Gestapistill – Um textasmíðar í Eurovision

15651_10151385710985452_2085711989_nHér birtum við stórskemmtilegan pistil frá henni Sunnu sem er nú eldri en tvævetur í Eurovision-spekúlasjónum:

Að rýna í Eurovision-texta er góð skemmtun. Fyrir um ári síðan skemmti ég mér við að greina framburð og texta nokkurra austur-evrópskra þjóða þar sem framburður þeirra var svo bjagaður að boðskapur laganna varð ögn misskilinn. Svona oggulítið. Það er nefnilega spurning hvort tungumálafrelsið í Eurovision sé svo góð hugmynd þegar öllu er á botninn hvolft. Margar þjóðir ströggla við að senda lög á ensku þótt flytjandinn gæti ekki einu sinni pantað sér bjór á bar á skiljanlegri ensku. Flytjendurnir læra textana utan að en það er ekki til neitt Google Pronunciation til að bjarga þeim þannig að útkoman verður  skrautleg svo ekki sé nú meira sagt.

En textarýni þessa árs er annars eðlis. Stundum líta textahöfundar stórt á sig og telja tungumálakunnáttu sína og enskan orðaforða meiri en orðabók Websters. Þeir þurfa sko enga hjálp frá enskumælandi fólk, o sei sei nei! Slav-enskur texti gubbast út úr þeim, allt verður vitlaust af gleði í heimalandinu og áhugafólk um tungumál eins og ég fær kviðslit af hlátri við textagreiningu.

Við skulum fara hægt í sakirnar. Byrjum á nokkuð saklausu dæmi: Moldóvu.

Dramatíseruð dagbókarfærsla moldóvskrar gelgju fjallar um milljón sólarlög, milljón minningar, milljón hitt og þetta sem hún átt imeð sínum fyrrverandi. Oggulítið drama segi ég, meðal lífslíkur Íslendinga eru um 80 ár, það eru um 290.000 sólarhringar. Lífslíkur Moldóva eru minni, sem sagt þeir eru fjær milljón sólarlögum en við á Fróni. En skáld hafa jú alltaf skáldaleyfi og mega færa pínku pons í stílinn, ekki satt?

En heyr á endemi! Er þetta ekki full mikið af því góða?

The Maya were not so wrong, it’s the end of the world! It’s done! Cause you are gone.

„Heimsendaspá Maya-indíánanna hefur ræst af því að þú ert farinn!“

Og svo stuttu síðar:

My heart is too ill. I thought that we can go on but you chose to go alone. Go away! Now I’m done!

Bítum í tunguna og lítum framhjá dapri málfræðinni. „Hjarta mitt er fárveikt af því að þú ert farinn. En farðu burt! Ég er búin að fá nóg!“  Hér kemur tvennt til greina; A) höfundur glímir við innri sálarflækju og haltu-mér-slepptu-mér komplexa eða B) höfundur hefur sett textann við Bahama með Ingó og veðurguðunum á Google translate „Svo farðu bara, mér er alveg sama…“.

Færum okkur yfir til Hvíta-Rússlands.

Þreytt og tuskuleg eftir vinnuvikuna sest einmana kona á kaffihús. Af myndbandinu að dæma er hún samt hvorki þreytt né tuskuleg og ekki að sjá á henni að hún hafi unnið nokkurn skapaðan hlut. En það er annað mál. Hún heyrir tóna sem láta hana hlykkjast um í flogakasti og svo fellur hún í trans og talar tungum „solayoh, solayoh“:

Friday night was going nowhere… /  Sitting in a small café, / feeling lonely, a little tired, / I’ve been working hard all day. […] Situation started improving. / Maybe this was kismet now. / And my body started moving, / I was really shaking down. […] It feels like I’m dreaming, this word makes no sense. / Let’s sing it again now!

Skítt með það þótt þetta sé bullorð, syngjum það bara aftur og aftur! Úff…

Frá Hvíta-Rússlandi færum við okkur yfir til Litháen. Í fyrstu tók ég ekki eftir því að textinn gæfi tilefni til sérstakrar endurskoðunar. Ég skildi framburðinn hjá Andriusi, féll ekki fyrir laginu og þar með var það gleymt. En einhverra hluta vegna álpaðist ég samt inn á textann. Mér féllust hendur. Engin orð. Allur pakkinn. Ómægod, #ertekkjaðdjóka og allt það!

If you don’t know I’m in love with you / When summertime falls It becomes untrue / Because of my shoes I’m wearing today /One is called Love the other is Pain

„Ég er ástfanginn af þér en í lok sumars verð ég það ekki lengur. Sjáðu til, það er sko allt út af skónum sem ég er í. Annar heitir Ást en hinn heitir Sársauki.“

Nei Andrius, nei! Hættu nú alveg! Í fyrsta lagi þá er þetta GLÖTUÐ leið til að næla sér í maka eða rekkjunaut. „sko, ég er geðveikt hrifinn af þér núna en ekki eftir nokkra mánuði…“. Og allt út af skónum. Say what??? Og svona for your information þá láta flestir sér nú bara nægja að tala um hægri og vinstri skó.

Ný dönsk söng um árið um frelsið sem var svo yndislegt. Þeir hafa örugglega ekki verið að tala um tungumálafrelsið. Alveg pottþétt ekki.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s