Yfirferð laga – I. hluti

 

yfirferðarmynd

 

 

 

Það er loksins komið að því að við hefjum yfirferð okkar á þeim 37 framlögum sem keppa í Júróvision þetta árið! Við munum birta yfirferðina í fimm til sex færslum sem allar verða komnar í loftði áður en fjörið hefst þann 6. maí! Hér förum við yfir fyrstu sex lögin sem keppa á fyrra undankvöldinu.

 

Armenia

ArmeníaNot Alone í flutningi Aram MP3

Hildur segir: Aram sem stígur allra fyrstur á svið í keppninni í ár setur aldeilis tónin fyrir það sem koma skal, enda er hér á ferðinni dramatísk ballaða og dramatíkin og ballöðurnar eru ekki af skornum skammti í ár. Lagið er lágstemmt framan af, raunar næstum alveg fyrstu tvær mínúturnar en nær smá hæðum þegar líður á. Lagið er alveg ágæt smíð þó það höfði ekki sérlega til mín. Gengi þess mun klárlega byggjast algjörlega á flutningi og karsima Arams á sviðinu. Það er hægt að sjá hann flytja lagið á tónleikum hér, og ef þetta er það sem koma skal er ég hrædd um að hann fari ekki langt, þrátt fyrir góðar spár í veðbönkum! Spái að þetta sé lagið sem er hæpað og fær svo engin stig!

Eyrún segir: Aram er sjarmatröll og mér finnst þetta eiginlega pínu fullkomið lag til að byrja kvöldið á, píanóundirspil og lengi í gang en svo kemur þetta skemmtilega dub-step í lokin. Mér finnst þetta bara svona allt í lagi lag, hann er armenskt myndarmenni en hefur verið helst til harðorður í garð hinsegin fólks (sumir segja það nú reyndar runnið undan rifjum Asera!) og ég hugsa að þetta sigli áfram á úrslitakvöldið.

 

lettland

Lettland Cake to bake í flutningi Aarzemnieki

Hildur segir: Hér fáum við annað af köku lögum keppninnar! Hitt heitir Cheesecake og er frá Hvíta-Rússlandi og ég velti fyrir mér hvort þau lettnesku séu að spyrja þann Hvít-rússneska um uppskriftina af ostakökunni hans! Þegar ég sá hópinn flytja lagið á sviðinu í Lettlandi spurði ég mig líka hverslags köku þau væru eiginlega að baka, hvort hugsanlegt væri að eitthvað í ólöglegri kantinum væri í uppskriftinni! Burtséð frá þessum pælingum þá þykir mér lagið þrælskemmtilegt, ég fæ það á heilann og söngvarinn er svo afskaplega brosmildur að það er ekki hægt annað að vera glöð að horfa á hann. Ég held klárlega að Lettar baki sig alla leið í úrslitin.

Eyrún segir: Þetta er svo sannarlega heilalímslag keppninnar, ég hugsa að þetta verði lagið sem allir eiga eftir að raula eftir Eurovision 2014. Þar sem ég Eeeeelska skrítnu og fyndnu Eurovision-lögin er þetta að sjálfsögðu mitt uppáhald. Ég á ekkert sérstaklega von á neinum gloríum því að svona lög hafa ekki riðið feitum hesti frá úrslitunum en á sjarmanum gætu þau komist langt. Tap-tap-tap-tap-ta-kú-kú!

 

eistland

Eistland Amazing í flutningi Tönju

Hildur segir: Ég er búin að vera með þetta lag á heilanum lengi og þetta var eiginlega fyrsta lagið sem ég mundi eftir að hafa heyrt öll lögin í fyrsta skiptið! Ég varð, þrátt fyrir það, strax fyrir dálitlum vonbrigðum með lagið, því mér finnst það vanta eitthvað til að fá þennan ,,it-factor“, þarna er ágætur grunnur en hann nær ekki að fara alla leið. Það er engum blöðum um það að fletta að Tanja er þrælfín live. Sviðsetningin er sérstök að því leyti að hún dansar nútímadans á meðan hún syngur en það verður að teljast óalgeng blanda því venjulega dansa söngvarar eitthvað aðeins einfaldari dansa svona rétt á meðan þeir syngja að minnsta kosti! Verandi dansáhugkona finnst mér þó vanta örlítið upp á dansinn hjá henni, þrátt fyrir að það sé aðdáunarvert að geta dansað þetta og sungið í einu! Ég er ekki alveg viss hvað verður um Tönju en yrði ekki hissa ef hún situr eftir.

Eyrún segir: Þegar þetta er skrifað hef ég enn ekki séð æfingu hjá Tönju en svona lag verður eiginlega að dæmast út frá sviðsetningunni, enda ekta Eurovision-formúla og kannski eina júrópoppið í ár (þeim lögum fer því miður fækkandi – ó, hvar ertu Je ne sais quoi??). Ekkert ofsalega sterkt lag en hún er góð söngkona. Á nú samt fremur von á því að hún sitji eftir.

