Spjall við flytjendur: Eyþór Ingi

Eyþór Ingi söng sig inn í hug og hjörtu margra með flutningi sínum á laginu Ég á líf, síðastliðið föstudagskvöld. Hvort hann syngur sig alla leið til sigurs á laugardaginn verður spennandi að sjá!

eythoringi

1. Hversu spenntur ertu á skalanum 1-10 fyrir laugardeginum?
„10“

2. Hver er mesta júróvísjon-stjarna allra tíma?
„Páll Óskar.“

3. Veistu hvað FÁSES er?
„Nei, ætti ég að vita það?“

4. Hvernig er Söngvakeppnin í samanburði við Rocky Horror og Bandið hans Bubba?
„Eitt er leiksýning, Bandið hans Bubba og Eurovision er líkara nema þetta snýst allt um 3 mínútur og eitt lag.“

5. Værirðu til í að fara á Eurovision sem bakrödd fyrir annan keppanda?
„Hef aldrei hugsað út í það.“

6. Ef lífið væri júróvísjonlag um hvað væri það?
„Barnauppeldi og bleyjur.“

Möguleikar í úrslitum: Meðal andanna

Birgitta á fyrra undankvöldinu á föstudaginn var. Mynd frá FÁSES.

Birgitta er fjórða á svið og syngur sitt lagið sitt Meðal andanna sem hún samdi í félagi við systur sína Sylvíu Haukdal og Jonas Gladnikoff.

Kostir:

 • Klárlega júróvísjonlegasta lagið í keppninni.
 • Grípandi og stórt.
 • Framsetning fyrir sjónvarp góð.

Gallar:

 • Ef til vill of mikil formúla…
 • Háu tónarnir eru fallvaltir og ef þeir nást ekki gætu þeir ráðið úrslitum fyrir lagið í heild.
 • Kuflar bakraddanna gætu jafnvel fælt einhvern frá!

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Þar sem Birgitta er vinæl og lagið dúndrandi júróvísjon-bomba þá eru líkur á að lagið verði í toppslagnum ansi miklar. Lagið gefur möguleika á góðri útfærslu fyrir sjónvarp.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Möguleikarnir í Malmö gætu verið talsverðir á að komast áfram upp úr undankeppninni. Lagið er svona þægilega mikið júróvísjon í bland við að vera nokkuð grípandi. Birgitta hefur náttúrlega keppt áður og margir því sem þekkja hana í aðdáendaheiminum og lagið allt eins líklegt til að verða vinsælt í þeim heimi. Hvað myndi gerast á úrslitakvöldinu ef lagið kæmist alla leið þangað er nánast ómögulegt að spá fyrir um.

Möguleikar í úrslitum: Ég á líf

Eyþór Ingi á fyrra undankvöldinu á föstudaginn var. Mynd frá FÁSES.

Eyþór Ingi stígur þriðji á svið á laugardaginn og flytur hið írskuskotna lag, Ég á líf eftir Pétur Örn og Örlyg Smára.

Kostir:

 • Grípandi lag og líkur á óaðfinnanlegum flutningi.
 • Höfundar hoknir af júróvísjon-reynslu.
 • Einlægni og sterk nærvera Eyþórs á sviðinu.

Gallar:

 • Jafnvel of líkt mörgum, einkum írskum, framlögum.
 • Lagið í miðri keppninni og e.t.v. ekki á þannig stað að fólk muni vel eftir því – nema að auglýsingahlé komi á undan eða eftir!
 • Flutningurinn veltur allur á Eyþóri, ekki einu sinni bakraddir á sviðinu og því ákaflega mikið í húfi.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Líkurnar á að lagið fari í toppslaginn teljum við talsverðar. Lagið er það grípandi, vel flutt og einhvern veginn þægilegt að fólki líkar við það. Börn syngja það við fyrstu hlustun og þannig lag hlýtur að slá í gegn!

