Söngvakeppni Sjónvarpsins 2014: Yfirferð laga á seinna undanúrslitakvöldi

Flosi hefur nú þegar sagt sitt álit á lögunum fimm sem keppa á seinna undankvöldinu á laugardaginn. Núna er komið að okkar yfirferð!

Sigríður-Eyrún-Friðriksdóttir-700x325

1. Lífið kviknar á ný eftir Karl Olgeirsson í flutningi Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur

Hildur segir: Það er eitthvað við þetta lag sem kveikir í mér og fær mig til að langa að hlusta, ég get þó engan veginn lagt mat á hvað það er! Þrátt fyrir það, þá þurfti ég að hlusta á það örugglega 15 sinnum til að geta sungið úr því bút eftir að laginu lauk. Þetta er því eitt af þessum lögum sem erfitt er að spá fyrir um, án þess að hafa séð það á sviðinu, því það er svolítið eins og það sé samið fyrir augu frekar en eyru. Ég er því ofsaspennt að sjá útfærsluna á sviði á laugardaginn, því það má búast við hressleika og dansi! Ef vel tekst og Íslendingar verða í stuði á laugardaginn, þá flýgur þetta áfram alla leið í Háskólabíó að minnsta kosti!

Eyrún segir: Blússandi dægurpopp og frambærileg tónsmíð þó að ég hafi strax tengt við Satellite hennar Lenu (2010) en það er kannski helst takturinn og fílingurinn. Ég eeeelskaði Lenu og þetta lag Siggu Eyrúnar og Kalla Olgeirs finnst mér alveg líklegt til góðs árangurs. Sammála Hildi um að það ráðist þó á sviðsetningunni. Eitt sem fer dálítið í taugarnar á mér (og er algjör smáatriði) er heiti lagsins, sem mér finnst ekki vera í samræmi við textann. Í laginu er mikið pepp um að líta fram á veginn og svo er skyndilega einblínt á kviknandi líf (barnsfæðingar?). Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að textinn hafi verið á ensku og þetta sé íslenska snörunin sem veldur þessu. Ég er nokkuð hörð á því að þetta fer áfram.

gudrunarny-flytjanditilthin

2. Til þín eftir Trausta Bjarnason í flutningi Guðrúnar Árnýjar Karlsdóttur

Hildur segir: Flosi talaði um í sinni yfirferð að honum þætti þetta leiðinlegasta lagið í keppninni í ár. Ég er ekki alveg sammála honum, en verð að segja að eftir fyrstu hlustun var ég þó algjörlega sammála. Ég held það hafi ekki endilega byggt á því að mér fyndist lagið leiðinlegt, eiginlega frekar á vonbrigðum mínum yfir því að fá ekki power-ballöðu frá Trausta. Þegar ég fór hins vegar að hlusta oftar á lagið þá fannst mér það venjast ágætlega og núna þykir mér það bara nokkuð fallegt. Textinn er líka með þeim allra betri, ef ekki sá besti í keppninni í ár. Það kæmi mér ekki á óvart að þetta færi áfram, sérstaklega ef kjósendur verða ekki í stuðgírnum á laugardaginn og falla frekar fyrir einfaldleikanum.

Eyrún segir: Fallegasta lag keppninnar í ár, án vafa! Ég er ofsalega hrifin af stígandinni og rödduninni í því og flutningur Guðrúnar Árnýjar er og verður pottþéttur. Ég tengi sérstaklega við textann sem er eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, kannski af því að ég er nýbúin að eignast barn en hann talar til allra að mínu mati. Vona innilega að þetta lag fái að njóta sannmælis á laugardag, en er ekkert svakalega bjartsýn, nokkuð þó. Ég kem a.m.k. til með að kaupa Söngvakeppnisdiskinn fyrir þetta lag nær eingöngu 🙂

f.u.n.k

3. Þangað til ég dey eftir F.U.N.K. í flutningi þeirra sjálfra

Hildur segir: Ég verð að viðurkenna að ég hef þurft hálf að neyða mig til að hlusta á þetta lag aftur. Þetta er stíll sem mér finnst oftast afspyrnu leiðinlegur og þetta lag finnt mér extra leiðinlegt. Lagið er langt frá því að vera grípandi eða eftirminnilegt og minnir mig meira á lokalag í 12:00 þætti frá því um aldamótin frekar en frambærilegu lagi í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2014. Ég er hrædd um að flutningurinn verði ekki nægilega sterkur á laugardaginn og því munu F.U.N.K.-strákarnir sitja eftir heima.