 

svithjod

Svíþjóð – Undo í flutningi Sönnu Nielssen

Hildur segir: Loksins fékk hún Sanna að taka þátt í Júróvision, eftir margar tilraunir við að komast þangað! Og hingað er hún komin með þrælfína ballöðu sem er bæði óskaplega vel flutt en er líka grípandi. Svíum er spáð sigri á mörgum stöðum og ég er þess fullviss að þeir komist alla leið í úrslitin og alla leið í að minnsta kosti topp 5, ef ekki topp 3. Hvort þeir vinna aftur er ég ekki alveg viss um þó, því ég á frekar von á óvæntum sigri í ár, eitthvað sem ég byggi á engu nema tilfinningunni! En Sanna klárlega með eitt af betri lögum keppninnar í ár, eitt af mínum uppáhalds og eitt af þeim sigurstranglegri!

Eyrún segir: Júrónördinn í manni hlýtur að gleðjast þegar e-r eins og Sanna Nielsen keppir í Eurovision – hún reyndi 6 sinnum í Melodifestivalen áður en hún komst alla leið! Það er oftar en Björgvin Halldórsson gerði áður en hann var sendur út! Ég finn því til gríðarlegrar samkenndar með henni og hún hlýtur að vera einn stærsti Júró-aðdáandi ever 🙂 Lagið hennar er afskaplega gott (enda ekki við öðru að búast), hún er svakaflott söngkona en stílistinn hennar ætti að fá reisupassann! Vona að hún verði ekki stílíseruð fyrir 50+ á keppniskvöldinu… en kannski skiptir það nákvæmlega engu máli því að áfram kemst hún leikandi létt! Ég skal hundur heita ef hún verður ekki stigahæst af fyrra undankvöldinu, vitiði til!!

 

island

ÍslandNo prejudice í flutningi Pollapönks

Hildur segir: Ég er aðdáandi góðrar barnatónlistar og þykir Pollapönk vera framarleg í þeim business. Mér þótti því mjög gaman að sjá þá taka þátt í Söngvakeppninni í ár og það kom mér lítið á óvart að þeir unnu. Ég fíla lagið í botn, finnst það bæði hressandi og grípandi, hvort sem er í bílnum, heima eða í trylltum dansi í Zumba! Enski textinn er velheppnaður og ef Heiðar nær að flytja hann jafnvel og í upptökunni þá er ég mjög bjartsýn á gengi Pollana. Eina sem ég sakna er að John Grant sé með í för, enda hefði verið gaman að hafa eins  fjölbreyttan hóp af miðaldra hvítum köllum og hægt er í sendinefndinni (svona fyrst það eru að meirihluta bara kallar í henni!)! En ég mun klæðast fjólubláa gallanum mínum í Kaupmannahöfn og hrópa  ÁFRAM ÍSLAND!

Eyrún segir: Pollapönkararnir munu koma eins og regnbogalitur stormsveipur í Eurovision-stemminguna í Köben og eru strax farnir að heilla aðdáendur upp úr Converse-skónum. Sérstaða þeirra er augljós og ef lagið verður óaðfinnanlega flutt á þriðjudaginn (flutningurinn á fyrstu æfingunni var aðeins brokkgengur) munu allir heillast! ÁFRAM ÍSLAND og burtu með fordóma!

 

albania

AlbaníaOne night’s anger í flutningi Hersi

Hildur segir: Einhverra hluta vegna bíð ég iðulega spennt yfir því að heyra albanska lagið í Júróvision. Þau hafa mörg verið með ágætum en ég verð að segja að framlag hennar Hersi er ekki eitt af mínum uppáhalds, raunar finnst mér það eiginlega bara hundleiðinlegt. Hersi flytur lagið ljómandi vel, ef þið hlustið á hana live þá heyrið þið það greinilega. Mér þykir þó lagið bara vera frekar flatt og er þess fullviss um að það sér einhver að plata mig að það séu bara þrjár mínútur liðnar þegar laginu loksins lýkur! Millikaflinn finnst mér líka vera undarlegur og ég held satt best að segja að Albanía sitji heima þann 10. maí. Maður veit þó aldrei, ekki spáði ég þeim góðu gengi í Baku þar sem Albanir lentu í 5. sæti með 146 stig!

Eyrún segir: Það er e-ð dásamlega 90’s í lagi Albana í ár – raddbeitingin og laglínan. Ég raula þetta lag mjög gjarnan og finnst rödd söngkonunnar Hersi ofsalega falleg. Ég er samt dálítið tvístígandi með spá, get ómögulega séð hvort þetta fari áfram eða sitji eftir. Verður það ekki bara að koma í ljós?

 

 

 

 

 

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s