Ævintýrið er byrjað! Fyrstu æfingarnar á sviðinu og BW höllinni í Kaupmannahöfn hófust í morgun og stóðu framundir kvöld. Tíu lönd æfðu í dag, þau fyrstu tíu sem stíga á svið þriðjudaginn 6. maí. Meðal þeirra sem æfðu voru að sjálfsögðu Pollapönk en þeir eru sjöttir á svið þann sjötta maí!
Rauði pollinn Halli sagði í viðtali við Síðdegisútvarpið í dag að æfingin hefði gengið þokkalega, þeir hefðu æft sviðsetninguna og bent á hvernig þeir vildu hafa þetta og það var raun um milljón smáatirði að hugsa þegar kemur að þessum þremur mínútum á sviðinu. Hann sagði engar stórvægilegar breytingar verða gerðar á atriðinu frá því í Háskólabíói í febrúar. Pollarnir klæddust að sjálfsögðu sínum litum á æfingunni í dag en þó í nýjum göllum!
En Pollapönk voru alls ekki þeir einu sem æfðu, því eins og fyrr segir æfðu fyrstu tíu löndin í dag. Þar á meðal Sanna Nielsen, sem skorar mjög hátt í öllum veðbönkum enn sem komið er. Samkvæmt Eurovision.tv var Sanna hress að æfingu lokinni og það var heldur ekki annað að heyra á klippunni sem birtist á sama vef en að Sanna væri örugg í flutningi sínum. Ekki er alveg ljóst hvort hún var í klædd í þeim búningi sem hún ætlar að skarta á keppniskvöldinu sjálfu en líklega gaf þó fatnaður hennar til kynna að hún verði í svipuðum klæðnaði og í Melodifestivalen.
Krakkarnir í Aarzemnieki sem keppa fyrir hönd Lettlands stigu einnig á svið í dag. Þau voru afslöppuð á sviðinu og eru greinilega komin til að hafa gaman af. Sviðsetningin var ekki að öllu leyti tilbúin þegar æfing hófst í dag og prófuðu þau sig áfram með nokkrar staðsetningar á sviðinu meðan á æfingu stóð og það verður því gaman að sjá hver loka niðurstaðan verður hjá þeim.
Næst síðust til æfinga í dag mætti Mariya frá Úkraníu en lagið hennar kallast Tick tock. Hún mætti á sviðið með karldansara og risastórt hjól sem hann hleypur í Mariya leggst á! Vindvélin var einnig prófum í öðru rennslinu og það verður því sannarlega spennandi að sjá hvernig atriðið lítur út í heild sinni!
Auk þessa fjögurra landa æfðu Armenar, Eistar, Albanir, Rússar, Azerar og Belgar í dag. Æfingar halda áfram á morgun en þá munu Norðmenn, Svartfellingar, Ungverjar og Georgíumenn æfa.