Yfirferð laga 2012 – II. hluti

Þá er komið að annarri yfirferð laganna í ár! Nú er það síðari helmingur laganna sem stígur á svið á fyrsta undanúrslitakvöldinu þann 22. maí!

10. Ísrael (Izabo) – Time

Eyrún segir: Ég er alveg búin að sjá út mynstur með ísraelsku lögin og mig: Þegar þeir senda ballöður, helst tregablandnar og á hebresku, þá fíla ég þær en annars fíla ég ekki ísraelsku lögin. Þetta á við í tilfelli Ísraela í ár því að þeir eru með tilraunakennt popp/indílag sem mér finnst bara ekkert spes. Það kæmi mér þó ekki á óvart þó að þeir kæmust áfram úr þessum annars slaka riðli.

Hildur segir: Þetta framlag Ísraela minnir mig svolítið á framlag Spánar frá 2010, það er einhver örlítill sirkús fílingur í laginu líkt og var í því spænska árið 2010. Ég hef líka sömu tilfinningar gangvart þessu lagi eins og því spænska, það er eitthvað við það sem fær mig til að langa að finnast það skemmtilegt en þegar upp er staðið finnst mér það bara ekkert skemmtilegt! Þetta er eins og svo mörg lög í keppninni í ár svona hvorki né og ef við notum gengi spænska lagsins frá 2010 sem forspárgildi þá kemst þetta bara alls ekki áfram!

11. San Marínó (Valentina Monetta) – The Social Network Song

Eyrún segir: Allur sirkúsinn í kringum þetta framlag: Fyrst að fá Ralph Siegel til að semja, svo að syngja um Facebook, fá bann á sig frá EBU og breyta textanum þá í eitthvað torræðið „Uh-oh“-bull og vitleysu; allt þetta leggur bara grunn að einu: Að koma pínulitla San Marínó á Júróvisjón-kortið í ár! Og ætli þeim takist það á þriðjudaginn kemur? Ég vil meina ekki, því að af æfingum að dæma verður atriðið mjög hallærislega útfært og kjánahrollur viðvarandi. En hér gæti Evrópa þurft að gera upp við sig: Er þetta Skelfing eða Snilld?

Hildur segir: NEI NEI NEI og aftur NEI! Það er ekki þess virði að eyða fleiri orðum í þetta lag!

12. Kýpur (Ivi Adamou) – La la love

Eyrún segir: Svona út frá PR-dæminu hjá San Marínó er áhugavert að bera smáríkið saman við eyjuna Kýpur sem ákvað líka að fara í stórkostlega Júró-herferð í ár, og fór nánast á hausinn við það. Af æfingum hjá Ivi Adamou að dæma, er hún nú ekki sterkasta söngkonan live, og ef söngurinn floppar er voðalega lítið eftir til að halda í í þessu lagi. Það mallar svo sem ágætlega sem europopp-lag og mér finnst það nokkuð skemmtilegt (örugglega snilldar klúbbalag í sumar). Hún kemst mjög sennilega áfram í úrslitin!

Hildur segir: Loksins loksins, júrópopplag að mínu skapi meira að segja með örlítlum klúbbafíling sem er enn skemmtilegra! Hérna virkar formúlan vel og úr verður hressilegt og eftirminnilegt júrópopplag! Söngkonan lítur svolítið út eins og bandaríska leikkonan Liv Tyler og ég var smá tíma að átta mig á því að þetta var ekki Liv Tyler að leika í myndbandinu! Ég held að þetta lag eigi eftir að gera góða hluti og kemst bókað áfram í úrslitin.

13. Danmörk (Soluna Samay) – Should’ve Known Better

Eyrún segir: Ljúft og ekta danskt popplag. Frá því að undankeppnafyrirkomulagið var tekið upp hafa Íslendingar hjálpað Dönum einna mest að komast áfram upp úr undankeppninni og ég hef enga trú á öðru en íslenska þjóðin eigi eftir að leggja sín lóð á vogarskálarnar í ár líka!

Hildur segir: Danir bjóða okkur upp á ágætis popplag í ár. Mér finnst lagið og hún Soluna bara svolítið krúttleg sem og samsetning bandsins sem er með henni á sviðinu – það er nefninlega ekki á hverjum degi sem maður sér skoppara spila á selló eða bakraddir í sófapartýi, hvað þá unga stúlku með gardínubandaskraut frá ömmu á öxlunum! Þótt þetta minni svolítið á atriði í hæfileikakeppni framhaldsskóla þá virkar þetta samt sem áður allt saman vel og ég á ekki von á öðru en Danir komist áfram í úrslit, þó að ég sé ekki viss um að þeim eigi eftir að ganga sérlega vel á úrslitakvöldinu sjálfu. En hver veit; kannski komast allir í bakraddasófapartýfýling, vefja sig gardínusnúrum og kjósa Danmörku!

14. Rússland (Buranovskiye Babushki) – Party for Everybody

Eyrún segir: Sætu sætu ömmurnar með ljóta sovéska skorsteininn á sviðinu! Það er allt taktlaust við þetta lag, en allir heima í stofu eiga eftir að syngja með og brosa að þessum fínu búningum og klaufalegu hreyfingum, teygja sig í símann og kjósa þær áfram 🙂

Hildur segir: Ég vissi bara ekki hvaðan á mig stóð veðrið fyrst þegar ég sá þær rússnesku! Lagið er agalegt en hér skiptir það nákvæmlega engu máli! Sex hálf tannlausar rússneskar ömmur í þjóðbúningum að bjóða okkur í partý getur bara ekki klikkað. Alveg öruggt að þær skoppa í úrslit.

