Viðtal 2013: Eyþór, Örlygur og Pétur

Við hittum þá félaga Pétur Örn, Örlyg Smára (Ögga) og Eyþór Inga eftir stutta æfingu á RÚV rétt áður en lagt var af stað til IMG_0183Malmö og heyrðum í þeim hljóðið.

Jæja, hvernig leggst þetta í ykkur, og þá sérstaklega Eyþór, að taka þátt í Eurovision í fyrsta skipti með tilheyrandi glysheimi í tvær vikur? Ertu búinn að heyra margar reynslusögur um hvað sé best að gera og hvað ekki?

Eyþór: Þetta leggst bara mjög vel í mig. Ég held að öll mín reynsla á sviði hafi undirbúið mig fyrir þetta, ég hef nú tekið þátt áður í stórum uppfærslum, en þessi undirbúningur er kannski ólíkur því að aðdragandinn er svo langur og ferlið allt. En ég hef sungið live fyrir margt fólk áður og er því lítið að stressa mig fyrir því. Pétur og Öggi eru búnir að vera duglegir að segja mér hvernig þetta er en ég held að maður átti sig ekkert á því fyrr en út er komið.

Öggi: Ég er náttúrulega búinn að fara nokkrum sinnum áður og er, held ég, alltaf jafnrólegur yfir þessu. Það er líka sérstök tilfinning að fara með Pétri núna og vera saman í þessu með þetta lag. Já, það er bara mikil stemming.

Pétur: Ég hef nú farið nokkrum sinnum en í fyrsta sinn hérna megin við borðið. Í öll þessi skipti hef ég aldrei gert neitt í því að setja mig inn í hin framlögin enda væri það eins og að lesa bókina og fara svo beint að sjá myndina. Ég vil frekar fara út og sjá dyrnar á flugvélinni opnast og hugsa bara: Já, svona er þetta þá núna!

Eyþór: Ef Eurovision væri bíómynd, eins og Pétur segir, þá er ég bara svona rétt svo búinn að sjá trailerinn!

Nú mun lagið verða flutt á íslensku í fyrsta skiptið frá því að tungumál voru gefin frjáls í Eurovision. Teljið þið ykkur eiga frekar möguleika með lagið á íslensku?

Eyþór: Ég er persónulega gífurlega sáttur við að syngja á íslensku og hlakka fyrst og fremst til þess af öllu að fá að flytja íslenskuna á sviðinu. Mér finnst það geta verið skemmtilegt að komast í sögubækurnar að syngja á móðurmálinu í þessari keppni.

Öggi: Það eru alltaf einhverjir sem komu til okkar og hnýttu í að lagið sé á íslensku, en átta sig kannski ekki á því að enskan hjálpar heldur ekkert alltaf. Útlendingarnir líta á tungumálið sem hluta af laginu og á þann hátt er gott að fara með svona látlaust lag þar sem tungumálið fær að njóta sín – það hefði t.d. verið allt annað að senda Heru Björk með Je ne sai quoi á íslensku!

Aðdáendur keppninnar víða um Evrópu eru mjög oft hrifnir af íslenska framlaginu, hafið þið heyrt eitthvað frá aðdáendasamfélaginu um lagið ykkar?

Eyþór: Ég hef nú litla reynslu af þessu ennþá og ekkert verið að setja mig inn í allar þessar aðdáendasíður.

Öggi: Ég man þegar ég fór fyrst út árið 2000 – þá fannst mér svolítið óþægilegt að allt þetta ókunnuga fólk vissi allt um mig. Það er náttúrulega svo ótrúlegt magn upplýsinga á netinu, enn meira nú en þá. Þannig að þú getur búið þig undir það, Eyþór, að fólk mæti bara með allar upplýsingar um skólagönguna þína og fleira!

Hvað finnst ykkur um umfjöllunina um framlagið ykkar hér heima? Nú spáðu spekinganir í Alla leið-þáttunum því t.d. ekki áfram, truflar svona umræða ykkur?

Öggi: Allt þetta umtal truflar mig ekki, maður bara vinnur að undirbúningi fyrir atriðið; sér um að allt gangi smurt fyrir sig. Það þýðir ekkert að reyna að lesa í hin atriðin e-ð sérstaklega.

Þið eruð sem sagt ekkert að spá í þessum Eurovision-stimpli sem sumir vilja meina að sé neikvæður?

Öggi: Það fer bara allt eftir því hvernig þú vinnur úr því. Mér hefur ekki þótt þetta neikvætt og þetta hefur ekki hindrað mig í mínu tónlistarbrölti, frekar að þetta hefur opnað mér fullt af möguleikum. Eflaust er þetta annað fyrir flytjanda en lagahöfund, en allt fer þetta eftir því hvað þú gerir að keppni lokinni hvort þú fáir einhvern “stimpil” eða ekki. Ég hef alla vega ekki miklar áhyggjur af því. Ég geri bara það sem mér þykir gaman, öðrum má þykja það sem þeir vilja.

Pétur: Jah, Daníel Ágúst fór nú og fékk engin stig en það er enginn að tengja hann eða Valgeir Guðjónsson sérstaklega við Eurovision!

Getið þið sagt okkur ögn frá atriðinu, hvernig það þróaðist í það sem við sáum í Hörpu? Kemur það til með að breytast? Hvernig hafið þið lagt upp upp með að kynna lagið, fóruð þið í mikla markaðssetningu?

Öggi: Við viljum leyfa Eyþóri svolítið að njóta sín, viljum ekki setja e-ð show sem stelur athyglinni frá Eyþóri og laginu.

Pétur: Kjánalegt ef það kemur svo í ljós að hann er ekki sonur brjálaða vísindamannsins sem lagt var upp með!

Öggi: Hann stendur fyllilega fyrir sínu, verður bara hann sjálfur og af því að hann er þessi improvise-týpa þá vildum við ekki binda hann í einhverja kóreógrafíu. Auðvitað verður atriðið samt ekki eins, þetta er stærra svið og við höfum bætt við bakröddum, en við höldum okkur samt við að Eyþór njóti sín og geri það sem hann gerir best.

Pétur: Við Öggi verðum bara í því að sjá um að skyrturnar séu pressaðar og skiptum með okkur straujárnsvaktinni!

Straujárnsvaktin hefur staðið sig með mestu ágætum eins og við höfum séð af æfingum á sviðinu í Malmö, og Eyþór auðvitað með stakri prýði! Við þökkum strákunum fyrir viðtalið og hlökkum til að sjá afrakstur vinnunnar á sviðinu á fimmtudaginn kemur!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s