Yfirferð laga 2012 – III. hluti

Hérna kemur þriðji hluti af spánum okkar, nú er það fyrri hluti laga af seinna undankvöldinu fimmtudaginn 24. maí næstkomandi:

1. Serbía (Željko Joksimović) – Nije Ljubav Stvar

Eyrún segir:  Með tímanum hef ég lært að meta betur og betur fallegar balkanballöður. Zeljko hefur náttúrulega samið og flutt gullfallegar ballöður; Oro, Lejlu og Lane Moje og núna Nije ljubav stvar sem hefur þetta allt: Fallegan fiðluleik, blásturshljóðfæri, taktfastan trumbuslátt og auðvitað Zeljko og röddina hans. Samt er þessi ballaða ekki alveg jafn frábær og hinar fyrrnefndu. Ég held samt að hún sé sigurstrangleg í ár og það verða svo sannarlega ekki bara Austur-Evrópa og Kákasus sem kjósa þetta lag áfram!

Hildur segir: Zeljko Joksimovic er sönn júróvísjon-stjarna og ætlar nú sjálfur að stíga á svið, að sjálfsögðu með eigið lag. Eins og við er að búast er hér um að ræða balkanballöðu í stærri kantinum. Ég er mikið fyrir góðar balkanballöður og þessi er engin undantekning þótt þetta sé alls ekki besta lag Zeljko í keppninni hingað til. Hjá mér er þó enginn efi á því að Zeljko fljúgi áfram í úrslitin enda geysivinsæll í júrovísjonheiminum sem og annars staðar!

2. Makedónía (Kaliopi) – Crno I Belo

Eyrún segir: Eitt af minna hræðilegum lögum sem komið hafa frá Makedóníu, allt frá því ég byrjaði að fylgjast með Eurovision. Án djóks, þau hafa öll verið hrikaleg. Þetta vinnur enga sigra en gæti alveg með góðra vina hjálp komist upp úr undankeppninni.

Hildur segir: Makedónar hafa sjaldan riðið feitum hesti frá Júróvísjon. Í ár senda þeir þaulreynda söngkonu með örlítið brostna rödd sem syngur lag sem líklega væri hægt að flokka sem rokkballöðu í poppkantinum. Fyrst þegar ég heyrði lagið var ég ekki sérlega hrifin en það hefur vaxið jafnt og þétt við hlustun og í dag er það meira en sæmilegt og mér finnst tungumálið falla sérlega vel að laglínunni. Ég held barasta að Kaliopi syngi sig á sínu rámu nótum alla leið í úrslit.

3. Holland (Joan Franka) – You and Me

Eyrún segir: Pínu krúttlegt lag hjá henni Joan í einfaldleika sínum, og minnir dálítið á belgíska Tom Dice. Indjánafjaðrirnar reyndar dálítið over-kill en samt örugglega ofsa margir sem fíla hana nóg til að kjósa hana áfram.

Hildur segir: Það eru fá lög í keppninni í ár sem mér þykja mjög skemmtileg en þetta er sannarlega eitt þeirra. Það er bara eitthvað svo krúttlegt og einlægt og ég er sammála Eyrúnu, þetta minnir svolítið á Tom Dice og gítarinn hans árið 2010.  Þetta er eitt af mjög fáum lögum í ár sem ég nenni að hlusta á aftur og aftur og því verð ég bara að spá því áfram í úrslitin.

4. Malta (Kurt Calleja) – This is the Night

Eyrún segir: Malta sendir ofur-hýrt atriði í ár, rétt eins og í fyrra, en lagið er ansi þunnt þó að Kurt sé hress og sætur. Ég hef ekki mikla trú á því að þetta komi til með að gera góða hluti í keppninni.

Hildur segir: Alltaf þegar ég heyri fyrstu tónana í þessu lagi, fyllist ég von um að nú sér loksins komið frábært júrópopplag! Þessi von stendur þó bara yfir í nokkrar sekúntur því að undanskyldum þessum fyrstu tónum þá finnst mér lagið verða leiðinlegra í hvert skipti sem ég heyri það. Þrátt fyrir það var ég  lengi vel á því að lagið myndi fara áfram í úrslitin en eftir að hafa horft á myndbandið aftur og fyrstu æfinguna er ég alls ekki viss lengur. Kurt virðist ekki líða vel á sviðinu og ég fæ pínu kjánahroll við að horfa á hann og væri vís með að skreppa á klósettið meðan á laginu stendur. Að því sögðu spái ég því að Maltverjar komist ekki áfram í úrslit.

5. Hvíta-Rússland (Litesound) – We are the Heroes

Eyrún segir: Þið afsakið alhæfinguna en mér finnst bara ekki hafa komið almennilegt tónlistaratriði (lag, tónlist, texti eða flutningur) frá Hvíta-rússlandi frá … upphafi! Hrikalega slappt!

Hildur segir: Ehemm…. hvað eru þeir að gera í þessum mótorhjólagöllum? Ég get bara ekki almennilega hlustað á lagið því ég sé ekkert nema undarlega menn í mótorhjólagöllum á sviðinu!!! Ef ég hlusta á lagið án þess að horfa fatta ég hins vegar að það er allt í lagi þó ég horfi bara á gallanna og heyri ekki lagið því það er bara alls ekkert sérlega skemmtilegt. Segi kannski ekki að það sé alslæmt en skemmtilegt er það ekki. Ég spái því barasta að Hvít-Rússar sitji því heima á úrslitakvöldinu.

