Val á tungumáli – um mondegreen og misheyrn í Eurovision-textum

Þá er fyrsta æfing íslenska hópsins yfirstaðin og pistlahöfundur er orðinn spenntari en 5 ára barn á aðfangadagskvöldi. Júróvisjon er nefnilega ekki minni hátíð en sjálf jólin í mínum huga og ég get ekki með nokkru móti skilið af hverju Júróvisjon-vikan er ekki lögbundin frívika.

En hvað um það, efni þessa pistils er hvorki jólin né lögbundnir frídagar. Nú tökum við örlítinn útúrdúr frá spám um úrslit og sigurvegara og lítum á nokkuð sem mjög skiptar skoðanir eru um; val á tungumáli.

Samkvæmt reglum keppninnar er heimilt að flytja lag á hvaða tungumáli sem er. Kínversku, fjarskanistanísku, bullísku og jafnvel táknmáli (sem er kannski ekki svo góð hugmynd svona ein og sér). Frá 1999 hafa Ísland, Svíþjóð og Danmörk alltaf kosið að flytja lög sín á ensku. Norðmenn fluttu Alvedansen 2006 á norsku og Finnar eru villtastir Norðurlandaþjóðanna með tvö lög á finnsku og í ár taka þeir þátt á sænsku. Rómönsku löndin (Frakkland, Spánn, Portúgal og Ítalía) eru tryggari uppruna sínum, hugsanlega sökum minni kunnáttu á ensku, en lönd frá Austur-Evrópu hafa haft allan ganginn á þessu, algjörlega óháð enskukunnáttu (eða almennri tungumálakunnáttu ef út í það er farið).

Og það er nákvæmlega hérna sem hlutirnir verða óstjórnlega skemmtilegir eða yfirgengilega pirrandi eftir því hvernig litið er á málin. Þar sem Júróvisjon er hátíð skemmtunar og gleði er stefna mín að pirra sig ekki á neinu heldur hlæja frekar hressilega að misgáfulegum hugmyndum lagahöfunda/flytjenda um að syngja á ensku. Þær leiða nefnilega oft til skemmtilegrar útgáfu af fyrirbæri sem heitir mondegreen eða misheard lyrics. Þessa júróvisjonsku útgáfu af mondegreen mætti reyndar frekar kalla mispronounced lyrics. Vandinn er nefnilega ekki að eyru hlustandans heyri rangt heldur er það munnur flytjandans sem flytur bara alveg bölvaða steypu.

Það sem vakti áhuga minn á þessu viðfangsefni var lag Hvíta-Rússlands í ár, We Are The Heroes. Ég bara gat ekki með góðu móti skilið samhengið milli þess að vera hetja og að vera pylsa, eða eins og skáldið sagði (skrifað upp eftir framburði flytjenda): „Whatever’s standing in my way / We’ll make it through the day / Cause we are the wieners / We are the heroes.“ Í þessu tiltekna lagi monta þeir sig líka niður eftir veggjunum; „We’re bragging down the walls,“ sem ég sé bara fyrir mér sem sjálfumglaða eggjatínslumenn í fuglabjargi. En hvað veit ég, kannski hafa hvít-rússneskar pylsur sérstaka hæfileika á sviði veggjaklifurs.

Svisslendingar fá líka sérstaka athygli í ár fyrir nýstárlegan enskuframburð. „Swim against the stream / Following your wildest dream, your wildest dream,“ skilst mér að söngvarinn syngi en einhverra hluta vegna heyri ég alltaf „Stream against the swim“ eða „streymdu á móti sundinu“. En þeir biðjast nú svo sem afsökunar á þessum arfaslaka framburði með orðunum „So please don’t mind / Close your eyes / Take a trip outside your head“. Ég er enginn enskusérfræðingur en við lauslega snörun yfir á okkar ástkæra ylhýra fæ ég þessi skilaboð: „Þannig að, gerðu það, láttu þér standa á sama, lokaðu augum þínum, farðu í ferðalag út úr höfði þínu“.

Og þetta er í raun aðeins of vönduð þýðing því ég vissi ekki til þess að orðasambandið „do not mind“ gæti staðið sérstætt í boðhætti. Myndum við t.d. segja á íslensku „æ, vertu alveg sama“? Kannski er það eitthvað sem maður segir þegar maður er kominn í ferðalag út úr höfði sínu.

Júróvisjon-keppnin verður nú seint talin vettvangur dróttkvæða eða annarra dýrt kveðinna texta. Júróvisjon-rím má t.d. finna í lögum á hverju ári. Hvað er Júróvisjon rím? Die – cry – lie, you – true og we – free eru allt dæmi um klassískar rímklisjur. En nú ber vel í veiði. Georgía færir Júróvisjon rím á alveg nýtt stig í ár. Joker rímar við rocker, shocker rímar við poker og broker rímar við blocker. Og hvað er til ráða þegar orðin ríma ekki alveg nógu vel? Nú, maður bara lætur þau ríma betur. Anri Jokhadze er sem sagt jocker, rocker, shocker, pocker, brocker og blocker. Einfalt.

