Gestaálit: Bragi

Bragi Skaftason verður væntanlega seint talin til allra helstu júróvision aðdáenda landsins. Hann er hins vegar spegúlant og hefur skoðanir á mörgum hlutum, þar á meðal júróvision. Það fer því einkar vel að biðja hann að spegúlera og hafa skoðanir á lögunum sex sem keppa til úrslita í kvöld í Söngvakeppni Sjónvarpsins.

Bragi

F.U.N.K. – Þangað til ég dey
Ég var fyrst á því að vera hrikalega neikvæður gagnvart enn einu drengjabandinu í keppninni. Ofpródúseraðar klisjur og (ó)samstíga dansspor hafa einkennt þetta form flutnings. Ég ákvað samt að gefa þessu lagi smá sjéns. Og viti menn! Þetta lag venst alveg með tímanum. Fönkgítarinn er flottur í byrjun en risið verður aldrei hátt á laglínunni. Strákarnir halda stundum lagi og eru nógu sniðugir undir lokin að koma með vísun (meðvitað eða ómeðvitað) í Daft Punk með syntha sem trillar niður, trés cul. Þeir eru svo allir brosandi og glaðir og allir bara eitthvað voða kátir með lífið og tilveruna, textinn endurspeglar æskuna og iðrunarleysið sem einkennir hana. Mér finnst lagið samt ekkert spes. Nógu gott til að komast í þessi úrslit en er ekki eitt af þremur bestu.

Ásdís María Viðarsdóttir – Amor
Þegar ég heyrði þetta lag án þess að hlusta gaumgæfilega á textann hugsaði ég með mér að þarna væri verið að syngja til Morrans í Múmíndalnum. Ég hafði víst rangt fyrir mér. Skrítin áhersla í orðinu Amor þarna á ferðinni. Telpan atarna er greinilega hæfileikarík söngkona, ég hef heyrt hana syngja áður og var imponeraður. Þetta lag hentar henni hins vegar ekki. Þetta er gott dæmi um það þegar tveimur púslum er blandað saman og heildarmyndin verður hálfklikkuð. Kúl lag samt sem áður en kannski ekki Eurovision material. Til þess er það alltof kúl. Bassinn í þessu lagi er eitt það flottasta sem ég hef heyrt í keppninni en það dugar ekki til að komast í topp þrjá.

Sigríður Eyrún – Lífið kviknar á ný
Ég veit ekki hvað þetta lag er að gera þarna. Karl Olgeirsson er mikill snillingur en eins og allir snillingar þá er hann mistækur. Þetta er klárlega ekki hans besta verk, kemst ekki í topp tuttugu. Þetta er samt allt saman fagmannlega gert, ekki misskilja mig. Ég er bara á því að farið var af stað með gott premis en vonda laglínu sem endaði svona. Lagið minnir mig á endurgerð bókarinnar Great Gatsby með DiCaprio sem sýnd var í fyrra. Umbúðirnar flottar með vísun til þriðja áratugs síðustu aldar en náði aldrei risi, verkið var aldrei klárað. Þið getið betur. Þið getið svo miklu, miklu betur.

Gissur Páll – Von
Ef þetta væri keppni í sönghæfileikum, þá væri þessi umfjöllun og vangaveltur tilgangslausar. Þarna er einfaldlega langbesti flutningur á lagi sem Íslendingar hafa samið fyrir Eurovision. Segi það og skrifa. Þetta er hins vegar ekki keppni í því og margir spyrja sig hvað óperusöngvari hefur að gera í Eurovision. Spyrjið Cezar frá Rúmeníu (2013) og Cetin Alp og stuttbylgjurnar (Tyrkland 1983) að því, ekki mig. Jóhann Helga hefur fjöldaframleitt stórgóð lög í gegnum tíðina, ég er gjörsamlega óhæfur til þess að dæma um lagið sjálft. Þetta er ekki minn tebolli, ég gæti þó ímyndað mér að tár falli á hvarma sextugra húsmæðra í Grafarvogi við flutning þessa lags. Svoleiðis vinnur samt ekki Eurovision, samt í topp þremur hjá mér.

Greta Mjöll – Eftir eitt lag
Heilalím keppninnar í ár. Nú skulum við hafa það á hreinu að uppáhaldstónlistin mín þegar ég var unglingur var Old School Hardcore og ég hata U2 af öllu hjarta. Væmni og sykursýki er eitthvað sem ég fyrirlít í tónlist og ég nenni yfirleitt ekki að sitja í bíl nema þar sé kröftugur taktur. En jedúddamía! Jeremías í upphæðum! Hversu krúttlegt getur eitt lag verið! Héðan í frá verður bara skrifað með upphrópunarmerkjum í endann! Þetta lag er eins og dúnmjúkur hvolpur eða kettlingur sem barnið þitt var að eignast og getur ekki hætt að tala um hann og hlakkar til að knúsa hann þegar hann kemur heim! Ef þetta vinnur ekki þá er það vegna þess að leikskólakennarar landsins hafa fyrirskipað herjum sínum að styðja við Halla formanninn sinn í Pollapönki! Segi það og skrifa!

Pollapönk – Enga fordóma
Æ þeir eru svo skemmtilegir. Hérna er komið lagið sem á eftir að keppa við Blikann Gretu. FH-Breiðablik í úrslitum. Ég held alveg með Breiðabliki þannig að fyrir mér er þetta einfalt. Það þýðir ekki að lagið sé ekki gott. Ef það vinnur á það hins vegar ekki eftir að gera nokkurn skapaðan hlut úti. Til þess er það of lókal. Strákarnir kunna ýmislegt fyrir sér og eru skuggalega þéttir og hressir á sviði. Gætu komist áfram vegna þess.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s