Fyrstu æfingar

Ævintýrið er byrjað! Fyrstu æfingarnar á sviðinu og BW höllinni í Kaupmannahöfn hófust í morgun og stóðu framundir kvöld. Tíu lönd æfðu í dag, þau fyrstu tíu sem stíga á svið þriðjudaginn 6. maí. Meðal þeirra sem æfðu voru að sjálfsögðu Pollapönk en þeir eru sjöttir á svið þann sjötta maí!

Pollaponk_fyrsta_aefing

Mynd: eurovision.tv

Rauði pollinn Halli sagði í viðtali við Síðdegisútvarpið í dag að æfingin hefði gengið þokkalega, þeir hefðu æft sviðsetninguna og bent á hvernig þeir vildu hafa þetta og það var raun um milljón smáatirði að hugsa þegar kemur að þessum þremur mínútum á sviðinu. Hann sagði engar stórvægilegar breytingar verða gerðar á atriðinu frá því í Háskólabíói í febrúar. Pollarnir klæddust að sjálfsögðu sínum litum á æfingunni í dag en þó í nýjum göllum!

 

Sanna_fyrsta_aefing

Mynd: eurovision.tv

En Pollapönk voru alls ekki þeir einu sem æfðu, því eins og fyrr segir æfðu fyrstu tíu löndin í dag. Þar á meðal Sanna Nielsen, sem skorar mjög hátt í öllum veðbönkum enn sem komið er. Samkvæmt Eurovision.tv var Sanna hress að æfingu lokinni og það var heldur ekki annað að heyra á klippunni sem birtist á sama vef en að Sanna væri örugg í flutningi sínum. Ekki er alveg ljóst hvort hún var í klædd í þeim búningi sem hún ætlar að skarta á keppniskvöldinu sjálfu en líklega gaf þó fatnaður hennar til kynna að hún verði í svipuðum klæðnaði og í Melodifestivalen.

lettland_fyrsta_aefing

Mynd: eurovision.tv

Krakkarnir í Aarzemnieki sem keppa fyrir hönd Lettlands stigu einnig á svið í dag. Þau voru afslöppuð á sviðinu og eru greinilega komin til að hafa gaman af. Sviðsetningin var ekki að öllu leyti tilbúin þegar æfing hófst í dag og prófuðu þau sig áfram með nokkrar staðsetningar á sviðinu meðan á æfingu stóð og það verður því gaman að sjá hver loka niðurstaðan verður hjá þeim.

 

ukraina_fyrsta_aefing

Mynd: eurovision.tv

Næst síðust til æfinga í dag mætti Mariya frá Úkraníu en lagið hennar kallast Tick tock. Hún mætti á sviðið með karldansara og risastórt hjól sem hann hleypur í Mariya leggst á! Vindvélin var einnig prófum í öðru rennslinu og það verður því sannarlega spennandi að sjá hvernig atriðið lítur út í heild sinni!

Auk þessa fjögurra landa  æfðu Armenar, Eistar, Albanir, Rússar, Azerar og Belgar í dag. Æfingar halda áfram á morgun en þá munu Norðmenn, Svartfellingar, Ungverjar og Georgíumenn æfa.

Veðbankaspár tveimur vikum fyrir aðalkeppnina!

via Oikotimes.com

Nú eru réttar tvær vikur í það að við komumst að því hver vinnur Eurovision 2014 og spennan er að magnast upp. Pollapönkararnir eru flognir til Kaupmannahafnar og við hin bíðum spennt eftir fregnum af fyrstu æfingum. Er þá ekki ráð að kíkja aðeins á spár veðbankanna?

Veðbankaspárnar hafa ýmislegt að segja þó að ekki sé hægt að fara nákvæmlega eftir þeim í öllu. Sterkar vísbendingar eru t.d. þegar sigurvegarinn er ótvíræður líkt og Emmelie var í fyrra. Þá settu allir veðbankar hana í fyrsta sæti, jafnvel áður en æfingar hófust og sviðsetningin sást.

Það eitt og sér er ákveðin vísbending í ár um að sigurvegarinn verði ekki „ákveðinn fyrirfram“ eins og stundum hefur gerst eftir að Alexander Rybak rústaði keppninni 2009. Hér er staðan í hinum ýmsu veðbönkum í dag, 27.4.2014:

Screen Shot 2014-04-27 at 15.17.20

 

 

 

 

 

 

 

Armenía og Svíþjóð eru í efsta sætinu og reyndar eru það bara aðdáendatengdu spárnar tvær (þær neðstu) sem setja Sönnu hina sænsku í fyrsta sæti, aðrir setja hana í annað sæti. Danmörk, Noregur og Úkraína fylgja fast á hælana en enn myndum við ekki telja mikið að marka sæti 3.-5.

Þá er að líta á spár fyrir Pollapönkarana íslensku. Þeir eru enn mjög neðarlega í spám, frá 29. sæti og niður úr og í stóru aðdáendakönnuninni hafa þeir einungis einu sinni fengið stig! Þeir eiga þó rosalega mikið inni enn, að okkar mati – og eins og við vitum eru æfingarnar ekki hafnar og engir blaðamannafundir búnir þar sem þeir geta látið ljós sitt (og boðskapinn) skína 🙂

Screen Shot 2014-04-27 at 15.17.32

 

 

 

 

 

 

 

Við birtum aðra svona yfirferð þegar nær dregur!