6. Portúgal (Filipa Sousa) – Vida Minha

Eyrún segir: Þetta lag minnir mig á Senhora Do Mar frá 2008 sem mér fannst dásamlegt portúgalskt lag, kannski er það fado-stíllinn sem minnir mig á það. Lagið 2008 var að vísu mun sterkara en þetta er mjög fallegt líka og flutningurinn góður. Því miður hafa áhorfendur oftar en ekki gleymt Portúgal í hita leiksins þannig að við verðum bara að treysta á dómaraatkvæðin.

Hildur segir: Ég er afskaplega lítill aðdáandi Portúgala í Júróvísjon, er ein af þeim sem þykir framlög þeirra næstum því alltaf leiðinleg og óeftirminnileg. Einstaka sinnum tekst þeim þó að ná mér og í ár held ég að þeim sé alveg að takast það! Í fyrstu fannst mér lagið, sem er ballaða með örlitlum þjóðlagakeim, herfilega leiðinlegt en það vex og núna er það alveg að ná mér. Ég var fyrst harðákveðin í því að Portúgalar kæmust ekki áfram en hef skipt um skoðun. Lagið er dæmigert dómaralag og gæti halað inn mörgum atkvæðum þar og ef vel gengur á sviðinu er aldrei að vita nema áhorfendur taki líka við sér og kjósi.

7. Úkraína (Gaitana) – Be My Guest

Eyrún segir:  Gaitana er power-söngkona, það leikur enginn vafi á því. Lagið er í stúdíóútgáfu mjög flott og hljómfagurt en það virðist eitthvað vanta upp á það í útfærslunni á sviðinu í Baku, þar sem allar raddir vantar en hún hefur í staðinn 5 dansara með lúðra (sem eru á play-backi vel að merkja og þarf ekki að heyrast í). Það þarf hins vegar nauðsynlega að heyrast í bakröddum! Ef þetta er lokaútgáfan verður þetta bara miðlungs karaókí-flutningur, sem hæfir … tja, kannski bara ágætlega Evrópukeppninni í fótbolta!

Hildur segir:  Ég er svo ofsalega ánægð með að Úkraínumenn bjóði okkur aftur upp á dúndur júropopp með bombu söngkonu! Lagið er vel útfært og hljómar eins og Eyrún segir mjög vel í stúdíó útgáfu. Ég held að það hafi verið mikil mistök hjá Úkraínumönnum að skipta bakröddum alfarið út fyrir dansara án þess að setja á svið meiriháttar show eins og þeir hafa nú oft gert. Eins og ég var viss um að Úkraína myndi fljúga í úrslitin þá er ég ekki eins viss um að þeir fljúgi en ná líklega að koma sér yfir með herkjum!

8. Búlgaría (Sofi Marinova) – Love Unlimited

Eyrún segir: Ehemm, talandi um karaókí! Afskaplega 90’s-miðað atriði; ein söngkona með euro-popp-teknó-tónlist sem hún hreyfir sig ómarkvisst við. Æ, nei…

Hildur segir: Afsakið en þetta er örugglega eitt það leiðinlegra sem ég hef heyrt á ævinni! En það skiptir engu máli, Búlgarar komast hvort eð er næstum aldrei áfram, alveg sama hvort þeir sendir gott eða slæmt lag!

9. Slóvenía (Eva Boto) – Verjamem

Eyrún segir:  Sannarlega ein fallegasta tónsmíðin í keppninni í ár. Söngkonan virðist erfiða dálítið við dýpstu tónana enda aðeins 17 ára gömul en flutningurinn getur orðið mjög flottur og útfærslan vel gerð á sviðinu. Ef það verður svo gæti þetta orðið svokallaður dark horse – og næsta víst að dómaraatkvæðin falli Slóveníu fremur en Portúgal í skaut, að mínu mati!

Hildur segir: Lagið sem hún Eva flytur er afskaplega falleg tónsmíð og verður að öllum líkindum vel flutt. Ég verð þó að viðurkenna að alveg sama hversu fallegt mér þykir lagið þegar ég heyri það, þá get ég ekki fyrir mitt litla líf munað hvernig það er um leið og því líkur. Hins vegar gleymi ég seint hárskrautinu sem bakraddirnar bera og kannski verður það til þess að fólk man eftir laginu og hugsar: ,,æji já það var fallegt þarna lagið þar sem bakraddirnar voru með hálft kíló af tjulli í hárinu hver,  best ég kjósi það!“

Auglýsingar

3 athugasemdir við “Yfirferð laga 2012 – III. hluti

 1. Anna Ólafsd. skrifar:

  Þakka ykkur fyrir.
  Ég vona að Holland komist áfram, það verður að gerast núna.
  Hvít-rússneska framlagið árið 2007 og 2009 var gott.
  Þið nefnið báðar portúgalska framlagið árið 2008 að þetta sé líkt, ekki skrítið, sömu höfundar.

 2. Heida Lind skrifar:

  Ég bara elska serbneska alagið og ef Ísland vinnur ekki verður það að vinna! 😀

 3. Gunni Þóriss skrifar:

  Ef Ísland vinnur ekki, þá vonandi verður það Eistlenski strákurinn sem er hreint frábær, og ef ekki Eistland þá verður það Serbía !!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s