Eyrún segir: Fönk er að mínu mati skemmtilegt en það er alveg spurning hvort þetta skili sér á sviðinu heim í stofu til fólks. Ef allir fara að dilla sér er sennilega tilgangnum náð. Þetta höfðar annars ekkert sérstaklega til mín og ég á ekki von á neinu stórfenglegu, því miður.

gudbjorg-flytjandiadeinsaetludther

4. Aðeins ætluð þér eftir Maríu Björk Sverrisdóttur í flutningi Guðbjargar Magnúsdóttur

Hildur segir: Rétt eins og lag þeirra F.U.N.K.-stráka þá þykir mér þetta lag vera svolítið gamaldags. Það þarf ekkert endilega að þýða að lagið sé vont eða leiðinlegt, enda alls ekki allt gamaldags slæmt. Hins vegar finnst mér lítið varið í þetta lag. Það er einhvern veginn kunnuglegt en ekki nægilega til að grípa mann. Það er kannski ljómandi í útvarpspilun, en mér þykir það eiga afskaplega litla möguleika á að gera einhverja hluti hvorki í Söngvakeppninni, né Júróvision í Kaupmannahöfn í vor.

Eyrún segir: Einn ekta sænskur schlagari er nauðsynlegur hverri Söngvakeppni og María Björk klikkar ekki á þeim 🙂 Ekki lag sem ég er mjög spennt fyrir en ágætis lag engu að síður. Aftur að textamálum; þá finnst mér reyndar ferlegt þetta „bæ bæ bæ“ en skrifa það líka á að textanum hafi verið snarað á íslensku úr ensku.

pollaponk-hofundarogflytjendurengafordoma

5. Enga fordóma eftir Pollapönk í flutningi þeirra sjálfra

Hildur segir:  Ég hef alveg ofsalega gaman að barnatónlist sem höfðar bæði til barna og fullorðina og metnaður er lagður í. Pollapönk er alveg frábært dæmi um svoleiðis tónlist enda búa þeir ekki til tónlist sem hægt væri að flokka sem barnatónlist heldur halda bara áfram að búa til tónlist sem þeir bæði hafa gaman af og gert áður. Auk þess eiga þeir marga frábæra texta sem sannarlega eiga jafnt erindi til barna og fullorðinna. Lagið Enga fordóma er engin undanteking á þessu. Þessi dásemdar texti, virkar sannarlega vel á íslensku en það er aldeilis óvíst að hann eða þetta form næði til Evrópubúa færu þeir alla leið til Köben. Það má hins vegar búast við líflegri og skemmtilegri framkomu þessara alvönu tónlistarmanna. Þetta er sannarlega uppáhaldslagið mitt í keppninni í ár og ég tel það alveg næsta víst að þeir fljúgi í úrslitin og blandi sér þar í toppbaráttuna. Áfram Enga fordóma!!!

Eyrún segir: Mér finnst frábært að fá Botnleðju/Pollapönk aftur í Söngvakeppnina en verð að segja alveg eins og er að ég varð fyrir pínu vonbrigðum með lagið, finnst Eurovísan þeirra Botnleðjumanna (2003) skemmtilegri – en svo er þetta kannski ekki alveg sami hluturinn. Lagið er samt grípandi og textinn frábær með besta boðskapnum auðvitað (uppeldismenntaðir menn að störfum). Ég tel fullvíst að þeir fari áfram í úrslitin og ef lagið verður valið sem framlag okkar, ætti að sjálfsögðu að gera það að einkennislagi íslenskra leikskólakennara og leikskóla!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s