15. Ungverjaland (Compact Disco) – Sound of our hearts

Eyrún segir: Þetta lag hef ég fengið á heilann nokkrum sinnum í undanfara Júróvisjón og þó að þetta sé ekkert sérstaklega sú tónlist sem höfðar til mín, þessi mainstream-rokk hljómur, þá held ég að þetta komist áfram á kostnað Svisslendinga sem eru fyrr um kvöldið.

Hildur segir: Ungverjar bjóða okkur upp á hitt rokklag kvöldsins. Ég sagði að í yfirferð minni um hitt rokklagið þetta kvöld, það svissneska, að mér þætti það betra en núna er ég ekki viss, finnst þau eiginlega bæði ekkert spes. Í því svissneska fer framburður söngvarans svo fyrir brjóstið á mér að ég get ekki einbeitt mér almennilega að laginu og hér er það nefmælt rödd söngvarans sem verður til þess að ég heyri ekki lagið, bara vælulega röddina! Held barasta að hið rokkskotna þetta kvöld sé bara alls ekki nógu gott til að komast áfram!

16. Austurríki (Trackshittaz) – Woki mit deim Popo

Eyrún segir: Þessir guttar mæta með súludansara og neongalla á sviðið í Baku og eru hressir á því! Ég veit ekki alveg hvort ég myndi teljast markhópurinn fyrir áheyrendur þessa lags og verð að segja að það nær mér ekki. Grínið er ágætt (ef þetta á að vera grín, og ekki gætti ákveðinnar kvenfyrirlitningar í textanum „Hristu rassinn á þér á súlunni“) en Austurríki fer ekkert nema heim aftur með þessar súlur sínar!

Hildur segir: Ég held að Matti Matt hafi algjörlega hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að þetta framlag Austurríkismanna væri eins og ef við Íslendingar sendum Steinda jr. í keppnina. Þó margir fatti efalaust kaldhæðnina sem liggur í húmornum í þessu lagi (þó mér sé það til efs að nokkur sem tali þýsku skilji eitt einasta orð í textanum) held ég að þetta muni fara fyrir brjóstið á mörgum heiðvirðum húsmæðrum og feðrum. Þrátt fyrir allt þá er eitthvað við þetta lag sem ég fíla og ég held barasta að þetta komist jafnvel áfram í úrslitin!

17. Moldóva (Pasha Parfeny) – Lautar

Eyrún segir: Austurevrópuhljómurinn í laginu er einstaklega hressandi og skemmtilegur og ég fíla þetta lag alveg í botn. Reyndar skil ég ekki nema örfá orð í textanum: „makes you mine, girl“, „out of control“ en söngvarinn kemst ágætlega frá þessu sönglega séð og það hjálpar að vera næstsíðastur. Já, jafnvel þó að hægt verði að kjósa frá 1. lagi á svið. Moldóva held ég að fari áfram.

Hildur segir:  Ég var alveg ægilega hrifin af þessu lagi Moldóva fyrst þegar ég heyrði það. Mér finnst myndbandið snilld og brassið fær mig til að dilla mér og vera kát. Hins vegar þegar ég sá live upptöku af laginu og síðar fyrstu æfinguna þá var ég ekki eins viss. Í myndbandinu er Pasha svo hress og kúl en á sviðinu get ég ekki ákveðið mig hvort mér finnst hann kjánalegur og dansararnir hans líta út fyrir að vera í sínum fyrsta eróbikk tíma, eða hvort mér finnst þetta bara svolítið kjánlega fyndið. Kannski er Pasha bara brandarakall en við föttum það ekki alveg! En af því mér finnst lagið skemmtilegt og það er bara svolítið fátt um fína drætti á þessu fyrra undanúrslitakvöldi þá ætla ég að spá því áfram.

18. Írland (Jedward) – Waterline

Eyrún segir: Mættir aftur, verra lag, sama hár, sami staður í undanriðlinum (síðasta lag á svið, en voru í 2. semi-final í fyrra). Þeir hoppa áfram í úrslitin, drengirnir – það held ég að sé ljóst!

Hildur segir: Jedward eru mættir aftur og með nákvæmlega sömu hárgreiðslu og jafn hoppandi og skoppandi og í fyrra! Lagið í ár er í örlitlum 90’s fíling sem ég kann vel að meta og verð að segja að þetta lag þeirra finnst mér eiginlega skemmtilegra en framlag þeirra í fyrra. Þeir eru bráðskemmtilegir áhorfs og enn fyndnara er að horfa á bakraddirnar gera hreyfingar sem passa hoppandi tvíburnunum í gammósínum vel en nokkuð venjulegu fólki á fertugsaldri kannski ekki alveg eins vel 😉 Ég held það leiki lítill vafi á að Jedward skelli sér í úrslitin!

2 athugasemdir við “Yfirferð laga 2012 – II. hluti

 1. Anna Ólafsd. skrifar:

  Fimm uppáhald mín fyrir utan Ísland, Finnland og Danmörk eru:
  Grikkland.
  Sviss.
  Kýpur.
  Ungverjaland.
  Írland.

  Geri undan tekningu núna set fimm verstu.
  Svartfjallaland.
  Albanía.
  Belgía.
  San Marínó.
  Austuríki.

  Þetta er enginn sérstök röð á þessu.

  Mun vorkenna Moldóvum ef þeir komast ekki áfram, því allur ferðakostnaður mun lenda á þeim. Moldóvska sjónvarpið tók ekki þátt í greiðslu keppanda síns árið 2008 þegar þeir komust ekki áfram.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s