Viðtal 2014: Pollapönk

Pollapönk English

Undanfarin ár höfum við hér á Allt um Júróvisjón tekið viðtöl við íslensku keppendurna og árið í ár er þar engin undantekning! Nú styttist óðum í að Pollapönk leggi land undir fót og haldi á vit júróvision-ævintýranna í Kaupmannahöfn. Þeir Pollapönksmenn, auk bakraddanna þeirra tveggja þeirra Sveinbjörns Ragnarssonar og Óttarrs Proppé, eru allir á leið í Júróvision í fyrsta sinn og eiga framundan tvær vikur af gleði, glaumi og glimmeri í gömlu höfuðborginni, Kaupmannahöfn. Okkur fannst því vel við hæfi við að taka Pollapönksmenn tali og heyra hvernig þetta ævintýri legðist í þá. Það var Rauði Pollinn, Haraldur Freyr Gíslason, sem sat fyrir svörum.

„Þetta ævintýri leggst að sjálfsögðu gríðarlega vel í okkur. Við ætlum að hafa eins gaman af þessu og mögulegt er. Markmið okkar er að nýta þetta stóra svið til að koma boðskapnum á framfæri. Það væri frábært ef það sem við höfum fram að færa muni koma okkur upp úr undanriðlinum.“ sagði Halli, aðspurður um ævintýrið framundan. Þegar hann er inntur eftir því hvort þeir félagar hafi fengið einhver góð ráð frá fyrrum keppendum sagði að hann að þau hefðu þeir vissulega fengið og að þeir muni reyna að nýta sér þau til góðs.

Talið barst þá næst að hugmyndinni um Pollapönksgallana sem þeir eru orðnir frægir fyrir. Danska ríkissjónvarpið útnefndi þá „The Craziest Outfit 2014“ og fjölmargir aðdáendur Júrovision hafa nú fjárfest í göllunum: „Þegar við gerðum aðra plötu okkar, sem er fyrsta platan sem við gerðum sem hljómsveit, þá fannst okkur vanta einhverja svona hljómsveitargalla. Við hittumst því á mjög svo goðsagnakenndum búningafundi. Á þeim fundi urðu til margar skrítnar hugmyndir sem aldrei komu til framkvæmda. Við höfðum svo samband við Henson sem framleiddi fyrir okkur gallana.“ 

Pollapönk tróð upp á FÁSES stiklum á Stúdentakjallaranum í mars

Pollapönk tróð upp á FÁSES-stiklum á Stúdentakjallaranum í  lok mars

Umfjöllunin um framlag Pollana hefur verið talsverð í íslenskum fjölmiðlum og margir haft skoðun á bæði laginu og þátttöku þeirra í Júrovisjon. Halli segir að þeim félögum þyki Íslendingar hafa tekið nokkuð vel í boðskap Pollana þótt auðvitað sé ekki hægt að gera öllum til geðs og bætti við að smekkur manna væri líka misjafn sem væri hið besta mál. Halli bætir síðan við að þeir hafi fengið mikið af jákvæðum viðbrögðum frá erlendum aðdáendum Júróvisjón-keppninnar sem oft á tíðum eru mjög hrifnir af íslensku framlögunum. Pollapönkararnir séu búnir að svara yfir 100 viðtölum frá blaðamönnum víðsvegar að úr heiminum.

Eins og allir júróvision-aðdáendur þekkja, skjóta grínatriði reglulega upp kollinum og einnig atriði sem sett eru fram í fullri alvöru en margir halda þó að séu grín. Okkur þótti því forvitnilegt að vita hvort Pollapönksmenn væru hræddir um að Evrópubúar fatti ekki að þeim sé full alvara með laginu og boðskapnum. „Við erum svo sem ekkert hræddir við það,“ sagði Halli og bætti við: „Við höfum verið duglegir að reyna að markaðssetja okkur og koma okkar boðskap til skila. Hvort það skilar sér á endanum verður að koma í ljós.“ 

Aðspurður um hvort þeir væru hræddir við Eurovision-stimpilinn sem stundum er sagður neikvæður, svaraði hann: „Okkur er slétt sama. Við fórum í þetta ævintýri með það að markmiði að hafa gaman að því. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að það mun verða mikil umfjöllun sem mun ná hámarki í maí og síðan róast hlutirnir.“

Það er ávallt misjafnt hversu mikið keppendur leggja upp úr markaðssetningu á framlögum sínum í  keppninni og eins eru markmiðin um að koma sér á framfæri erlendis misjöfn milli þátttakenda. Eins og Halli segir hafa Pollapönkararnir farið í talsverða markaðssetningu þar sem lögð er áhersla á að koma boðskap lagsins á framfæri auk hugmyndarinnar um hljómsveitina Pollapönk: Það er svo sem ekkert markmið í sjálfu sér að koma Pollapönk á stærri markað eftir keppnina. Hins vegar teljum við að það sé alveg markaður fyrir Pollapönk erlendis. Hvort einhver tækifæri koma eða hvort við höfum almennt tíma í slíkt ævintýri verður að koma í ljós.“ 

Að lokum lék okkur forvitni á að vita við hverju væri að búast á sviðinu í Kaupmannahöfn. Halli vildi engu ljóstra upp um það enda yrði alltaf að vera eitthvað óvænt. Við getum því öll beðið spennt eftir fyrstu æfingunum og svo stóru stundinni sjálfri, þann 6. maí. Ekki má heldur gleyma skilaboðum Pollanna til allra aðdáenda nær og fjær (og auðvitað bara allra hinna líka):

Enga fordóma og dreifið boðskapnum!“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s