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Eins og með lagið Lífið snýst þá gæti þetta lag auðveldlega fallið í gleymsku. Hins vegar gæti það náð í gegn í úrslitin ef Eyþóri tækist að flytja það af sinni einskæru snilld með alla þá einlægni sem hann á til.

Spjall við flytjendur: Unnur Eggerts

Unnur er aðalega spennt en þó pínu stressuð fyrir laugardagskvöldinu! Hún flytur eins og kunnugt er gleðipopplagið Ég syng! eftir þau Elízu Newman, Gísla Kristjánsson og Ken Rose. Unnur er sjöunda og síðust í röðinni á svið.

unnur-gummifix

1. Hversu spennt ertu fyrir laugardeginum á skalanum? – 9,5! Svo er 0,5 stress því ég hef aldrei sungið fyrir framan svona marga áður!

2. Hver er mesta júróvísjon stjarna allra tíma? – Fyrir mér verður það alltaf Selma Björns.
3. Veistu hvað FÁSES er? – Félag áhugamanna um söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
4. Hvert væri uppáhalds Eurovision-lag Sollu stirðu? – All Out of Luck með Selmu- lagið snýst um að gefast aldrei upp sem er það sem Solla reynir að kenna krökkum á hverjum degi!
5. Værirðu til í að fara á Eurovision sem bakrödd fyrir annan keppanda? -Já ekki spurning! Væri tíl að fara þótt ég færi sem kaffisendill eða skópússari

6. Ef lífið væri júróvísjonlag um hvað væri það? – Það væri um gleði, vináttu og samstöðu. Og muna að borða alltaf nóg af íþróttanammi 😉
 

Möguleikar í úrslitum: Lífið snýst

Svavar Knútur og Hreindís Ylva á föstudaginn var. Mynd frá FÁSES.

Önnur á svið á laugardaginn verða þau Svavar Knútur og Hreindís með lag Hallgríms Óskarssonar Lífið snýst.

Kostir:

 • Glaðlegt og hressilegt hamingjupopp!
 • Góður og fölskvalaus flutningur með þéttum bakröddum.
 • Eftirminnilegt þegar á heildina er litið, fremur ólíkt öðrum lögum.

Gallar:

 • Svipar um margt til eldri Söngvakeppnislaga, t.d. Waterslide með Sjonna Brink og Undir regnboganum með Ingó sem mörgum finnst ókostur.
 • Höfðar e.t.v. síður til mikilla júróvísjon-aðdáenda.
 • Svavar Knútur hefur svo mikla útgeislun og sterka nærveru á sviði að Hreindís hverfur örlítið í skuggann af honum og dúettinn verður því minna sannfærandi.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Möguleikarnir á að ná langt verða að teljast talsverðir enda virðist lagið falla í kramið hjá þeim sem kusu á fyrra undankvöldinu. Það má einnig gera ráð fyrir að dómnefndin sé svag fyrir hamingjupoppinu.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Þar sem lagið er langt frá því að vera júrópopp, nokkuð krúttlegt og örlítið grípandi þá gæti það orðið til þess að kjósendur í Evrópu myndu vel eftir laginu og gætu því kosið það. Hins vegar verður að hafa það í huga, þrátt fyrir velgengni svipaðra laga undanfarin ár, að svona lög eiga það líka til að falla í gleymsku inn á milli glanspoppsins.

