Hauk Johnson þarf varla að kynna en hann hefur einnig verið sérlegur gestaálitsgjafi hjá okkur hér á AUJ og er einnig stjórnarmaður FÁSES. Hann er nú staddur á sænskri grundu og mun vafalítið kynna sér málin vel fyrir komandi Eurovision-keppni í Malmö. Hann gaf sér þó tíma til að spá í úrslitin í Söngvakeppninni á morgun:

Ekki líta undan:
Frá því ég heyrði lagið fyrst og þar til núna hafði ég algjörlega afskrifað þetta lag. En eftir að hafa hlustað á það af athygli og með opnum hug verð ég að viðurkenna að lagið er nokkuð gott og vel samið og útsett.
En það er ekki nóg að hafa gott romm til að gera góðan Mojito og að sama skapi er ekki nóg að hafa vel skrifað lag til að vera með gott Eurovision-framlag. Fyrir mig persónulega er það flytjandi lagsins og framsetningin sem gerir mig afhuga. Fyrir það fyrsta höfum við séð þessa uppstillingu með Magna of oft. Einstaka söngvarar geta haldið uppi slíku lagi einir síns liðs og mér finnst Magni ekki „púlla“ það. Hefði þetta lag fengið rokkaða og kraftmikla konu í dramatískum kjól með góðar bakraddir þá hefði þetta líklega orðið mitt uppáhalds. Magni hefði kannski getað reddað Dilönu vinkonu sinni.
Svo er ég á móti því að dómnefndin taki fram fyrir hendur á þjóðinni sem ekki kaus lagið í þrjú efstu sætin. Hefði samkeppnin verið erfið þá hefði ég skilið það, en að mínu mati þurfti maður að vera ansi óvinsæll til að ná ekki upp úr þessari forkeppni. Þar af leiðandi hef ég ekki miklar væntingar til þessa lags og nema að einhver meiriháttar yfirhalning á framsetningunni ætti sér stað þá held ég að þetta lag myndi lenda í neðstu sætunum í forkeppninni í Malmö.
Lífið snýst:
Hreindís Ylva er óneitanlega mjög krúttleg og sjarmerandi á sviðinu, og ég hef alltaf haft svolítið gaman af því þegar það eru margir að gera allskonar krúttlegt á sviðinu (samanber Love in Rewind með Dino Merlin frá Bosníu 2011). Svavar Knútur… já. Jú, jú, hress en verður samt svolítið meira eins og ef fatlaði bróðirinn í Something About Mary hefði verið karakter í The Shining. Ögn krípí og gæti knúsað lífshættulega fast.
Lagið er huggulegt, og minnir mjög mikið á eldra framlag Hallgríms, Undir regnbogann (í flutningi Ingós). En fyrir minn smekk er það ekki nógu afgerandi og ef til vill fulldanskt. Danskt er ágætt, en ég fíla það ekki í Eurovision, í þessari „hyggelig“ merkingu. Ég held að margir séu mér sammála og því tel ég ekki að þetta lag vinni á Íslandi. Mér finnst hins vegar ekki óhugsandi að það fengi sömu meðferð og Vinir Sjonna í Eurovision; kæmist í gegn en skoraði lágt í lokakeppninni.
Ég á líf:
Að mínu mati er Örlygur Smári eini Íslendingurinn sem kann að semja og/eða pródúsera alvöru (sænskt) schlager-Eurovision-popp! Það voru mér því mikil vonbrigði þegar ég heyrði fyrstu tóna lagsins Ég á líf, og má segja að vonir mínar um að að geta dansað við íslenska framlagið á Euro-klúbbnum í Malmö hafi horfið inn í ljósan, rennisléttann makkann á hinum ágæta söngvara, Eyþóri Inga.
Ég hef heyrt það útundan mér að fólki þyki lagið fallegt, og ég er viss um að það slær á einhverja strengi hjá þeim sem til dæmis fíla Villa Vill og lög eins og Bíddu pabbi. En bíddu nú hægur pabbi og þið hin, því ég er nokkuð viss um að ef þetta lag fer til Malmö þá verði ekki mikil sala á grillvökva laugardaginn 18. maí, því það verða engin partý. Ég held meira að segja, svei mér þá, að engum síðhærðum, ljóshærðum rokkara hafi gengið vel í Eurovision, þótt ég muni eftir þó nokkrum slíkum.
Ég held hins vegar að þetta lag verði í topp 3 hér á Íslandi, og eigi jafnvel möguleika á að vinna. En ég vona ekki.
