Úrslit seinna undankvölds

Eftir seinna undankvöldið í Söngvakeppni Sjónvarpsins í fyrrakvöld er nú ljóst hvaða sex lög keppa til úrslita í Háskólabíói þann 15. febrúar. Líkt og síðasta sunnudag ætlum við að spá aðeins í hvaða möguleika þau lög sem komust áfram  ættu ef þau ynnu keppnina og yrðu framlag okkar í Júróvision í Kaupmannahöfn í vor. Þrátt fyrir þessar pælingar er algjörlega óþarfi að örvænta, því við munum líka, líkt og undanfarin ár spá og spegúlera í mögleikum þessara laga til þess að vinna Söngvakeppnina og verða framlag okkar í Kaupmannahöfn 🙂

Amor Ásdís María og Haukur Johnsson
Hildur segir: 
Ég er ofsalega glöð með val dómnefndar á þessu lagi!!!! Ef við lítum á gengi svona lágstemmdari laga í júróvision, þá má glöggt sjá að það eru sveiflur í gengi þeirra. Þau virðast hins vegar vera í uppsveiflu þessi árin, sérstaklega á síðasta ári þar sem bæði framlag Ungverja og Hollendinga fóru í úrslitin og náðu inn á topp 10 í úrslitunum sjálfum. Ásdís María hefur sterka nærveru á sviði og er sérlega hress og opin utan sviðs og ætti því góða möguleika á að heilla áhorfendur í Evrópu. Ég teldi því að hún ætti talsverða möguleika á ágætum árangri í keppninni í Kaupmannahöfn í vor. Ein ábending í lokin til Ásdísar, hún mætti huga að framburðinum á orðinu Amor, sem jú kemur ansi oft fyrir í textanum! Það er svolítið eins og hún sé alltaf að segja Ammmor en ekki Amor!

Eyrún segir: Dómnefndin sá greinilega möguleika þessa lags því að þeir eru talsverðir í Júróvisjón-keppninni sjálfri. Sviðsetningin minnir um margt á Loreen og Emmelie í fyrra og indie-lögin hafa vissulega átt upp á pallborðið að undanförnu. Verði Amor valið sem framlag Íslands er ég nokkuð viss um að árangurinn verður góður í Kaupmannahöfn.

Lífið kviknar á ný Sigga Eyrún og Kalli Olgeirs
Hildur segir:  Það kom mér nokkuð á óvart að lagið skuli ekki hafa komist áfram í símakosningu, en glöð er ég að það komst áfram á dómaraatkvæðum. Þetta er atriði og framsetning sem passar ágætlega í júróvision auk þess sem lagið er grípandi. Þrátt fyrir að mér hafi sviðsetningin verið hálf hjákátleg á sviðinu í stúdíó RÚV er ég þess fullviss að á miklu stærra sviði í Kaupmannahöfn myndi lagið sóma sér einstaklega vel! Sigga Eyrún þyrfti þó að gefa aðeins meira af sér á sviðinu til að ná í gegn til sjónvarpsáhorfenda. Það ætti hún að eiga auðvelt með, því í viðtölum og yfirleitt þegar maður hefur séð hana koma fram gefur hún mun meira frá sér en hún gerði á sviðinu á laugardaginn. Auk þess mætti uppfæra dansinn aðeins og láta hann ekki minna svona mikið á dansinn í laginu Angel sem var framlag okkar í upphafi 21. aldarinnar. Ef útgeislunin kemur og dansinn fær upplyftingu ætti lagið að eiga góða möguleika á að komast upp úr sínum undanriðli þótt ég ætti ekki von á að lagið færi hærra en 20. sæti á úrslitakvöldinu sjálfu.

Eyrún segir: Svona framlag er annaðhvort „make it“ eða „break it“ í aðalkeppninni sjálfri. Það gæti endað á toppnum eins og Lena 2010 eða í 24. sæti í aðalkeppninni eins og Eistland 2011 með Rockefeller Street. Tek undir með Hildi, þetta veltur svolítið á því hvernig atriðið yrði kynnt og framsett og utanhaldið væri þarna úti.

Þangað til ég dey F.U.N.K.
Hildur segir: 
Ég hef áður sagt að þetta lag sé ekki minn tebolli. Ef ég reyni þó að leggja mat á mögleika lagsins í júróvision án þess að hugsa til þess að mér þyki það leiðinlegt, þá verð ég samt sem áður að segja að ég tel að lagið eigi ekki mikla möguleika á stóra sviðinu í Kaupmannahöfn. Það er einfaldlega hvorki nægilega grípandi né er aðalsöngvari bandsins til þess fallinn að ná í gegnum skjáinn til Evrópubúa sem kjósa. Hann var frekar passívur mestalla framkomuna í gærkvöldi og þarf að stíga mörg skref til þessa að eiga möguleika á að ná í gegn.

Eyrún segir: Algerlega sammála Hildi hér! Leiðinlegt að segja það en venjulega eru það nákvæmlega svona framlög frá erlendum þjóðum sem mér finnast fáránleg (og hlæ að, reyndar). Skemmtanagildið er til staðar (fyrir mig) en það er ekki framlaginu í hag…

Enga fordómaPollapönk
Hildur segir: 
Pollapönk höfðar mjög til Íslendinga og næsta víst að þeir munu blanda sér í toppbaráttuna í úrslitunum hér heima. Það er hins vegar öllu erfiðara að reyna að spá fyrir um gengi lagsins í Kaupmannahöfn. Það er einkum vegna þess að þetta konsept, barnamúsík sem ætluð er öllum, hefur ekki tekið þátt í júróvision hingað til! Ef lagið hefði verið rokkaðara eða pönkaðara, hefði mátt spá fyrir á grundvelli þess að vera rokklag, en þetta er meira svona rokkað popplag þar sem bæði textinn og framsetning hans skiptir miklu máli. Ég myndi þó spá því að kæmust Pollapönks menn alla leið ættu þeir talsverða möguleika á að komast upp úr undanriðlum, einkum vegna þess að það eru hreinlega meiri líkur en minni að fara upp úr (10 lög af 16 fara áfram) auk þess sem aðdáendur kjósa meira en almenningur á þessum kvöldum og aðdáendasamfélagið hefur almennt áhuga á íslenskum framlögum! Hvernig gengi þeirra yrði í úrslitum myndi algjörlega ráðast af stemmingunni í Evrópu 10. maí n.k. og eins hvað þeir munu gera við textann.

Eyrún segir: Hér er aðeins meiri vandi að spá en um leið og indie-lögin hafa verið vinsæl hafa svona hress „grín“-lög löngum náð hátt. Hér væri hægt að nefna Litháen (2006) og Austurríki 2003 sem bæði höfnuðu í 6. sæti í aðalkeppninni (reyndar ein keppni 2003). Annað þeirra var á ensku en hitt á móðurmálinu. Þess vegna væri ekki svo galið fyrir Pollapönksmenn að syngja jafnvel bara á íslensku ef þeir færu út. En á móti þá myndi boðskapurinn þeirra ekki komast til skila – og leikskólakennararnir vilja það væntanlega ekki! Ég hugsa þó að ef þeir markaðssetja sig vel úti (og ég er nokkuð viss um að það munu þeir gera!) komist þeir áfram á aðdáendakosningu á aðalkvöldið og þar eigi þeir góða möguleika þar sem fjölskyldurnar sem horfa á Eurovision geti tengt við íslenska Pollapönkið.

SH_F_startfinal-19

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s