Söngvakeppni Sjónvarpsins 2013: Yfirferð laga á fyrra undankvöldi

Við höfum í gegnum tíðina spáð aðeins í spilin og leikið okkur að því að reyna að sjá út hvaða lög komast áfram í aðalkeppni Söngvakeppninnar. Yfirleitt höfum við gert það í nokkrum færslum en í ár er breyting á fyrirkomulagi keppninnar og undankvöldin ekki nema tvö og 6 lög á hvoru kvöldi. Við ætlum því bara að demba okkur í að skoða lögin sem keppa munu annað kvöld, föstudaginn 25. janúar:

johanna_17

1. Þú í flutningi Jóhönnu Guðrúnar Jónsdóttur eftir Davíð Sigurgeirsson.

Eyrún segir: Mikið sem ég var fegin að Jóhanna Guðrún mætti ekki með enn eina ballöðuna!! Þriðja skiptið hefði verið algjörlega óver-kill að mínu mati, þrátt fyrir að ýmsir Eurovision-aðdáendur séu ósammála mér þar 🙂 Hins vegar varð ég fyrir vonbrigðum með lagið og finnst það ekki alveg nógu sterkt, viðlagið dálítið grípandi en á heildina litið er það ekki nógu gott. Jóhanna á þó eftir að flytja það með glæsibrag enda ekki silfurstúlkan okkar fyrir ekki neitt! Þessu lagi spái ég ekki endilega inn í aðalkeppnina í gegnum kosninguna í kvöld, en held að það verði valið inn með hjálp dómnefndar, þá sem sjöunda lagið!

Hildur segir: Hér er ég hjartanlega sammála Eyrúnu að það hefði verið óver-kill að fá Jóhönnu Guðrúnu með þriðju ballöðuna í þessa keppni, það er hressandi að heyra Jóhönnu Guðrúnu syngja eitthvað aðeins poppaðra. Lagið er hins vegar alls ekkert sérstakt og frekar óeftirminnilegt, ég get til dæmis aldrei munað hvernig það er um leið og því lýkur. Hins vegar er auðvelt að syngja með því strax í fyrsta skiptið sem maður heyrir það. Þrátt fyrir að lagið sé ekki endilega sterkt er alls ekki óvíst að það komist áfram enda á Jóhanna algjörlega pottþéttur flytjandi og á sér nokkuð stóran aðdáendahóp í kringum þessa keppni.

magni-gummifix

2. Ekki líta undan í flutningi Magna Ásgeirssonar eftir Svein Rúnar Sigurðsson og Ingibjörgu Gunnarsdóttur.

Eyrún segir: Magni og Sveinn Rúnar eru náttúrulega brilliant kombó, það geta allir verið sammála um og mér finnst þetta þrælfínt lag. Viðlagið mjög mikið heilalím og hæfilega mikið rokk, fyrir minn smekk allavega. Ég er líka farin að halda pínu með Magna í Söngvakeppninni (svona í gríni a.m.k.) – við verðum að senda hann í Eurovision, drenginn! Ég hugsa að það verði þó varla með þessu lagi – en það gæti þó alveg komist í aðalkeppnina og ætti það fyllilega skilið.

Hildur segir:  Ég veit ekki hvað þau eru orðin mörg skiptin sem Magni hefur tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins en þau eru orðin ansi mörg. Það má kannski segja að Magni sé orðin Björvin Halldórsson samtímans í Söngvakeppninni en eins og þekkt er keppti Björgvin asi oft á upphafsárum keppninnar en komst aldrei alla leið. Magni er einn af uppáhaldsflytjendum mínum í þessari keppni og samstarf hans við Svein Rúnar hafa skilað af sér nokkrum frábærum lögum. Lagið þeirra félaga í ár veldur mér þó vonbrigðum. Það er alls ekki slæmt, það er bara ekki jafn frábært og síðustu ár. Ég vona þó að sviðsetningin verði með öðru sniði en oft áður, fullt af gítarleikurum í bakgrunni og sóló mega alveg missa sín! Magni og Sveinn Rúnar munu þó eiga það skilið að komast áfram.

svavar-hreindis

3. Lífið snýst í flutningi Svavars Knúts Kristinssonar og Hreindísar Ylvu Garðarsdóttur Hólm eftir Hallgrím Óskarsson og Svavar Knút.

Eyrún segir: Æ, þetta er pínu uppáhalds hjá mér. Lagið snoturt og nokkuð skothelt sem ljúft popplag. Flytjendurnir eru ekki síður pottþéttir og við könnumst aðeins við Hreindísi úr Söngvakeppninni 2009. Svavar Knútur er líka heimsklassa tónlistarmaður sem gaman er að fá í Söngvakeppnina þar sem hann stígur sín fyrstu skref. Ég hlakka til að sjá atriðið á sviði og held að það geti haft úrslitaþýðingu um hvort lagið komist áfram í aðalkeppnina.

Hildur segir: Ég held að þetta sé algjörlega uppáhaldslagið mitt í keppninni ár, svo ofsalega glaðlegt og krúttlegt að ég brosi allan hringinn þegar ég heyri það og líður vel lengi eftir hverja hlustun! Lagið er líka nokkuð grípandi, sérstaklega la la-hlutinn í lokinn. Ég er sammála Eyrúnu um að sviðsetningin mun hafa mikil áhrif á það hvort lagið fer áfram í úrslitin en það má gera ráð fyrir pottþéttum flutningi af hendi þeirra Svavars og Hreindísar. En hvað sem verður um örlög lagsins í þessari keppni spái ég því að þetta lag muni ná góðri útvarpsspilun núna í skammdeginu.

songvk2013-sonkona-0459-b

4. Sá sem lætur hjartað ráða för í flutningi Eddu Viðarsdóttur eftir Þóri Úlfarsson og Kristján Hreinsson.

Eyrún segir: Fínt lag sungið af eiginkonu lagahöfundarins, Eddu Viðarsdóttur. Heldur rislítið lag en kemur vafalaust vel út á sviði. Á ekki von á því að það komist áfram í aðalkeppnina.

