Söngvakeppni Sjónvarpsins 2014: Yfirferð laga á fyrra undankvöldi

Þá er komið að því; hér á eftir kemur fyrri yfirferðin okkar yfir lög sem keppa í Söngvakeppninni í ár. Við vitum ekki með ykkur þarna úti en okkur finnst þetta fyrra kvöld lofa afskaplega góðu um styrk keppninnar í ár!

01sverrirbergman-flytjandidonsumburtublus2

1. Dönsum burtu blús í flutningi Sverris Bergmann eftir StopWaitGo (Pálma R. Ásgeirsson, Ásgeir Orra Ásgeirsson og Sæþór Kristjánsson).

Eyrún segir: StopWaitGo-strákarnir sem hafa verið að gera það gott að undanförnu, áttu t.d. lagið í Áramótaskaupinu og gerðu hið ódauðlega lag Friðriks Dórs Hún er alveg með’etta, taka hér þátt í fyrsta sinn í Söngvakeppninni. Lagið er eins og flest þeirra lög yfirmáta hresst og léttleikandi. Það er ekki laust við að maður hugsi frekar um Steinda Jr. og Friðrik Dór en Sverri Bergmann þegar maður heyrir lagið, ekki að það sé neitt slæm tenging og hann ræður fyllilega við hæstu tónana. Ég velti fyrir mér hvernig þetta verður útfært því að svona lag þarf að vera dálítið „stórt“ á sviðinu. Mér finnst þetta ekki mjög eftirminnilegt lag, hvað þá sem Eurovision-lag, en finnst líklegt að persóna Sverris og söngur fleyti því langt, e.t.v. í úrslitin.

Hildur segir: Ég var alveg ótrúlega spennt þegar ég heyrði að StopWaitGo ætti lag í keppninni í ár enda hafa þeir samið mikið af eðal poppi, t.d. fyrir Friðrik Dór og Steinda Jr. eins og Eyrún benti á. Því miður varð ég þó fyrir dálitlum vonbrigðum þegar ég heyrði loks lagið. Ég átti von á mun meiri júrópoppsmelli, frekar en þessum létta poppslagara. Kannski eru það þessi vonbrigði mín sem lita álit mitt á laginu, en mér finnst það eiginlega bara frekar leiðnlegt. Lagið er þó fínasta smíð og Sverrir mun án efa flytja þetta óaðfinnanlega, ef hann kemst á sviðið í Háskólabíói þann 15. febrúar. Ég er þó ekki alveg viss um að hann endi þar og myndi ekki halda að þetta lag myndi ná eyrum Evrópubúa í keppninni í Kaupmannahöfn.

01greta-flytjandieftireittlag2

2. Eftir eitt lag í flutningi Gretu Mjallar Samúelsdóttur eftir Ástu Björgu Björgvinsdóttur og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur.

Eyrún segir: Annað lag eftir höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref í Söngvakeppninni sem ég fagna mjög! Lagið byrjar sem róleg úkúlele-melódía en hressist allsvakalega í popplag þegar líður á. Byrjunin finnst mér ekki alveg nógu sterk miðað við restina á laginu sem á heildina litið er mjög ljúft í eyrum og flutningur Gretu Mjallar er góður á upptökunni. Du-du-du-kafli sem er alltaf líklegur til vinsælda og skemmtileg stígandi líka. Gæti alveg gert góða hluti.

Hildur segir: Ægilega finnst mér þetta krúttlegt lag. Það minnir svolítið á framlag Svavar Knúts og Hreindísar Ylfu í fyrra, en verð að segja að þetta lag finnst mér skemmtilegra. Eftir þunga fundi er ljómandi að hlusta á þetta lag og maður verður svona huggulega glaður. Ég held að þetta sé einmitt lag sem Íslendingar muni fíla og það muni því komast áfram á laugardaginn. Svo finnst mér bara dásamlegt að hér eru bæði höfundar og flytjendur konur, það má sko alveg fá fleiri kvenhöfunda í keppnina 🙂