Viðtal 2014: Pollapönk

Pollapönk English

Undanfarin ár höfum við hér á Allt um Júróvisjón tekið viðtöl við íslensku keppendurna og árið í ár er þar engin undantekning! Nú styttist óðum í að Pollapönk leggi land undir fót og haldi á vit júróvision-ævintýranna í Kaupmannahöfn. Þeir Pollapönksmenn, auk bakraddanna þeirra tveggja þeirra Sveinbjörns Ragnarssonar og Óttarrs Proppé, eru allir á leið í Júróvision í fyrsta sinn og eiga framundan tvær vikur af gleði, glaumi og glimmeri í gömlu höfuðborginni, Kaupmannahöfn. Okkur fannst því vel við hæfi við að taka Pollapönksmenn tali og heyra hvernig þetta ævintýri legðist í þá. Það var Rauði Pollinn, Haraldur Freyr Gíslason, sem sat fyrir svörum.

„Þetta ævintýri leggst að sjálfsögðu gríðarlega vel í okkur. Við ætlum að hafa eins gaman af þessu og mögulegt er. Markmið okkar er að nýta þetta stóra svið til að koma boðskapnum á framfæri. Það væri frábært ef það sem við höfum fram að færa muni koma okkur upp úr undanriðlinum.“ sagði Halli, aðspurður um ævintýrið framundan. Þegar hann er inntur eftir því hvort þeir félagar hafi fengið einhver góð ráð frá fyrrum keppendum sagði að hann að þau hefðu þeir vissulega fengið og að þeir muni reyna að nýta sér þau til góðs.

Talið barst þá næst að hugmyndinni um Pollapönksgallana sem þeir eru orðnir frægir fyrir. Danska ríkissjónvarpið útnefndi þá „The Craziest Outfit 2014“ og fjölmargir aðdáendur Júrovision hafa nú fjárfest í göllunum: „Þegar við gerðum aðra plötu okkar, sem er fyrsta platan sem við gerðum sem hljómsveit, þá fannst okkur vanta einhverja svona hljómsveitargalla. Við hittumst því á mjög svo goðsagnakenndum búningafundi. Á þeim fundi urðu til margar skrítnar hugmyndir sem aldrei komu til framkvæmda. Við höfðum svo samband við Henson sem framleiddi fyrir okkur gallana.“ 

Pollapönk tróð upp á FÁSES stiklum á Stúdentakjallaranum í mars

Pollapönk tróð upp á FÁSES-stiklum á Stúdentakjallaranum í  lok mars

Umfjöllunin um framlag Pollana hefur verið talsverð í íslenskum fjölmiðlum og margir haft skoðun á bæði laginu og þátttöku þeirra í Júrovisjon. Halli segir að þeim félögum þyki Íslendingar hafa tekið nokkuð vel í boðskap Pollana þótt auðvitað sé ekki hægt að gera öllum til geðs og bætti við að smekkur manna væri líka misjafn sem væri hið besta mál. Halli bætir síðan við að þeir hafi fengið mikið af jákvæðum viðbrögðum frá erlendum aðdáendum Júróvisjón-keppninnar sem oft á tíðum eru mjög hrifnir af íslensku framlögunum. Pollapönkararnir séu búnir að svara yfir 100 viðtölum frá blaðamönnum víðsvegar að úr heiminum.

Eins og allir júróvision-aðdáendur þekkja, skjóta grínatriði reglulega upp kollinum og einnig atriði sem sett eru fram í fullri alvöru en margir halda þó að séu grín. Okkur þótti því forvitnilegt að vita hvort Pollapönksmenn væru hræddir um að Evrópubúar fatti ekki að þeim sé full alvara með laginu og boðskapnum. „Við erum svo sem ekkert hræddir við það,“ sagði Halli og bætti við: „Við höfum verið duglegir að reyna að markaðssetja okkur og koma okkar boðskap til skila. Hvort það skilar sér á endanum verður að koma í ljós.“ 

Aðspurður um hvort þeir væru hræddir við Eurovision-stimpilinn sem stundum er sagður neikvæður, svaraði hann: „Okkur er slétt sama. Við fórum í þetta ævintýri með það að markmiði að hafa gaman að því. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að það mun verða mikil umfjöllun sem mun ná hámarki í maí og síðan róast hlutirnir.“

Það er ávallt misjafnt hversu mikið keppendur leggja upp úr markaðssetningu á framlögum sínum í  keppninni og eins eru markmiðin um að koma sér á framfæri erlendis misjöfn milli þátttakenda. Eins og Halli segir hafa Pollapönkararnir farið í talsverða markaðssetningu þar sem lögð er áhersla á að koma boðskap lagsins á framfæri auk hugmyndarinnar um hljómsveitina Pollapönk: Það er svo sem ekkert markmið í sjálfu sér að koma Pollapönk á stærri markað eftir keppnina. Hins vegar teljum við að það sé alveg markaður fyrir Pollapönk erlendis. Hvort einhver tækifæri koma eða hvort við höfum almennt tíma í slíkt ævintýri verður að koma í ljós.“ 

Að lokum lék okkur forvitni á að vita við hverju væri að búast á sviðinu í Kaupmannahöfn. Halli vildi engu ljóstra upp um það enda yrði alltaf að vera eitthvað óvænt. Við getum því öll beðið spennt eftir fyrstu æfingunum og svo stóru stundinni sjálfri, þann 6. maí. Ekki má heldur gleyma skilaboðum Pollanna til allra aðdáenda nær og fjær (og auðvitað bara allra hinna líka):

Enga fordóma og dreifið boðskapnum!“