó lagið sé vel útsett og kannski jafnvel ágætlega útpælt þá er það bara svo leiðinlegt að maður getur ekki hlustað til enda! Vesalings stúlkurnar hafa svo enga útgeislun eða vott af einlægni, allt pródúserað og pælt í tætlur sem skilur allt mannlegt bara eftir heima. Vona sannarlega að Rússar sitji eftir í ár.

 

Aserbaidjan

 

AserbaídsjanStart a Fire í flutningi Dilöru Kasimova

Eyrún segir: Æðisleg ballaða! Í ár eru mjög fá Balkanlönd í keppninni og aðeins ein alvöru Balkanballaða (sem við komum að seinna) en þessar Austanvegsballöður (með panflautunum og seiðandi laglínunum) eru barasta engu síðri, skal ég segja ykkur! Framburður textans er dálítið að flækjast fyrir mér (og kannski Dilöru líka…) en lagið er ekta sænskt gæðaefni og á vonandi eftir að skila góðri útkomu fyrir Asera.

Hildur segir: Arserar bjóða upp á eina af fjölmörgum ballöðum keppninnar í ár, þótt hún sé eilítið öðruvísi en hefðbundnar Eurovision-ballöður. Fyrst þegar ég heyrði framlag Asera, fannst mér það frekar leiðinlegt, en við frekari hlustun vinnur það á og maður fattar að lagið er bara þó nokkuð gott og alveg þess virði að gefa gaum. Dilara er ágætist söngkona en á Eurovision-konserti fyrr í vor var flutningur hennar viðkvæmur þó svo hún hafi ekki beint verið fölsk þá fannst manni vera stutt í það. Arserum hefur alltaf gengið vel en það kæmi mér ekki á óvart ef þetta væri fyrsta ár þeirra sem þeir fljúga ekki áfram.

 

ukraina

ÚkraínaTick Tock í flutningi Mariyu

Eyrún segir: Ef Rússar komast ekki upp úr undankeppninni, er það vegna þess að Úkraína hirðir ÖLL stigin af þeim! Lagið er nú líka þeim mun betra (mínus flautið sem fær hárin bara til að rísa hjá mér!) og sjarmi Mariyu er talsvert meiri en þeirra rússnesku. Ég gæti alveg trúað því að þetta blandaði sér í toppbaráttuna í aðalkeppninni sjálfri – við skulum ekki gleyma því að risinn hjálpaði Úkraínu í 3. sæti í fyrra!

Hildur segir: Ég á í hálfgerður ástar-/haturssambandi við framlag Úkraínu í ár. Mér finnst nefninlega lagið vera efni í frábæra europopp-sprengju á borð við framlög Úkraínu frá 2008 og 2009. Hins vegar vantar eitthvað í þetta hjá Maríyu sem gerir það að verkum að útsetning hljómar eins og hún sé hálf kláruð. Ég vona sannarlega að útsendingin verði orðin fyllri og Maríya hafi líka æft sig svolítið að syngja síðan í undankeppninni heima fyrir svo við fáum hresst atriði á sviðið! Þó svo að það gerist ekki, efast ég þó ekki um að Úkraína fari áfram.

 

Belgia

BelgíaMother í flutningi Alex Hirsoux

Eyrún segir: Hugljúft lag sungið á fallegan hátt af góðum söngvara. Lagið sjálft er samt þess eðlis að ég er ekki viss nema það detti niður á milli hjá fólki. Mér finnst þetta pínulítið Skelfing eða Snilld, gæti algjörlega floppað á sviðinu eða hrifið alla áhorfendur með sér í söngnum um mömmu. Ég held þó frekar að Belgar sitji eftir með sárt ennið þegar umslögin verða opnuð!

Hildur segir: Það eru ekki oft sem söngleikjalög skjóta upp kollinum í júróvision, en í ár er breyting á og við fáum tvö. Það þykir mér ekki sérlega leiðinlegt enda góðar söngleikjaballöður oft alveg frábærar! Belgar bjóða okkur upp á fyrri söngleikjaballöðu ársins, en þar syngur Alex til móður sinnar (ég velti því þó fyrir mér í hverskonar söngleik stóra ballaðan væri sungin til móður en það er önnur saga!) Alex hefur stóra og háa rödd sem á örugglega eftir að fleyta honum nokkuð langt, jafnvel alla leið í úrslitin! Ég vona samt að hann fari ekki framúrsér í væmninni…

 

moldova

MoldóvaWild soul í flutningi Christinu Scarlat

Eyrún segir: Drungi og rifin og hás rödd söngkonunnar Cristinu Scarlat setja stemmingu í þetta framlag Moldóvu, ég veit ekki alveg hvort ég fíla þetta. Klárlega samt ekki þetta happy-go-lucky sem oft einkennir Eurovision og höfðar örugglega til einhverra sem slíkt. Söngkonan minnir mig endalaust á Önnu Vissi en samanburðurinn er henni samt ekki í hag. Moldóva á eftir að sitja eftir held ég.

Hildur segir: Moldóva á lagið í ár sem ég gleymi. Alltaf þegar ég heyri það hugsa ég með mér hvað þetta sé nú, kanna málið og hugsa þá: ,,Aha já alveg rétt, þetta er framlag Moldóvu!“ og gleymi því svo jafnhratt aftur. Það gerist nú líka af því ég get ekki beðið eftir að lagið sé búið, finnst það nefninlega svolítið eins allan tímann. Og að þessu sögðu get ég eiginlega ekki annað en spá því að Moldóva sitji heima á úrslitakvöldinu.

 

san marino

San MarínóMaybe í flutningi Valentinu Monettu

Eyrún segir: Jæja, allt er þegar þrennt er og nú þýðir ekkert nema sigur fyrir Valentinu! Hún mætir enn á ný með lag sem er alveg eins byggt og lagið frá í fyrra, Crisalide. Lágstemmt framan af en svaka taktbreyting um miðbikið – ætli Ralf Siegel gefist upp eftir þetta eða á hann endalaust inni? Allt í einu er lagið svo bara búið og mér dettur helst í hug: Hún hefði átt að syngja bara á ítölsku!

Hildur segir: Ég veit ekki hvað maður á að segja um hana Valentinu. Hér er hún mætt þriðja árið í röð og núna með ballöðukennt popplag sem er öllu heilstæðara tónverk en lagið sem hún flutti í fyrra. Lagið í ár er ekkert alslæmt, það er þó ekki mjög eftirminnilegt og kannski helst til of formúlukennt á köflum. Það er eitthvað við Valentinu sem pirrar mig, ég á erfitt með að horfa á hana, þó það sé ekkert ákveðið sem ég get sett fingur á svona fyrir utan að ég skil ekki hvernig henni datt í hug að flytja Facebook-lagið í hitteðfyrra og það hefur áhrif á hvað mér finnst um lögin hennar. Ég ætla að vera svartsýn fyrir hennar hönd og spá því hún þurfi að reyna aftur ef hún ætlar sér í úrslitin í þessari keppni!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s