01gissur-flytjandivon

3. Von í flutningi Gissurar Páls Gissurarsonar eftir Jóhann Helgason.

Eyrún segir: Gaman að RÚV skuli hafa fengið Jóhann Helgason til að semja lag í Söngvakeppnina í ár, því að hann hefur samið einhver fallegustu sönglög á íslenskri tungu – og lagið Von er þar engin undantekning. Það er eins og maður hafi heyrt þetta lag áður og er það ekki merki um góða tónsmíð? Þetta er hugljúft sönglag sem poppast upp í lokin og er alveg laust við þessi þreytandi poppóperu-áhrif, þrátt fyrir að óperuunnendur fái líka e-ð fyrir sinn snúð í lokin. Flutningur Gissurar er gríðargóður og ég verð illa svikin ef þetta lag flýgur ekki áfram í úrslitin.

Hildur segir: Innst inni hef ég vonað að Gissur myndi skella sér í Júróvision, en átti ekki endilega von á því. Mér finnst því alveg ofsalega gaman að hann skuli vera kominn. Lagið er í hefðbundinni júróvisionpopplaga uppbyggingu, byrjar rólega, nær góðu hámarki þegar það nálgast lok en dregur svo til baka rétt í lokin. Jóhann  er með þetta á hreinu! Lagið hentar rödd Gissurar vel og hann það flytur náttúrlega algjörlega óaðfinnanlega og og ég spái því að hann steli senunni á sviðinu í Háskólabíói þann 15. febrúar! (Hann kemst að sjálfsögðu þangað!)

asdis-small

4. Amor í flutningi Ásdísar Maríu Viðarsdóttur eftir Hauk Johnson.

Eyrún segir: Varúð – ekki alveg hlutlaus dómur! (halló Haukur) 😉 Ég elska svona lög með karakter! Vinur okkur, Haukur Johnson, er hér með sitt fyrsta (en ekki sitt síðasta) lag í Söngvakeppninni og teflir fram ungri söngkonu, sem sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna í vor. Laginu verður best lýst sem indie-poppi og byrjar með flautandi laglínu sem náði mér strax. Hún kallast á við viðlagið sem er gjörsamlegt heilalím – sem getur verið gott og slæmt, en oftast skilar það atkvæðum í kassann! Rödd söngkonunnar er dulúðug og minnir á stundum á Ragnhildi Gísladóttur. Ég vona innilega að atriðið skili karakter lagsins heim í stofu til áhorfenda og að þau komist áfram í úrslit – jibbí!

Hildur segir: Önnur varúð – ekki alveg hlutlaus dómur hér!!! Ég elska að Haukur okkar eigi lag í keppninni og ekki er það verra að ég elska lagið líka! Fyrst þegar ég heyrði það, greip það mig þó ekki alveg en strax þegar ég hlustaði á það aftur greip það mig algjörlega og enn meira í þriðja skiptið, núna eru skiptin orðin svo mörg að ég hef ekki hugmynd hvað ég hef hlustað oft! Ásdís flytur þetta ljómandi vel og rödd hennar passar laginu fullkomlega. Kannski framtíðarsamstarf að byggjast upp hérna?! Ásdís og Haukur fljúga í Háskólabíó!

01vignir-flytjandielskuthu

5. Elsku þú í flutningi Vignis Snæs Vigfússonar eftir hann sjálfan.

Eyrún segir: Vignir er reynsluboltinn á þessu fyrrakvöldi og verður síðastur á svið. Hann kemur líka með nokkuð pottþétt popplag með blásturshljóðfærum og syngur um ástina sína. Hann er góður söngvari en lagið fer dálítið inn um eitt og út um hitt eyrað hjá mér. Ég get raulað viðlagið en ekki mikið meira þegar ég rifja lagið upp. Hann og Sverrir eru með nokkuð sambærileg lög og í þeirri viðureign held ég að Sverrir hafi betur, því miður.

Hildur segir: Því miður verð ég að segja að þetta lag er í botninum hjá mér þetta kvöldið. Ég hlustað á lagið nokkrum sinnum og get engan veginn munað það á milli hlustana, og meira að segja stundum þegar ég hlusta, þá er ég búin að gleyma því að ég sé að hlusta. Vignir er frábær söngvari og gerir þetta mjög vel, en ég er hrædd um að það sé ekki nóg í þetta skiptið. Það vinnur þó með honum að vera reynslubolti í keppninni!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s