Þá er komið að yfirferð okkar yfir lögin 39 sem keppa í Eurovision í ár. Við komum til með að skella hér inn nokkrum lögum í hverri færslu, ekki of mörgum og ekki of fáum 🙂 Svo væri gaman að sjá hvort þið séuð almennt sammála okkur, lesendur góðir!
Við byrjum á fyrra undankvöldinu, færum okkur svo á hið síðara og að lokum skoðum við löndin sex í aðalkeppninni. Góða skemmtun!
Austurríki – Natália Kelly – Shine
Hildur segir: Austurríkismenn senda okkur popballöðu sungna af ungri stúlku í diskóbuxum. Lagið byrjar ágætlega og lofar jafnvel góðu en verður eiginlega bara leiðinlegra þegar á líður. Viðlagið er líklega eitt það allra leiðinlegasta í keppninni í ár. Þótt hin unga Natália flytji lagið vel á ég ekki von á að lagið gerir nokkrar gloríur í keppninni, það er mjög óeftirminnilegt og er allra fyrsta lag til að fara á svið.
Eyrún segir: Hin 18 ára gamla Natália Kelly er af amerískum og brasilískum ættum og hefur víst verið í bransanum í 10 ár (!) Hún reynir að sannfæra okkur um að hún sé „still alive and breathing“ og klifar á „Shine“ í viðlaginu en textann samdi hún sjálf. Á undankeppninni endar hún svo með Gullfoss á sviðinu. Byrjunin er nokkuð catchy en lagið sjálft hverfandi skemmtilegt. Á síðasta ári lentu Austurríkismenn í síðasta sæti fyrra undankvöldsins og það er spurning hvað verður nú.
Eistland – Birgit Oigemeel – Et Uus Saaks Alguse
Hildur segir: Eistar senda aftur fallega ballöðu líkt og í fyrra. Núna er það ekki myndarlegur karlmaður sem syngur heldur gullfalleg kona sem þó virðist ekki hafa sérstakan fatasmekk ef marka má kjólinn sem hún klæddist í undankeppninni heima fyrir, hann er svolítið eins og hún hafi ákveðið að sauma aðeins neðan á fermingarkjólinn sinn, svona svo hann liti út eins og örlítið fansí náttkjóll. En það eru nú ekki kjólar sem hafa úrslitavaldið um hvað kemst áfram í keppnni, frekar lögin sjálf. Þessi ballaða er alveg ágæt, þótt hún sé ekki mjög eftirminnileg. Ég á þó frekar von á að hún tapi í samkeppni við margar ballöður á þessu undankvöld, einkum þá rússnesku og hollensku.
Eyrún segir: Ég er orðin rosa svag fyrir fallegum ballöðum sem sungnar eru á þjóðtungum og eistneska er einstaklega hljómfögur. Mér fannst þetta lag ofsalega heillandi til að byrja með og fyrsta hlustun blívar, er það ekki? Óléttar konur á sviðinu eru heldur ekki algeng sjón í Eurovision – eins gott að hún brjóti þá ekki regluna um fjöldann á sviðinu! Hún syngur um nýtt upphaf en er svo óheppin að vera 2. á svið ásamt því að fleiri ballöður fylgja í kjölfarið, svo að líkurnar á því að hún fari heim eftir þriðjudaginn eru miklar.
Slóvenía – Hannah – Straight in to love
Hildur segir: Slóvenar, með Hönnu í fararbroddi, koma með fyrstu poppbombuna inn í keppnina eftir tvö lög í rólegri kantinum. Lagið er alls ekki slæmt, fínasta europopp og ef Hannah getur sungið svona vel live þá gæti lagið átt ágæta möguleika á að komast áfram, einkum vegna þess að þetta er eitt af fáum europopp-lögum á þessu kvöldi. Ég hef þó áhyggjur af því að sviðsetningin gangi ekki upp, það vill vera með lög af þessu tagi að þrátt fyrir að þau virki dúndrandi fínt á Euroklúbbnum þá ganga þau illa upp á sviðinu.
Eyrún segir: Slóvenía mætir með poppið og bandaríska söngkonu í fararbroddi, sem syngur og semur hressilegt lag. Ég var skíthrædd allan tímann að rappari kæmi inn í og þegar það gerðist ekki var ég pínu fegin! En ég hef samt ekki mikinn smekk fyrir þessu, svona fyrir utan Eurovision-djammið. Lagið skilur ekkert eftir sig og ég man aldrei eftir því þegar það er búið. Ætli það verði svipað með evrópska áhorfendur? Nú, svo getur verið að sviðsetningin verði alveg klikkuð og þá gengur þetta e.t.v. allt saman upp.
Króatía – Kapla S Mora – Mizerja
Hildur segir: Króatar bjóða okkur upp á mikilvægan menningararf í ár, svo mikilvægan að söngstílinn, Kapla, sem þeir félagar í Kapla S Mora flytja hefur verið settur á lista UNESCO. Ég er einstaklega veik fyrir þjóðlagaskotinni tónlist frá Balkanskaganum og þetta lag er engin undantekning. Lagið er einstaklega fallegt og fullt bæði af innlifun og fegurð. Ég er viss um að þeir félagar syngi sig inn í hjörtu Evrópubúa og alla leið í úrslitin.
Eyrún segir: Pínulítið krúttlegt að hugsa til þess að Slóvenía og Króatía sem hér eru hlið við hlið í keppninni „skiptust“ á stílum í ár frá því í fyrra. Þá sendi Slóvenía sólósöngkonu með þjóðlagakennda ballöðu og Króatía europoppsmell. Nú hefur Króatía ákveðið að þjóðlagaarfurinn verðskuldi Eurovision-framlag og það er vel! Mér finnst þeir heillandi og syngja vel og á þjóðtungunni. Kannski á Króatía smá séns að komast í úrslitin í ár – ég vona það a.m.k.
Danmörk – Emmelie de Forest – Only Teardrops
Hildur segir: Þetta var fyrsta lagið sem ég heyrði í keppninni í ár fyrir utan það íslenska. Ég heillaðist gersamlega af því strax við fyrstu hlustun og þrátt fyrir að hafa ekki heyrt neitt annað lag í keppninni var ég handviss um að það myndi vinna. Núna þegar ég hef heyrt öll lögin mörgum sinnum er ég enn viss um að það muni vinna. Lagið er eiginlega einskonar blanda af Euphoriu og Wild Dances, sigurlaginu hennar Ruslönu frá 2004, en samt sem áður með sinn eigin hljóm, sem gerir það að verkjum að lagið gengur algjörlega upp. Emmelie hin konungborna (eða svo segir hún að minnsta kosti!) flytur lagið líka ljómandi vel og sviðsetning í undankeppninni í Danmörku var góð svo ég stend við það sem ég segi, þetta er mjög líklegur sigurvegari í ár.
Eyrún segir: Ég er örugglega ein fárra sem er ekki haldin dönsku bakteríunni í ár. Þrátt fyrir það er þetta frambærilegasta lag en stúlkan er heldur mikið að stæla sænsku Loreen frá því í fyrra, berfætt í síðri slá með slegið hár – notar reyndar engan snjó… Ég get alveg séð winner í þessu lagi eins og margir hafa spáð (þ.á m. allir veðbankar) en þetta er ekki besta lag keppninnar að mínu mati. Mér finnst þetta svoldið eins og Danir hafi farið yfir Öresundsbrúnna, náð sér í IKEA-hillu eða Volvo og ákveðið að merkja með danska fánanum í staðinn – eða lógói Illum!