Hildur segir: Það er alltaf svoleiðis í Söngvakeppninni að það er eitthvað lag sem ég gleymi alveg og í ár er það þetta lag. Því miður í hvert skipti sem ég hluta á lagið til að rifja það upp þá man ég hvað mér finnst það leiðinlegt og verð sorgmædd þegar ég hlusta á textann. Lagið er þó prýðilega vel flutt og mun án efa koma vel út á sviðinu á föstudaginn. Ég held þó að það muni ekki nægja til að það komist áfram í úrslitin.

eythoringi

5. Ég á líf í flutningi Eyþórs Inga Gunnlaugssonar eftir Pétur Örn Guðmundsson og Örlyg Smára.

Eyrún segir: Eins og Svavar Knútur, stígur Eyþór Ingi sín fyrstu skref í Söngvakeppninni í ár og því ber sannarlega að fagna, enda fantagóður söngvari. Hann skilar laginu mjög vel, sem er eins og hannað fyrir hann til að sýna hvað í sér býr. Ég beið reyndar alltaf eftir brjálæðislega powerinu í lok lagsins, en eins og það er þá á það ekki sinn líkan á þessu undankvöldi og er t.d. ekki of líkt laginu hans Sveins Rúnars. Er nokkuð viss um að þessi tvö lög, Ég á líf og Ekki líta undan, berjist um að komast áfram og lag Eyþórs, Ögga og Péturs hafi vinninginn að lokum.

Hildur segir: Það er alltaf gaman þegar nýir söngvarar taka þátt í Söngvakeppninni eins og Eyþór Ingi gerir nú og flytur huggulegt popplag eftir þá Ögga og Pétur Örn. Lagið greip mig alls ekki við fyrstu hlustun en það vex við hverja hlustun og viðlagið á það til að festast í höfðinu á manni. Ég tel að lagið eigi góða möguleika á að komast áfram en það veltur á sviðsframkomu og flutning bæði þessa lags og hinna. Ég er þó ekki sammála Eyrúnu um að þetta lag hafi vinninginn í baráttunni við lag Sveins Rúnars í flutningi Magna, hreinlega af því að Magni á sér mun stærri aðdáendahóp í kringum þessa keppni en Eyþór Ingi. 

birgitta2

6. Meðal andanna í flutningi Birgittu Haukdal eftir Birgittu Haukdal, Sylvíu Haukdal Brynjarsdóttur, Jonas Gladnikoff, Michael James Down og Primoz Poglajen.

Eyrún segir: Týpískasta Eurovision-lag þessa undankvölds, finnst dálítið eins og maður hafi heyrt það nokkuð oft áður. Birgitta kemur til með að flytja lagið af öryggi, enginn vafi á því, og eflaust það lag sem flestir munu kjósa – það er engin tilviljun að því sé stillt upp í lok kvöldsins 😉
Tel fullvíst að þetta lag sé öruggt áfram á aðalkvöldið. Ég staldraði dálítið við textann, þar sem hún virðist lýsa rammasta draugagangi – á maður að þora að leggja í spár um draugalega lýsingu og búninga; nútíma útgáfa af Miklabæjar-Solveigu kannski??

Hildur segir: Það hefur helst til lítið farið fyrir Birgittu Haukdal undanfarin ár og því gaman að sjá hana með eigið lag í Söngvakeppninni í ár. Lagið er orkumikil ballaða með góðu risi og er alveg dæmigert júróvísjon-lag, líklega það eina í keppninni í ár. Textinn er þungur, fjallar um einstakling sem er fastur í viðjum myrkurs og erfiðleika en tekst að lokum að komast út úr því með hjálp stjarnanna. Ég sé fyrir mér sviðsetningu sem stigmagnast með laginu úr myrkri yfir í ljós. Þetta lag hefur í raun allt sem gott júróvísjon-lag þarf, það er heilalímandi (ég er búin að vera með það á heilanum síðan ég heyrði það fyrst!) og bíður upp á mikla og spennandi sviðsetningarmöguleika. Að mínu mati er þetta lag í raun það eina sem er öruggt áfram í úrslitin af þessu undankvöldi.

Auglýsingar

2 athugasemdir við “Söngvakeppni Sjónvarpsins 2013: Yfirferð laga á fyrra undankvöldi

  1. Anna Ólafsd. skrifar:

    Jóhanna Guðrún, Magni og Birgitta eru þau einu sem ég treysti til að verða fulltrúar okkar í Svíþjóð, það er ekki nóg að hafa gott lag, flytjandinn þarf að vera öruggur.
    10 ár síðan að Birgitta tók þátt er það fimmti besti árangur okkar.
    Magni hefur tekið þátt 2006, 2008 (dúett með Birgittu), 2011 og 2012, það vill svo til að framlag okkar 2007 var samið fyrir hann, en gaf ekki kost á sér, þá tók Eiríkur Hauksson við því.
    Jóhanna Guðrún á næst besta árangur okkar í keppninni og við munum stíga á svið þann 16-05-2013, hún lentí í öðru sæti þann 16-05-2009.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s