Spjall við flytjendur: Hreindís Ylva og Svavar Knútur

Annar af tveimur dúettum í úrslitum eru þau Svavar Knútur og Hreindís Ylva. Þau tóku sér smá tíma og svöruðu örfáum spurningum fyrir okkur hérna á Öllu um Júróvísjon!
svavar-hreindis
Svavar Knútur:
1. Hversu spenntur ertu fyrir laugardeginum á skalanum 1-10?
„Ég myndi segja svona 8.5 😀 Mér finnst þetta rosalega gaman en ég er bara með svo geðveikt mikið að gera að ég hef ekki 100% tíma til að vera bara kolbrjálaður.“

 2. Hver er mesta júróvíjson stjarna allra tíma?
„Annaðhvort Gildo „hatt euch liebt!!!“ eða Carola. Svo er Johnny Logan vel hress með kúluhattinn á kantinum.“
3. Myndir þú mæla með þátttöku í Söngvakeppninni við aðra tónlistarmenn?
„Já auðvitað. Þetta er stórskemmtileg, um leið og maður sleppir fýlunni og artfartahægðatregðunni sinni og ákveður að hafa bara gaman.“
4. Vitið þið hvað FÁSES er?
„Félag áhugafólks um sjónvarpskeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Eða félag áhugafólks um sífelldar eyrnasveppasýkingar. Það er líka til… held ég…“
5. Værirðu til í að fara á Eurovision sem bakrödd fyrir annan keppanda?
„Veit ekki alveg, ég er svo upptekinn af lífinu að það væri pínu vesen. En ef mér þætti geðveikt vænt um keppandann, þá myndi ég auðvitað hoppa með 🙂 Þannig að eiginlega… Jájá. :D“
6. Ef lífið væri júróvísjonlag um hvað væri það?
„Það væri um hvað lífið væri mikið júróvisjónlag um hvað lífið væri mikið júróvisjónlag og svo myndi heimurinn detta ofan í gat í sjálfum sér og tortímast í innsprengingu. Svona svolítið eins og þegar maður gúglar google eða deilir með núll. Það er alveg fatalt.“
———-
Hreindís Ylva:
1. Hversu spennt ertu fyrir laugardeginum á skalanum 1-10?
„Ég sprengi skalann! Söngvakeppnin er alltaf spennuefni hjá mér og hvað þá núna þegar ég er að taka þátt sjálf og fæ að syngja í Hörpunni í ofanálag.““
2. Hver er mesta júróvísjon-stjarna allra tíma?
Ég ætla að vera smá fyrirsjáanleg og segja Carola í kvennadeild og Johnny Logan í karladeild. Ég er mikill og einlægur aðdáandi Carolu og hef verið lengi, hún er bara eitthvað svo með’etta. Og það þarf nú ekki að útskýra sjarmann hann Johnny neitt frekar!
3. Veistu hvað FÁSES er?
Auðvitað! Ég er stoltur FÁSES-meðlimur og hoppaði hæð mína af gleði þegar klúbburinn var stofnaður enda löngu tímabært og fá stofnendur enn og aftur klapp á bakið frá mér fyrir að standa fyrir þessu.“
4. Mynduð mæla með þátttöku í Söngvakeppninni við aðra tónlistarmenn?
Já alveg klárlega. Þetta er ótrúlega skemmtilegur viðburður og gaman að taka þátt í frumflutningi á nýrri íslenskri tónlist og auðvitað sjónvarpsþætti sem meirihluti þjóðarinnar sameinast um að horfa á.
5. Værirðu til  í að fara á Eurovision sem bakrödd fyrir annan keppanda?
Já ég held það. Sérstaklega ef við værum með flott bakraddaspor, ég er algjör „sökker“ fyrir góðum bakraddasporum í Eurovision.“
6. Ef lífið væri júróvísjonlag um hvað væri það?
„Væri ekki bara óskandi að textinn við lagið okkar væri gegnumgangandi í lífi sem flestra. Að vera ekki með grýlukerti á hjörtunum og fagna litunum og lífsins tilbrigðum getur ekki verið nema gott.“

Möguleikar í úrslitum: Ekki líta undan

Magni í forkeppninni á föstudag. Mynd frá FÁSES.