Þetta rifjar upp fleiri óslípaða demanta úr Júróvisjon-sögunni. Hvít-Rússar eru ekki þeir fyrstu sem segjast vera pylsur. Litháar kölluðu sig pylsur árið 2006, ekki bara einu sinni eða tvisvar. O, sei, sei, nei. Það dugði ekkert minna en að tyggja þá staðreynd 15 sinnum ofan í evrópsk eyru. Sagt er að maður sé heila viku að melta pylsur (sel það ekki dýrara en ég keypti það) en litháenska pylsan var sko fullmelt og langt komin út á ballarhaf áður en þessum þremur mínútum á sviðinu lauk. Og svo átti Evrópa auðvitað að kjósa hina fullmeltu pylsu, „Vote for the wieners“ 21 sinni, takk fyrir pent! Og það virðist hafa haft einhver margfeldisáhrif því kapparnir fengu 162 stig og enduðu í 6. sæti. Ef þetta hefur eitthvað forspárgildi þá gætu Hvít-Rússar bara verið í ágætis málum í ár.

Og áfram með demantana. Hver man ekki eftir hollenskunni sem læddist ljúflega niður vangann á hinum rúmenska Mihai Trăistariu árið 2006? „I’m keeping your smile on my mind every day / I’m feeling your Dutch on my face even while you’re away“. Það var ekkert lítið sem ég hló yfir þessum texta. Restina heyrði ég ekki þar sem hugur minn einbeitti sér stöðugt að myndum af föngulegum Hollendingi sem hvíslaði einhverju stórmerkilegu niður vangann á Mihai. En hollenskan skilaði Mihai langt þannig að hafið það í huga þið sem hyggið á frama í Júróvisjon. Húðstrjúkandi Hollendingar eru gæfumerki.

Þegar litið er til baka held ég að óhætt sé að veita Hvít-Rússum og Rúmenum verðlaun fyrir verstu enskuna. Elena frá Rúmeníu hélt því til dæmis fram að balkanskar stúlkur hefðu gaman af „bady“, „The Balcan girls they like to bady like nobady,“ en ég er samt engu nær um hvað þær vilja nákvæmlega. Kannski hafa þær bara gaman af að ríma og búa til bullorð. Árið 2006 söng Polina Smolova (sem aulahúmoristinn í mér kallar alltaf Polinu Smolinu) frá Hvíta-Rússlandi lagið Mama. Mér hefur ekki enn tekist að ná stöku orði úr þeim texta þótt fullyrt sé að hann sé á ensku. En hvernig á líka að vera hægt að hlusta á texta lags þegar dansari í hvítum nærbuxum utan yfir gallabuxur fer hamförum á sviðinu. Já, í alvöru. Hvítar nærbuxur. Hver fær svoleiðis hugmyndir eiginlega??? Ralph Siegel kannski?

Ekki er hægt að fjalla um Júróvisjon-ensku án þess að minnast á sjálfan kónginn, Dima Bilan. Í hans huga er ekkert impassibal. Og þegar ekkert er impassibal þá er það nú bara glæfraskapur að spígspora berfættur á minnsta skautasvelli heims þegar Ólympíumeistari í listdansi á skautum gerir alls konar kúnstir. Menn hafa misst tær fyrir minna. En sumt er að mínu mati impassibal. Það er t.d. með öllu impassibal að skilja restina af textanum. Og það sem mér finnst mest impassibal að skilja er hvernig þetta lag gat sigrað. En það er önnur saga.

Það er ekkert óeðlilegt við að kjósa að flytja lag á ensku til þess að koma boðskap textans áleiðis til fleiri hlustenda. Greta Salóme sagði t.d. sjálf í viðtali á Eurovision.tv að ástæðan fyrir því að Mundu eftir mér hefði verið snarað yfir á ensku væri að lagið og sagan væru ein samofin heild og þau vildu koma sögunni til skila. Það er heldur ekkert óeðlilegt við að sumar þjóðir hafi betra vald á engilsaxneskunni en önnur. Norrænu tungumálin, þýska og hollenska eru t.d. allt germönsk mál og því mun skyldari ensku heldur en rómönsku og slavnesku málin. Eins geta tungumálastraumar og stefnur í hverju landi fyrir sig haft áhrif. Í Frakklandi og Þýskalandi og á Spáni og Ítalíu er t.a.m. nánast allt sjónvarpsefni talsett yfir á móðurmálið. Spánverjar talsettu meira að segja viðtöl við enskumælandi viðmælendur í fréttum allt þar til um aldamótin. Þá fékk forseti Bandaríkjanna að hljóma á ensku og innfæddir þurftu að láta sér það lynda að lesa textann. Aðrir voru áfram talsettir.

Tungumálafrelsið verður sjálfsagt alltaf umdeilt í Júróvisjon. Ég tel hins vegar ekki líklegt að það verði afnumið og þess vegna er best að bíta fast í málfarsfasistatunguna og brosa að vitleysunni sem við fáum að heyra á hátíð gleði og glamúrs. Streymum á móti sundinu, verum pylsur, rokkum og sjokkum. Ekkert er impassibal. Ekki einu sinni íslenskur sigur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s