OGAE klúbbar víða um Evrópu halda reglulega ýmsa viðburði þar sem Eurovision stjörnur koma fram. OGAE í Þýskalandi stóð fyrir einum þess konar í febrúar og skellti Flosi, alþjóðafulltrúi FÁSES, sér til München til að taka þátt í herlegheitunum:
Nokkrir meðlimir FÁSES skelltu sér á Eurovision viðburð hjá OGAE Þýskalandi um helgina. Hann fór fram í München og var þræl magnað að koma í leðurbuxna og líters bjórs stemmninguna. Að sjálfsögðu var íslenski fáninn á lofti allan tíman á meðan mis-skemmtileg skemmtiatriði fóru fram. Eins og í Baku var ég kominn á fjórða glas þegar stuðið byrjaði með kareoke og myndbandi frá Baku . Þegar Mundu eftir mér kom á skjáinn var mikill fögnuður í salnum og greinilegt að Þjóðverjanir fíluðu Gretu og Jónsa. Að þessu loknu var komið að því sem allir voru að bíða eftir, Eurovision stjörnunum sjálfum.
Fyrstur á svið var Tom Dice frá Belgíu. Hann var með fallega ballöðu í Oslo 2010 “Me and my guitar” sem lenti í 6 sæti. Þetta var besti árangur Belga síðan 2003 þegar Belgía háði harða keppni við gellurnar í TATU frá Rússlandi og svo Tyrkland sem hafði vinninginn það árið. Hann flutti þetta með mikilli prýði og var mjög vingjarnlegur og talaði við aðdáendurna fyrir og eftir. Lögin hans eru reyndar mjög lík þannig að þetta varð smám saman frekar leiðinlegt.
Það var komið að dívu kvöldsins(eða svoleiðis var framkoman hans á neikvæðan hátt), Pasha Parfeny, sem söng lagið Lautar, fyrir Moldavíu í fyrra. Hann talaði með rosalega skemmtilegum austur evrópskum hreim en var greinilega kominn aðeins í glas þar sem hann gleymdi textanum á laginu sínu. Ekki skánaði það þegar hann reyndi að taka lagið It’s my life eftir Bon Jovi. Þá vantaði líka þessar frábæru dansara sem hann var með í Baku.
Stjarna kvöldsins var án efa Friderika Bayer sem söng í fyrsta sinn fyrir Unverjland árið 1994 og náði besta árangri Ungverja eða 4 sæti, með ballöðuna “Kinek mondjam el vétkeimet”. Hún hefur engu gleymt og maður fékk bara smá tár í augun þar sem þetta var eitt af mínum uppáhalds lögum á þessum árum. Þetta er eitt af þessu lögum sem maður þarf ekki að skilja textan, bara hlusta og njóta hvað tónir segja söguna.
Síðust á svið var hin hollenska Sandra Reemer. Hún er kannski lítt þekkt fyrir okkur sem eru fædd eftir 1980 en hún tók þrisvar sinnum þátt með þrem frábærum lögum. Árið 1972 með dúettinn ,,Als het om de liefde gaat“(4 sæti), 1976 ,,The party is over“(9 sæti) og 1979 ,,Colorado“(12 sæti). Eins og sést á myndbandinu hér fyrir neðan þá var hún hoppandi og skoppandi og gerði það enn 41 ári síðar með aðeins meira sílikon í vörum og kannski hugsanlega búinn að fá sér vel í litlu tánna þar sem hún var alveg út að aka.
Það var svo í lokinn sem ballið byrjaði og við gátum farið að syngja og dansa með lögunum sem við vildum heyra. Það er skemmst frá því að segja að það varð allt vitlaust þegar All out of luck með Selmu var spilað.