Meðal andanna:
Birgitta á að mínu mati hrós skilið fyrir það að þora að vera svolítið dramatísk og stórhuga. Atriðiði hennar er að mínu mati það eina í keppninni sem að einhverju leyti lítur út fyrir að vera alvöru Eurovision-lag og í nokkrar sekúndur getur maður næstum gleymt því við hversu þröngan kost þessi blessaða keppni er haldin.
Birgitta sjálf er líka auðvitað afar viðkunnaleg og hún hefur sýnt það áður að hún er ekkert of góð til að tapa, þrátt fyrir poppstjörnu fortíð sína.
Þessi atriði, það er Birgitta sjálf og framsetning atriðisins, gera það að verkum að ég tel að hún sé langlíklegust til að vinna á laugardaginn. Lagið sjálft finnst mér hins vegar ekki nógu sterkt eins og það er núna en ef það yrði endurhljóðblandað smá og ef enski textinn er flottur þá gæti það vaxið. Ég held þó að það myndi ekki nægja til að komast upp úr forkeppninni í Malmö og því til stuðnings bendi ég á lagið Nebo frá Króatíu í fyrra. Stemningin var keimlík en lagið mun betra, og söngkonan Nina Badic var stórstjarna á öllum Balkanskaganum. Hún hafði samt ekki erindi sem erfiði og það sama tel ég næsta víst með okkur.
Til þín:
Það vantar ekki að Jógvan sé sjarmerandi og lög Sveins Rúnars eru oftast nokkuð góð ef maður hlustar vel. En stundum ekki nógu afgerandi og það finnst mér líka þarna. Það er erfitt að setja fingurinn á það hvers vegna en þetta lag fangar engan veginn athygli mína og ég held líka að það hefði verið betra hefði það ekki verið dúett, án þess að ég hafi nokkuð á móti Stefaníu. En ekki gefast upp Jógvan, þú skalt fá að fara seinna!
Vinátta:
Halli Reynis setur mig í smá flækju. Staðreyndin er sú að mér finnst lögin hans bæði falleg og grípandi. Mér finnst framsetningin með frænkurnar á kantinum líka mjög aðlaðandi og einföld. Hann er líka sjálfur mjög vinalegur og greinilega mjög fær lagahöfundur.
En… af hverju vill maður helst ekki að hann fari í Eurovision? Ef mér finnst þetta ætti útlendingum þá ekki að finnast það líka?
Það er líklega ástæðan. Hann er svo hógvær og sveitalegur að manni finnst bara illgjarnt að fórna honum á glimmer- og lcd-altarinu. Ég vil endilega að hann haldi áfram að semja tónlist og spila á Rósenberg, og myndi jafnvel mæta, en þetta er ekki hliðin sem mig langar að sýna á Íslandi í Eurovision. Meira til heimabrúks.
Hins vegar finnst mér hann vera sá keppandi sem líklegastur er til að koma á óvart og ef hann lendir í einvígi á mót einhverju umdeildu þá finnst mér ekki óhugsandi að fólk hugsi bara: Fokk it. Leyfum honum að fara!
Ef svo færi þá held ég að hann gæti svolítið horfið á sviðinu í Malmö, en líkur Íslands á að komast áfram í ár eru hvort sem er næstum engar.
Ég syng:
Unnur sjálf er tvímælalaust það ferskasta í keppninni í ár enda er hún fyrsti Íslendingurinn á eftir Selmu Björns til að geta bæði sungið og dansað, og það bæði í einu.
Og ég held að það sé ekki henni að kenna, heldur laginu, að mér finnst ég næstum vera að horfa á Sollu stirðu. Lagið er svakalega barnalegt, og þótt ég sé alveg hrifinn að miklu sápukúlupoppi þá finnst mér þetta ganga aðeins of langt í því. Svona lög geta orðið mjög erfið þegar maður hefur heyrt þau oft. Textinn minnir mig á tómenntakennarann minn úr grunnskóla sem var alltaf að reyna að semja lög á „unglingamáli“.
Ég held hins vegar að ef atriðið yrði tekið í gegn (til dæmis ef bakraddirnar væru látnar taka nokkur spor líka) þá sé þetta það lag sem á bestan séns á að komast í gegnum forkeppnina í Svíþjóð. Ég myndi líka hafa mjög gaman af því að sjá hversu mikið Unnur getur gert, og því get ég stutt þetta sem sigurvegara. Hvernig sem fer þá held ég að keppnin sé á milli Unnar og Birgittu í ár.