Yfirferð laga 2012 – V

Síðasta yfirferð okkar í ár er á lögunum sem keppa eingöngu í úrslitunum; Bretlandi, Ítalíu, Spáni, Frakklandi, Aserbaídsjan og Þýskalandi. Við erum á því að það sé langt síðan stóru löndin fimm voru öll með svona frambærileg lög!

1. Bretland –  (Engelbert Humberdinck) – Love will set you free

Eyrún segir: Hrífandi lag þó að ég komist ekki hjá því að hugsa um jarðarfarir þegar ég heyri upphafstónana – sem er fremur óheppilegt þegar litið er til þess að keppandinn er 75 ára gamall! Hann hefur nú samt indæla nærveru, karlinn og tekst ágætlega að koma laginu frá sér. Bretar eru ofarlega í veðbankaspám og ég sé hann Engelbert hoppa og skoppa í topp 5-10 í ár 🙂

Hildur segir: Þetta framlag Breta er smám saman að breytast í uppáhalds lagið mitt í keppninni í ár. Þessi virkilega einfalda og hugljúfa ballaða sem biður okkur að fylgja hjartanu er bara ómótstæðileg. Líklega er þetta með fallegri tónsmíðum sem heyrst hafa í keppninni lengi. Þetta samanlagt við að Engelbert er jú mjög þekktur, einkum í eldri aldurshópum, þá er ég viss um að Bretar eiga eftir að standa sig með prýði og komast langt í ár.

9. Frakkland – (Anggun) – Echo (You And I)

Eyrún segir: Ég fílaði þetta lag ágætlega í fyrstu skiptunum og það gæti alveg virkað á sviði. Ég sá hins vegar æfingu nr. 2 hjá Anggun þar sem hún var virkilega ósátt við að fólk væri að taka upp æfingarnar, ekki bara á vegum keppninnar heldur einnig bara á símana sína og það fór í taugarnar á mér hvað hún var hrokafull! Þannig að nú get ég eiginlega ekki hlustað á þetta án þess að pæla í því. Það er samt ekkert slæmt að hafa myndarlega karlmenn bera að ofan á sviðinu…

Hildur segir: Persónulega finnst mér þetta með síðri europopp-lögunum í keppninni í ár, það eina sem er skemmtilegt og grípandi við það er flautið! Ég varð svo ofsalega pirruð á því að hafa hermenn í myndbandinu og fannst enn verra að sjá börn í hermannabúningum þar. Svo er ég annáluð fyrir að þykja franska eitt ljótasta tungumál sem hægt er að syngja á svo að samanlagt get ég bara ekki annað en spáð Frökkum slæmu gengi í ár.

10. Ítalía – (Nina Zilli) – L’Amore È Femmina (Out Of Love)

Eyrún segir: UPPÁHALDS lagið mitt! (fyrir utan Eistland en það er líka svona í rólegri kantinum…) Nina er frábær listamaður og þrátt fyrir að öllum finnist lagið sem hún flutti í San Remo, Per Sempre, mun betra finnst mér þetta bara helv. gott líka! Hún hefur örlítið hása og mjög sérstaka rödd og lagið hefur motown-hljóm svipaðan lögum Amy Winehouse. Ítalíu er spáð góðu gengi og fengu glimrandi góðar viðtökur í fyrra þegar þeir sneru aftur eftir sjálfskipaða fýlu-útlegð. Ég held að í ár blandi þeir sér aftur í toppbaráttuna! Forza Italia!

Hildur segir: Þetta er eitt af þessum lögum sem ég skipti daglega um skoðun á. Einn daginn finnst mér það frábært en hinn daginn alveg drepleiðinlegt. Í dag er ég satt best að segja komin með svolítið leið á því. Svo var hún Nina svo litlaus á fyrstu æfingunni sinni að manni langaði helst til að slökkva bara. Þrátt fyrir þetta er ég viss um að Ítalía á eftir að ná góðu gengi á laugardaginn, nýjabrumið af endurkomu þeirra í Júróvísjon er ekki alveg farið og svo elska Evrópubúar bara Ítalíu!

13. Azerbaijan – (Sabina Babayeva) – When the music dies

Eyrún segir:
Þetta er lag sem ég nenni sjaldnast að hlusta á til enda, og mikið verða þetta langar 3 mínútur! Er samt ekki gefið að gestgjafaþjóðin verði vel fyrir ofan miðju?

Hildur segir: Æjæjæj, sænska lagahöfundateymið sem vann keppninna í fyrra, vill greinlega ekki vinna keppnina aftur í ár, því ég held að tónlistin deyji aðeins með þessu lagi, svo agalega leiðinlegt og niðurdrepandi er það! Hún Sabina syngur þessa ballöðu ágætlega en það er bara ekki nóg! Ég held að ef Aserar hefðu þurft að keppa í undanriðlunum í ár hefði þeir ekki komist áfram.

19. Spánn – (Pastora Soler) – Quédate Conmigo (Stay With Me)

Eyrún segir: Sannarlega stór rödd og eitt frambærilegasta lag Spánar í háa herrans tíð. Hún Pastora hefur verið að skríða upp lista veðbankanna og aðdáendur eru hrifnir af henni. Sjálf heillast ég af Celine Dion-stórballöðu flutningnum og gæti alveg séð hana fyrir mér í efstu 10 sætunum.

Hildur segir: Spánn, sem sjaldan á góðu gengi að fagna í Eurovision, teflir hér fram ballöðu með súpersöngkonu, sem sannarlega getur gefið allt í þetta þriggja mínútna lag. Lagið er allt í lagi, en ekki mikið meira en það. Svo er það allt of lengi að byrja til að fanga áhorfandann og ég er hrædd um að margir verði farnir að pissa, reykja eða poppa áður en lagið nær hæstu hæðum og fangar mann virkilega.

20. Þýskaland (Roman Lob) – Standing Still

Eyrún segir:
Hann er sko alveg sykursætur, hann Roman og syngur vel, líka live – sem er ekki alltaf sjálfgefið. Ég hugsa að þetta gæti alveg gert góða hluti, sérstaklega af því hann er nokkuð seint á sviðinu (nr. 20). Samt finnst mér eitthvað óeftirminnilegt við þetta lag, það er fremur látlaust. Það er e.t.v. kannski akkúrat það sem þarf?

Hildur segir: Ég elska þetta litla, krúttlega og verulega útvarpsvæna lag! Þetta lag hefur nútímalegan poppbrag og er algjörlega eitt sinnar tegundar í keppninni. Ég held að það og hvað Roman er krúttlegur á sviðinu (og hann syngur vel!) verði til þess að Evrópubúar teygi sig yfir poppskálina og í símann til að kjósa hann. Er fullviss um að Þýskaland endar í topp 10 í ár.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s