Það er komið að því að fara yfir möguleika laganna sem keppa á úrslitakvöldinu í Hörpu á laugardaginn. Fyrsta lag á svið er lagið Ekki líta undan eftir Svein Rúnar Sigurðsson í flutningi Magna Ásgeirssonar. Lagið keppti á fyrra undanúrslitakvöldinu og komst ekki áfram. Það var hins vegar dómnefnd sem notaði rétt sinn til að bæta einu lagi við þau sex sem komust í úrslit og fleytti Magna áfram í úrslit.

Kostir:

 • Mjög kraftmikil rokkballaða sem Magni flytur af sinni einstöku snilld.
 • Grípandi viðlag.
 • Einfalt er oftast best, enginn glamúr eða glys. Bara Magnificent.

Gallar:

 • Kannski of líkt mörgu sem Magni hefur gert í keppninni hingað til.
 • Að vera fyrstur á svið gæti unnið gegn honum í þetta sinn; hættara á að gleymast.
 • Kraftinum þarf að fylgja mikil einlægni sem getur verið erfitt að koma til skila.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni:  Möguleikarnir verða að teljast minni en meiri á að Magni fari alla leið að þessu sinni. Einkum í ljósi þess að það eru önnur framlög sem virðast hafa fallið meira í kramið hjá almenningi.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Þrátt fyrir að Lordi hafi unnið með rokklag árið 2006 þá hafa rokklög ekki náð sérlega góðum árangri í júróvísjon. Líkur væru þó á að lagið gæti náð langt og jafnvel upp úr undankeppninni einkum vegna Magna sem er nokkuð þekktur í aðdáendaheimi Eurovision. Líkur á mörgum stigum í aðalkeppninni verða þó að teljast hverfandi.

Spjall við flytjendur: Magni

Við báðum flytjendur í úrslitunum á laugardaginn að svara örfáum spurningum. Fræddumst meðal annars um hver þau teldu vera mestu júróvísjon-stjörnu allra tíma. Hinn þaulreyndi Magni ríður á vaðið.

magni-gummifix
1. Hversu spenntur ertu fyrir laugardeginum á skalanum 1-10?
„Ég er miklu meira en spenntur…“
2. Hver er mesta júróvísjon-stjarna allra tíma?
„Celine Dion“
3. Hvað þýðir FÁSES fyrir þér?
„Félag àhugamanna um söngvakeppni evróskra sjónvarpsstöðva“
4. Ef þú vinnur núna, er þetta þá komið gott? Kemurðu til með að koma aftur á næsta ári?
„Ef ég vinn þà lofa ég að hætta!“
5. Værirðu til  í að fara á Eurovision sem bakrödd fyrir annan keppanda?
„Ég væri alveg til í það en ég er held ég ekki nógu góður raddari“ 🙂
6. Ef lífið væri júróvísjonlag um hvað væri það?
„Lífið er lag!“

Fyrstu þrjú lögin ljós

Eins og væntanlega hefur ekki farið framhjá neinum Júróvísjonaðdáanda þá er nú ljóst hver eru fyrstu þrjú lögin sem munu keppa til úrslita í Söngvakeppni Sjónvarpsins þann 2. febrúar n.k.

Fyrst til að komast áfram var Birgitta Haukdal með lagið sitt, Meðal andanna og kom það líklega fáum á óvart. Nokkuð virtist koma meira óvart að næsta lag sem tilkynnt var áfram í úrslitin var lag Hallgríms Óskarssonar, Lífið snýst, í flutningi Svavar Knúts og Hreindísar Ylfu. Það var svo spennuþrungið loftið í græna herberginu rétt áður en þriðja lagið var tilkynnt áfram enda mikil júróvísjon boltar sem eftir voru. Margir hefðu jafnvel veðjað á að Magni færi áfram en það var Eyþór Ingi með lagi Ég á líf, eftir þá Örlyg Smára og Pétur Örn sem var þriðji og síðasti keppandi sem komst áfram í úrsltin.

Seinna undanúrslitakvöldið fer fram laugardaginn 26. janúar en þá kemur í ljós hvaða önnur þrjú lög komast áfram.